Færsluflokkur: Íþróttir
23.1.2009 | 21:33
Föstudagur - Liðkun fyrir langt
Færðin er slæm og gangstéttar ófærar - hálka og enginn sandur. Varð að fara út á götu, eins og í gær, og fór þar sem umferðin er lítil. Þetta var ekki langt, sex kílómetrar á hægum hraða, enda liðkunarhlaup. Á morgun verður langt, 14,5 km., en nú, þegar þetta er skrifað, er ég þreyttur og engin nenna. Í fyrramálið verð ég skrækur og fer út.
Í vinnunni var auglýst að í næsta mánuði hefst n.k. hreyfingarvika á landsvísu og þá ætlum við, eins og alltaf, að rústa keppninni. Nú mega þeir Einar og Eiríkur Smári vara sig!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2009 | 20:33
Miðvikudagur - Hálkuhlaup í Hafnarfirði
Þetta var þriðja hlaupið í þessari viku og örlar fyrir þreytu. Færðin var slæm; hálka og lítil viðspyrna. Fáir stígar bornir sandi og neyddist, stundum, til að fara út á götu tl halda hraðanum upp. Fór inn í íbúðahverfin og hljóp frísklegur og þokkafullur um hafnfirskar einstefnugötur á móti umferð sem var nú engin. - Heim kominn át ég fiskiklatta (afgang frá kvöldmatnum) og teygði á stuttum hamstrengjum. - Feginn hvíldinni fram á föstudag, þegar hlaupið verður til liðkunar, og svo langt á laugardaginn.
Annars voru tölurnar þessar: 1,6 km í upphitun, 4,8 rösklega og 1,6 km rólega í lokinn.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2009 | 21:10
Þriðjudagur - Rólegt hlaup eftir próteindrykkinn nýja
Hlaupin í dag voru róleg - átta kílómetrar á hægum takti - og svo var farið í sund til að teygja á leggjum á meðan dóttir og frænka æfðu sund. Ugglaust er það fyndið að sjá karlhlunk í potti kastandi fótum öðru hvoru upp á brún og halla sér svo fram. Hlunk sem titrar og nötrar af vöðvaherpingi. Ég sé engan annan sundhallargest gera svona. Finn að þetta hefur einhver áhrif og ég er ekki ómögulegur í ökkla og get staðið í tröppunni og teygt á hásininni.
Á morgun verður rösklegt, aftur átta kílómetrar.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2009 | 20:27
Mánudagur - Þrír sprettir hraðir er seint tóku enda
Út fór ég og spretti úr spori - sukkjöfnun eftir helgina. Þrisvar sinnum 1,6 km. með stuttri 400 m. hvíld var dagsskipunin. Átti að hlaupa hvern sprett á bilinu 5:20-5:08 mín. Þetta tókst mér og hver sprettur 5:02, 5:04 og 5:07 og síðasti spretturinn var erfiður.
Heim kominn teygði ég, át kjötafganga og drakk tvo lítra af vatni.
Á morgun verður hlaupið hægt, 8 km.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2009 | 12:50
Laugardagur - Langt út á Álftanes
Dagurinn hófst með lýsis- og tedrykkju og áti, ristað brauð með marmelaði. Þá var skrýðst hlaupaklæðum, t.d. nýjum hlaupanærbuxum frá Ameríku (keyptar þegar dalurinn var 96 kr. (er nú 127 kr.)). Var að vonast eftir að hitta Jóa og Haukana og svo varð. Þegar ég hljóp í áttina að miðbænum hljóp ég í fasið á honum. Hann var að sjálfsögðu fyrstur og meðhlauparar hans langt fyrir aftan. Ég sneri við og við hlupum saman út á Álftanes.
Hlaupið var nú ögn hraðar en harðstjórinn mælti með en ekki svo. Þá var einnig reynt að tala á hlaupum og það tókst. (Las einhvers staðar að það væri ágætis viðmið um rólegt hlaup ef menn gætu haldið uppi samræðum án vandræða, þá væru þeir á réttu róli). Hlaupatakurinn var 5:55 (síðast 6:05) og veglengdin 13 km.
Heim kominn teygði sonur á fótum föður síns. Svo var drukkið og étið skyr til að jafna vökvabúskap og hindra höfuðþrautir. Í eftirrétt var harðfiskur.
Á morgun, sunnudag, verður hvílt en svo hefst ný hlaupavika. Tveimur vikum af sextán er lokið. Farið verður fimm sinnum og hvert með sitt einkenni: sprettir, rólegt, rösklegt, liðkun og langt.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2009 | 19:16
Föstudagur - Liðkunarhlaup
Þetta var liðkunarhlaup; því á morgun verður langt og kannski kræki ég mig á Haukamenn í morgunsárið. Þetta var hægt og rólegt í hálkunni og þess vegna gott að vera á keðjum. Allan tíman var ég verkjalaus í ökkla, og uppgötvaði það ekki fyrr en var meir en hálfnaður. Kálfar voru stífir í upphafi en það aftraði mér ekkert á hlaupunum. Heim kominn, gætti ég þess að teygja vel og vandlega á þeim.
Ég skoðaði önnur hlaup í þessum mánuði, sömu vegalengd og fyrirmæli, og þá kemur í ljós að púls heldur áfram að falla, sem er gott! Í dag var hann, að meðaltali, 146 og verður forvitnilegt að sjá hvað gerist næsta föstudaga þegar sama vegalengd og sami hraði.
Þar til á morgun, langt rólegt næstum þrettán kílómetrar.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2009 | 19:34
Miðvikudagur - Hlaupið með kókköku í maga
Féll fyrir freistingu og borðaði súkkulaðiköku þar sem eitt af stöffinu í kreminu er kók og fór svo út að hlaupa. (Að vísu leið smá tími á milli.) Það er kannski ekki hentugt ef hlaupa skal rösklega. En Þver, fullur af köku og kóki, hljóp rúma sex kílómetra og helminginn af þeim á þokkalegum hraða. Á leið minni ropaði ég og stundi en lét það ekki hafa áhrif á mig. Ég ætlaði mér að klára æfinguna og það tókst. Undir lokin fékk ég örlítinn verk í hægri kálfann en hann hvarf fljótt - bara þreyta.
Þegar heim var komið gerði ég teygjur og finn að hásin og ökkli eru að liðkast.
Á morgun verður hvílt, rólegt á föstudaginn og svo langt á laugardaginn.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2009 | 20:29
Þriðjudagur - Hægt og rólegt hlaup um Velli
Ákvað að hlaupa rólega um Vallarhverfið í Hafnarfirði. Fór frá Ásvallalaug, hringinn í kringum hverfið með slaufum og lykkjum í áttina að nýjustu götunum, þeim sem standa yst. Ósköp var það nú tómlegt á að líta; sum húsin, sem var búið að reisa, ekkert nema útveggir og ekki verið að vinna í þeim. Annars var ágætt að hlaupa þarna - fínir upplýstir malbikaðir stígar og litlar brekkur. Á örugglega eftir að fara þarna aftur.
Ég átti að hlaupa átt km en þar sem dóttirin var á sundæfingu og ég búinn að lofa henni að koma ofan í áður en æfingin yrði úti svo hún gæti verið lengur varð ég að stytta hlaup mitt um einn km. Hlaupatakturinn var innan þeirra marka sem harðstjórinn mælti fyrir um, 6:22 mín/km. Ökklinn er þokkalega og sérstaklega eftir að hafa verið í heitum potti og teygt í næstum klukkutíma.
Á morgun verður rösklegt hlaup - er þreyttur núna og engin nenna. En á morgun verð ég sprækur sem lækur og fer um sem vindurinn um bæinn.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2009 | 20:12
Mánudagur - Fyrsta hraðaæfing vetrarins
Þetta var miklu betra en ekki auðveldara en ég átti von á. Fór út, smeykur, vissi ekki hvort ég væri nokkuð í formi til að hlaupa svona hratt. Óttaðist illan verk í ökkla en það var allt í lag - aðeins þreyta í kálfum og mæði í lok spretts. Í stuttu máli var þetta upphitun, tvö 2,5 km hröð hlaup með hvíld á milli og rólegt í lokin.
Hlaupatakturinn í hraða hlaupinu átti að vera á bilinu 5:28-5:08 mín/km og mér tókst að halda mér við lægri mörkin: 5:07 og 5:08 mín/km. Lyfti fótum á þokkafullan hátt. Púls var að vísu hár, 170 og 174, og skiljanlegt, því hér tók hlunkur á. Verður forvitnilegt að sjá hvað gerist næsta mánudag þegar svipað verður reynt.
Á morgun, þriðjudag, verða hlaupnir 8 km rólega og í sund (lesist: pottadvöl) á eftir. Dóttirin verður á sundæfingu og ég ætla að hlaupa þangað og liggja í potti á meðan hún og frænkan leika sér.Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2009 | 22:15
Sunnudagur - Hlaupaáætlun í næstu viku
Skv. áætluninni verða fjögur hlaup í viku, og hvert þeirra mismunandi. Á mánudögum eru sprettir og þeir þykja mér skemmtilegir eða þóttu er ég æfði markvisst. Á þriðjudögum er rólegt hlaup, n.k. endurhæfing eftir sprettina. Á miðvikudögum er hlaupið rösklega. Þá er fimmtudagurinn hvíldardagur. Rólegt liðkunarhlaup á föstudegi. Hlaupavikunni líkur svo með löngu hlaupi á laugardegi.
Mán.: Upphitun, 1,6 km. rólegt, tvívegis 2,4 km., 800 m hvíldarskokk á milli, og þá 1,6 km rólegt.
Þri.: 8.05 km. hægt.
Mið.: Upphitun, 1,6 km.. 3,2 km rösklega, í lokin 1,6 km. rólega.
Fim.: Hvíld
Fös.: Rólegt liðkunarhlaup 6.44 km.
Lau.: Langt og hægt 12.88 km.
Sun.: Hvíld
Samtals eru þetta u.þ.b. 39 km. en í vikunni sem var að ljúka hljóp ég 29 km.
Viðmið um hlaupatakt. Síðast er ég æfði var það svona:
rólegt (easy) 6:14-6:01 mín /km
hægt (slow) 6:05-5:52 mín/km
jafnt (steady) 5:26-5:14 mín/km
rösklega (brisk) 5:13-5:01 mín/km
hratt (fast) 5:01-4:48 mín/km
Núna, þegar markmiðið er sett á heilt á 3:45 er það svona:
rólegt (easy) 6:39-6:26 mín /km
hægt (slow) 6:28-6:16 mín/km
jafnt (steady) 5:47-5:35 mín/km
rösklega (brisk) 5:34-5:21 mín/km
hratt (fast) 5:20-5:08 mín/km
Nú er bara að halda sig við planið og kannski gef ég í og eyk hraðann en það á bara eftir að koma í ljós.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)