Týsdagur - Barn hjólar með drykkjarbrúsa

Á Laugardaginn er RMG og ég ætla að hlaupa 10 km. Af þeim sökum mun ég fara hægt yfir þessa vikuna og er hættur við langa kraftmikla hlaupið sem átti, skv. áætlun, að vera á morgun.

Ég og dóttirin fórum saman litla hringinn, og hún var með brúsabeltið um sig miðja og annan brúsa í körfunni á hjólinu; hún vildi þetta og að sjálfsögðu læt ég allt eftir henni. Ef farið er af stað með vatnsbirgðir verður að drekka af þeim og af þeim sökum stoppuðum við nokkrum sinnum. Fyrst hjá Gamla-Lækjarskóla og þar teygði ég á lærvöðvum og kálfum en hún þambaði vatn. Næst á Hörðuvöllum; ég hljóp fimm hringi - nokkurs konar spretti - og hún lék sér. Að lokum við Lögreglustöðina; hún varð að fá sér að drekka.

Annars verður þetta svona fram að hlaupi. Í fyrramálið fer ég til sjúkraþjálfarans og hann teygir á mér (sjá fyrri færslur). Ég fer stuttan hring þegar ég kem heim úr vinnunni. Svo verður hvílt fram að hlaupi. Kannski fer ég sund og ligg í heitum pottum og teygi á mér.

Fann inn í geymslu fitumæli að SALTER gerð, ég keypti hann á útsölu í BYKO fyrir nokkrum árum (get víst ekki klínt því á aðra). Hlunkurinn mældi sig og kom þá í ljós að ég er að einum fimmta og tveimur stigum betur tóm fita (lesist: 22.0%). Verður forvitnilegt að fylgjast með hvað gerist á næstu mánuðum. Innskot: Mældi mig aftur, var þá rakur á höndunum eftir uppvask, og viti menn, fituhlutfallið rauk upp er nú 28.3% fita. Eitt er þó alveg ljóst - ekki lýgur viktin - ég verð ekki léttari en hlýt að safna þá tómum vöðvamassa.

Fékk ráð við hásinarvanda, að nota Pensím. Ætla að athuga það á morgun. Krem unnið úr ensími þorsks. Annað ráð eru sjóböð, kannski set ég löppina í kalt balabað.


Sunnudagur - Aftur haldið á holtið, styttri hring

Hlaupaviku er lokið; tölur má lesa hér fyrir neðan. Ég fór upp á holt, styttri leiðina, í æðislegu veðri. Hitti Hestafrænda við Sundhöllina, og var hann að koma utan af Álftanesi, en við ætlum að taka þátt í RM um næstu helgi.

Markmið dagsins var að fara hringinn á undir 50 mínútum en það tókst ekki að þessu sinni, fór hringinn á 51:54. Veit að það verður mjög fljótlega sem ég kemst undir 50 mínútur.

Næstu helgi hleyp ég 10 km. Hið opinbera markmið er að ljúka hlaupinu á innan við 60 mínútum og helst á sem næst 50 mínútum. Það eina sem gæti sett strik í reikninginn er hásinin, hún er enn aum. Ég fylgi ráðum sjúkraþjálfarans og kæli hana eftir hlaup. Ég mæti til hans næsta Óðinsdag og þá leggjum við á ráðin. Síðast er hann baðaði hana í laser-geislum og varð hún fín.

En planið er á þessa leið: Tvö hlaup, eitt stutt og annað langt, hvíld og svo keppt. Þá mun ég einnig borða mikið af pasta í vikunni og hlaða mig kolvetnum, bæði góðum og slæmum. Þekki annars ekki munin á þeim.

32: 4 - 3:26 - 34,1 - 3.506 

31: 5 - 3:14 - 32,9 - 3.284

30: 4 - 2:37 - 22,3 - 2.344 

29: 2 - 1:20 - 11,0 - 1.260 

26: 3 - 1:41 - 15,9 - 1.495 

25: 5 - 2:41 - 26,3 - 2.489

Frjádagur - Haldið á holtið, styttri hringur

Dagsskipunin var 50 mínútna hlaup. Þegar ég kom heim úr vinnu rigndi eins og hellt væri úr fötu, ég beið og það stytti upp og þá fór ég út stuttbuxnaklæddur. Ákvað að fara sömu leið og síðasta laugardag, hélt upp á holt, og hljóp styttri hringinn sem ég fór síðast á 56 mínútum og gerði það sama í dag. Á beinu köflunum jók ég hraðann hressilega og reyndi að halda í horfinu þegar ég tókst á við brekkurnar og það tókst, þess á milli lullaði ég áfram. Þetta voru nokkur átök og fyrir vikið var púlsinn hár og ég var ekki innan marka nema hluta af tímanum. 

Þar sem ég tók svo á var erfitt að teygja, þegar ég kom heim, en ég reyndi hvað sem ég gat og þá helst á lendarvöðvum, þeir virðast ósköp stuttir.

Styttist í RM og þarf að ákveða hvernig hlaupum verður háttað / hagað þangað til. Jafnvel tvö löng og eitt stutt; á eftir að koma í ljós.


Óðinsdagur - Hlaupið í klukkustund

Loksins! loksins! Vissi svo sem að ég gæti það; hefi gert það áður en langt síðan. Náði einnar klukkustundar hlaupi og nokkrum mínútum betur, án þess að gera nokkurt hlé nema þegar púlsinn var of hár. Hljóp upp á holt og fór um Háholtið og sömu leið og áður heim, nema út að Hótel Hafnarfirði. Þetta eru, ef eitthvað er að marka mælingar á Borgarvefsjá, næstum 10 km. Næst þegar ég á að hlaupa í meira en klukkustund fer ég út að glerhöll Actavis.

Hlaupið var þó ekki alveg verkjalaust. Í upphafi var lítill verkur í vinstra hné en hann hvarf þegar ég var orðinn heitur, þá fann ég örlítið fyrir í hásin en þetta var allt smávægilegt. Í morgun heimsókti ég sjúkraþjálfarann, viðgerðir á vinstri herðavöðva og hásin halda áfram. Hann gaf mér nokkur ráð við hlaupin. Sagði mér að hleypa ekki öxlunum upp í eyru og gæta þess að skjóta ekki hökunni fram; vertu beinn í baki. Þetta er nokkuð sem er víst allt of algengt hjá frístundarhlaupurum. Hafði þetta í huga er ég hljóp en gleymdi því stundum.

Tvö hlaup eru eftir í þessari viku en svo verður "virk" hvíld fram að 10 km. hlaupi þann 18. ágúst.

Lesendum, ef einhverjir eru, til fróðleiks eru tímar mínir í 10 km tímatökuhlaupum, gamlir tímar frá 2003. Hefi ekki hlaupið síðan þá.

 48:08Hlaupið í Skarðið, Reykjavík24.07.2003
 50:13H2O hlaupið, Heiðmörk12.07.2003
 51:45Miðnæturhlaupið, Reykjavík23.06.2003

 


Týsdagur - Dóttir ræður för

Skrifaði áður að ég ætlaði að mæta í sundlaug Garðabæjar og hlaupa þaðan með hetjum. Af því varð ekki, dóttirin hefur verið sniðgengin síðustu daga og fór hún því með mér og réði för. Við fórum [í] gegnum miðbæ, upp að Nýja-Lækjarskóla, um tvenn göng í Setbergshverfi, inn á Kaplakrika - litum þar á drenginn kasta handbolta - og aftur heim. Samtals hafa þetta verið um hálfur sjötti kílómetri; nærri sex.

Á meðan dóttirin lék sér, stökk yfir torfærur, steinavirki í tjörninni tók ég spretti og reyndi að gera svo í meira en tvær mínútur í hvert skipti. Hljóp sem óður hringi á Hörðuvöllum enda var yfirskriftin, skv. áætlun Pólar-manna, "Hilly Run" og komu þá sprettir í stað brekkna.

Af heilsu minni er þetta helst í þessari ferð: Fór af stað búinn hitahlíf um ökkla (gömul flík frá fótboltasamspili með samstarfsmönnum veturinn 2002-3) en hún var með aðeins til trafala - verkjaði undan henni - svo ég tók hana af mér við Gamla-Lækjarskóla. Hásin var í lagi (að mér fannst) en þó þegar ég kom heim var þreytuverkur í vinstri hné en hann hvarf fljótt. 

Á morgun - Óðinsdag - er langt hlaup 65 mínútur. Verður haldið á Holtið eða í Garðahrepp? 


Sunnudagur - Gamli hringurinn og Gangvirkið

Fór út um hádegisbil, en nennti varla, og hljóp í rúman hálftíma, 33 mínútur; skuldaði nokkrar mínútur. Fór gamla hringinn sem er um hálfur sjötti kílómetri. Stoppaði tvívegis og teygði á kálfum og hásin.

Á orðið auðveldara með að hlaupa út að "draugahúsi" á innan við 10 mínútum og til þess þarf að gefa í á Herjólfsbraut; þetta hefir verið eitt af markmiðunum frá því ég hóf hlaup að nýju. Næsta markmið er að komast út að bakaríi á horni Strandgötu og Lækjargötu á innan við 15 mínútum; það ætti að takast mjög fljótlega, næst verða það gatnamótin á Austurgötu og Lækjargötu eða Hverfisgötu. Allt verður þetta að gerast innan há- og lámarka púlsmælis.

Finn fyrir þreytu í hásin. Gætti mín á að hita hana áður en ég fór af stað, notaði til þess hitapoka, teygði vandlega á leiðinni og aftur þegar ég kom heim.

Á leiðinni var ég með tónhlöðunginn, eins og oft þegar ég hleyp einn, og hlustaði á Gangvirkið sögu eftir Ólafs Jóhanns Sigurðssonar frá árinu 1955 í upplestri Þorsteins Gunnarssonar. Söguna sótti ég á hlaðvarpssíðu RÚV. Frábært framtak hjá þeim að gera efni aðgengilegt; finnst þó að nýir þættir mættu vera þar, er þó alls ekki að lasta það sem er komið. Sagan er skemmtileg ádeila á íslenskt samfélag og á alveg við í dag; en samt finnst mér sveitarómantíkin - eða hvernig Páll Jónsson - horfir heim í sveitina hallærisleg (veit nú samt ekki hvað ég er að segja hér getur verið að ég breyti því og kann að vera að það sé hluti af ádeilunni).

Hér í lokin koma tölur fyrir vikuna og undangengnar vikur. Þessi vika - nr. 31 - ber af. Í fyrsta lagi, tók þátt í tímatökuhlaupi, hljóp á betri tíma en ég átti vona á - 5 km á 24:10, og braut 30 km múrinn. Hvað gerist í næstu viku á eftir að koma í ljós. Kem ég mér út í sundlaugina í Garðabæ? Það þýðir að ég þarf að hætta í vinnunni klukkan fjögur og leggja af stað heiman frá mér klukkan fimm; það yrði nú bara ágæt upphitun.

31: 5 - 3:14 - 32,9 - 3.284

30: 4 - 2:37 - 22,3 - 2.344 

29: 2 - 1:20 - 11,0 - 1.260 

26: 3 - 1:41 - 15,9 - 1.495 

25: 5 - 2:41 - 26,3 - 2.489

 


Laugardagur - Haldið á Holtið

Áætlun boðaði hlaup í 45 mínútur en þær urðu 56, aðallega því ég stefndi á Holtið og vegalengdin var lengri en gamli hringurinn. Rúmlega 9 km. Áður en ég fór af stað hitaði ég hásin og bar á hana hitakrem. Ráð frá gamalreyndum íþróttamanni sem hefur átt í við hásinarvanda að etja. Þegar hún var orðin heit teygði ég á. 

Eftir hlaupið fór ég með dóttur og vinkonu hennar í sund. Þar reyndi ég að teygja. Í lauginni hitti ég einn af hlaupurum Hafnarfjarðar, ritara Félags maraþonhlaupara. Ég hefi um nokkurn tíma fylgst með hlaupadagbók hans á netinu. Hann og flokkur annarra - Skokkhópur Garðabæjar - hlaupa hér um nærsveitir og spurning hvort ég taki þátt, þá mæti ég um hálf sex við sundlaugina í Garðabæ. Hleyp heiman frá mér og út í Garðabæ. Veit að ég þarf að auka hraðann og bæta tækni; það gerist kannski með því að hlaupa með öðrum.

Skulda enn nokkrar mínútur og ef veðrið verður gott á morgun þá fer ég ásamt dóttur stuttan hring. 

 


Þórsdagur - Vatnsmýrarhlaup

Lauk hlaupi! Tíminn var 24:10, síðast 22:01 og þá í miklu betra formi. Nú varð ég í 87da sæti af 217. Síðasti kílómetrinn var erfiður en þegar ég sá endamarkið gaf ég í. Skrokkur var í ágætu formi; hásin í lagi en verkur í herðum. Sá nokkra sveitunga mína. Dóttir og móðir komu með og horfðu á. Nú er næst að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoni þann 18. ágúst. 

Spurning hvort ég æfi eitthvað á morgun eða hvíli. Sé til þegar kvölda tekur.


Týsdagur - Næstum klukkustundarhlaup

Ég hljóp í 58 mínútur (áttu að vera 60 mínútur) og vegalengdin, skv. Borgarvefsjá 9.3 km (hér kann að skeika einhverjum hundruðum, vonandi vantar á). Púls var innan marka í 43 mínútur og að meðaltali 157; mér er ætlað að hlaupa innan 142-164 (tekið skal fram að þetta er gömul mæling).

Hlaupið fór þokkalega fram. Ég ætlaði mér að fara rólega og reyndi það. Þar voru nokkrar brekkur og ég reyndi að halda hraða upp þær og fylgdist spenntur með hvort færi yfir hámarkspúls. Á leiðinni sá ég nokkra hlaupara og göngufólk. Veðrið var með ágætum.

Ef engir verkir á morgun þá tek ég þátt í Vatnsmýrarhlaupi. Annars er sumarfrí á enda og vinna hefst á morgun.


Mánadagur - æfingaráætlun flýtt um einn dag

Hljóp í 21 mínútu, svo boðuðu Polar-menn. Tókst ekki að hlaupa þá 4 km sem var lagt upp með en fór 3.8 km. Veit að það kemur brátt! Ég fór hratt yfir og púlsinn hár; sérstaklega á beina kaflanum á Herjólfsgötu og svo þegar ég hljóp upp Reykjavíkurveg; enda hét æfingaráætlunin "Hilly Run".

Í gærkvöldi mældi ég mitt Own Index - súrefnisupptaka o.s.frv. Það er 40 og hefur hækkað um einn frá síðustu mælingu sem var í maí. Skv. þessu þá er ég "Moderate" - 39-43 - og þarf að leggja meira á mig til að verða "Good" - 43-48. Sjáum til í næstu mælingu eftir fjórar vikur.

Þegar heim var komið teygði ég og fylgdi ýmsum leiðbeiningum; lifi í þeirri blekkingu að liðleiki minn aukist á hverjum degi. Gerði eins og unglingurinn, íþróttamennið sonurinn, hélt teygjum í eina mínútu og reyndi að slaka á í kroppnum. Held að ég hafi verið allt of oft spenntur þegar teygt. 

Fór til sjúkraþjálfara í morgun og hann átti við bæði öxl og hásin. Eftir upphitun var sett rafmagn og leysir á báða staði. Finn að þetta hefur áhrif. Ég spurði aftur, eins og segir í eldri færslu, hvort væri í lagi að hlaupa með bólgna hásin. Hann segir í lagi ef enginn verkur er meðan á hlaupi stendur. Svo er ekki því held ég áfram. 

Ef mér tekst, eins og áætlun boðar, að hlaupa í klukkustund á morgun - án eftirkasta - þá tek ég þátt í Vatnsmýrarhlaupinu á Þórsdag (fimmtudag). Æfingin á morgun er "Long Run" og ætla ég að halda aftur af mér og lulla.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband