30 mínútna rúntur með dóttur

Gekk ágætlega að hlaupa litla hringinn og dóttirin fylgdi mér á hjóli. Stundum var ég á undan en hún oftast. Vindur var nokkur en veðrið gott -- sól og hiti -- svo það skipti ekki máli. Þurfti þó stundum að ýta henni á hjólinu þegar mótvindurinn var mestur.

Í dag er miðnætur- og Jónsmessuhlaup en ég tek ekki þátt í ár; vonandi á næsta ári. Hljóp 2003, og var það fyrsta tímatökuhlaupið mitt. Kom sjálfum mér á óvart og fór 10 km á 52 mínútum. Veit að ég get það ekki í dag en vonandi á næstu vikum.

Ég og dóttirin vorum á fótboltamóti í dag. Hún spilar í 8. flokki og gaman að sjá leikgleði stúlknanna. Þeim gekk ekki vel en það skipti þær ekki máli; tóm gleði og fögnuðu stundum þegar andstæðingarnir skoruðu.


Nú voru það 43 mínútur

Fyrsta færslan.

Hljóp í 43 mínútur og fylgi áætlun Polar-manna eins og oft áður. Eftir hlé í nokkra daga, var í Danmörku, þá náði ég í nýja áætlun og vonandi held ég hana út. Hef ekki verið nógu duglegur að æfa til að fara hálft maraþon eins og var ætlunin. Nú er, af hófsemd, stefnt á 10 km í tímatökuhlaupum.

Leiðin sem ég fór er skv. Borgarvefsjá 7,4 km. Finn þó aðeins fyrir verk í kálfa - alltaf vælandi - en vonandi er það ekkert. Vonandi aðeins þreytuverkur og vöðvi í uppbyggingu. Gæti mín þó á því að teygja vel og vendilega þegar æfingu er lokið. Líka á meðan hlaupi stendur.

Skv. áætlun er 30 mínútna hlaup á morgun - lofaðir séu Polar-menn - og stúlkubarnið fer með hjólandi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband