Færsluflokkur: Íþróttir
29.6.2007 | 22:45
Þriðja hlaup í annarri viku
Hljóp í 30 mínútur, fór rólega yfir, enda átti þetta hlaup, skv. áætlun að vera rólegt . Ætli mér hafi ekki tekist það því meðalpúls var aðeins 145, öllu lægri en vanalega. Oftast fer ég hraðar yfir. Dóttirin fylgdi mér, sem oft áður, á hjóli og við breyttum leiðinni, var búinn að lofa henni að fara fram hjá leikskólanum, svo við beygðum upp af Strandgötunni og fórum fram hjá Gamla bókasafninu, eftir sundurgrafinni Hverfisgötu og upp Smyrlahraun. Fyrir vikið var meira um brekkur og mæddist stúlkan á leiðinni. Vegalengdin var skv. borgarvefsjá 4.5 km.
Eitt veldur mér áhyggjum á hlaupum, og kann að vera að þar sé líkaminn að kalla eftir nýjum skóm (fiskað eftir réttlætingu!); verkir í vinstri löpp: Bæði í kálfa og kringum hné. Brátt byrja útsölur í íþróttaverslunum og jafnvel á morgun skoða ég hvað er í boði.
Hestafrændi kom í heimsókn og lét hann vita af næsta áætlaða hlaupi: 7.7.2007. Nú er bara að sjá til hvort kroppur verði í lagi og þá verður fyrsta 10 km. tímatökuhlaup.
Polar-menn skipa mér í hlaup á sunnudag og er yfirskriftin "interval". Skilst það vera hratt og rólega til skiptis. Sjáum til með hné og kálfa en farið verður. Kannski verð ég kominn með nýja skó.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2007 | 20:23
50 mínútur um Hafnarfjörð
Ætlaði varla að nenna þessu þegar ég kom heim úr vinnu. Vældi og volaði í sjálfum mér í allan dag; æ og ó! kálfar og læri, eitthvað er nú þar í ólagi. Ákvað þó að bera íþróttakrem á vel vaxinn kálfa og fara af stað, vera ekki bráður og ör á fyrstu metrunum. Nokkur verkur í sköflungi í upphafi en þegar ég var orðinn heitur lagaðist það. Stoppaði tvívegis og teygði. Gætti mín á að púls væri ekki of hár, og það þýddi að ég fór ekki hratt yfir. Á leiðinni hljóp ég fram á tvær konur og voru það allir er ég sá á hlaupum.
Gerandi langt hlaup stutt: 8,0 km. á 49 mín. (hef nú farið hraðar yfir), meðalpúls 148 (var meðvitað).
Næsta tímatökuhlaup verður 7. júlí en ekki ákveðið hvaða vegalengd.
Næsta hlaup á Frjádag, 20 mín., rólegt rölt.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)