Færsluflokkur: Íþróttir
9.3.2009 | 20:02
Mánudagur - Massatempóhlaup með vaxandi hraða
Vaxandi massatempóhlaup um fjörðinn. Dagskipunin hljóðaði upp á þrem sinnum 2,4 kílómetrar á góðum hraða. Átti að hlaupa hvern sprett á hlaupatakti á bilinu 5:20-5:08 mín/km. En óþekkur, sprettharður, gat ekki farið svona hægt heldur hljóp hvern sprett á með meiri hraða enn þann fyrri: 5:00; 4:50 og 4:40, og ákvað að gefa í í þeim síðasta.
Kominn heim var ég bara þyrstur og svangur og gerði eins og sonurinn, fyllti könnu af vatni og þambaði. Á morgun skal hlaupa rólega eina 12 kílómetra og gæli svo við að hlaupa Powerade á fimmtudaginn.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2009 | 19:30
Laugardagur - Mitt lengsta til þessa
Dagskipunin hljóðaði upp á 28 kílómetra rólegt hlaup á hægum hraða. Ég lagði af stað um klukkan níu í morgun, því ég vissi að þetta myndi taka einhvern tíma, 2:46 klst. Ég hafði áður talað við hestafrænda og ákvað að pikka hann upp þegar ég væri hálfnaður með hlaupið. Leiðin var hefðbundin: Slaufa um Setbergið, Lækjargata, Hverfisgata, miðbær og þaðan upp á Holt. Þá var ég búinn að hlaupa fjórtán kílómetrar og Haraldur bættist við og haldið út á Velli og þaðan niður í bæ og út að Hrafnistu og svo til baka um Álftanesveg. Að lokum lykkja um Norðurbæinn og heim. Þegar hlaupagikkir komu heim hófst mikið át og hleðsla eftir átökin. Við drukkum íþróttadrykki, átum próteinstykki og fleira sportlegt. Svo var farið í sund til að teygja og jafna sig eftir átökin.
Þegar ég var búinn að þessu var stefnt í barnaafmæli en ég fylltist þreytu og ákvað hleypa mæðgunum einum en vera sjálfur heima. Ætlaði að leggja mig í smá stund en svaf í þrjá tíma og þegar þetta er skrifað er ég enn svolítið þreyttur.
Annars eru tölurnar þessar: Ég hljóp sömu vegalengd og í síðustu viku, 51 kílómetra. Svo öllu sé haldið til haga þá sleppti ég einu hlaupi, æ! það var svo kalt. Hlaup vikunnar tóku 5:20 klst. Meðalpúlsinn hefur lækkað um sex slög, er núna 145 slög.
Í næstu viku verður þetta með sama hætti - hratt, rólegt, rösklegt, rólegt og hálft maraþon. Nú er bara að jafna sig eftir átök dagsins í dag. Kálfurinn er þreyttur í vinstri kálfa!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2009 | 20:24
Föstudagur - Hefðbundið liðkunarhlaup á 132 slögum
Ég nennti ekki að hlaupa í frostinu á miðvikudaginn. En, á föstudögum, eins og allir mínir dyggu lesendur vita, að þá er létt liðkunarhlaup fyrir lengri hlaup á laugardögum; farið er rólega um hverfið. Keppst við að fara eins hægt og mér er uppálagt - það tókst næstum og viti menn púlsinn hefur aldrei verið eins lágur, 132 slög.
Á morgun verða hlaupnir 28 kílómetra á rólegum hraða og þá verður best að klæðast í tvöföldum buxum - ef mér verður kalt þá fæ ég verk í sköflunginn sem hverfur ekki fyrr en ég er orðinn sæmilega heitur. Fyrst ætla ég að hlaupa lykkju um hverfið og slaufu um Setbergið, og sækja svo "hestafrænda" upp á Holt, og hlaupa með honum síðustu kílómetrana. Þetta verður spennandi - mun skrokkurinn þola álagið.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2009 | 20:51
Þriðjudagur - Þreytt rólegt hlaup á Völlum
Fáar fréttir af þessu hlaupi nema hlaupandinn var þreyttur og svangur. Hljóp, rólega um Vellina, tvo hringi, rúmlega ellefu kílómetra, og stundum blés á móti og skaflar voru á göngustígum. Eftir hlaup fór ég í sund með dóttur og frænku. Teygði og velti fyrir mér hvort ég ætti ekki að hvíla á morgun - var lengi þeirrar skoðunar og er enn. Þetta breytist á morgun - þá verð ég sprækur.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.3.2009 | 20:04
Mánudagur - Spóaleggur spretti úr spori
Þetta var í fyrsta skipti sem ég hljóp tvöhundruð metra spretti og þeir voru tólf. Ég ákvað að fara upp á Kapla, þar er undirlagið mjúkt og svo sportlegt að hlaupa á braut. Er ég kom þangað voru fleiri fyrir, sporléttir fótboltadrengir og tvær stúlkur, einnig sporléttar.
Ég átti að hlaupa sprettina á hlaupataktinum 5:06-4:54 á laupataktinum. Ég var nú svo bráður - fylltist kappi þar sem ég var ekki einn á brautinni og fannst að ég yrði að taka fram úr fótboltadrengjunum sem ég og gerði. Hljóp því sprettina beinn og brattur, hraðast 3:36 og hægast 4:23.
Skrokkurinn, á meðan ég hljóp og eftir sprettina, var fínasta lagi - ég gætti þess að hita sköflunga vel og vandlega áður en ég fór af stað. Á morgun verð ég heima, það er starfsdagur í skóla, og ætla að fara snemma út að hlaupa. Það liggur fyrir að hlaupa rólega næstum tólf kílómetra og kannski, ef færðin verður í lagi fer dóttirin með.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2009 | 13:44
Laugardagur - Hálfnaður í hálfu maraþoni
Var í nokkra stund í vafa hvort ég ætti að fara út eða hanga inni. Það frysti í nótt og allar brautir virtust lagðar klaka en eftir nokkra stund skrýddist ég hlaupabrók. Fyrst, eins og fyrir önnur löng laugardagshlaup, drakk ég einn bolla af sykruðu tei, át tvær brauðsneiðar með osti, bar hitakrem á auma bletti, fyllti vatnsbrúsa, sótti mér orkugel og fór út. Óttaðist að sköflungar myndu skelfa mig en svo varð ekki.
Í dag átti að taka rösklega á því - hlaupa hálft maraþon, hvern kílómetra á hlaupataktinum 5:34-5:21 mín. Þetta gerði ég með sóma, tíminn var 1:52 og hver kílómetri var hlaupinn, að meðaltali, á 5:21 mín. Ég stoppaði þrisvar á leiðinni til að fá mér að drekka og gleypa orkugel. Fann svo hvernig orkan spýttist inn í kerfið. Þegar þriðjungur var eftir og ég nýbúinn að hlaupa eina brekkuna fylltist ég leti og kraftleysi en ég ákvað að þrjóskast enda bara sléttlendi framundan og niður eina langa aflíðandi brekku.
Núna eru tveir mánuðir búnir í þessu prógrammi, en tveir eftir, og gaman að bera saman. Heildartölur eru þessar. Í janúar hljóp ég í næstum átján klukkustundir en í febrúar næstum tuttugu. Í janúar hljóp 173 km en í febrúar 196. Púlsinn lækkaði úr 155 í 151.
Á morgun verður hvílt, líklegast farið í sund. Á mánudaginn verða sprettir. Tólf sinnum hraðir 200 metrar og hægir 100 metrar þar á milli. Ef ekki klaki á Kapla þá verð ég þar á mánudaginn.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2009 | 20:04
Föstudagur - Skakklappasköflungaskokk
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2009 | 22:19
Miðvikudagur - Spóleggur spígsporar
Þriðji dagurinn í þessari viku. tveir eftir: föstudagur og laugadagur, rólegt og langt. Nú var rösklegt hlaup með upphitun og slíku, samtals 6,4 km. Þetta var ágætt og ég fór stuttan hring um hverfið. Ég gætti þess að hlaupa sem mest á grasi og möl, hlífa sköflungi svo herrann var stjáklandi spígsporandinn. Kominn heim bar ég krem á sköflung og vonar að allt lagist.
Held að nú væri ráð að bæta við hjólamennsku inn í æfingarprógrammið. Er að mana mig upp í að hjóla í vinnuna, og bíð þess að það verði bjart á morgnana. Annars verður hvílt á morgun, fer að öllum líkindum í sund og þá gerast pottateygjur.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2009 | 22:12
Þriðjudagur - Hitti flokk sem ætlar á Laugaveginn
Í síðustu viku hitti ég flokk sem ætlar að hlaupa Laugaveginn í sumar. Fyrir flokknum fer Daníel Smári, sem ætlar að miðla af reynslu sinni og leiðbeina, og þau hlaupa frá Valsheimilinu. Ég mætti þangað, klukkan hálf sex, og hljóp með þeim út í Fossvogskirkjugarð, þaðan út á Ægissíðu, til baka og með fram flugvellinum. Hlaupnir voru fjögurra mínútna sprettir og mínútna hvíld en ég hafði enga nennu til að spretta úr spori eftir að hafa gert það sama í gær. Vildi hlífa sköflungum sem hafa verið að kvarta, þannig að þetta varð rólegt hlaup en ég greiðkaði þó stundum sporið.
Boðskapur morgundagsins er rösklegt hlaup en nennan lítil og kannski ráð að hvíla.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2009 | 21:03
Mánudagur - Þungt flóðhestastökk
Held að skórnir séu búnir - þeir dempa ekki lengur höggin þegar hlunkurinn, á flóðhestastökki, trampar niður til jarðar. Æfing dagsins hljóðaði upp á þrjá míluspretti með hvíld á milli. Ég út og fór minn vanalega hring til að hita upp. Stefndi svo í áttina að Hrafnistu til að spretta með fram sjónum, og þá byrjuðu sköflungar að kvarta (og þegar elliheimilið var í augsýn hvarflaði að mér að leggjast bara þar inn og láta þetta líða úr mér). Ákvað að finna mýkra undirlag og tók stefnuna á Víðistaðartún, þar gæti ég hlaupið nokkra hringi á grasinu. Ef verkurinn hyrfi ekki á mjúku undirlægi væri ég hættur. Verkurinn dofnaði og þetta varð bærilegt; en um leið og ég fór út á malbikið kom hann aftur. Síðustu metrarnir voru með skakklappastíl. Lærdómurinn er þessi: Verð að kaupa mér nýja mjúka skó.
Á morgun, ef ekki sjúkraleyfi, þá rólegir þrettán kílómetrar.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)