Færsluflokkur: Íþróttir

Laugardagur - Hjólað mót vindi á móts við karamelluísídýfu

Í dag fór ég út að hjóla í stað þess að hlaupa - hvíldi þreyttan og auman sköflung. Fyrst kom ég við á hjólaverkstæðinu og þar gerði piltur við afturbremsuna. Ótækt að vera á bremsulausu hjóli. Hann stillti líka gíra, rétti af gjörð og smurði keðju. Þá var ég ferðafær - en þar sem kaldir vindar blésu og hlaupatreyja ekki nægjanlega hlý fór ég heim og bætti á mig einni flíspeysu. Kominn heim ákvað ég að hringja í hestafrænda og bauð honum í hjólaferð; við fórum síðan í áttina að Reykjavík. Ég varð að kynna fyrir honum bestu ísídýfu sem ég hefi smakkað: karamelluísídýfa.

Við hjóluðum gegnum Garðabæ, yfir Kópavogsháls, frá Nauthólsvík út á Ægissíðu, niður á Ingólfstorg (borðuðum áðurnefnda ís), yfir á Lækjartorg (þar fengum okkur expressó og orkudrykk) og til baka næstum sömu leið og en fórum út fyrir Kársnesið í Kópavogi.

Samtals voru þetta 36 kílómetrar; meðalhraðinn um 20 km/klst. Meðalpúls fer lækkandi, kominn í 135.

Það verður hvílt á morgun. Í þessari viku hjólaði ég 60 km og hljóp 30, á samtals 6 klukkustundum. 


Föstudagur - Samlokuæfingar

Eftir heimilisstörf fór ég út að hlaupa. Rólega eina 6,5 km og ekki er ég ánægður með hægri sköflung. Grípa verður til einhverra róttækra aðgerða. Þegar ég kom heim úr hlaupi þótti mér ekki nóg komið svo ég fór út að hjóla. Síðast hjólaði ég inn í vinnu og ákvað ég að gera aftur. Prófaði nýja leið; líklega þá leið sem ég mun fara þegar þetta verður reynt fyrir alvöru. Ekki er þorandi að hjóla á akvegunum, sérstaklega þegar Arnarnesinu sleppir og gegnum Kópavog.

Á morgun skal hlaupið en bíst við að hjóla í staðinn. 


Miðvikudagur - Rösklegt styrktarhlaup

Stutt og ákveðið 6,5 km. Hitaði upp og hljóp svo 3,5 km á jöfnum hraða, hvern kílómetra, að meðaltali, á 5:01 mín.  Örlítill seyðingur í sköflungi sem hverfur þegar ég er orðinn vel heitur; held það sé nú vegna stífleika. Hljóp sem mest á grasi þar sem það var hægt. Er ég kom heim teygði ég vel á fótum (var skammaður fyrir að setja lappir upp á borð klæddur sportskóm) og nuddaði auma staðinn með olíu sem ég fékk. Lyktin er ekki eins slæm og þegar ég var á mig eplaedikið og íbúðin breyttist í táfýluvelli.

Á morgun verður hvílt - kannski fer ég að hjóla og svo í sund, var ég búinn að lofa dótturinni. Á föstudaginn langa er ekki langt hlaup. Heldur stutt til liðkunar en langt á laugardaginn.


Þriðjudagur - Hljóp með barni

Vor er í lofti og dóttirin kom með hjólandi í hlaupaferð. Þetta var í fyrsta skiptið í ár, sem hún fer með mér, og á örugglega eftir að koma oftar. Fyrir lág að hlaupa rólega eina átta kílómetra, og þá er ágætt að hafa skottu með - þá rýk ég ekki áfram. Að vísu varð ég að auka hraðann undir lokinn því ég gleymdi að slökkva á tímatökunni á meðan kjarnorka fékk sér að drekka. Við fórum út að Hrafnistu, þá með fram sjónum og enduðum svo á Víðistaðatúni. Þar hljóp ég nokkra hringi á grasinu til að klára hlaupið, á meðan lék hún sér. Ég var þreyttur í fótum eftir mitt rösklega hlaup í gær og þess vegna var ágætt að klára þetta á grasinu.

Á morgun er stutt hlaup. Upphitun, þá rösklegt og svo rólegt. Samtals 6,4 km.


Mánudagur - Tvíhleypt

Fyrsta hraða æfingin í nokkurn tíma. Það rigndi, og ég ætlaði varla að nenna út, en brýningarorð húsfrúar komu mér út úr húsi. Fyrir mér lág að fara tvisvar sinnum tvo og hálfan kílómetra, hratt. Hraðinn átti að vera á bilinu 5:20-5:08 mín/km en ég fór hraðar yfir en það. Hljóp hvorn sprett, að jafnaði, á 4:48 og 4:50 mín/km. Nú þegar ég er kominn heim er skrokkurinn fínn en fann aðeins fyrir verk í sköflungi en það var ekkert til að tala um.

Annars, svo öllu sé haldið til haga: þá hjólaði ég í gær. Inn í vinnu og til baka. Það eru næstum 11 km inn eftir og svo fór ég nokkrar lykkjur á leiðinni til baka. Samtals voru þetta næstum 28 km. Ég hjólaði inn eftir á 35 mínútum og veit að ég get betur - kominn tími til viðmiðunar. 

Svo eru sorgarfréttir: iPodinn minn er líklegast dauður. 


Fimmtudagur - Hlunkahlaupið fór fram í kvöld

Sprettleggur tók einn þátt í hafnfirska hlunkahlaupinu, kappið var ekki mikið. Hljóp rólega næstum 6,5 km. og átti erfitt með að halda aftur af hraðanum, en tókst. Þrátt fyrir langa hvíld var púls lágur og þrekið ágætt, samt varla til stórræða. Fór hring um hverfið. Stundum blés á móti og stundum með. Reyndi að vera sem mest á grasi þar sem það var hægt. Var með innlegg í skónum en reif þau fljótt úr því þau virtust ekki vera að gera neitt gagn. Kálfur fékk verk í kálfa en hann hvarf er innlegg voru farin.

Á morgun verður hvílt. Hleyp næst á laugardaginn.


Miðvikudagur - Hlunkahlaup í Hafnarfirði á morgun

Það verður hlunkahlaup í Hafnarfirði á morgun. Sköflungsskældur mun hlaupa létt; sköflungurinn er heill eftir meira en þriggja vikna hvíld, en rólegt verður það. Hreyfingarleysi gerir mig vitlausan - úr verður að bæta.

Hundraðogátta dagar í Laugavegshlaup og þeim fækkar, næstum sextán vikur, og í tilefni þess sótt ég mér nýtt prógramm til að hlaupa eftir.

Ásetningur minn um heilt í vormaraþoni fauk út um gluggann með sköflungsverk - fjárinn. Kannski hálft!


Mánudagur - Kálfur sporlétti á Kapla með boltakellum

Kálfur hljóp sex 800 metra spretti (tók þá ekki eins og stundum er sagt). Hann fór upp í Kaplakrika á frjálsíþróttabrautina, sem var snævi þakin, og þar hafði hann tækifæri til að glenna sig - í kvöld voru fótboltastúlkur að hlaupa. Hann æstist allur við þetta, eins og þegar boltadrengirnir voru að reyna sig, og tók sporléttur fram úr þeim við hvert tækifæri sem gafst.

Ég bar sprettina í dag saman við þá sem ég hljóp í lok janúar og sýnist mér að púlsinn hafi fallið að jafnaði um tíu slög og hraðinn aukist töluvert. Núna var hlaupatakturinn að meðaltali um 4:39 en þá um 4:52. Hraðast fór ég vegalengdina núna 3:29 mín en síðast 3:40 og ég að dauða kominn þegar því lauk. 

Skrokkurinn var þokkalegur - nema mig verkja ögn í sköflung í upphafi og kálfur var stífur og ég gat nú ekki alveg beitt mér. Þarf að finna eitthvað til að losa um þennan auma vöðva. Þetta mein skal burtreka.

Á morgun, skal ég samkvæmt áætlun, hlaupa rólega, eina átta kílómetra. Vonandi tekst mér það áfallalaust, á miðvikudaginn skal fara rösklega eina sextán en um helgina eru það þrjátíu kílómetra sem er mælikvarðinn um að ég geti hlaupið mitt heila maraþon í lok næsta mánaðar.


Fimmtudagur - Hljóp í Powerade á 48:21

Þetta var mitt fyrsta tímatökuhlaup á þessu ári. Veðrið var stillt og gott, hiti við frostmark og örlítil ísing á brautinni en alls ekki til trafalla. Ég fór af stað með það að markmiði að jafna tímann frá því fyrir ári - 49:18 - og óskandi ef mér tækist að bæta hann. Klukkan mín mældi 48:21 en bíðum þar til opinber tími birtist.

Þetta tókst mér og ég reyndi að hlaupa af skynsemi - mundi að fyrst væri á fótinn í u.þ.b. 2,5 km, þá niður í móti í næstum fimm og svo upp brekku dauðans - hin margnefnda rafstöðvarbrekka. Hún var erfið en kannski léttari en áður og þakka ég það brekkusprettum. Notaði þá aðferð að telja staura og urra þegar ég væri búinn að hlaupa fram hjá tíu. Á síðasta kílómetranum notaði ég sömu aðferð og gaf í. Ég sé að fyrsti kílómetrinn var lélegastur af þeim öllum og er það aðeins mannþrönginni í upphafi að kenna - kannski þarf ég bara að koma mér framar í startinu.

Þarna voru mörg kunnuleg andlit og hestafrændi hljóp með mér.

Hlaupatakturinn og hraði var þessi:

 1000    5:08     5:08 mín/km =11.69 km/t   
 1000    4:52     4:52 mín/km =12.33 km/t     
 1000    4:50     4:50 mín/km =12.41 km/t     
 1000    4:37     4:37 mín/km =13.00 km/t     
 1000    4:35     4:35 mín/km =13.09 km/t     
 1000    4:29     4:29 mín/km =13.38 km/t     
 1000    4:37     4:37 mín/km =13.00 km/t     
 1000    5:08     5:08 mín/km =11.69 km/t     
 1000    5:24     5:24 mín/km =11.11 km/t     
 1000    4:41     4:41 mín/km =12.81 km/t


Þriðjudagur - Þyngslahlaup

Þetta var rólegt þrettán kílómetra þyngslahlaup og mér fór ekki að líða vel fyrr en vel var liðið á skokkið. Ég var með verk í sköflungi og kálfum enda var líka tekið á því í gær. Held að mér sé enginn annar kostur í boði en að kaupa mér nýja mjúka skó - dempun er löngu farinn úr þessum sem ég á - enda botnar slitnir og skór næstum eins árs.

Ef veðrið verður vont á morgun þá hvíli ég; ef gott á fimmtudag þá tek ég þátt í Powerade. Verð hið minnsta að ná einu á þessum vetri og þetta er það síðasta í vetur.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband