Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Miðvikurdagur - Rösklegt

Þriðja æfingin í þessari viku og átti von á öllu, mjöðm með illindi. Hlaupið skyldi rösklega með upphitun og niðurskokki, næstum tíu. Þetta gerði ég í góðu veðri og til undirbúning gerði ég mér far um að teygja reglulega í dag, þrivegis í vinnunni, lappir á borði, og á meðan ég beið vagnsins, greindarlegur við Þjóðminjsafnið. Finn að ég er afspyrnu stífur í hægri hamstreng, hinn er svo sem ekkert skárri. Mér til gleði kom enginn verkur í mjöðm, IT bandið, en aðeins í hnésbætur. Verð bara að halda áfram að teygja. Eftir hlaupið, er ég kom heim nokkuð þyrstur, var ég latur við teygjur. Gerði þó nokkrar og gætti að IT bandi og kálfum.

Á morgun verður hvilt, þá væri ráð að þverþjálfa - hjóla eins og Steinn ráðleggur - en rólegt á föstudaginn og langt á laugardag. Þá verður ástandið metið og í framhaldið af því hve langt verður hlaupið þann 23ja.  


Þriðjudagur - Rólegt lengra hlaup

Sami hringur og í gær en lengdi hann ögn. Ákvað að hlaupa þessa 11 km. sem áætlunin boðaði og ef kæmi verkur í mjöðm þá myndi ég hugleiða. Gera eins og harðjaxlar, endurtaka í hljóði með sjálfum sér: "þetta er enginn verkur", bíta á jaxlinn og halda áfram. Verkurinn kom en hann varð ekkert óbærilegur. Held að teygjurnar á stuttu "hamstrengjunum" skili einhverju. Fór í sund eftir hlaupið, pottalega, og hitti það sveitunga sem er einnig að hlaupa. Hann dáðist að stirðleika mínum. Ég er ögn þreyttur í fótum en það hverfur í nótt.

Á morgun skal hlaupið rösklega og teygt í vinnu.  


Mánudagur - Rösklega um Setbergið

Ég fór rösklega um Setbergið og höfnina, átta kílómetrar. Maraþonáætlunin, sem ég hefi ekki fylgt nokkuð lengi, boðaði erfiðara hlaup en ég gerði mína eigin æfingu til að athuga ástandið. Hitaði upp og hljóp svo rösklega hvern kílómetrann á eftir öðrum; reyndi að bæta hraðann á hverjum þeirra, og trappa svo niðu. Þetta gekk og tók nokkuð á; ég mæddist. Verkur kom seint en hann koma. Ætla að reyna þessa vikuna að fylgja áætluninni og met svo í framhaldinu hvað verður gert á afmælisdegi bróður míns, heilt, hálft eða tugur.

Sunnudagur - Rösklega hlaupið um Setbergið

Í ljúfu veðri hljóp ég upp í Setberg og með fram höfninni. Tíu kílómetrar og hlaupatakturinn 5:25 mín/km. Hlaupið átti að vera rólegt en veðrið var svo gott að ég gaf aðeins í og finn ég að löng hvíld skilar einhverju. Í gærdag lág ég lengi í dyragátt og teygði á "hamstrengjum" og kannski er það ástæðan fyrir því að engin verkur kom í mjöðm, tel ekki með þann litla verk sem kom í lokin. Ef ég ligg á hverjum degi eitthvað í gáttinni og teygi, þá rætist úr þessu og ég hleyp kannski af einhverju viti í RM. Farinn að teygja.

Föstudagur - Aðeins lengra en í fyrradag

Ég fór út, en nennan engin. Samt ákvað ég að fara aðeins lengra en í fyrradag. Bæta við tveimur kílómetrum, fara jafn "hratt" og fylgjast vel með minni fótamennt og brjóstkassansburði: Gera allt rétt! Í fyrradag kom verkurinn í rasskinn á fimmta kílómetra - vöðvinn heitir víst "GLUTEUS MEDIUS" sem er aumur og ónýtur; nú var spurning kemur hann eða kemur hann ekki. Leiðin var slétt og þægilega. Verkurinn kom! Verkurinn kom á sjöunda kílómetra og einn eftir. Það skrítna, eins og alltaf, verkurinn hverfur strax og ég stoppa. Ég þraukaði heim, var ekkert að drepast, og kannski full mikið að segja þraukaði þetta var nú ekki svo slæmt. Sjúkráþjálfarinn, sem teygði mig og togaði, og  fótameinafræðingurinn, er mældi mig og skynjaði, sögðu: Það er ekkert að þér nema stirðleiki og ég reyndi, þegar ég koma heim eftir hlaupið, að liðka mig með ýmsum teygjum og er alveg verkjalaus. Eins og ég segi svo oft: Á heimilinu er gert grín að mér, og til að fullkomna það þá sagði vinkona dótturinnar: Af hverju ertu alltaf að gera svona (með lappir upp á borði eða stólum).

Annars voru teygjur nú ekki það fyrsta sem ég gerði þegar ég koma heim, þess heldur að fá mér að borða. Svona á það að vera! heit feit reykt hrossabjúgu, sætur uppstúfur með grænum baunum og rauðbeður (nennti ekki að skræla kartöflur svo þeim var sleppt). Meðan ég át kostafæðið horfði ég á fitubollukeppni á Skjá einum og massaði kaloríunum feitt. Og einn kaldur Tuborg í eftirrétt.

Veit ekki hvað ég geri á morgun. Fyrir viku var samlokuæfing. Hjól og fjall (eða kjóll og kall). Sjáum til. Líklegast hjólað. Hvíli frá hlaupum. Kemur í ljós! 


Miðvikudagur - Stutt hlaup, enn of stirður

Hljóp, mjög rólega, minn stutta hring um bæinn. Sex kílómetra og hlaupataktur 6:04. Er allt of stirður, fæ fljótt verk í fót og svo eru "hamstrengirnir" allt of stuttir. Þetta gerir mig fúlan í skapi. Teygi sem ég get, þetta hlýtar að koma einhvern daginn, það má ekki gefast upp.

Þriðjudagur - Hjólað upp á Vatnsenda í roki

Þessi túr, sem tók hálfa aðra klukkustund og skilaði næstum 28 km, tók nokkuð á. Sérstaklega brekkan upp á Vatnsendahæð. Mótvindur og löng brekka. Þreyttist nokkuð þessu og fór svo hægt heim á leið og valdi stystu leið heim. Fann að orkan var að verða búin og vatnið var ekki nóg.

Ætla að prófa að hlaupa á morgun, bara stutt og rólegt. 


Mánudagur - Hjólað í úða

Eftir samlokuæfingu laugardagsins, hjól & fjall, skal viðurkennt að ég var með harðsperrur. Leiðin sem ég hjólaði í dag hefi ég farið nokkrum sinnum áður, stóri Hafnarfjarðar-Garðabæjarhringurinn, en nú var breytt út af vananum til að bæta átakið; jafnvel hraðann. Þegar ég fór upp brekkur, hvort sem þær voru stuttar eða langar, þá reyndi ég að halda sama hraða; fór í léttari gír, sneri pedölum af meiri krafti og stóð jafnvel upp. Vitandi að þegar ég kæmi upp brekkuna væri annað hvort slétt fram undan eða brekka niður á við og þá yrði átakið ekki eins mikið. Þetta gekk alveg ágætlega. Ég hjólaði í 1:23, vegalengdin var 27,45 km. Hefði farið 30 ef ekki hefði ég nú hitt soninn, sem var á heimleið, og ég varð að tala við.

Á morgun verður hjólað eitthvað svipað, lengi kannski í áttina að Reykjavík, og svo ætla ég að athuga með hlaupin.

Ég veit að ekki mun ég hlaupa heilt maraþon í ár, eins og var ætlunin, svo það er aðeins spurning um hvað það verður; hálft eða tíu.

Laugardagur - Hjólað og gengið á fjall

Ég hjólaði upp að Kaldárseli, skokkaði að Helgafelli, gekk rösklega á toppinn og niður, skokkaði til baka og hjólaði heim. Slíkt hefi ég aldrei gert áður, hjólað og gengið á fjall í sömu ferð. Þetta reyndi nokkuð á skrokkinn. Sérstaklega þegar ég gekk upp fjallið, þá verkjaði mig í neðarlega í kálfana - þeir urðu grjótharðir en mýktust þegar ég komst upp á topp. Þegar ég settist niður og fékk mér banana og drykk. Heimleiðin reyndi smávegis á, þá var ég með vindinn í fangið.

Næst þegar ég endurtek þetta þá ætla ég að vera með þunna vettlinga, ef ég þarf að bera fyrir mig höndum; fjallið er sem grófur sandpappír. Svo fer ég kannski í aðra skó en hlaupaskó.

Þegar gögn eru skoðuð úr garmi kemur í ljós að þegar komið er upp í Kaldársel er maður í 100 metra hæð yfir sjávarmáli svo hækkunin við Helgafell er ekki nema 283 metrar þótt tindurinn sé skráður eitthvað nálægt 384.


Föstudagur - Hjólað

Ég hélt áfram að hjóla í kvöld. Fór víðsvegar um bæinn. Náði að hjóla 20 km á 58:29 og svo rólega nokkra kílómetra eftir það. Mótvindur dró stundum úr hraða en stundum létti hann mér róðurinn. Á meðan ég hjólaði velti ég fyrir mér hvert ég ætti að hjóla á morgun, löng ferð, og gæli við að hjóla upp að Kaldárseli - þó ekki hratt - og hvort ég ætti að fara upp á Helgafell. Sameina hjólamennsku og fjallarölt! Sjáum til, en þá þarf ég að vakna snemma og nesta mig. Svo var ég að velta fyrir mér hvað ég á að gera í Reykjavíkurmaraþoninu! Var fyrir löngu búinn að skrá mig í heilt, en nú hefi ég ekki geta hlaupið langt lengi og finn aðeins fyrir verk í mjöðm - vil ekki eyðileggja á mér mjöðmina og fordjarfa hlaupaferilinn. Kannski tek ég bara þátt í hálfu eða tíu km.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband