29.7.2007 | 22:10
Morgunhlaup í rigningu og vikulyktir
Fjórða hlaupið í þessari viku. Áttu fyrst að vera þrjú en urðu fjögur. Vonandi kemur það manni ekki í koll að vera svona bráður og hvatvís. Sem áður fór dóttirin með, sami hringur og áður en breytt leið í upphafi og lok, og það var hennar verk.
Hlaupavikan var þokkaleg, vikan þar á undan var aðeins upphitun og ekki marktæk. Spurning hvernig næstu vikur verða og hvort ég verði kominn í nægilega gott form til að taka þátt í Maraþonhlaupi þann 18. ágúst. Í þetta skipti verður hvorki reynt við hálft né heilt maraþon, aðeins 10 km. tímatökuhlaup.
Svo gæli ég við að taka þátt í Vatnsmýrarhlaupi 2. ágúst. Lesendum til fróðleiks - sem ég held að séu nú engir - þá tók ég þátt í þessu hlaupi árið 2003. Varð í 32. sæti af 83. Hlaup kílómetrana 5 á 22:01. Og veit að mér mun nú ekki takast að verja það sæti eða ná í mark á þessum tíma. Kemur í ljós.
Hér koma tölur (sem áður í þessari röð, vikunúmer, fjöldi hlaupa, samtals tími, vegalengd og brenndar kaloríur):
30: 4 - 2:37 - 22,3 - 2.344
29: 2 - 1:20 - 11,0 - 1.260
26: 3 - 1:41 - 15,9 - 1.495
25: 5 - 2:41 - 26,3 - 2.489Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2007 | 16:59
Þriðja hlaup vikunnar
Þriðja hlaup vikunnar var þreytt í gær; sama leið og áður, 5,6 km. Fyrr um daginn fór ég til sjúkraþjálfara og hann átti við öxl og hásin. Hin aumu svæði voru hituð, nudduð og laserskotin; tímanum lauk svo með því að hálsinn var settur í togvél. Ég spurði hvort hvort væri í lagi að hlaupa með auma hásin. Hann svaraði því til að það væri í lagi meðan ég væri ekki með skerandi verk. Hlaupið gekk að óskum og á beinu köflunum, eftir að ég var orðinn heitur, jók ég hraðann og fann ekkert fyrir því. Dóttirin fór með á hjólinu og við stoppuðum nokkrum sinnum til að teygja. Fyrst hjá leiksviðinu á Thorsplani og svo hjá Lækjarskóla. Annars var hún oftast nær á undan mér.
Í síðustu færslu sagði ég að virkri hvíld yrði beitt á hvíldardegi. Ég fór í sund og synti 200 metra. Næst þegar ég fer ætla ég að synda þrjú hundruð metra. Er sundi lauk fór ég í heitan pott og nuddaði aum svæði og þá sérstaklega hásin.
Á morgun, sunnudag, verður hlaupið í 30 mínútur og skulu það vera léttir sprettir.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2007 | 23:03
Bolla á ferð
Fór, stuttu eftir hádegi, minn rúmlega sex km. langa hring einn og yfirgefin! Dóttir var á róló. Við ætluðum út um morguninn en vorum beðin að passa barn nágrannans svo öllu seinkaði. Hafði um klst. áður en hlaup hófst borðað afgang af svínahakksbollum og verður þeim kennt um hægan gang og rop á rölti, því varla var þetta hlaup.
Annars var allt í lagi, engir verkir í kropp. Eru skórnir að sanna sig og niðurstigningin rétt. En eins og segir að ofan, þá var ég þungur á mér; bolla borðaði bollur! Þegar heim var komið teygði ég og fylgdi þá bæði bók og ráðleggingum á íslenskri hlaupasíðu. Enn er ég þó stirður en vonandi losnar um og vöðvar lengjast.
Nú er spurningin: Fer ég oftar en þrisvar sinnum að hlaupa í þessari viku? Finnst það líklegt, heilir fjórir dagar eftir. Kannski ætti ég að fara í sund á morgun og reyna að synda, ekki liggja bara í pottum. - Hvað sér maður á síðum annarra, kallað "aktíf" hvíld. - Hleyp svo á frjádegi og sunnudegi.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2007 | 18:08
Hlaupið að morgni
Í síðustu viku hljóp ég tvívegis og á nýjum skóm, hafði einnig verið teygður og stunginn af sjúkraþjálfara; öxl, háls og hásin. Beið alltaf spenntur að kæmi verkur en ekkert gerðist, sem betur fer.
Í þessari viku verður hið minnsta hlaupið þrívegis og ætli verði ekki miðað við 40 til 50 mínútna hlaup í hvert skipti.
Í morgun hljóp ég með dótturinni sem var á hjóli; hún rak mig af stað. Nennti ekki út í gærkvöldi eftir siglingu á Faxaflóa að leita hvala. Við fórum snemma út og samtals hljóp ég í næstum 45 mínútur með hléum til að teygja og toga. Heimsóttum móðurina í bókhaldinu, Einar langa, sem gerir nú við pústið á bílnum í enn eitt skiptið, og komum við í hjólabúð (og þar spurðum við - lesist: ég - kjánaspurninga því bremsan á hjóli stúlkunnar var föst).
Leiðin var hefðbundin og ég gaf í á nokkrum stöðum, beinu köflunum og það var allt í lagi. Verð þó að viðurkenna að ég var nú ekki nógu duglegur að teygja þegar ég kom heim. Gerði þó þær helstu. Lofa að gera betur á morgun.
Hlaup | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2007 | 23:31
Af stað á ný
Í þessari viku, svo maður haldi uppi hefð margra bloggandi hlaupara - sem eru misalvarlegir í sínum skrifum - að rekja heilsufar. Hef tvívegis í þessari viku farið til sjúkraþjálfara vegna axlarmeins og óþæginda í hásin, var satt að segja uppgefinn á þessum meinum sem ætluðu ekki að lagast. Nú teygir þjálfi á öxl og herðum, ég er stunginn nálum um allan kropp, þrýst er á harða punkta og togað; vonandi lagast þetta.
Í dag keypti ég nýja hlaupaskó og þeir eiga að vinna upp á móti innhalla, skótau með "motion control", og að sjálfsögðu fór ég út að hlaupa.
Ég og dóttirin fórum okkar 30 mínútna hring, sem tók lengri tíma en áður. Farið varlega, engir verki í sköflungum og þægilegt að fara niður brekkuna við sunnan við Hrafnistu, hnésbætur í lagi, þótt örlítill verkur væri í upphafi sem hvarf þegar ég var orðinn heitur. Stoppaði við Gamla Lækjarskólann og teygði á lærvöðvum og kálfum, og dóttir rólaði sér á meðan. Gerði þó eitt grallaraverk, til að prófa skótauið; tók sprett við Tjörnina og ekki hefir það gert mér illt.
Jæja, lýk þessu nú: Byrjaður aftur og vonandi kemur ekkert upp á; öll meiðsl að baki!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2007 | 20:55
Hlé á hlaupum
Átti að hlaupa í gær - sunnudag - en ákvað vegna meiðsla í hásin að reyna ei á. Tek frí í nokkra daga. Kæli sin, bryð bólgueyðandi og fæ mér svo nýja skó en ansvítlans þeir kosta svo mikið. Vonandi verður þetta allt í besta lagi.
Hef lesið ýmsar hlaupasíður og sé þá ýmislegt sem staðfestir þennan grun minn. Enda, er ég fór í göngugreiningu, kom í ljós minn innhalli. Þetta er hásinin.
Ég skoðaði skó á laugardaginn. Þeir kosta 21 þúsund hér á landi en 12 í Lundúnum. Ætli þeir hafi, fyrir mistök, víxlað tölunum. Hér er talað um verð í viðurkenndri verslun sem framleiðandinn rekur. Sendi frænda mínum póst og spurði hvort hann væri nokkuð á leiðinni til landsins eða vissi um einhvern. Ætti að fá einhvern til að kaupa og bera heim.
Svo koma tölur fyrir síðustu viku, sem lauk ekki á fullnægjandi hátt. Upplýsingar eru í þessari röð: Vikunúmer, fjöldi, tími, vegalengd og kkal. brenndar.
26: 3 - 1:41 - 15,9 - 1.495
25: 5 - 2:41 - 26,3 - 2.489
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.6.2007 | 22:45
Þriðja hlaup í annarri viku
Hljóp í 30 mínútur, fór rólega yfir, enda átti þetta hlaup, skv. áætlun að vera rólegt . Ætli mér hafi ekki tekist það því meðalpúls var aðeins 145, öllu lægri en vanalega. Oftast fer ég hraðar yfir. Dóttirin fylgdi mér, sem oft áður, á hjóli og við breyttum leiðinni, var búinn að lofa henni að fara fram hjá leikskólanum, svo við beygðum upp af Strandgötunni og fórum fram hjá Gamla bókasafninu, eftir sundurgrafinni Hverfisgötu og upp Smyrlahraun. Fyrir vikið var meira um brekkur og mæddist stúlkan á leiðinni. Vegalengdin var skv. borgarvefsjá 4.5 km.
Eitt veldur mér áhyggjum á hlaupum, og kann að vera að þar sé líkaminn að kalla eftir nýjum skóm (fiskað eftir réttlætingu!); verkir í vinstri löpp: Bæði í kálfa og kringum hné. Brátt byrja útsölur í íþróttaverslunum og jafnvel á morgun skoða ég hvað er í boði.
Hestafrændi kom í heimsókn og lét hann vita af næsta áætlaða hlaupi: 7.7.2007. Nú er bara að sjá til hvort kroppur verði í lagi og þá verður fyrsta 10 km. tímatökuhlaup.
Polar-menn skipa mér í hlaup á sunnudag og er yfirskriftin "interval". Skilst það vera hratt og rólega til skiptis. Sjáum til með hné og kálfa en farið verður. Kannski verð ég kominn með nýja skó.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2007 | 20:23
50 mínútur um Hafnarfjörð
Ætlaði varla að nenna þessu þegar ég kom heim úr vinnu. Vældi og volaði í sjálfum mér í allan dag; æ og ó! kálfar og læri, eitthvað er nú þar í ólagi. Ákvað þó að bera íþróttakrem á vel vaxinn kálfa og fara af stað, vera ekki bráður og ör á fyrstu metrunum. Nokkur verkur í sköflungi í upphafi en þegar ég var orðinn heitur lagaðist það. Stoppaði tvívegis og teygði. Gætti mín á að púls væri ekki of hár, og það þýddi að ég fór ekki hratt yfir. Á leiðinni hljóp ég fram á tvær konur og voru það allir er ég sá á hlaupum.
Gerandi langt hlaup stutt: 8,0 km. á 49 mín. (hef nú farið hraðar yfir), meðalpúls 148 (var meðvitað).
Næsta tímatökuhlaup verður 7. júlí en ekki ákveðið hvaða vegalengd.
Næsta hlaup á Frjádag, 20 mín., rólegt rölt.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2007 | 21:19
Upphaf viku: Léttur hringur, undirbúningur
Áætlun vikunnar krefst þess að ég fari fjögur hlaup, í 15 mín., 50 mín. og tvívegis 20 mín. Í dag hljóp ég í næstum 20 mín. í stað 15. Leiðin sem ég fór er skv. Borgarvefsjá 3,4 km. Þá hefst vælið - kannski er það svo í upphafi hvers hlaupaferils, - eftir teygjur á stífum vöðvum og herptum sinum hefi ég verið með verk í framanverðum sköflungi; það er svo sem ekki nýtt. Enn ein vísbendingin um að ég skuli kaupa mér nýja skó og eftir kjánakaupin í gær (skrefmælir með tónhlöðungi) neyðist ég til að kaupa Nike skó.
Á morgun er 50 mín. hlaup og vonandi verða þessir verkir í framanverðum sköflunginn horfnir. Ætla að smyrja bólgukrem sem unglingurinn íþróttamaðurinn fékk fyrir nokkru. Smyr það á þegar ég kem úr sturtu. Svo er spurning um að kæla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2007 | 21:57
Vikunni lokið með 30 mínútna hlaupi
Vikunni lauk með 30 mínútna hlaupi í gærkvöldi - sunnudag. Hljóp sömu leið og venjulega, spretti úr spori á löngu köflunum og brekkunni við Sólvang; var þá með dóttur og hjól í drætti. Dóttirin fylgdi með á hjólinu sem áður og var oftast nær á undan. Þetta gekk alveg ágætlega, engir verkir að ráði í hnésbót vegna stirðleika. Stoppaði einu sinni til að teygja á kálfum og lærum, er ekki að ástæðulausu kallaður Íslands stirðasti maður.
Í stuttu máli sagt þá hélt ég áætlun og bætti um betur. Ein æfing til viðbótar. Fimm æfingar, hljóp samtals í 2 klst. og 41 mín., samtals 26,3 km. og brenndi 2.489 kkal. Breytir þó litlu með þessar kkal. eigi verð ég léttari.
Þessi vika skv. áætlun Polar-mann er auðveld og ég ætla að fylgja henni. Ástæðan er einföld: svo eigi komi upp álagsmeiðsli. Nógu stirður er ég og liðkast seint. Á að hlaupa fjórum sinnum: 15 mín., 50 mín., 20 mín., 20 mín. Fyrsta hlaupið er á morgun, Týsdag, þá langt hlaup á Óðinsdegi og svo hvíld. Að lokum tvö til viðbótar með hvíld á milli. Sé til hvort aukahlaupi verði skotið inn á milli.
Gerði kjánakaup. Keypti hlaupamæli fyrir iPod en vissi ekki að sérstaka skó af Nike-gerð þarf svo allt gangi nú eftir. Ég neyðist því til að kaupa mér skó á næstu vikum. Þarf hvort eð er að endurnýja. Það verður gaman.
5 - 2:41 - 26,3 - 2.489
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)