Færsluflokkur: Íþróttir
19.5.2009 | 23:25
Þriðjudagur - Hjólað og hlaupið tvo daga í röð
Í gær voru það sprettir og í kvöld var það rólegt bæjarhlaup. Sprettirnir voru á Kapla; þrisvar sinnum míla á vaxandi hraða. Hlaupataktur, fyrir hvern kílómetra, 5:04 mín/km, 4:45 og 4:33. Síðasti sprettur tók á enda ákvað ég að gefa í í lokin.
Kvöldskokkið voru 14,5 km; létt liðkunarhlaup. Til að byrja með var ég þungur tíl fóta, strengir af hjólamennsku, en sporið varð létta er tók að líða á. Erfiðast var þó að halda aftur af hraðanum.
Bæði í dag og í gær hjólaði ég til vinnu. Á morgun verður hjólað til vinnu sem áðu og spurningin er hvort mæta eiga á hjólaæfingu eða hvíla og taka þátt í Powerade á Uppstigningardag.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2009 | 23:43
Laugardagur - Í dag var hjólað
Ég hjólaði minn lengst túr til þessa í dag. Veðrið var frábært og ég ákvað að fara fyrir mín þrjú nes og kanna svo frekari leiðir er í austurborgina væri komið. Ákvað að fara ekki upp Kleppsveginn heldur fara hlaupastíginn sem er farinn í Reykjavíkurmaraþoni, í áttina að Sundahöfn, og kanna hvort ekki væru einhverjir stígar þar sem væri hægt að spretta úr spori. Ég fann, að vísu eftir nokkrar blindgötur, leiðina í áttina að Grafarvogi og þangað fór ég. Er 50 km voru komnir þótti rétt að halda heim á leið enda farinn að þreytast í lærum. Er ég rann í hlað, heima hjá mér, voru 64 kílómetrar að baki á 2:38 klst.
Á morgun verð ég á fótboltamóti með dótturinni - og kannski fer ég að hlaupa seinni bartinn. Eitthvað verður hlunkur að liðka sig eftir átökin.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2009 | 22:26
Miðvikudagur - Hjólað en lítið hlaupið, of mikið rok
Hefi í roki og stundum rigningu hjólað til vinnu og heim, og veðrið verið, hreint út sagt, hörmulegt. Meðvindur inneftir, sem er ágætt, en öskrandi mótvindur alla leiðina heim. Túrinn inneftir hraður og skemmtilegur - mesti hraði meira en 40 km/klst; svo er það hörmungarrólið til baka sem tekur meira en 50 mínútur. Mótvindur, svipti- og sprengirok þannig að ég hefi þurft að hjóla af krafti niður brekkur - en þrjóska flytur fjöll! Gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana.
Annars hefi ég verið að plana mín löngu laugardagsæfingarhlaup fram að þolþrautinni miklu eftir tíu vikur: Laugavegurinn, þann 18. júlí. Eftir æfingarplaninu þá þarf ég að hlaup nokkur löng, önnur lengri, sum hæg og þá, þess á milli, hröð. Nú er að setja samhengi í þetta og velja löng tímatökuhlaup, nokkur koma til greina og ætla að skrá mig í Úlfljótsvatnshlaupið.
16.5. - 25,7 km.
23.5. - 1/2 maraþon
30.5. - 29 km.
06.6. - 1/2 maraþon - Úlfljótsvatnshlaup
13.6. - 32 km.
20.6. - 32 km.
27.6. - 35,4 km.
04.7. - 29 km.
11.7. - 19,3 km.
Annað, ég nennti ekki að hlaupa í kvöld. Allt of mikið rokk.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2009 | 16:33
Laugardagur - Ástjarnarhlaup
Fór út að hlaupa í morgun en hringdi áður í mág minn og við ákváðum að ég skyldi hitta hann á leið minni. Fyrir mér lág að hlaupa 22,5 km á rólegum hraða; á bilinu 5:52-6:02 mín/km. Fyrir viku áttu það að vera næstum 20 en ég hætti eftir 15 sökum fótaþyngsla. Í mínu morgunhlaupi voru sporin létt alveg þar til þrír kílómetrar voru eftir - þá varð allt þyngra en þrjóskan kemur manni langt. Ég lauk hlaupinu á 2:11 klst. sannarlega þreyttur í lærunum.
Á hlaupum okkar fórum við út um allt. Slaufur og lykkjur um Fjörðinn en skemmtilegast var þó að hlaupa hringinn kringum Ástjörn - verða að æfa meira utan vega. Ef veðrið verður ágætt um næstu helgi væri ekki vitlaust að hlaupa upp að Kaldárseli og til baka og koma aftur til byggða við Vellina.
Annars er vikan svona: Hlaup 38,2 km @ 3:37 klst. Hjólamennska 114,3 @ 6:22 klst. Þar af eitt keppnishlaup sem ég verð að bæta. Á morgun verður hvílt en svo hefst ný vika á mánudaginn.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2009 | 22:29
Fimmtudagur - Hjólað og hlaupið í mótvindi
Mitt þriðja Flugleiðahlaup til þess. Bætti ekki tímann enda aðstæður ekki þær sömu og í fyrra - var á svipuðum tíma, 33 mínútum og einhverjum sekúndum. Mágur minn, hestafrændinn, gerði það hins vegar, var nærri því undir 30, og nokkrir aðrir sem ég þekki. Hlaupatakturinn í þessu rokgjarna hlaupi var í réttu hlutfalli við með- og mótvind. Í sviga er frá því 2008 og er takturinn eitthvað jafnari.
4:29 (4:34)
4:36 (4:36)
4:50 (4:46)
4:44 (4:45)
5:01 (4:49)
4:55 (4:49)
4:37 (4:25)
Eins og fyrri daga hjólaði ég í vinnuna og til baka. Í morgun var mótvindur og á leiðinni heim var líka mótvindur en aðeins meiri meðvindur. Til að afsaka slakan árangur í hlaupinu kenni ég hjólaþreytu um en það bætir mig nú samt er til lengri tíma er litið.
Á morgun, ef ekki klikkað veður, verður hjólað í vinnuna og rólegt liðkunarhlaup um kvöldið.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2009 | 22:42
Miðvikudagur - Tvíhjólað
Að venju hjólaði ég inn til vinnu og til baka. Fór að vísu á einn stað áður og varð túrinn aðeins lengri. Er kvölda tók mætti ég á hjólaæfingu hjá Hjólafélagi Hafnarfjarðar. Þar voru ásamt mér hetjurnar Gísli, Helgi og Steinn. Fyrst fórum við út í iðnaðarhverfi en þarf þeystu um kappsfullir hjólamenn úr Reykjavík. Við tókum með þeim nokkra hringi en svo var stefnt í áttina að Krísuvík - hin margnefnda pylsa. Ég hékk í hetjunum og er þessu var lokið hélt hver til síns heima. Samtals hjólaði ég 65 km í dag.
Á morgun verður hjólað til vinnu. Svo er Flugleiðahlaupið um kvöldið. Sjáum til!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2009 | 22:44
Mánudagur - Hefðbundið í alla staði með skóhlífar reiðhjólamanns
Hjólaði í vinnuna. Leiðin heim var torfær; mótvindur og rigning. Kom við í hjólabúðinni, þar hertu menn rær og róur, skiptu um bremsubúða, fínstilltu gíra og ég keypti mér skóhlífar hjólamannsins. Er kvölda tók, og komin kyrrð á mannskapinn, fór ég upp á Kapla. Fyrir lág að hlaupa níu fjögurhundruð metra spretti. Þetta gerði ég með ágætum. Átti að halda mér innan 4:38-4:26 mín/km. Ég hljóp sprettina á bilinu 4:27-4:15. Kominn heim gerði ég ýmsar kúnstugar teygjur fyrir lendar.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2009 | 19:41
Laugardagur - Þreytt þyngslahlaup
Til að blása lífi í hlaupaæfingarnar ákvað ég að hlaupa aðeins um bæinn. Á laugardögum eru löng hlaup og skv. plani átti ég að hlaupa 19 km. Fór út og lagði af stað: Fyrstu 10 voru ágætir, en eftir það þyngdist hvert spor. Varð smám saman máttlaus og þungur. Þegar ég var búinn með 15 nennti ég ekki meira. Hætti að hlaupa og gekk heim. Hjólaferðin langa í gær og liðkunarhlaupið eftir það sat í mér og lappirnar voru þungar.
Á morgun verður eingöngu legið í potti - bónus ef ég syndi smávegis.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2009 | 20:14
Föstudagur - Þriggja nesa hjólaferð og þyngslaskokk
Þriggja daga leyfi frá hlaupum og hjóli kalla á hörkuæfingar - sukkjöfnun. Ég vaknaði seint, var þreyttur eftir ferðalagið, en ákveðin að ég skyldi bæði hjóla eða hlaupa í dag. Ég leit út og sá að "hann" var rigningarlegur en lét það ekki aftra mér. Um leið og ég var búinn að taka hjólið úr geymslunni og að taka það til byrjaði að rigna. Ég fór í regnjakka og lagði af stað. Ákvað að fara um nesin þrjú - þau voru bara tvö síðast - upp í Mjódd og svo um Kópavog og heim. Fyrst var það Álftanes. Þar rigndi, sem væri hellt úr fötu, og ég orðinn rennandi blautur til fótanna - þarf nauðsynlega að fá mér eitthvað til að skýla þeim. Eftir Álftanes hjólaði ég sömu leiðina og síðasta laugadag. Þetta var aðeins lengra, meira en 50 km, og ég bætti tímann um nokkrar mínútur þótt það hafi nú ekki verið markmiðið.
Kominn heim var ég þreyttur í fótum og ógeðslega kalt á tánum. Var of þreyttur til að teygja. Lagðist upp rúm og sofnaði. Nokkru síðar koma mágur minn, róðrakappinn, og við vorum búnir að ákveða að hlaupa stuttan hring - liðkunarhlaup fyrir helgarátökin. Það gerðum við og ógeðslega var ég nú þungur á mér og verkjaði í þreytta vöðva.
Hlaupaprógrammið skipar mér að hlaupa á morgun, næstum 19 km. Ég reyni. Nú farinn að teygja og þamba vökva.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2009 | 22:55
Mánudagur - Hjólasprettir
Hjólað og hlaupið sama daginn. Hjólað inn í vinnu og til baka. Hraðinn eykst smám saman. Þegar kvöldaði fór ég upp á Kapla og tók fimm áttahundruð metra spretti. Bar tölur saman við síðustu æfingu sem var af sama toga en aðeins fjórir sprettir þá. Hraðinn er meiri í dag og meðalpúls lægri; nú 140 var 154. Ég man að síðasti sprettur, í fyrra skiptið 26. janúar, þar sem ég reyndi á mig var ógeðslega erfiður. Skrokkur er þokkalegur, sérstaklega eftir að hafa teygt vel á bol.
800 3:50 (3:54) mín. 4:47 (4:53) mín/km =12.52 km/t
800 3:40 (3:51) mín. 4:35 (4:50) mín/km =13.09 km/t
800 3:37 (3:52) mín. 4:31 (4:53) mín/km =13.27 km/t
800 3:38 (3:40) mín. 4:32 (4:36) mín/km =13.21 km/t
800 3:33 (0:00) min. 4:26 (0:00) mín/km =13.52 km/t
Veit ekki með veðrið á morgun, en stefni að því að hjóla. Miðvikudag og fimmtudag verð ég úti á landi og veit ekki með hlaup.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)