Færsluflokkur: Hlaup
15.10.2007 | 20:49
Mánadagur - Garmur í kulda
Ég gat ekki beðið; varð að hlaupa, hvíli á morgun. Að reyna nýja græju í gær var mér ekki nóg. Svo ég fór snemma úr vinnu, spenntur að reyna aftur þótt úti væri kalt. Fór sama hring og í gær, nú átti helzt að bæta tíma. Í gærkvöldi stillti ég græjuna, nú mælir hún til viðbótar hvern hlaupinn kílómetra, þannig að ég fæ mitt "pace", og það gekk eftir; á hve löngum tíma ég hleyp hvern þeirra. Svo fór, ég hljóp sex kílómetra á 31 mínútu, meiri mótvindur, en tempóið var þetta. Hinn góði tími í upphafi er vegna meðvinds sem feykti mér áfram. En þegar ég nálgast 5:30 er var það mótvindur þegar ég fór upp Lækjargötu og eftir Álfaskeiði í vestur.
1 4:47
2 4:53
3 5:10
4 5:37
5 5:27
6 4:59
Annars verður planið þetta. Hvíli á morgun og á Óðinsdag (miðvikudag) mæli ég langa hringinn, þ.e. út að Suðubæjarsundlaug, Hringbraut og sömu leið, nema út að Actavis. Þá ætla ég nú ekki að fara eins hratt yfir. Mér finnst sem hásinin sé að komast í fínt lag.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2007 | 20:36
Sunnudagur - Garmur á hlaupum
Ný græja! Mamma kom með afmælisgjöf til mín: Hlaupagarm. Ó, hve ég er glaður! Ég gat ekki beðið lengi og fór út að hlaup. Hljóp litla hringinn, sem ég hef oft áður farið og haldið vera 5.5 kílómetrar að lengd, en hann er 6.0. Vegalengdina hljóp ég á 31 mínútu. Tempóið 5:13. Púlsinn var kannski nokkuð hár, ég var nú svo spenntur í gleði minni.
Þegar ég kom heim hélt ég áfram að skoða græjuna og stilla. Svo er að búa nú til æfingaráætlun.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2007 | 20:13
Týsdagur - Hjörtu og lifur fresta hlaupum
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2007 | 16:54
Sunnudagur - Geðhlaup
Tók þátt í Geðhlaupinu í morgun. Fór kílómetrana tíu á 50:20. (Opinber tími er ekki enn kominn en leiðrétti þegar hann kemur.) Markmiðið var að bæta síðasta tíma, sem var rúmar 52 mínútur, og helst ná að hlaupa undir 50 mínútum. Ég var ekki langt frá því, það kemur vonandi næst. Hefði átt að borða aðra orkustöng áður en ég fór af stað!
Spurning hvort ég taki þátt í Powerade hlaupinu í vikunni, kemur í ljós.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2007 | 20:12
Þórsdagur - Í roki og rigningu með Roger Waters
Það var sannarlega frískandi að hlaupa í rigningu, litla hringinn sem er hálfur sjötti kílómetri. Skipun dagsins var hálfrar stundar hlaup og ég var þremur mínútum lengur á leiðinni. Stundum blés hressilega á móti ellegar með, og þá rigndi sem ég stæði í kröftugu steypubaði. Ég reyndi einnig að fara rólega yfir og halda mig innan púlsmarka. Meðan ég hljóp hlustaði ég á Roger Waters, The Pros og Cons of Hitch Hiking. Samhliða mér, hluta leiðarinnar, var eitt kona á hlaupum en leiðir skildi á horni Strandgötu og Lækjargötu; maður er þá ekki einn rúllandi ringlaður í rigningu.
Kannski er hækkunin og stuðpúðinn í skónum að gera sitt gagn. Í óskhyggju held ég að fótameinin séu að hverfa. Sem áður - eftir hlaup, hversu hröð sem þau eru - teygði stirðbusinn eins vel og hann gat. En og aftur var það uppáhalds teygja í dyragætt og þá létt lendarteygja.
Næst verður hlaupið á laugardaginn, í hálfa klukkustund. Líklegast sami hringur og í dag. Veðurspáin er þó ekki vænleg; rigning og aftur rigning. En ef veðrið verður eins og í dag þá veður það allt í lagi.
Hlaup | Breytt 7.10.2007 kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2007 | 21:28
Týsdagur - Með hælum
Fór í verslunina Afrek í dag og keypti mér innlegg. Setti í skóna og fór út að hlaupa, nokkuð hærri en áður; kominn með dempara! Nú er bara að sjá til hvernig það á eftir að reynast mér, verður það mér til betrunar og bótar. Fór sama hring og undanfarna daga, reyndi að fara hægt yfir. Tíminn var sá sami og oft áður, 47 mínútur. Þegar þetta er skrifað, rúmri klukkustund eftir hlaup finn ég engan verk. Aðeins hóflegan seyðing. Vonandi lagast þetta allt núna með dempurum. Reyndi svo að teygja eins vel sem ég gat. Helst á hásin og lá lengi í dyragætt, þykist finna að þetta verður smám saman betra.
Annars mældi ég mitt "OwnIndex" á sunnudaginn og mér til undrunar þá stökk það upp um níu stig og er nú með 49 stig, með heilsufarsdóminn: "Very Good". Voru þá liðnir tveir mánuðir frá síðustu mælingu. Í dag vantar oss aðeins fimm stig að komast í úrvalsflokkinn "Elite" en i næstu viku vantar mig aðeins tvö stig, þá á ég afmæli og kemst hratt yfir múrinn í sælureit úrvalsmanna.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2007 | 19:40
Sunnudagur - ... ertu með smjör í heilanum
Ég og dóttirin fórum saman út í morgun. Langt síðan hún fór með mér. Fórum sama hring og ég hefi hlaupið alla vikuna og hún hjólaði; var stundum á undan og stundum á eftir mér. Við stoppuðum nokkrum sinnum og drukkum vatn úr brúsa sem hafði verið inni á baði. Okkur til ólukku var sápubragð af vatninu; brúsann hafði hún notað til leikja og stúturinn mengaður.
Ekki var farið hratt yfir; en það var allt í lagi enda ætlun mín að fara frekar rólega, ég vonast til að laga mín fótamein með hægri yfirferð. Eftir hlaupin fórum við feðgin í sund. Hún lék sér í rennibrautinni og hitti það skólasystkini sín. Ég var heitustu pottunum og teygði, lét heita bunu ganga á hásin og hælsbót. Nú þegar þetta er skrifað, nokkrum stundum eftir hlaup og laugaferð, er ég bara ágætur.
Ætlunin var þó að taka þátt í Hjartadagshlaupinu, sem var fyrr í dag, en þar sem ég er ekki kominn með fullan styrk ákvað ég að taka því rólega. Ætla að halda uppteknum hætti. Hlaupa þrisvar í næstu viku og lengja hlaupin lítillega í hvert skipti.
Fyrirsögnin er komin frá dótturinni, sex ára. Ég benti á matta rúðu á Lækjarskóla og sagði, ætli hún snú öfugt. Hún sagði við mig þú ert nú meiri kjáninn, ertu með smjör í heilanum. Hún er frosin. Fannst þetta svo sniðugt orðatiltæki hjá henni, maður á samt ekki að ýta undir svona vitleysu.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2007 | 20:44
Þórsdagur - Sami hringur og áður
Ekki var hægt að hlaupa í gær vegna veðurs. Gott veður þegar ég koma heim úr vinnunni og henti öllu frá mér og fór út. Fór sama hring og í byrjun viku, 8 km. á 47 mínútum. Ekki mikill hraði en eitt af markmiðunum er að fara hægar yfir, þá er álagið á eymingjablettunum ekki eins mikið. Púls var lægri og fannst sem ég gæti beitt mér í lengri tíma, sérstaklega þegar leið á hlaupið.
Hitti fyrr í dag gaman skólabróður, strætófélaga og skokkara, hann hefur átt í vandræðum með hásin og hælsbót eins og ég (hann er líka að vísu forn fótboltahetja). Við stóðum út á götu, nálægt strætóskýli, og sýndum teygur og styrkjandi æfingar sem væru bestar við meinanna blettum. Hann benti mér á að heimsækja "Orkuhúsið" við Suðurlandsbraut. Þar keypti hann sér gelpúða í hlaupaskóna, 9 mm., og þeir hafa öllu breytt. Þarf að fara þangað og kaupa slíkt.
Nú er að ákveða hvort ég tek þátt í Hjartadagshlaupinu á sunnudaginn eða hleyp ég bara einn og yfirgefinn um Hafnarfjörð.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2007 | 20:24
Mánadagur - Áætlun fyrir sunnudagshlaup fæðist
Ég fór út að hlaupa í kulda og örlitlu roki. Var vel búinn, í nýjum sokkum og með nýja hlaupavettlinga. Ætti jafnvel að verða mér út um, æ hvað heitir það, einhvers konar ullar stroffur til að setja á ökla. Nokkuð eins og fótafimir ballettdansarar, helzt kvenkyns, skríðast. Þannig held ég kálfum heitum og varna tognun og eymingjameiðslum.
Þegar ég var kominn út var stefnan sett á Suðurbæjarlaug og eftir Hringbraut, hlaupið meðfram sjónum, út að Actavis - sama leið og áður en ný fletta til að lengja, og að halda mig sem mest innan púlsmarka; stoppa þá eða draga úr hraða væri ég ofan marka. Það gekk þó ekki vel til að byrja með, kroppurinn kaldur en um leið og ég var orðinn heitur rættist í óreglunni. Ætlunin var að fara rólega yfir og hlaupa lengur en í þrjá stundarfjórðunga. Þetta gekk allt eftir, púlsinn varð þokkalegur, ég hljóp í 47 mínútur og vegalengdin, skv. Borgarvefsjá, u.þ.b. 8 kílómetrar.
Þegar ég kom heim hófust hófsamar teygjur. Fyrst var teygt lærvöðvum í dyragætt, og teygju haldið í tvær til þrjár mínútur í senn og gert nokkrum sinnum. Finn að þetta er að koma smám saman; fékk engan verk í hnésbót hægra megin og hásin vinstra megin var einnig þokkaleg. Kannski hefir það breytt einhverju að ég fer nú ekki eins hratt yfir og áður fyrr. Svo var teygt á lendarvöðvum og finn að þar þarf að teygja betur. Svo hefi ég verið að stelast til að teygja á kálfum í strætóstoppistöðvum og stigum. Vonandi lifi ég ekki í sjálfsblekkingu með betra ásigkomulag slitins kropps.
Vikuáætlunin er þessi: Hlaupa létt í 30 til 40 mínutu á Óðinsdegi og Frjádegi. Þá tímataka á Sunnudegi, 10 kílómetrar í Kópavogi.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2007 | 19:39
Laugardagur - Þriðja hlaup og laug
Ætlaði varla að nenna út, en eftir að hafa kveinað ögn yfir fótameinum, og sagt við sjálfan mig: "þetta lagast nú ekki með hreyfingarleysi", og vitandi að veðrið ætti eftir að versna síðar í dag, beitti ég fyrir postulahestana, stakk mér í þröngva sperrileggjabrók, þrjár þunnar peysur - yzt skrýddur verðlaunatreyju sonar frá frjálsíþróttaskeiði hans, setti húfu á kollinn og vettlinga á höndur; og fór af stað. Leiðin var hin sama og áður: Litli hringurinn og út að Actavis. Var aðeins lengur á leiðinni og það er nú allt í lagi enda reynandi að fara hægt yfir. Minnka þannig álag á fætur. Þetta var þó ekki slæmur tími, 41 mínúta í rokrykkingu. Fann þegar þriðjungur var eftir að ég gerðist léttari í spori og vonandi er allt að koma.
Þegar hlaupi lauk fór ég með dóttur í Sundhöll og þar skiptumst við á að djöflast í lauginni, bæði með froskafit, og vera í heitum nuddpottum. Hefi lesið einhvers staðar að fótaæfingar með sundfitjum væru hlaupamanni hollar. Á meðan hún stökk af bretti var ég úti í miðri laug og hélt mér á floti með fimum fótahreyfingum. Í heita pottinum voru sömu staðir og áður nuddaðir, einnig reynt að teygja.
Eftir hádegi fór ég í höfuðstaðinn, kom við í íþróttaverslun og keypti mér hlaupavettlinga. Þeir eru þynnri en mínir vetrarvettlingar, sjáum svo til hvernig þeir munu reynast. Næsta hlaup verður á Mána- eða Týsdegi. Ætla mér að hlaupa í Hjartadagshlaupi og þarf að búa mér til æfingaráætlun. Annar var vikan svona: Hljóp í næstum tvær klukkustundir og fór, skv. lauslegri mælingu, 14 kílómetra. Því ætti næsta vika að vera tvær klukkustundir og tólf mínútur að lámarki. Ef ég hleyp þrisvar ættu það að vera tvö hálftíma hlaup og svo 10 kílómetra tímataka á Sunnudegi.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)