Færsluflokkur: Hlaup
20.9.2007 | 20:21
Þórsdagur - Heill heim á postulahestum
Fór sama hring og í fyrradag. Litli hringur, upp með Læknum, Kaplinn, út að Actavis og heim. Fór aðeins hraðar yfir - tími 37 mínútur - bætti mig um tvær mínútur en það var svo sem ekki markmiðið, aðeins halda mig innan hámarks og lágmarks og púls var í lagi en þó með hæsta móti. Postulahestarnir voru léttfættir (orð úr skáldsögum Ólafs Jóhanns Sigurðssonar um Pál Jónsson blaðamanna og ég hlusta á í hlaðvarpi). Kannski er ég að komast yfir þessi aumu fótamein enda léttist ég og styrkist; spikbagginn að hverfa (annað orð frá ÓJS).
Næsta hlaup verður á laugardaginn og ætla ég að fara sömu leið. Þá er vika í tímatökuhlaup. Ef ég losna við meinið þá ætti ég, eins og ég hef áður sagt, að mæta og hlaupa með Garðbæingum. Þá fæ ég leiðsögn.
Á neti fann ég áhugaverða prófritgerð sem fjallar um hlaupahópa. Höfundar eru Sandra Jónasdóttir og Steinunn H. Hannesdóttir. Titill er Hlaupahópar : könnun á starfsemi hlaupahópa. Á eftir að lesa betur.
Næsta hlaup á laugardaginn. Einnig í rúmlega hálfa klukkustund.
Hlaup | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2007 | 22:15
Týsdagur - Upphaf hlaupaviku
Fór út og hljóp í 38 mínútur. Litli hringurinn með smá viðbót, út að glerhöll Actavis og heim. Þegar maður er loksins kominn út vill maður fara lengra, vonandi gerði ég mér ekkert slæmt. Var stirður í upphafi hlaups og reyndi að fara hægt yfir. Fann fyrir örlitlum eymslum í sköflungi hægra megin, en þegar leið á hlaupið þá hvarf verkurinn. Á leiðinni stoppaði ég við Lækinn og teygði ég lítið eitt undir brúnni. Þegar ég kom heim gerði ég mínar helstu teygjur og þá einna helst "teygja í dyragætt". Þegar þeta er skrifað er ég þokkalegur, sjáum svo til í fyrramálið.
Næst verður hlaupið á Þórsdegi. Reyni að fara snemma, tek stúlkubarnið með - minn hjólandi harðstjóra og þjálfara - og svo förum við í sund. Helst í Sundhöll Hafnarfjarðar, þar er gott nuddtæki.
Lesendum til fróðleiks set ég hér mynd af mér i Vatnsmýrarhlaupinu 2007. Vegalengdina fór ég á 24:10. Á þessari mynd er ég nú ekki eins raunamæddur og þegar ég hljóp í Flugleiðahlaupinu (sú mynd er hér við aðra færslu). Þessa stundina eru ekki til fleiri myndir af mér á hlaupum. Maður veit þó aldrei nema Torfi á hlaupasíðunni ná aftur af mér mynd. Ég fann enga í öllum þeim myndum sem voru teknar í Reykjavíkurmaraþoni.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2007 | 19:57
Mánadagur - Þetta er að koma
Fór í Sundhöll Hafnarfjarðar, ætlaði að synda ögn áður en ég færi í nuddpottinn en Sundfélagið var með æfingu. Allt í lagi með það. Svo ég fór í pottinn og hertók nuddtækið, það eina sem er almennilegt hér í bænum. Nuddaði hásin, hælsbót og lærvöðva, finn að þetta er allt að koma. Líklega mun ég hlaupa á morgun og ætlunin er að hlaupa þrisvar í þessari viku. Nú skal það takast.
Það styttist í næsta tímatökuhlaup, Hjartadagshlaupið 30. september, og ég verð að æfa mig eitthvað áður en að því kemur. Annars er markið sett á Poweradehlaupin.
Set hér lesendum til fróðleiks stutt brot úr lækningabók frá síðari hluta 18. aldar.
Bakverkur sér í lagi
Bind við lifandi ál eður hans roð af honum. Ryð á bakið nýju ufsablóði. Sker lengju af lifandi háf og slett við. Höfuðhár af mey við bind. Far í léreftsskyrtu sest svo við glaðan kolaeld og baka svo heitt sem þolir þar til bakið svitnar og nudda skyrtunni upp og niður; gjör þetta í þrjár reisur, ef ei fer þá vellur vatnið út í síðasta sinni. Smyr bakið í salve af mellefolio eður sjóð brennivín og tóbak saman. Gjör fleiður á spjaldhrygginn með sóley eður spansflugum, en græð aftur með heimulublöðum og það þrisvar eður fjór sinnum ef ei fyrr dugir. Eður takist koppublóð úr spjaldhrygg sem næst lendum. Sé bakið áður vel nuddað og makað við eld. Takist blóð á æð í kálfasporðum. Brúkist axlarbönd, því þröngar buxur verka tíðast þann sjúkdóm. Sé bakverkur af nýrnaveiki eður örðugum stórgangi þá heyra þar til önnur meðöl er sjást síðar, lendarverk.
Hlaup | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2007 | 21:14
Þórsdagur - Sami hringurinn og í fyrradag
Ég hljóp sama hring og í fyrradag. Púlsinn var lægri svo eitthvað er ég að bæta mig.
Þegar ég skutlaði dótturinni á sundæfingu í gær hitti ég gamlan kunningja minn. Hann er sjúkraþjálfari og gamall sundkappi, syndir helst í sjó nú. [Komið að klassísku kveini um íþróttameiðsl.] Ég sagði honum að ég væri byrjaður að hlaupa á ný og væri með verk í hnésbót. Meðan við biðum eftir börnunum þá rakti ég fyrir honum og sýndi þær teygjur sem ég geri að loknum hlaupum. Hann lét mig m.a. lyfta löpp og halla mér fram. Hann gerði þar könnun á hvort það væri aðeins vöðvinn ellegar einnig taugin sem væri aum. Það var hans dómur að þetta væri einhver þreyta í vöðvafestu og sagði mér að halda áfram en fara rólega. Hann er sjálfur byrjaður að hlaupa og segir alltaf erfitt fyrir menn á besta aldri að byrja aftur; þeir vilja oftast fara of hratt yfir.
Þegar ég kom heim, eftir hlaupin í kvöld, gerði ég svo mínar fínu teygjur og þá helst "hamstrengur í dyragætt" og finn að hún er að skila því sem til er ætlast. Eitthvað teygist á stuttum lærvöðvum. Lesendum til fróðleiks þá laumast ég stundum til að teygja á kálfum meðan ég bíð eftir vagninum. Tel mig í trú um að ég nái að hita upp á rösklegri göngu að stoppistöðinni. Það skiptir engu þótt samferðamenn mínir segi við sjálfa sig: Þessi er nú eitthvað skrítinn. Eru það ekki bara annars skrítnir sem ferðast með strætó! Kannski taka þeir ekkert eftir þessu.
Læt þessu lokið í kvöld. Næsta hlaup er á laugardaginn og þá einnig í hálfa klukkustund þótt það sé nú freistandi að hlaupa lengur, það verður á sunnudaginn.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2007 | 20:01
Sunnudagur - Vika hins lata
Ekki gekk nú allt eftir í þessari hlaupaviku. Ákvað að taka því rólega því hásin var aum og hné slappt - ekki nýjar fréttir og á maður ekki að hlusta á líkamann! Keypti bólgueyðandi íbófen og bryð nú þrjár töflur á dag. Hnéð er að komast í lag - engir verkir - en hásin enn aum; verður betri er ég hita hana og teygi. Vonandi verð ég góður í næstu viku. Þótt hlaup vikunnar sem nú er að líða hafi aðeins verið tvo er markið sett hærra í næstu viku; þrjú hlaup hið minnsta.
Hlaupaskórnir söfnuðu þó ekki ryki, þótt ég hafi gert það. Drengurinn - handboltamennið - fékk þá að láni og fór út að hlaupa. Aðrir gamlir hlaupaskór eru of litlir á hann. Handboltaæfingar eru byrjaðar og hann fer nú út að hlaupa á hverjum degi, breytir engu hvort hafi verið æfing eða ekki. Við prófuðum "Polar Own Index" á drengnum og fær hann 54 stig á meðan ég hangi í 40 stigum. Svo ég verð nú að taka mig á ætli ég að ná honum eða Íslandsmeistaranum.
