Mánudagur - Rösklegt hlaup, tvívegis tveir kílómetrar

Þetta var rösklegt hlaup; fyrsta í nokkurn tíma. Tvisvar tveir kílómetrar á hlaupatakti 4:40 og 4:41 mín/km. Ætlaði að hitta Skokkhóp Garðabæjar - hélt þeir væru við æfingar á Kaplakrika - en þar fann ég engan. Er ég hljóp einn, þó ekki alveg einn -- frjálsíþróttafólk spretti úr spori -- rifjaðist upp þegar ég, mjög ungur að árum fór með strætó, heiman frá mér á leiðinni að æfa fótbolta hjá Fram (að mig minnir). Aldrei fann ég æfingasvæðið svo aldrei byrjaði ég að æfa fótbolta. En ég gefst ekki upp með Garðbæinga.

Þessi tví-sprettir voru nokkuð erfiðir og fróðlegt verður hvernig mér gengur næst. Reyni að hlaupa aftur á morgun, dagurinn er nokkuð þéttur, og svo eru tvö tímatökuhlaup í þessari viku: 1. Pávereit á fimmtudag og 2. Geðhlaupið á laugardag. Ef sprækur sem lækur tek ég þátt í báðum annars öðru; kemur í ljós.


Sunnudagur - Keypti mér bók: Jóga og íþróttir

Stirðasti maur [*maður] í heimi keypti í dag bókina Jóga og íþróttir. Þetta er ekki ósvipað því er ég keypti bókina Teygjur. Nú veltist ég um rúmið, stirður eins og ég er, og reyni að teygja. Þetta er allt ósköp fyndið en fyndnast er þegar ég geri Yoga Mundra: sem teygir á handleggjum, öxlum og brjóstvöðvum, mýkir hné, mjaðmir og ökla. Ég sit á hækjum mér, með hendur fyrir aftan bak og halla mér fram. Í fyrsta lagi þá næ ég varla að læsa höndum fyrir aftan bak, og þegar ég halla mér fram þá hallast ég ekkert fram. Margt þarf að gerast áður en ég kemst þetta.

Föstudagur - Liðkað í hálku í Hafnarfirð

Þetta hlaup var til liðkunar. Úti var örlítil hálka en autt á milli og stundum stalst ég út á götu; sérstaklega þar sem engin var umferðin. Ekki var sprett úr spori heldur reynt að fara rólega, hlaupatakturinn var 5:58 mín/km og átta km að baki.

Ég var í nýjum Rebok skóm, þeir virðast ágætir. Veit ekki! Kannski of harðir. Kemur í ljós!


Miðvikudagur - Loksins út að hlaupa

Eftir meira en tveggja vikna hlé á hlaupum fór ég út. Það var stutt og rólegt gæðahlaup. Næstum sex kílómetrar og hlaupatakurinn 5:43 mín/km. Á hlaupunum velti ég fyrir mér hvað gera skyldi í vetur. Styttist í tvö tíu kílómetra timatökuhlaup og svo haustmaraþon. Ætla að hlaupa rólega næstu daga, langt á laugardaginn og svo ákveð ég mig.

Mánudagur - Nú lofa ég bót og betrun

Hef engu nennt síðustu vikur. Fyrirheit að morgni, fyrirheit um miðjan dag og að kvöldi. Hef afsakanir en þær eru haldlausar. Á morgun, eða hinn, verður eitthvað gert. Býst við hinn - upphitun og vöðvamennt við þvottavélaburð á morgun. Af hreyfingaleysi er meistarinn orðin aumur í skrokk og axlarmein máttleysa hann. Ef hlaupið skal í haustmaraþoni, eitt hálft, eða í Powerade, verður hlunkurinn að fara út.

Þriðjudagur - Rok og rigning, aðeins synt

Fór ekki út að hlaupa í rigningunni og rokinu, fyrsta alvöru lægðin og stormviðvörun. Fólk beðið að vera ekki á ferð að óþörfu. Áður en allt varð vitlaust fór ég með dóttur og frænku á sundæfingu. Meðan þær busluðu synti ég eins og áður heila 500 metra með bringusundslagi. Tæknin er ugglaust afspyrnu léleg og kannski spyr ég ráða hjá gömlum sundþjálfurum sonarins um tækni og annað. Reyndi aðeins að synda skriðsund og það var nú eins og maðurinn væri að drukkna. Veit ekki hvað ég geri á morgun; líklega hlaupið en það fer allt eftir veðri.

Mánudagur - Þungur í fratleik

Dagsskipunin var "fartlek" sem eru víst nokkurs konar rykkingar og rokur, frjálst rösklegt flæði á hlaupum. Kannski er ég að misskilja þetta sem ég hef aldrei reynt og vissi varla hvað gera skyldi. Það var kannski allt í lagi að vita ekki neitt, þungur á mér eftir viku hvíld og fast mér þetta því hálfgerður fratleikur. Ég hitaði upp og hljóp upp í Setberg. Rykkti á milli staura, jók hraða, hægði á og fór svo stundum að ég stoppaði. Eftir þetta voru, með upphitun og niðurskokki, næstum 13 kílómetrar að baki. 

Fimmtudagur - Ekki hlaupið enn

Ákvað að hafa þessa viku hvíldarviku frá hlaupum og gera eitthvað annað. Dóttirin er á sundæfingum á fimmtudögum og í morgun þegar ég tók saman hennar dót fyrir skóla og æfingu setti ég mínar sundbrækur, brillur og handklæði í tösku þannig að ekki yrði aftur snúið. Viti menn, viti menn: ég synti mitt lengsta sund í langa tíma, og hafa skal í huga að allar vegalengdir eru afstæðar; 500 metrar með kollabringuhætti.

Þriðjudagur - Latur til hlaupa

Er latur að hlaupa þessa dagana. Fór út í rigninguna og hljóp aðeins um bæinn, eymingjalgan hring, en það er varla til frásagna. Kannski reyni ég aftur í kvöld.

Laugardagur - Reykjanesmaraþon PB 1:46:11 og silfur

Í stuttu máli þá hljóp ég, þetta fjórða hálfa maraþon, betur en síðast. Bætti tímann um nokkra tugi sekúndna. Núna 1:46:11 (1:46:56). Ég ætlaði að fara á 1:45, og var nærri því, en það tókst ekki. Kenni ég Grænás-brekku um. Mest best var; ég fékk verðlaun, silfur í mínum aldursflokki. Brautin er skemmtileg og reyndu brekkurnar tvær á; sérstaklega sú Grænás. Þegar ég kom upp hana, og allur mótvindur var að baki, þá lét ég gossa og gaf í. Annars leið mér bara vel í þessu hlaupi og mæti örugglega að ári.

Á morgun verður hvílt og svo verður hlaupið á ný á mánudaginn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband