Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Óðinsdagur - Af tveimur kostum var sá hættumeiri valinn!

Um miðjan dag, eftir kassaburð, fann ég verk í baki; þar voru gömul eymingjameiðsl, örsökuð af stíf- og stirðleika, að láta vita af sér.  Þegar ég, í lok dags, tók strætisvagninn heim reyndi ég að gera eins og sjúkraþjálfarinn hafði kennt mér fyrir löngu, sitja rétt, og velti fyrir mér hvort ég ætti að hlaupa eða ekki. [Reyni líka að sitja rétt þegar ég skrifa þetta!] Hugsaði jafnframt, ef ég geri ekkert versnar þetta bara svo ég tók fram hita- og bólgukrem; og varð hinn smurði. Fór út í kuldann og sagði bara, sný til baka ef allt fer í klessu, ákvað einnig að kanna nýtt upphaf á hlaupaleiðinni; fara út á Breiðvang og þaðan út að Hrafnistu. Fann ekki rétta leið strax, hélt að göngustígur lægi út með hverfinu, svo var ekki; en fundvís fann að lokum. Smámsaman minnkaði verkurinn í bakinu en ég varð nú aldrei algóður, hélt áfram og ákvað að fara litahringinn með þessari viðbót, nýtt upphafi og aumt bak. Ákvað einnig að fara hægt og það tókst. Þegar ég kom heim vandaði ég mig svo vel og vandlega við teygjurnar, og finn að lærvöðvar eru misjafnir, báðir stuttir en annar styttri. Að lokum var lagst í heitt bað. Ég vona bara að þetta verði horfið á morgun og alfarið um helgina og láti alls ekki á sér kræla í næstu viku; því þá er Powerade-hlaup.

Tími: 0:44. Vegalengd: 7.5 km. Hlaupataktur: 5:51. Púls: 153. - Mynd.


Mánadagur - Hlaupið með húsráðum

Lagði leið mína inn til Reykjavíkur í dag. Ætlað að kaupa eitthvað fallegt fyrir gjafabréfið frá bróður mínum og fjölskyldu hans en búðin var lokuð. Hitti þó einn hafnfirskan hlaupara, og eins og þeirra er háttur voru raktar meiðsla- og batasögur. Ég rakti raunir minnar hásinar og fékk það húsráð að blanda saman hitakremi og verkjastillandi hlaupi, og til að gera gott úr kaupstaðaferð fór ég í hafnfirskt apótek og keypti góssið. Kominn heim varð ég hinn smurði, skreytti meinið teygjusokk, fór í tvöfaldar buxur - þær innri þraungvar - og skrýddist að lokum glitvestinu; þar með varð ég hæfur til hlaupa. 

Dagskráin var að hlaupa litla hringinn og bæta um betur, helst að ná undir 30 mínútum. Á leiðinni ákvað ég að breyta ögn og fór út að Actavis-húsinu. Hér er mynd. Fékk fyrirspurn um hvernig þetta væri gert: Þetta er gert með forriti sem tekur við upplýsingum úr garmni og er á www.motionbased.com. þar er svo hægt að kalla fram skýra mynd af hlaupaleiðinni. Vonandi er einhver hjálp í þessu.

Á leiðinni var nokkur hálka, stígar voru auðir en svellbungur ellegar blettir svo ekki gat ég beitt mér að fullu heldur hljóp úti í kanti. Munaði minnstu, í eitt skipti, að ég misstigi mig illilega er taka þurfti krappa beygju en fann hvað verða vildi og gat stoppað það af.

En tölur dagsins eru þessar: Tími: 0:37. Vegalengd: 6.7 km. Hlaupataktur: 5:33. Púls: 162. 

Næst verður hlaupið á Óðinsdegi, ekki á morgun heldur hinn.   

 


Sunnudagur - Á rassinn í fljúgandi hálku

Fór út í morgun. Hálka var nokkur svo ég hljóp á götum bæjarins, þær einar eru bornar salti, ekki göngustígarnir. Á leið minni voru fleiri hafnfirzkir hlauparar, mætti tveimur. Ég ákvað að fara gömlu leiðina, upp á holt og þá háholtið. Hljóp oft þessa leið sumarið 2003 þegar ég var að æfa mig fyrir hálfmaraþonið; þá var drykkjarstöð hjá móður minni (hún er flutt).  Á ósöltu Dalshrauni, undir lok hlaups, flaug ég á hausinn og held að aðeins einn hafi séð þetta fagra flug. Þetta var mitt lengsta hlaup í langan tíma. Hefi ekki enn ákveðið hver verður hlaupaáætlun næstu viku. Ætla þó að fara þrisvar sinnum.

Tölur eru þessar. Tími: 1:05. Vegalengd: 11 km. Hlaupataktur: 5:59. Púls: 165.



Frjádagur - Hlaupin slaufa með kvefi

Eins og oft áður gat bráðlátur ekki beðið og fór út að hlaupa. Hefi lesið, m.a. hjá ritara maraþonunga, að gott sé að hlaupa til að hreinsa kropp sinn af kvefsins óþvera; spýta hráka og slími. Með þetta í huga fór ég út en engar voru spýtingar. Um tíma var ég þó næstum hættur við; haglél gekk yfir Hafnarfjörð en ég sagði við sjálfan mig: aungvan eymingjagang! og beið á tröppunum þar til élið lyki sér og garmurinn náði sambandi við gervihnettina sem fylgjast með mér. Ákvað að fara ekki hratt hálffullur af kvefi, þ.e. halda takti við 6 mínútur á kílómetrann. Þetta gekk eftir og ég hljóp slaufu eins og má sjá á þessari mynd sem reyndist rétt um 7.3 km., þar var að finna eina langa brekku, upp Hringbrautina. Breytti skyndilega hefðbundinni leið, ætlaði að fara litla hringinn en með hlaupagarm við arm er maður frjáls! Púlsinn var lár og er það gott, fer lækkandi. Þegar ég kom heim reyndi ég að gera allar þær teygjur sem mér hafa verið boðaðar, og sem áður hló heimilisfólkið. Reyndi einnig að halda hverri teygju í hið minnsta í tvær mínútur eins og ég ég las á meiðslasíðum hlaup.is.

Næst verður hlaupið á morgun laugardag eða sunnudag. Vonandi slær oss ekki niður við þessi hlaup og leggst aftur í eymingjans kvefpest. 


Týsdagur - Hitavella og haustpest

Líklegast verður ekkert hlaupið fyrr en um helgina. Ligg í bæli með hita og kvef en vonandi losna ég fljótt við þennan ófögnuð. Hefi ég ákveðið að líta á þetta sem haustfrí, vonandi batnar mér fljótt. Lesendum til fróðleiks þá finn ég fyrir örlitlum seiðingi í hásin, kannski jafnar þetta sig í þessari hvíldarviku. Annars held ég líka að brátt verði ég að fara inn í íþróttahús því vetur er kominn. 

Nú prófa ég að setja inn krækju yfir mynd af leiðinni sem ég fór síðast. 


Laugardagur - Haldið á Holtið

Ég hljóp upp á holt í morgun. Lengdi hringinn sem ég fór síðasta Óðinsdag, bætti við lykkju; upp brekku og niður brekku. Í stað þess að fara upp Hringbraut hélt ég í suður; fór ég fram hjá Krónunni, Skipalóni og upp á Suðurbraut - löng aflíðandi brekka uppímóti og þá niðrímóti. Markmiðið var að fara ekki of hratt og halda tempóinu milli 5:30 og 6:00. Það tókst og vegalengdin reyndist 10,5 km og ég hljóp á 1 klst. og 2 mínútum. Annars má sjá taktinn hér að neðan. Hér krækja á síðsta hlaup, veit þó ei hvort virkar.

Veðrið var dapurt og versnaði þegar á leið, og þakka ég fyrir að vera kominn inn núna. Næsta hlaup verður annað hvort á morgun eða Mánadaginn. 

1 - 5:20 
2 - 5:33 
3 - 6:06 
4 - 6:05 
5 - 6:40 
6 - 6:09 
7 - 5:54 
8 - 5:54 
9 - 5:56 
10 - 5:44 
 


Óðinsdagur - Stóri hringur mældur

Í kvöld fór ég stóra hringinn, þ.e. út að Suðurbæjarlaug (ekki Suðubæjarlaug eins og stendur í síðustu færslu), upp Hringbraut - þar er örlítil brekka, göngustíginn fyrir aftan Álfaskeið fram hjá Kaplakrika, út að glerhýsi Actavis og þaðan heim. Leiðin er sléttir átta kílómetrar og ég hljóp hana á 45 mínútum sem er rúmlega 5:30 á km. Á næstu dögum fer ég þessa sömu leið, eins litla hringinn, og jafnvel hægar. Sjá hvað áhrif það hefur á púlsinn, þ.e. hvort hann lækki eitthvað. Þið megið ekki skilja að hann sé eitthvað allt of hár og mér hætt við hjartastoppi. Það er alltaf sama sagan kapp mitt er svo mikið og ég fer yfir á fullum krafti.

Á leiðinni var ég að hugsa um hlaupadagskrá vetrarins, eða næsta tímatökuhlaup, og er markið sett á Powerade-hlaup í byrjun nóvember.Stóri hringurinn


Mánadagur - Garmur í kulda

Ég gat ekki beðið; varð að hlaupa, hvíli á morgun. Að reyna nýja græju í gær var mér ekki nóg. Svo ég fór snemma úr vinnu, spenntur að reyna aftur þótt úti væri kalt. Fór sama hring og í gær, nú átti helzt að bæta tíma. Í gærkvöldi stillti ég græjuna, nú mælir hún til viðbótar hvern hlaupinn kílómetra, þannig að ég fæ mitt "pace", og það gekk eftir; á hve löngum tíma ég hleyp hvern þeirra. Svo fór, ég hljóp sex kílómetra á 31 mínútu, meiri mótvindur, en tempóið var þetta. Hinn góði tími í upphafi er vegna meðvinds sem feykti mér áfram. En þegar ég nálgast 5:30 er var það mótvindur þegar ég fór upp Lækjargötu og eftir Álfaskeiði í vestur.

1    4:47
2    4:53
3    5:10
4    5:37
5    5:27
6    4:59

Annars verður planið þetta. Hvíli á morgun og á Óðinsdag (miðvikudag) mæli ég langa hringinn, þ.e. út að Suðubæjarsundlaug, Hringbraut og sömu leið, nema út að Actavis. Þá ætla ég nú ekki að fara eins hratt yfir. Mér finnst sem hásinin sé að komast í fínt lag.  

 


Sunnudagur - Garmur á hlaupum

Ný græja! Mamma kom með afmælisgjöf til mín: Hlaupagarm. Ó, hve ég er glaður! Ég gat ekki beðið lengi og fór út að hlaup. Hljóp litla hringinn, sem ég hef oft áður farið og haldið vera 5.5 kílómetrar að lengd, en hann er 6.0. Vegalengdina hljóp ég á 31 mínútu. Tempóið 5:13. Púlsinn var kannski nokkuð hár, ég var nú svo spenntur í gleði minni.

Þegar ég kom heim hélt ég áfram að skoða græjuna og stilla. Svo er að búa nú til æfingaráætlun.


Týsdagur - Hjörtu og lifur fresta hlaupum

Ætlaði að hlaupa í dag eftir vinnu en fann mér góða afsökun; tengdamóðir mín bauð í hjörtu og lifur að hætti íslenskra húsmæðra. Mér tókst ekki að hlaupa fyrir þá veislu; tíminn var of knappur. Annars var það svo sem skynsamlegt að fresta hlaupum; sé til á morgun. Annars er ég með verki í sköflungi og ögn í hægri hásin. Menjar kapps míns á sunnudaginn. Vonandi verð ég kominn í lag á morgun og vonandi næ ég að hlaupa þrisvar í þessari viku. Held einnig, miðað við skörflungs- og hásinaverk, að vænlegast sé að fresta Powerade-hlaupi á fimmtudaginn. Kapp er best með forsjá!

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband