Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Mánudagur - Hjólasprettir

Hjólað og hlaupið sama daginn. Hjólað inn í vinnu og til baka. Hraðinn eykst smám saman. Þegar kvöldaði fór ég upp á Kapla og tók fimm áttahundruð metra spretti. Bar tölur saman við síðustu æfingu sem var af sama toga en aðeins fjórir sprettir þá. Hraðinn er meiri í dag og meðalpúls lægri; nú 140 var 154. Ég man að síðasti sprettur, í fyrra skiptið 26. janúar, þar sem ég reyndi á mig var ógeðslega erfiður. Skrokkur er þokkalegur, sérstaklega eftir að hafa teygt vel á bol.

 800    3:50 (3:54) mín. 4:47 (4:53) mín/km =12.52 km/t     
 800    3:40 (3:51) mín. 4:35 (4:50) mín/km =13.09 km/t     
 800    3:37 (3:52) mín. 4:31 (4:53) mín/km =13.27 km/t     
 800    3:38 (3:40) mín. 4:32 (4:36) mín/km =13.21 km/t     
 800    3:33 (0:00) min. 4:26 (0:00) mín/km =13.52 km/t     

Veit ekki með veðrið á morgun, en stefni að því að hjóla. Miðvikudag og fimmtudag verð ég úti á landi og veit ekki með hlaup.


Sunnudagur - Hjóp í lokin

Til að fullkomna vikuna og til að athuga hvort fótameinin væru farin hljóp ég rólega um bæinn eina átta kílómetra. Innleggið, sem skósmiðurinn lét mig fá, var á sínum stað en fætur voru ótrúlega þungir og ekkert að marka þetta liðkunarhlaup; líklegast þreyta frá því í gær er ég hjólaði svo lengi. Svo það var ekkert að marka þetta hlaup.

Á morgun mun ég, að öllum líkindum hjóla í vinnuna.

Annars var vikan svona:

1. Hjól: 130 km. - 5:48 klst.

2. Hlaup: 13,1 km. - 1:08 klst.

 


Laugadagur - Lengsti hjólatúrinn

Ég fór snemma út - hafði einsett mér að hjóla lengur en í tvær klukkustundir. Var ekki viss hvert skyldi stefna en eftir að hafa hjólað stuttan hring um bæinn ákvað svo að halda inn til Reykjavíkur og fara með fram strandlengjunni. Hélt svo í áttina að Garðabæ, yfir Arnarnesið, út fyrir Kársnesið, þá  Seltjarnarnes og inn í miðbæ. Er ég kom þangað hitti ég á ljósum hjólafólk og spurði hvort ég mætti ekki elta því ég þekkti ekki nógu vel leiðina um austurborgina. Það var auðsótt. Við hjóluðum með fram strandlengjunni, upp Kleppsveginn, svo Langholtsveg, yfir brú og í áttina að Mjódd. Þaðan yfir í Kópavog og gegnum dalinn. Leiðir skildu svo á mótum Kópavogs og Garðabæjar, og ég hjólaði heim. Samtals var þetta 51 kílómetri á 2:10 klst.

Í upphafi ferðar var ég þreyttur í lærum en breytti um taktík - fór í léttari gír þar sem stígið var ekki eins þungt og þá hvarf sá verkur. Þrátt fyrir þessa breytingu hélt ég sama hraða, ef ekki meiri. Var einnig duglegri að skipta á milli gíra. Ég verð nauðsynlega að kaupa mér skóhlífar - því mér varð kalt á fótunum.

Tek því rólega á morgun - kannski stutt skokk til að athuga hvort innleggin séu að laga mitt sköflungsmein.


Föstudagur - Hjólari á púða

Í fríi í dag og fyrir hádegi fór ég út að hjóla. Hafði einsett mér að hjóla í meira en eina klukkustund. Það var kalt svo ég bjó mig vel. Fór í tvennar buxur, margar peysur og vindjakka. Hjólaði fyrst út á Álftanes, þá í áttina að Straumsvík - því miður var stígurinn ekki fullgerður svo ég sneri við - og að lokum í áttina að Kaldárseli. Stundum fór ég hægt og stundum hratt. Allt eftir því hvernig vindurinn blés, í bakið og á móti. Samtals hjólaði ég 28 kílómetra á 1:21 klst.

Undir lokin á hjólatúrnum kom ég við hjá skósmið sem hefur sérhæft sig í innleggjum og slíku. Sagði honum frá fótameinum mínum. Hann setti mig á bretti og lét mig ganga þar berfættan. Sagði rétt að ég væri með innhalla og sá að á göngu minni kæmi brot á hásin vinstra megin - það skýrir þann eilífa verk sem ég hefi haft þar. Hann lét mig síðan stíga á mottu er sýndi hvernig þungi færðist til milli ilja. Kom í ljós að meiri þungi væri á vinstri fæti en slíkt er vísbending um að sá fótur væri styttri. Þá mældi hann hvort fætur mínir væru mislangir, og það reynist svo - sá vinstri er styttri. Til að vega upp á móti því hve mislangir mínir stuttu fætur eru og kann að vera bót meina minna settum við 7 mm púða í vinstri skó.

Á morgun mun ég hjóla og hlaupa. Sjáum svo til hvort púðarnir séu að gera sitt gagn. Vonandi!


Sumardagurinn fyrsti - Víðavangshlaup ÍR

Mágur minn hringdi í mig í gærkvöldi og brýndi mig til þátttöku. Eftir að hafa afsakað mig vegna skælds sköflungs gaf ég eftir; hjólamennskan hlýtur að hafa bætt hann og lagað! Ég vaknaði snemma, eða dóttirin sá til þess - spennt yfir sumargjöfinni. Bar bæði hitakrem og bólgueyðandi á beinin ber og gerði nokkrar léttar æfingar. Mágur sótti mig um ellefu og á leiðinni inneftir ræddum markmið okkar og tíma. Eftir að hafa greitt gjaldið hituðum við upp. Ég gætti þess að gera nóg af teygjum, því ég óttast ætíð að sköflungurinn taki upp á að eyðileggja fyrir mér kappsfullan sprett.

Klukkan tólf var sprett úr spori. Ég hefi tvívegis hlaupið þessa vegalengd, 2003 og 2007. Á sömu slóðum en ekki sömu leið. Í fyrra skiptið hljóp ég á 22:04 mín. og síðara skiptið 24:10 mín. Markmið mitt var hið minnsta að jafna bæta frá því síðast og best væri að slá gamla metið. Við ákváðum að koma okkur fyrir framarlega þannig að við hefðum tækifæri á að gefa í strax í upphafi.

Ég mun ekki halda því fram að hlaupið hafi verið þægilegt; það var ekki heldur óþægilegt - heldur tók bara vel í. Ég kom í mark á 22:42 og vantaði ekki mikið upp á bæta tímann. Það kemur alveg örugglega næst. Mágurinn gerði betur og hljóp á 21:18.

Hlaupatakturinn var þessi:

 1000    4:11     4:11 mín/km =14.34 km/t     
 1000    4:29     4:29 mín/km =13.38 km/t     
 1000    4:39     4:39 mín/km =12.9 km/t     
 1000    4:43     4:43 mín/km =12.72 km/t     
 1000    4:33     4:33 mín/km =13.19 km/t      

Á laugardaginn er vormaraþon en því miður tek ég ekki þátt. Skældi sköflungurinn sá til þess. Missti úr of margar langar æfingar. Annars leggst sumarið bara vel í mig (þ.e. ef sköflungsverkurinn er að baki). Hefi hug á að taka þátt í næstu tímatökuhlaupum og svo verð ég að byrja að lengja hlaupin; það styttist í "Laugaveginn".

Á morgun verður hjólað ef veður leyfir.


Þriðjudagur - Ég berst á hjólafáki bláum

Eins áður hjólaði ég í vinnuna og til baka en það var ekki gerlegt í gær vegna veðurs. Veðrið var allt í lagi en stígar blautir og gegnblotnaði ég til fótanna á leiðinni inneftir. Þarf að kaupa mér skóhlífar til að verja mig og skjólbrækur.

Það tók mig 29:48 að hjóla inneftir, bætti tímann um sex mínútur, en var aðeins lengur á leiðinni til baka, 35:30. Var þá ekkert að keppa við klukkuna. Átakið fyrir fæturna er allt annað á kappreiðarhjólinu og svo er ég að ná einhverju lagi á að toga pedalana upp.

Líklegast verður ekki hægt að hjóla á morgun; veðurspáin er ekki gæfuleg. Enn á ég eftir fínstilla notkun mína á gírunum; hvaða gír er bestur í brekku o.s.frv. 


Mánudagur - Hjólað til vinnu á kappreiðarhjóli

Þrátt fyrir leiðinlega veðurspá og slæmt veðurútlit ákvað ég að hjóla á nýja hjólinu inn í vinnu. Sjá svo til með hvort væri hægt að hjóla heim í lok dag. Það var ekki hægt - rok og rigning. Annars var þetta bara með ágætum á leiðinni inneftir. Ég bætti tímann um nokkrar mínútur, þrátt fyrir lengri vegalengd. Á örugglega eftir að gera betur um leið og ég verð orðinn öruggur á gírum og gíraskiptingu.

Veðurspáin er ekki góð fyrir næstu daga en vonandi verður hægt að hjóla. Ég ætla að hvíla hlaupin út þessa viku. Sköflungsverkir minnka og það boðar gott. 


Föstudagur - Hjólað og spólað

Þetta var massaður dagur! Eins og fyrri daga þá hjólaði ég inn í vinnu og aftur til baka. Ekkert óvenjulegt þar á ferðinni nema á leiðinni heim var mótvindur svo ég fór ekki eins hratt yfir. Þegar ég kom heim hvíldi ég mig aðeins en fór síðan út að hlaupa. Ákvað að prófa sköflunginn og hlaupa rólega um bæinn og mér til mikilla leiðinda fékk ég fljótt verk og bíst ég við að hvíla hlaupin í einhvern tíma. Er alls ekki sáttur við það! Nú er gott að vera byrjaður að hjóla og ætli ég verði ekki að taka bara hressilega á því.

Steinn, járnmennið, hafði brýnt mig til þátttöku í tvíþraut í Heiðmörk en vegna skakksköflungs get ég ekki tekið þátt.

Veit ekki hvað ég geri á morgun. Ekki hleyp ég en kannski hjóla ég.


Fimmtudagur - Hjólað til vinnu, enn á ný

Ekkert nýtt í sjálfu sér. Hjólaði, í gær og í dag, í vinnuna. Það lítur út fyrir að þetta sé að jafnaði túr sem tekur 36 mínútur að hjóla. Eflaust má bæta um betur og við skulum sjá til hvernig tekst til.

Á morgun ætla ég - sköflungsskelfir - að prófa að hlaupa.


Þriðjudagur - Hjólað til vinnu og baka

Hetjubragur á mér í dag: Ég hjólaði inn í vinnu og til baka.

Er ég leit út um gluggann nývaknaður sá ég að það rigndi lítillega og það hvarflaði að mér að hætta við, en ég var búinn að taka loforð af sjálfum mér: Í dag skyldi hjólað inn eftir. Ekki gekk það þrautarlaust að koma sér af stað. Fyrst gleymdi ég hjálmi og varð að fara upp. Þegar ég var kominn af stað áttaði ég mig á því að best væri nú að fara í regnjakka svo ég sneri aftur til baka og sótti einn slíkan. Þá var hægt að gefa í.

Annars var þetta bara skv. áætlun. Ég hjólaði eftir göngustígum þótt leiðin sé aðeins lengri og munar þar þremur til fjórum kílómetrum en öruggara fyrir vikið. Leiðin fram og til baka er næstum 26 km. Það tók mig 41 mínútu að hjóla inn eftir en 36 minútur til baka. 

Sé svo til hvað ég geri á morgun - veðurspáin er fín og ég ferðafær.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband