Færsluflokkur: Íþróttir

Laugardagur - Hlaupið með Haukum og stefnt á Laugaveginn

Ég skráði mig í últramaraþonið Laugaveginn í gærkvöldi og nú á eftir að koma í ljós hvort mér tekst að hlaupa þessa 55 km. Var of seinn að skrá mig í fyrra og þá sagði ég við sjálfan mig eitthvað á þessa leið: Ég verð bara duglegur að æfa mig og mæti svo á næsta ári. Nú er þetta ár komið og ég varð bara að skrá mig. 

Til að geta hlaupið milli þessara fjallakofa sem ég hefi aldrei séð enda aldrei farið á fjöll þarf víst að æfa sig og setja sér markmið - byrja að æfa. Hætti ég því öllum aumingjagangi og setti mér enn eitt háleitt markmiðið: heilt maraþon í vormaraþoni félags maraþonhlaupara; 25. apríl 2009. Sótti mér því eitt stykki æfingarprógramm á garminssíðu - sextánvikna sjálfspínu.

Eftir allt þetta þá var mér ekki til setunnar boðið. Kom mér á lappir; drakk einn tvöfaldan expressó, át ristaða brauðsneið með bönönum og fór út. Rólegt átti það að vera. Rúmir 11 km og 6:15 mín. með km. Er ég var búinn að hita upp hljóp ég í fangið á Jóhanni hlaupara í skokksveit Haukanna og ég sneri við og hljóp með þeim. Þetta var aðeins hraðara en ég ætlaði en var allt í lagi. 

Á mánudaginn verður, ef allt gengur vel, hlaupið rösklega: Hitað upp, þá tvívegis rösklegt hlaup - 2,5 km. með hvíldarskokki í millum og svo rólega. Kannski fer ég í sund á morgun.


Föstudagur - Hlaupari hægir á sér

Fór, eins og í fyrradag, út að hlaupa. Sama leið og áður, næstum sjö kílómetrar. Reyndi allt til að halda hraðanum niðri. Það var auðvelt í kvöld því örlítil hálka hafði myndast svo ég varð að hægja á mér á göngustígunum. Best er þó að púlsinn er kominn niður fyrir 150 og þá verður að hafa í huga að hraðinn er litill. Þó er allra best að ökklinn er til friðs og mér tekst að teygja á honum án nokkurra verkja. Næst verður hlaupið á sunnudag; kannski á morgun og fer það þá eftir veðri.

Mánudagur - Hlaupið ...

Ég geispaði en fór samt út. Fór stuttan hring, hægt, og fann lítið fyrir ökkla, sem er góðs viti. Bara þreyta í fótum. Púls fer lækkandi. Þegar ég kom heim gerði ég teygjur og Þórunn sagði "fimleikaæfingar!". Vonandi get ég farið að auka hraðann en læt ökklann ráða því. Næst verður hlaupið á miðvikudaginn. Sama vegalengd og verður fylgst vel með ökkla.


Laugardagur - Barnið pínt

Rólegt hlaup um bæinn í úða. Dóttirin hjólaði með og kvartað stundum. Ég fór eins hægt og mér var boðað. Verkjaði aðeins í ökkla, held þó aðeins vegna þess hve aumir vöðvarnir eru. Mér þó til ánægju gat ég hoppað á auma fæti. Vöðvarnir hljóta að vera að styrkjast. Eftir hlaupið fór ég með dóttur og vinkonu hennar í sund. Ég teygði þær fóru í rennibraut.

Aftur hlaupið á mánudag.


Nýársdagur - Þunnt hlaup

Hafði mig út að hlaupa. Fór hægt, eins og fyrri daga, svitnaði og hreinsaði kropp af eitri áramóta. Sama vegalengd og sami tími. Er enn þreyttur í ökkla en það fer. Reyndi svo, eftir bestu getu, að teygja þegar ég var búinn. Næst verður hlaupið á laugardag, líklega sama vegalengd og sami hraði.

Þriðjudagur - Enn í endurhæfingarhlaupum

Hef nú hlaupið tvívegis frá því á öðrum degi jóla. Sama vegalengd, sami hraði - sem er hægur, svipuð leið - jafnslétta og ein lítil brekka, og þrek mitt enn lítið; fer þó vonandi batnandi. Eftir síðasta hlaup leið mér eins og ég hefði farið hálft maraþon á fullum hraða, var mjög móður og með höfuðverk af vökvaskorti.

Ökklinn, mitt eilífðarmein, er í lagi, stífur fyrst en lagast svo þegar á líður. Nú er kappsmál að halda hraða niðri - og stífleikinn hjálpar við það. Þegar heim er komið geri ég teygjur og finn að hásinin er sannarlega stutt.

Ég var hvattur af félaga mínum til að taka þátt í Gamlárshlaupinu á morgun en er ekki kominn í gírinn svo ég mun bara horfa á leggingsklædda hlaupara ef ég verð ekki dreginn í undirbúning fyrir veislu kvöldsins.

Annars eru tölur þessar: Á árinu 2008 fór ég í 121 skipti út að hlaupa, ég hljóp 1279 km á 120 klst. og 17 mínútum. Á næsta ári mun ég hlaupa meira. Ég hljóp þrjú hálfmaraþon, og bætti tímann. Ætlaði að fara í heilt maraþon en verkir og annar aumingjagangur varð til þess að ekkert varð úr. Lengst vegalengd hlaupin var 30 km.

Næst verður hlaupið, rólega, á Nýársdag - sukkjöfnun.

 


Annar í jólum - Loksins hlaupið

Eftir meira en tveggja mánaða hvíld var hlaupið. Ég fann spelkuna sem Örlygur var með er hann tognaði og mér fannst vera kominn tími á að reyna þetta. Undanfarna daga hef ég étið eins og svín bæði lamb og svín, reykt og feitt. Kominn tími á sukkjöfnun. Fannst nóg komið, feitari en fyrir ári og blásinn bjúgi. Fór af stað bundinn um ökkla og hljóp rólega, næstum fimm km., hlaupatakturinn 6:40 mín/km og púls 163. Er ég kom heim var allt í lagi. Nú verður farið í heitt bað og aumir staðir kældir og nuddaðir.

Fyrir ári síðan hljóp ég líka. Þá var færðin slæm og mikið frost. Fór ellefu km. á einni klst. og púlsinn 153. Líklegast í betra formi þá en í dag.


Fimmtudagur - Styttist í hlaupin

Sjúkraþjálfinn sagði: Þú mátt byrja að hlaupa en farðu rólega. Ég get ekki beðið og nú er mikilvægt að fara eins rólega og mögulegt er. Byrja á byrjandaprógrammi um helgina. Æfingar á svifdiski ganga þokkalega, mér fer eitthvað fram.

Fimmtudagur - Stirður á jafnvægisbretti

Hitti sjúkraþjálfarann í hádeginu; var búinn að gefast upp á þessu. Varð aðeins stirðari og stirðari með hverjum deginu. Þjálfinn nuddaði og píndi, og skaut mig svo með laser í fótinn. Sagði mér svo að kaupa jafnvægisbretti. Nú stend ég, þess á milli er ég skrifa hér og geri teygjur, og geri jafnvægisæfingar til að styrkja taugar milli beina í ökkla. Nú stend ég á brettinu og reyni. 

Jafnvægisbretti


Fimmtudagur - Sjúkraþjálfari hittir auman blett

Dóttirin fór á sundæfingu og ég leit við hjá sjúkraþjálfara sem ég er kunnugur. Bar mein á borð og hann studdi fingri á - gat þó ekki eins og Frelsarinn bætt mitt mein með sinni handaryfirlagningu - en sagði, hér skaltu styðja fingri og hreyfa ökklann. Æ! hvað þetta var vont en eftir að hafa gert þetta nokkrum sinnum hvarf verkur og hann sagði það þarf oft ekki meira. Er ég kom heim fékk ég soninn, íþróttamennið, til að gera hið sama og svo píndi barnið föður sinn. Þjálfinn sagð, einnig, að teygjusokkurinn gerir svo sem gagn en hann nær ekki djúpt inn í rist þar sem allt er stirt og stíft - þess vegna skaltu reyna þetta í nokkra daga.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband