Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
28.10.2008 | 20:20
Þriðjudagur - Ruptura Traumatica Ligamenti Lateralis Pedis
Eins og allir vita þá er þetta "utanverð liðbandameiðsl í ökkla" og ugglaust meinið sem aftrar mér frá hlaupum frá því ég datt svo fallega fyrir nokkrum vikum. Fann þetta á netinu á síðunni www.aflid.is. Nú geri ég ekkert - er með aumingjasvip uppi í sófa og syrgi horfna spretti -, en þegar vel liggur á mér, sem er sjaldan, þá geri ég arm- og bolbeygjur (var svo sem búinn að lofa slíku fyrir mörgum vikum), og þá eru fótameinin kæld og storkin.
Ég horfi svo öfundaraugum á alla þá sem hlaupa fram hjá, bæði léttstíga og þungstíga.
Sonurinn, handboltadrengurinn, missteig sig svona fyrir einu ári og var lengi að jafna sig. Vonandi verð ég fjótur að losna við þetta helvíti.
Set hér mynd er sýnir svæðið auma.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2008 | 20:24
Mánudagur - Ei hlaupið en gerðar armbeygjur
Eftir bjálfafall og tognun í síðustu viku er aftrar mér hlaupum varð ég að gera eitthvað mér til heilsubótar - ekki hleyp ég með bólginn ökkla, tognaðan vöðva og slæma rist. Tók því fram armbeygjutólin sem hafa verið ónotuð í langan tíma. Gerði nokkrar armbeygjur sem voru nú alls ekki merkilegar en aulinn fékk harðsperrur eftir átökin en mun halda áfram af krafti.
Konan kom frá útlöndum í gær og keypti ýmislegt hlaupakyns handa mér: hlaupanærbrækur, hlýja hlaupapeysu, tímaritið Hlaupaheim og bók hlaupagarpsins Yasso My Life on the Run. Hef lesið fyrstu 50 blaðsíðurnar og bókin er eins margar aðrar af sama toga: af hverju byrjaði ég að hlaupa, hvernig hélt ég þetta út, hvenær fór að rætast úr þessu hjá mér. Held áfram að lesa í kvöld.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2008 | 08:49
Miðvikudagur - Hlunki skrikar fótur
Ég fór út til hlaupa. Hafði ekkert hlaupið síðan á föstudag. Nú átti að bæta fyrir letina og hlaupa sömu vegalengd og síðast, svipaða leið en fara hraðar yfir. Kapp mitt og ákafi varð mér fjötur um fót og ég féll er mér skrikaði fótur. Ég skipti hlaupinu upp í nokkra áfanga - einn kílómetri hraður og nokkrir metrar hægir; nokkurs konar fratleikur. Er sex km voru að baki og fjórir eftir - ég hratt hlaupandi á hlaupaleggings hafði splundrað einum kvennahóp á kvöldgöngu - fór ákafur fyrir horn, þá steig ég út af gangstétt og missteig mig illa - og allt gerðist þetta þegar hraðinn var sem mestur. Ég rúllaði ofan í laut, fulla af laufum og leðju, og ó! hvað ég kvaldist. Aumur stóð ég upp, lét lítið fara fyrir mér þegar kvendin fóru framhjá. Þá átti ég, sárkvalinn, eftir að haltra alla leiðina heim. Í þessu hlaupi ætlað að meta mitt ástand - sem nú er orðið aumt - og taka svo á því. Nú gerist fátt. Ég ligg uppi í bæli, hef borið kælikrem á auman ökla, sett fót í klakabað, etið eina bólgueyðandi og klætt mig í teygjusokk.
Nú verður hlé á hlaupum meðan ég jafna mig.
Íþróttir | Breytt 20.10.2008 kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2008 | 20:12
Sunnudagur - Rólegt hlaup í lokin
Vikan byrjaði á mánudegi með kröftugu hlaupi á Kaplakrika, tvívegis tveir kílómetrar á u.þ.b. 4:40 mín/km, svo fékk ég í bakið næsta dag - punkturinn við mjaðmarbeið sem lætur oft illa - þannig að minna varð úr hlaupum en til stóð. Hafði ætlað mér að taka þátt í öðru hvoru tímatökuhlaupinu í vikunni, Powerade eða Geðhlaupi, en "beilaði" vegna baksmeiðsla. - Endalaus meiðsl.
Til að slá á bakverki reyndi ég að teygja og liðka auman skrokk. Tók fram bókina Jóga og íþróttir, er ég keypti um síðustu helgi, og rembdist við að teygja án þess að skemma; held að það hafi skilað einhverju - hið minnsta varð hæfur til hlaupa. Þetta með teygjurnar var nú nokkuð fyndið - eins og þegar ég keypti teygjurbókna um árið og rúllaði um gólfið þegar ég reyndi að teygja hamstreng og lendarvöðvum. Við teygjurnar í jógóbókinni var ég annað hvort upp í rúmi eða sófa og teygði á fótum og baki. Reyndi að anda rétt og halda stöðunni án þess að meiða og særa sára vöðva. Við þessar athafnir rúllaði ég um allt en alltaf gekk þetta betur og betur.
Í dag fór ég svo út. Hljóp 11 km. og hlaupatakturinn var að jafnaði 5:40 en púlsinn allt of hár. Fann ekki fyrir verk í baki, var bara alveg ágætur. Eftir hlaupið fór ég í sund og teygði. Held að eitthvað sé þetta nú að koma; gat hið minnsta sett fót upp í efstu tröppu án þess að verkja í hnésbót. Held bara áfram að teygja.
Þori ekki að lofa neinu um hlaup í næstu viku.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.10.2008 | 20:05
Mánudagur - Rösklegt hlaup, tvívegis tveir kílómetrar
Þetta var rösklegt hlaup; fyrsta í nokkurn tíma. Tvisvar tveir kílómetrar á hlaupatakti 4:40 og 4:41 mín/km. Ætlaði að hitta Skokkhóp Garðabæjar - hélt þeir væru við æfingar á Kaplakrika - en þar fann ég engan. Er ég hljóp einn, þó ekki alveg einn -- frjálsíþróttafólk spretti úr spori -- rifjaðist upp þegar ég, mjög ungur að árum fór með strætó, heiman frá mér á leiðinni að æfa fótbolta hjá Fram (að mig minnir). Aldrei fann ég æfingasvæðið svo aldrei byrjaði ég að æfa fótbolta. En ég gefst ekki upp með Garðbæinga.
Þessi tví-sprettir voru nokkuð erfiðir og fróðlegt verður hvernig mér gengur næst. Reyni að hlaupa aftur á morgun, dagurinn er nokkuð þéttur, og svo eru tvö tímatökuhlaup í þessari viku: 1. Pávereit á fimmtudag og 2. Geðhlaupið á laugardag. Ef sprækur sem lækur tek ég þátt í báðum annars öðru; kemur í ljós.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2008 | 22:34
Sunnudagur - Keypti mér bók: Jóga og íþróttir
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2008 | 22:01
Föstudagur - Liðkað í hálku í Hafnarfirð
Þetta hlaup var til liðkunar. Úti var örlítil hálka en autt á milli og stundum stalst ég út á götu; sérstaklega þar sem engin var umferðin. Ekki var sprett úr spori heldur reynt að fara rólega, hlaupatakturinn var 5:58 mín/km og átta km að baki.
Ég var í nýjum Rebok skóm, þeir virðast ágætir. Veit ekki! Kannski of harðir. Kemur í ljós!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2008 | 21:35
Miðvikudagur - Loksins út að hlaupa
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)