Stundum er rætt um virka hvíld. Ég og dóttirin fórum í sund í Laugardalslaug. Á meðan hún renndi sér af kappi í stórri rennibraut þá teygði ég og djöflaðist svo með henni í lauginni. Merkileg þykir mér nýjung þeirra, pottur sem í er heitur sjór.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2007 | 22:08
Þórsdagur - Út þrátt fyrir leti
Ætlaði varla að nenna út að hlaupa en þegar líða tók að kvöldi og ég búinn að taka til og ryksuga - vitandi vits að teygja á kálfum, mýkjandi hásin, sitjandi á hækjum mér gætandi þess að lyfta ekki iljum frá gólfi (ó hvað það getur verið erfitt nema haldandi í eitthvað, en gengur betur finnst mér, og húsfrúin hlær) - var ekki hægt fresta lengur. Veit ekki hvort það var sjálfsblekking en þetta, að teygja á, virðist bæta hægra hnéð sem hefir verið stirt og stíft (sjá skrif mín fyrir Reykjavíkurmaraþon). Ákvað að fara litla hringinn sem er rúmlega fimm kílómetrar og reyna að fara hægt yfir; allt gert til að draga úr álagi. Það tókst að mestu en gengur illa að fara hægt.
Nú, þegar þetta er skrifað tveimur klukkustundum eftir hlaupin og ég ligg uppí rúmi, búinn fyrir all löngu að teygja, þá helst á hnésbótarsin (e. hamstring) í dyragætt er líðan ágæt. Ætla þessa vikuna að fylgja æfingaráætlun. Næsta hlaup er á laugardaginn og þá skal fara létt yfir í hálfa klukkustund og mun ég taka hjólandi dóttur með. Hún hefur kvartað yfir því að ekkert hafi verið hlaupið upp á síðkastið. Þá næst á sunnudaginn í þrjá stundarfjórðunga.
Ákvörðun: Næsta tímatökuhlaup verður Hjartadagshlaupið 30. september og tek Íslandsmeistarann í róðri með.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2007 | 21:51
Týsdagur - Lullandi áfram
Fór heiman frá mér og hélt upp á Kaplakrika; ætlaði að hlaupa (lulla) hið minnsta tíu hringi á brautinni og aftur heim. Hlaupa í næstum 40 mínútur. Reyndi að fara rólega yfir og mér tókst það. Fannst þó púlsinn vera allt of hár og skelli ég sökinni á fótameinin - hásin og hnésbót (alltaf sama vælið!). Veit ekki hvað veldur, hefi fengið mér nýja skó, teygi vel og vandlega eftir forskrift sjúkraþjálfarans, smyr mig mýkjandi og bólgueyðandi smyrslum, en vafalaust er ástæðan sú að ég er enn of þungur; finnst ekkert ganga í að létta mig, verð þó massaðari. Húsfrúin segir það mataræðið! Árið 2003, er ég var léttari en núna, voru engin fótamein. Vonandi léttist ég og þá hverfa þessa fótamein. og hverfur brátt mín mittistólg.
Gerist sjálfhverfur og birti mynd af mér, tekna af Torfa sem er með síðuna hlaup.is. Þessi mynd var tekin er ég nálgaðist endamarkið í síðasta Flugleiðahlaupi og var að dauða kominn, þyngri og þrekaður (glöggir lesendur sjá jafnvel lögregluna á mótorhjólinu fyrir aftan mig sem er við öllu búin). Þetta var fyrsta tímatökuhlaupið í mjög langan tíma. Fyrri hluta hlaupsins fór ég of greitt og var öll orka búin þegar ég hafði lokið tveir þriðju leiðarinnar en hvatningarorð og þrjóska kom mér í mark á tímanum 35:43.
Þórsdagur, næsta hlaup í hálfa stund. Vonandi hressist ég.
Hlaup | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2007 | 13:05
Sunnudagur - Hlaupið að nýju
Fór upp í Kaplakrika á hlaupabrautina þar. Tel mig nú heilan heilsu en líklegast fæ ég það í bakið (alltaf sama svartsýnin). Ákvað að fara létt yfir og hlaupa hið minnsta í hálftíma. Með hléum, þar sem allar helstu hásina og lærisins teygjur voru reyndar, hljóp ég eða skokkaði 15 hringi sem eru samtals 6 km. Meðan á hlaupunum stóð fann ég fyrir örlitlum eymslum aftan í hægra hnéi en fór um leið og ég var orðinn heitur. Nú, þegar þetta er skrifað, hálfri annarri klukkustund eftir hlaup og vandaðar teygjur, er engin verkur. Kannski ætti ég að mæta í leikfimissalinn og gera nokkrar styrkjandi æfingar fyrir lappirnar. Vitað að þær eru ævinlega til vandræða.
Næst verður hlaupið eftir tvo daga og í hálfa klukkustund. Kannski fer ég aftur upp á Kaplakrika og sjáum þá til hvort allt verði í lagi.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2007 | 23:18
Óðinsdagur - Hlé á hlaupum þar til verkur í hnéi hverfur
Klassískt kvein hlaupagikks!
Geri hlé á hlaupum þar til verkur í hægra hnéi er farinn. Stundum er kappið í hlaupagikk of mikið. Vonandi byrja ég að hlaupa í næstu viku; ég ætla. Tek þó fram að ég hefi farið nokkrum sinnum í sund, í Sundhöll Hafnarfjarðar eins og Frjádaginn fyrir maraþon, og læt heita vatnsbununa leika við auma staði. Hefi einnig synt lítið eitt og í dag er hnéð betra enn í gær. Ætti jafnvel að kaupa mér bólgueyðandi töflur og athuga hvort þær hafa einhver áhrif.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2007 | 23:54
Frjádagur - Púls hár og kenni pylsum um
Þessa dagana hefi ég verið í fríi, dóttirin er að byrja í skóla. Okkur til skemmtunar þvældumst við um bæinn, fórum niður í líflegan miðbæ Hafnarfjarðar - þar sem sumir mótmæla háhýsum - og ég hélt á dúkku dótturinnar allan tímann. Við stoppuðum á Víðistaðatúni og þar skipti hún um föt á dúkkunni en ég teygði á kálfum og hásin (vonandi verður þetta ekki að vana hvar sem ég stoppa, annars er það svo sem örugglega allt í lagi). Kannski er ég allur að koma til, það er að losna um hnéð stirða - ætli PENZIN-ið sé að virka.
Þá að hlaupi dagsins. Ætlunin er að hlaupa þrisvar í vikunni og ég fór út, að þreyta hlaup númer tvö, þegar tvær stundir voru liðnar frá kvöldmat. Dóttirin fékk að velja kvöldmatinn og valdi pylsur; ég át tvær. Allan tímann, meðan ég hljóp, var eins og bolla væri á ferð (sjá fyrri færslur um grísahakk og bolluát fyrir hlaup). Rop og aftur rop! Var því nokkuð þungur á mér en rættist úr þessu þegar ég var hálfnaður með hlaupið, teygjur áður en komið er að göngunum við Lækinn. Gerði mér það einnig til uppbyggingar að gefa í þegar ég hljóp upp brekkurnar. Púlsinn var hár og kenni pylsum um.
Þegar ég kom heim tóku við teygjur og alltaf hlær húsfrúin þegar ég reyni mitt besta til að auka liðleika minn. Dóttirin, hins vegar - og að sjálf sögðu -, styður mig og gerir sömu teygjurnar og ég. Er þá stundum deilt um þokka, stíl og jafnvægi. Nú þegar þetta er skrifað, hálfri þriðju stund frá hlaupi, er enginn stirðleiki kominn í hné, hásin er þokkaleg og brátt verður PENZÍN smurt á auma staði áður en ég fer í bælið. Næsta hlaup verður á sunnudaginn, sama leið, en engar pylsur áður.
Hitti kunningja minn á göngunni í dag, er ég bar dúkku og dúkkuföt. Hann þreytti sitt fyrsta maraþon um daginn og hljóp á nærri fjórum klukkustundum. Nú þýðir ekkert annað hjá mér en að gera hið saman. Frændi minn gerði þetta líka fyrir nokkru og ekki get ég verið minni maður. Þarf að búa mér til áætlun, hún verður birt á þessari síðu síðar.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)