Færsluflokkur: Íþróttir
21.2.2009 | 13:38
Laugardagur - Sjö vikur búnar og níu eftir
Sjöunda vikan er búin og níu eftir í þessu æfingarprógrammi. Ég hljóp rólega um Hafnarfjörð í tvö og hálfan tíma, tuttugu og fjóra kílómetra. Þetta var ekki eins erfitt og ég átti von á. Hafði í upphafi áhyggjur af sköflungi en bólgueyðandi tafla, hitakrem og hægur hlaupataktur héldu aftur af öllum meiðslum. Aðstæður voru mjög góðar, örlítil gjóla, rigndi og úði. Hitti Elínu Illuga sem var að hlaupa og börnin hjóluðu. Ég lofaði derhúfu og sagði henni að kaupa sér eina slíka til að skýla gleraugunum fyrir regndropum.
Annars eru tölurnar þessar fyrir þessa viku og síðustu. Ég hljóp 61 km. á samtals 6:14 klst. og brekkusprettirnir standa upp úr. Í síðustu viku voru það 51 km. á 5:11 klst. Í næstu viku verður það með svipuðum hætti, sprettir, rólegt og rösklegt, og á laugardeginum á ég hlaupa hálft maraþon á þokkalegum hraða. Hvern kílómetra á bilinu 5:31-5:21 - þarf að stinga út leið: öfugur Álftaneshringur, Holt, Kinnar, Setberg og heim.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.2.2009 | 20:50
Föstudagur - Hljóp fyrir pítsu
Þetta er nú bara bull í mér, þessi fyrirsögn. Ég fór fyrst út að hlaupa og svo keypti ég pítsu - kvöldmat föstudagsins, á tilboðsdögum flatbökugerðarmanna - og þýðir ekki að pítsa hafi rúllað fyrir mig eða gert mér skaða. Þetta var allt, svo sem, hefðbundið: rólegt skokk á föstudegi, liðkunarhlaup, og nú tókst mér að halda aftur af hraðanum og vera innan þeirra marka sem harðstjórinn sagði. Púls var mjög lár, aldrei verið eins lár og nú; að meðaltali 136. Annars voru sköflungar með stæla, vonandi verður það ekki til þess að ég hleyp ekkert á morgun.
Hitti við hafnfirska bryggjuhverfið nafna minn Arnarson, hann var að labba með hundinn. Þá kom Jói á móti og frú. Hljóp nú næstum fram hjá nafna mínum því ég var svo niðursokkinn við að hlusta á iPodinn, þoka, súld og gleraugun þakin regndropum.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2009 | 20:59
Miðvikudagur - Ó tempóhlaup! ó massamenni
Fátt merkilegt í þessu tempóhlaupi nema mig kitlaði í sköflunginn, það veit ekki á gott, vonandi er massa-mennið ekki komið beinhimnubólgu af ofhlaupi. Var þreyttur undir lokin (svangur) en ég fór rösklega og léttstígur upp Hjallabrautina og heim. Fór hraðar þessa tíu en minn týrann bauð; að meðaltali hver kílómetri hlaupinn á 5:25 mín en átti að vera á bilinu 5:47-5:35. Kappsfulli hlaupir er hamlaus.
Á miðri leið hitti ég Halla - hann fór hratt.
Á morgun verður hvílt - ætla á fyrirlestur um Laugavegshlaup - en á föstudag verður hlaupið til liðkunar en svo langt á laugardaginn.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2009 | 21:43
Þriðjudagur - Rólegt hlunkahlaup
Þetta var rólegt hlunkahlaup um fjörðinn, og örlaði fyrir verk í sköflungi - vík burt beinhimnubólga; þig vil ég ekki sjá eða fá. Ég fór strax að hlaupa eftir vinnu - eftir að hafa hrært saman í nokkrar svínahakksbollur. Rauk út því ég hélt ég ætti að mæta á fyrirlestur um hlaupaþjálfun og Laugavegshlaup og ætlaði ekki að láta slíkt taka af mér eina æfinguna. Ég lauk hlaupi, næstum tólf kílómetrum á hægum takti 6:06 - aðeins hraðar en mér var uppálagt. Skellti mér í sturtu og ók óteygður til höfuðstaðar. Mætti og uppgötvaði að ég var tveimur dögum og snemma á ferðinni. Hringdi heim og húsfrú hló! Ég fer þá bara á fimmtudaginn, á réttum degi.
Á morgun verður rösklegt - vonandi verð ég ekki skældur sköflungs skakklappi!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2009 | 23:59
Mánudagur - Brekkusprettir á Öldugötu og fötin fuku
Úff, þetta var ekki auðvelt! Hljóp upp Öldugötu, frá Lækjargötu og upp að Rafstöðvarhúsi; meira en þrjúhundruð metrar og hækkum um þrjátíu metrar. Þetta gerði ég níu sinnum og fækkaði fötum á leiðinni. Hvað ætli stúlkan sem sat við eldhúsborðið neðst við Lækinn hafi haldið; sami karlinn í endurskynsvesti, svo allir sjái hann, alltaf að hlaupa upp og niður, og svo fækkar hann fötum sem á líður. Kominn á stuttermabol - vonandi verður hann ekki ber á ofan í næstu ferð.
Jæja, fyrstu alvöru brekkusprettirnir að baki. Þá er komið viðmið fyrir næstu brekkuspretti. Þegar ég kom heim voru tvær könnur af sportvatni drukknar og gerðar teygjur eftir steypibaðið. Annars eru tölurnar þessar. Fyrst fjöldi metra, þá tími, hlaupatakur og hraði. Svolítið rykkjótt en jafna það næst.
382 2:00 5:14 mín/km =11.46 km/t
378 2:00 5:17 mín/km =11.34 km/t
366 2:00 5:27 mín/km =10.98 km/t
321 2:00 6:13 mín/km =9.63 km/t
338 2:00 5:55 mín/km =10.14 km/t
352 2:00 5:40 mín/km =10.56 km/t
346 2:00 5:46 mín/km =10.38 km/t
315 2:00 6:20 mín/km =9.45 km/t
353 2:00 5:39 mín/km =10.59 km/t
Á morgun verður rólegt hlaup og rösklegt á miðvikudaginn.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.2.2009 | 13:31
Laugardagur - Um allan bæ og út fyrir bæ
Sjötta vikan í æfingaráætluninni eru búnar og tíu vikur eftir.
Í dag var lengsta hlaupið á þessu ári, 21 kílómetri, og laugardagshlaupin eiga eftir að lengjast. Þessi dagur hófst með hefðbundnum hætti, þ.e. ef skal hlaupið. Ég fékk mér tvo bolla af sykruðu tei, tvær brauðsneiðar með osti og þá var stólgangur. Smurði auma bletti hitakremi - óttaðist sköflungsverk - og bar vaselín á núningsfleti, klæddist hlaupagalla, fór þó ekki í eins margar peysur og áður. Fyllti brúsana af vatni, tók með mér eitt orkugel og iPodinn. Í dag skyldi hlustað á Krossgötur.
Leið mín lá fyrst í áttina að Setbergi en gangstéttin var þakin klaka svo ég ákvaða að taka nokkrar slaufur um Álfaskeið, Hverfisgötu og Austurgötu, þá Hringbraut og Suðurgötu. Á sjöunda kílómetra stoppaði ég við Þjóðkirkjuna, til að fá mér að drekka. Þar hitti ég Davíð Þór og Ásgrím en þeir voru á leiðinni á Súfistann í heilsubótargöngu. Ég kvaddi þá og hélt í áttina að Holtinu og sem áður voru teknar lykkjur og slaufur. Er þeim var lokið hélt ég út á Álftanes og á leið minni þangað hitti ég Gísla ritara og þegar kominn út að Hrafnistu komu hlaupaflokkur Haukanna, þar voru sem áður fremst í flokki Jóhann og Díana. Þau höfðu ákveðið að fara öfugan hring. Allt í lagi með það; ég næ í skottið á þeim síðar. Er ég var búinn með Álftaneshringinn fór ég heim.
Ég er þokkalegur eftir hlaupi, aðeins þreyttur í fótum og þyrstur. Ég hvíli á morgun, fer kannski í sund og ligg þá í pottum. Á mánudaginn eru brekkusprettir. Bíst við að fara út á Álftanes, þar er hin rómaða vaselínbrekka; það fer þó allt eftir veðri. Svo er ein gata við Lækinn hér í Hafnarfirði. Þar er rík hefð fyrir brekkusprettum. Langa hlaupið á laugardaginn næsta verður svo 24 km.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2009 | 19:37
Föstudagur - Flottur á klakanum
Hefðbundið liðkunarhlaup á föstudegi; hálfur sjöundi á hægum hraða og stokkið á milli klakanna. Á morgun verður langt rólegt um nærsveitirnar; næstum hálft maraþon, og þá skipti miklu að fara ekki of hratt af stað í upphafi og hlaða sig orku áður en lagt verður í hann. Hefi ekki enn ákveðið hvaða leið ég ætla að fara en fer eftir veðri á morgun.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2009 | 20:30
Miðvikudagur - Röskleg skokktrunta
Þetta var rösklegt hlaup um fjörðinn. Kalt var úti, gjóla af norðri og brautin hörð. Óttaðist að þetta væri allt of mikið; þriðji dagurinn sem ég hleyp og kalt úti. Í kvöld gætti ég að líkamsburði í þessu hlunkahlaupi; mér hættir til að halla mér of mikið fram og þá verður átakið á bakið fullmikið. Nú skyldi hlaupið beinn í baki, ögn fett og kassinn sýndur. Það er eins sé verið að tala um gæðing en ekki skokktruntu. Þetta voru næstum fimm km rösklegir og þrír til upphitunar og niðurskokks; samtals átta km og meðaltaktur á skeiði 5:15 mín/km.
Þegar ég kom heim drakk ég fullt af vatni og gúffaði próteini. Á morgun verður hvílt, kannski synt (lesist: pottalega). Á föstudaginn verður svo létt til liðkunar en á laugardaginn langt, lengst á þessu ári 21 km. Þetta getur allt breyst; spáð er roki og rigningu.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2009 | 21:00
Þriðjudagur - Rólegt um Velli í frosti
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2009 | 19:48
Mánudagur - Massaðir sprettir
Mánudagur er dagur spretta og rösklegheita. Í dag voru það átta sinnum fjögurhundruð metrar með tvö hundruð metra hvíldarskokki í millum. Það var kalt, svo ég bjó mig vel áður áður en ég fór út. Bar hitakrem á mína aumu bletti og liðkaði auman skrokk. Um stund velti ég fyrir hvert skyldi haldið og ákvað að gera sama og síðast; best er að hlaupa hjá elliheimilnu, þar er gata sem fáir bílar aka um.
Tölurnar eru þessar. Fyrst vegalengd, þá tíminn sem það tók að hlaupa, hlaupataktur og svo hraði. Kemur mér skemmtilega á óvart að mér skyldi takast að auka hraðann undir lokinn.
400 1:47 4:27 mín/km =13.46 km/t
400 1:49 4:32 mín/km =13.21 km/t
400 1:45 4:22 mín/km =13.71 km/t
400 1:48 4:30 mín/km =13.33 km/t
400 1:43 4:17 mín/km =13.98 km/t
400 1:38 4:05 mín/km =14.69 km/t
400 1:40 4:10 mín/km =14.40 km/t
400 1:35 3:57 mín/km =15.16 km/t
Á morgun verður rólegt bæjarhlaup, liðkun.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)