Færsluflokkur: Bloggar

Hlaupið að morgni

Í síðustu viku hljóp ég tvívegis og á nýjum skóm, hafði einnig verið teygður og stunginn af sjúkraþjálfara; öxl, háls og hásin. Beið alltaf spenntur að kæmi verkur en ekkert gerðist, sem betur fer.

Í þessari viku verður hið minnsta hlaupið þrívegis og ætli verði ekki miðað við 40 til 50 mínútna hlaup í hvert skipti.

Í morgun hljóp ég með dótturinni sem var á hjóli; hún rak mig af stað. Nennti ekki út í gærkvöldi eftir siglingu á Faxaflóa að leita hvala. Við fórum snemma út og samtals hljóp ég í næstum 45 mínútur með hléum til að teygja og toga. Heimsóttum móðurina í bókhaldinu, Einar langa, sem gerir nú við pústið á bílnum í enn eitt skiptið, og komum við í hjólabúð (og þar spurðum við - lesist: ég - kjánaspurninga því bremsan á hjóli stúlkunnar var föst). 

Leiðin var hefðbundin og ég gaf í á nokkrum stöðum, beinu köflunum og það var allt í lagi. Verð þó að viðurkenna að ég var nú ekki nógu duglegur að teygja þegar ég kom heim. Gerði þó þær helstu. Lofa að gera betur á morgun.


Hlé á hlaupum

Átti að hlaupa í gær - sunnudag - en ákvað vegna meiðsla í hásin að reyna ei á. Tek frí í nokkra daga. Kæli sin, bryð bólgueyðandi og fæ mér svo nýja skó en ansvítlans þeir kosta svo mikið. Vonandi verður þetta allt í besta lagi.

Hef lesið ýmsar hlaupasíður og sé þá ýmislegt sem staðfestir þennan grun minn. Enda, er ég fór í göngugreiningu, kom í ljós minn innhalli. Þetta er hásinin.

Ég skoðaði skó á laugardaginn. Þeir kosta 21 þúsund hér á landi en 12 í Lundúnum. Ætli þeir hafi, fyrir mistök, víxlað tölunum. Hér er talað um verð í viðurkenndri verslun sem framleiðandinn rekur. Sendi frænda mínum póst og spurði hvort hann væri nokkuð á leiðinni til landsins eða vissi um einhvern. Ætti að fá einhvern til að kaupa og bera heim. 

Svo koma tölur fyrir síðustu viku, sem lauk ekki á fullnægjandi hátt. Upplýsingar eru í þessari röð: Vikunúmer, fjöldi, tími, vegalengd og kkal. brenndar.  

26: 3 - 1:41 - 15,9 - 1.495 

25: 5 - 2:41 - 26,3 - 2.489


Upphaf viku: Léttur hringur, undirbúningur

Áætlun vikunnar krefst þess að ég fari fjögur hlaup, í 15 mín., 50 mín. og tvívegis 20 mín. Í dag hljóp ég í næstum 20 mín. í stað 15. Leiðin sem ég fór er skv. Borgarvefsjá 3,4 km. Þá hefst vælið - kannski er það svo í upphafi hvers hlaupaferils, - eftir teygjur á stífum vöðvum og herptum sinum hefi ég verið með verk í framanverðum sköflungi; það er svo sem ekki nýtt. Enn ein vísbendingin um að ég skuli kaupa mér nýja skó og eftir kjánakaupin í gær (skrefmælir með tónhlöðungi) neyðist ég til að kaupa Nike skó.

Á morgun er 50 mín. hlaup og vonandi verða þessir verkir í framanverðum sköflunginn horfnir. Ætla að smyrja bólgukrem sem unglingurinn íþróttamaðurinn fékk fyrir nokkru. Smyr það á þegar ég kem úr sturtu. Svo er spurning um að kæla.


Vikunni lokið með 30 mínútna hlaupi

Vikunni lauk með 30 mínútna hlaupi í gærkvöldi - sunnudag. Hljóp sömu leið og venjulega, spretti úr spori á löngu köflunum og brekkunni við Sólvang; var þá með dóttur og hjól í drætti. Dóttirin fylgdi með á hjólinu sem áður og var oftast nær á undan. Þetta gekk alveg ágætlega, engir verkir að ráði í hnésbót vegna stirðleika. Stoppaði einu sinni til að teygja á kálfum og lærum, er ekki að ástæðulausu kallaður Íslands stirðasti maður. 

Í stuttu máli sagt þá hélt ég áætlun og bætti um betur. Ein æfing til viðbótar. Fimm æfingar, hljóp samtals í 2 klst. og 41 mín., samtals 26,3 km. og brenndi 2.489 kkal. Breytir þó litlu með þessar kkal. eigi verð ég léttari.

Þessi vika skv. áætlun Polar-mann er auðveld og ég ætla að fylgja henni. Ástæðan er einföld: svo eigi komi upp álagsmeiðsli. Nógu stirður er ég og liðkast seint. Á að hlaupa fjórum sinnum: 15 mín., 50 mín., 20 mín., 20 mín. Fyrsta hlaupið er á morgun, Týsdag, þá langt hlaup á Óðinsdegi og svo hvíld. Að lokum tvö til viðbótar með hvíld á milli. Sé til hvort aukahlaupi verði skotið inn á milli.

Gerði kjánakaup. Keypti hlaupamæli fyrir iPod en vissi ekki að sérstaka skó af Nike-gerð þarf svo allt gangi nú eftir. Ég neyðist því til að kaupa mér skó á næstu vikum. Þarf hvort eð er að endurnýja. Það verður gaman. 

5 - 2:41 - 26,3 - 2.489 


30 mínútna rúntur með dóttur

Gekk ágætlega að hlaupa litla hringinn og dóttirin fylgdi mér á hjóli. Stundum var ég á undan en hún oftast. Vindur var nokkur en veðrið gott -- sól og hiti -- svo það skipti ekki máli. Þurfti þó stundum að ýta henni á hjólinu þegar mótvindurinn var mestur.

Í dag er miðnætur- og Jónsmessuhlaup en ég tek ekki þátt í ár; vonandi á næsta ári. Hljóp 2003, og var það fyrsta tímatökuhlaupið mitt. Kom sjálfum mér á óvart og fór 10 km á 52 mínútum. Veit að ég get það ekki í dag en vonandi á næstu vikum.

Ég og dóttirin vorum á fótboltamóti í dag. Hún spilar í 8. flokki og gaman að sjá leikgleði stúlknanna. Þeim gekk ekki vel en það skipti þær ekki máli; tóm gleði og fögnuðu stundum þegar andstæðingarnir skoruðu.


Nú voru það 43 mínútur

Fyrsta færslan.

Hljóp í 43 mínútur og fylgi áætlun Polar-manna eins og oft áður. Eftir hlé í nokkra daga, var í Danmörku, þá náði ég í nýja áætlun og vonandi held ég hana út. Hef ekki verið nógu duglegur að æfa til að fara hálft maraþon eins og var ætlunin. Nú er, af hófsemd, stefnt á 10 km í tímatökuhlaupum.

Leiðin sem ég fór er skv. Borgarvefsjá 7,4 km. Finn þó aðeins fyrir verk í kálfa - alltaf vælandi - en vonandi er það ekkert. Vonandi aðeins þreytuverkur og vöðvi í uppbyggingu. Gæti mín þó á því að teygja vel og vendilega þegar æfingu er lokið. Líka á meðan hlaupi stendur.

Skv. áætlun er 30 mínútna hlaup á morgun - lofaðir séu Polar-menn - og stúlkubarnið fer með hjólandi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband