Fimmtudagur - Vatnsmýrarhlaup 2009

Þreytti mitt þriðja Vatnsmýrahlaup og hljóp vegalengdina, sem er 5 km, á 22:02 mínútum (Garmstími) og bíð eftir opinberum tíma; sem er líklega 22:06. Markmiðið var að jafna eða bæta minn besta tíma í þessari vegalengd. Ekki tókst það, vantar nokkrar sekúndur. Minn besti tími eru 22:01 (frá árinu 2003). Mér leið ágætlega allt hlaupið ef hægt er að segja að mann líði vel við þessi sjálfspínandi átök. Þriðji km var þó ögn erfiður - mótvindur sem tók aðeins í svo gaf ég í síðasta kílómetran og hefði ég vitað hve nálægt ég var takmarkinu.

Hjólað á morgun, ef ekki of mikil rigning, og hlaupið langt rólegt á laugardaginn.


Mánudagur - Hjólabrók

Ég er loksins kominn í hjólabrók og þeyttist sem vindurinn fyrir nesin fjögur; að vísu var ég mest allan tíman með hann í fangið. Á leiðinni hitti ég Looloo Skott og var hún mér mikil hvatning, því ég átti eftir að fara fyrir Seltjarnarnes þar sem oftast nær er vindur. Á heimleið fór ég um Fossvoginn og var það ágætis tilbreyting. Kominn heim voru rúmir 60 km að baki.

Fyrr í dag hljóp ég spretti. Prógrammið hljóðaði upp á "Fratleik" sem ég hefi aldrei skilið svo ég ákvað bara að hlaupa fimm átta hundruð metra spretti á Kapla. Aðstæður voru hreint út sagt frábærar. Sprettina fór ég með vaxandi hraða. Fyrsta hljóp ég á 3:33, svo koll af kolli; 3:28, 3:22, 3:22 og 3:19. 

Á morgun verður hjólað í vinnu og hlaupið rólega um kvöldið.


Laugardagur - Hlaupið í Heiðmörk

Ég fór með hjólið í viðgerð, þá var hlaupið og hjólið sótt. Þvílík gæfa að þeir voru með opið í Hjólaspretti og hann lagaði afturgjörðina þar sem teinar gefa sig hver af öðrum. Þetta kallar maður góða þjónustu. Hann telur líklegast að það hafi verið hert of mikið þegar það var sett saman og þess vegna of mikil spenna í gjörðinni. Svo ætla þeir að taka það í allsherjar yfirhlningu í vikunni og vonandi hættir þetta þá.

Það voru kjöraðstæður til að hlaupa. Ég ákvað að hlaupa hægt rólega næstum 20 km. Fór í áttina að Heiðmörk og hljóp þar eftir stígunum. Þarf að finna leiðina úr Heiðmörk og að Helgafelli. Einhver sagði að leiðin lægi um Búrfellsgjá.

Ég ætla að hjóla á morgun.


Föstudagur - Hjólahlaup og teinabrot

Ekkert nýtt. Allt samkvæmt venju. Ég hjólaði til vinnu og heim. Æfði tog, enda fór ég hraðar yfir. Svo, er heim var komið, hljóp ég létt liðkunarhlaup. Áður þuklaði ég á dekkjum í leit að steinvölum og glerbrotum; fann tvö brot sem ég plokkaði úr. Hefðu eflaust eftir einhvern tíma sprengt slöngu ef ekkert hefði verið gert. Þá gerðist það, aftur! Enn einn teinn gaf sig í afturgjörð. Þetta er einhver ansvítlans galli. Vonast ég til að geta fengið gert við þetta á morgun. Þetta gengur ekki lengur.

Annars er þessi mánuður á enda og hér koma helstu tölur. Hreyfði mig í 36 klst., hljóp í 17 klst og hjólaði í 19. Samtal hljóp ég 131 km en hjólaði 458. Svo verðum við bara að sjá til hvað gerist í ágúst.

Á morgun verður langt rólegt.


Miðvikudagur - Tvíþraut á Krýsuvíkurvegi

Afrekum mínum eru engin takmörk sett! Tók þátt í tvíþraut þar sem var hjólað og hlaupið. Fyrst voru hlaupnir fimm kílómetrar, þá hjólaðir þrjátíu og að lokum hlaupnir fimm. Það var fyrir brýningarorð járnmannsins Steins sem ég tók þátt. Vissi svo sem ekkert hvað ég var að fara út í en ákvað að láta reyna á það.

Ekki byrjaði það gæfulega. Áður en keppnin hófst, og ég enn heima, ákvað ég að líta á hjólið. Hreinsa keðju og smyrja, bæta lofti í dekk og fjarlæga bretti. Það gekk vel að hreinsa og smyrja en þegar ég var að bæta lofti í framdekkið beyglaði ég ventilinn. Ákvað því að fara upp á bensínstöð og blása þar í dekkið en þá vildi ekki betur til en að ég braut hann og nú voru góð ráð dýr. Fjörutíu mínútur í start og nú varð ég bara að gjöra svo vel að skipta um slöngu. Það tókst mér á tíu mínútum, og þá átti ég eftir að koma mér á staðinn; úr Norðurbæ upp á Krýsuvíkurveg. Varð því að hjóla aðeins hraðar en til stóð í upphafi. Eftir á að hyggja þá var þetta bara fínasta upphitun.

Er ég mætti á staðinn voru allir þátttakendur komnir og voru þeir að gera sig tilbúna. Keppnisstjóri, fagurmæltur, lýsti aðstæðum og gerði grein fyrir leið og reglum. Að hætti atvinnumanna voru hjól sett á slár og búnaður þar fyrir aftan. Svo var startað og við byrjuðum á að hlaupa. Ég ákvað að hlaupa á skynsamlegum hraða en halda þó hlaupataktinum undir 4:50 mín/km. Það gekk eftir og lauk ég hlaupi á 23:30 mínútum (4:41 mín/km) og þá var komið að því að hjóla. Ég fór léttstígur, með ósýrð læri, á milli svæða. Þar sem ég var ekki í neinum hjólaskóm skellti ég mér á fákinn, fékk mér að drekka, gleypti eitt gel og hjólaði af stað. Hjólatúrinn var alveg ágætur; meðvindur inneftir en mótvindur á leiðinni til baka, og hefði þá verið kostur að vera í hjólaskóm. Hraðinn hjá mér var þokkalegur, þó ég segi sjálfur frá, og meðaltali 29 km. Reyndi að liggja á fák og minnka mótstöðu. Toga og stíga niður af krafti en halda góðum og þægilegum snúningi. Síðustu kílómetrarnir á hjólinu voru þungir; ég fékk krampa í aftanverð læri. Hjólatúrinn tók 1:02 klst. Kominn á skiptisvæðið var ég stífur staurleggur og með krampa í lærum, en beit á jaxlinn og hóf hlaupið. Hraði var ekki mikill til að byrja með en smám saman jókst hann og komst á skrið. Fyrsti kílómetrinn var hlaupinn mjög hægur, 5:25 mín, en svo fór ég að rúlla og fór vegalengdina á 24:30 mín (4:54 mín/km). Þrautinni lauk ég, með skiptitímum, á 1:54:43 klst og er bara ánægður með það.

Svo má nú ekki gleyma rúsínunni í pylsuendanum: Ég fékk útdráttarverðlaun, brúsa og orkustykki frá Afreksvörum. Haraldur mætti svo á svæðið þegar ég var að hlaupa í síðara skiptið og fylgdi mér á hjólinu; var gott að fá hvatningu frá honum og öðrum. Kominn heim var ég alveg þokkalegur í skrokknum, aðeins strengir í aftanverðum lærum. Svo verður að koma fram að öll framkvæmd var frábær og veðrið eins gott og verður á kosið.

Nú hvíli ég fram á föstudag, þá verður hlaupið til liðkunar og að sjálfsögðu hjólað til og frá vinnu. Hleyp svo eitthvað um helgina.


Mánudagur - Kjúklingaæta hljóp spretti á Kapla

Að venju fór ég upp á Kapla til að hlaupa sprettina sem voru á dagskrá; fimm átta hundruð. Hljóp þá að bilinu 3:38-3:46 mín. Ekki komst ég á tartanið, boltaleikur á vellinum svo ég fór á æfingarvellina þar fyrir ofan. Ágætt að hlaupa á grasinu. Þetta gekk ágætlega, var þungur á mér til að byrja með; var nýbúinn að borða eitt kjúklingalæri með rjómasósu. Kannski ekki besta undirstaðan en maður þarf að hafa eitthvað til að brenna.

Kominn heim reyndi ég að gera teygjur - gott að enginn sá  til þegar stirður reyndi sig á jógadýnunni.


Sunnudagur - Hjólatempótúr í lok viku

Kominn kraftur í æfingar, stirðleiki í lærum horfinn og í kvöld hjólaði ég eins og vindurinn. Veit ekki hvað ágætir Álftnesingar hafa haldið; er ég fór hring eftir hring. Var um stund á báðum áttum hvort ég ætti að fara út eður ei. Rigningarskúrir öðru hvoru og ég velktist í vafa. Fór svo og einsetti mér að hjóla 32 km. á þokkalegum hraða. Stillti Garm, að halda skyldi að jafnaði 24 kílómetra hraða því þetta átti að vera rólegt, og þegar ég var kominn út á götu var meiri kraftur í karli en svo. Meðalhraðinn var 27 og hefur ekki verið svona hár áður. Næst verð ég að setja mér hærri markmið. Þegar ég kom heim var ég fótblautur og með rúsínutær; æ! mig vantar skóhlífar.

Í gær hljóp ég langt til að meta ástandið á skrokknum - að vísu ekki voðalega langt - en samt 16 kílómetrar. Eftir hlaupið, sem var hóflega hratt (5:45 mín/km) var ég óstjórnlega þyrstur, var samt, eins og alltaf, með vökva með mér. Drakk eitthvað á þriðja lítra þegar ég kom heim og þá fyrst hvarf höfuðverkur sem kemur stundum í vökvaþurrð. 

Í vikunni tek ég þátt í tvíþraut, hlaupnir verða fimm kílómetrar, hjólaðir þrjátíu og í lokin hlaupnir fimm. Hef aldrei gert slíkt áður og veit ekkert hvernig muni til takast. Það er bara að fara ekki of geyst í upphafi. Þarna verða helstu hetjur; járnmenn og aðrir kappar. Ég smámennið mun mæta ofjörlum sínum.


Fimmtudagur - Hringhjólað í roki

Nú er ráð að koma krafti í æfingar eftir hlaupið langa - skrokkurinn virðist búinn að jafna sig eftir átökin. Ég get, hið minnsta, beygt mig niður og rétt úr mér - lærin eru að verða þokkaleg - og ég kemst ofan stigann með sóma. Fór því, í annað skipti, út að hjóla eftir að herrarnir höfðu gert við gjörðina. Fyrst hjólaði ég í nokkra hringi innan bæjar og velti því fyrir mig hvort ég ætti að fara fyrir nesin. Vindur var of mikill svo ég hélt áfram að hjóla í hringi, og oftast mótvindur. Fór svo í áttina að Krýsuvík og hjólaði um iðnaðarhverfið - þegar ég var búinn að hjóla þar um þrjátíu kílómetra var ég blásinn og stefndi heim á leið og þegar þangað var komið voru u.þ.b. 40 km að baki.

Á morgun ætlað ég að hlaupa létt um bæinn en hvíla hjólið. Á laugardaginn verður svo langt rólegt hlaup.


Miðvikudagur - Stirðbusi hjólar

Fór út að hjóla til að ná úr mér stíflelsi og stirðleika eftir hlaupið á laugadaginn. Harðsperrurnar hafa verið ótrúlega miklar. Ég fór hægt og rólega fyrir þrjú nes. Ætlaði að klára 50 km en þegar stutt var eftir þá gaf sig teinn í afturgjörð; þetta er örugglega galli og gerðist nú í annað skipti á stuttum tíma. Fór með hjólið í viðgerð og fæ það aftur á morgun.

Á orðið auðveldara með að ganga ofan stigann. Hleyp kannski á morgun, en mjög rólega. Svo hefi ég verið gert, í huganum, áætlun um næstu hlaup. Styttist í Reykjavíkur-maraþon en á eftir að ákveða hve langt skuli hlaupa; kannski heilt ef ekki þá örugglega hálft.


Sunnudagur - Laugavegur hlaupinn á laugardegi

Úff! ég er vaknaðu. Komst með herkjum upp úr bæli, strengir í framanverðum lærum gera mér næstum ókleift að standa upp og setjast niður með þokkafullum hætti. En þetta hófst allt um miðja nótt. Hópur karla og kvenna mætti inn í Laugardal og hélt í áttina að Landmannalaugum - öll áttum við það sammerkt að vera með gul armbönd og ætluðum okkur að takast á við eitt erfiðasta utanvegahlaup sem haldið er hér á landi. Þrekraun þar sem hlaupið og gengið er um fjöll og firnindi, vegalengd sem er samtals 55 kílómetrar.

Hlaupið hófst í Landmannalaugum klukkan níu. Áður smurði ég mig með vaselíni, djásn og aðra núningsfleti. Startað var í hollum fyrst; gulir, rauðir, grænir og bláir, og ég var grænn. Í upphafi hlaups er allt á fótinn, brattar brekkur og snjóbreiður. Brekkurnar voru ekki sem verstar. Til að byrja með var ég stífur í kálfum en það lagaðist um leið ég var orðinn heitur. Það sem tafði mig var snjórinn, sem var orðinn blautur og laus í sér en verst var móðan sem settist á gleraugun. Þetta hægði töluvert á mér og missti marga fram úr mér. Allt tók það enda og mætti ég á næstu stöð sem er við Hrafntinnusker (10 km). Ekki get ég gefið upp millitíma því ég var í vandræðum með Garminn hafði fiktað í stillingum kvöldið áður svo hann komst ekki í gang fyrr en á þriðja kílómetra.

Næsta stöð á eftir Hrafntinnuskeri er Álftavatn (22 km). Á þeirri leið er þrekraunin að komast klakklaust niður mikla bratta langa brekku sem við Jökultungur. Það var mér til happs að einn starfsmaður hlaupsins var á þeim slóðum og fylgdi hann mér niður brekkuna. Ræddum við hlaupið og tímasetningar og þá áttaði ég mig á því að ég varð að breyta um og setja mér ný tímatakmörk. Var farinn að finna fyrir þreytu í framanverðum lærum. Þegar ég var kominn niður brekkuna var tiltölulega slétt, einn og einn hóll sem þurfti að hlaupa yfir. Á þessum stað byrjaði að rigna og það var ekkert smáræði. Ég varð gegndrepa en sem betur fer var hlýtt svo það kom ekki að sök. Við Álftavatn fyllti ég á vatnsbirgðir, fékk mér orku og verkjatöflu - fyrirbyggjandi aðgerðir.

Næsta stöð á eftir Álftavatni eru Emstrur (38 km) og þangað þarf maður að koma sér áður en sex stundir eru liðnar frá því að maður fór af stað. Á þessum tíma skokkaði ég á sléttum, gekk rösklega upp brekkur en fór hægt niður allar brekkur. Verkir í lærum voru orðnir þónokkrir og varð ég stundum að bíta á jaxlinn. Á þessum legg þarf að vaða eina á, Bláfjallakvísl. Þar fara sumir hlauparar í plastpoka til að halda sér þurrum en ég ákvað að láta bara vaða. Þóttist viss um að kalt vatnið myndi bara gera mér gott og hressa stífa vöðva. Skór og bolur voru blautir og skipti ég um. Fékk mér súkkulaði, orku og drykk. Pjakkaði svo af stað, reyndi að halda góðum hraða og drekka. Á þessari leið vorum við þrjú sem skiptumst á að leiða. Sama taktík var notuð, hlaupið á sléttu, gengið rösklega upp brekkur og varið hægar niður brekkur. Við komumst í Emstrur innan marka en það mátti varla tæpara vera - síðasti spölurinn að skálanum er niður brekku og þá öskruðu lærin; ekki meir! ekki meir!. Gott var að koma þangað, þar fékk ég mér goslaust kók, ó hvað það var gott. Ég borðaði mörg súkkulaði stykki, gleypti gel og hvað eina sem að kjafti kom. Viðurkenna skal ég að það var erfitt að koma sér af stað. Brekka niður frá skálanum var erfið, fór hægt, var stirður og stífur - vonaðist bara til þess að þetta myndi nú jafna sig.

Á eftir Emstrum er Húsadalur (55 km), endamarkið. Mjög fljótlega þarf að fara niður brekku ágætlega langa brekku. Ég var samferða öðrum hlaupara og voru við sannarlega fagrir á að líta. Stirðir eins og gamlir karlar. Okkur til hvatningar komu nokkrir starfsmenn hlaupsins, sem höfðu áður verið í Emstrum, og fóru þeir sem fjallageitur fram úr okkur. Þetta varð mér hvatning er ég kom upp á sléttuna og reyndi þá að rúlla þetta; fór hægt en stílinn var alls ekki fagur. Undir lok þessarar leiðar er ein brekkan - Kápan - og það var ekki erfitt að fara upp hana en að fara niður var mjög erfitt og líklegast hörmuleg sjón. Eitt og eitt hænuskref. Er því var lokið kom ein á sem þurfti að fara yfir - Þröngá - og var mjög gott að fá kælingu á stífa leggi. Þá var aðeins eftir að skakklappast síðasta spölinn og var mér ómögulegt að fara hratt niður brekkur en á jafnsléttu reyndi ég að hlaupa og sérstaklega þegar styttist í markið. Kappsmál að koma þokkafullur í mark.

Jæja þá koma tölur: Ég var ekki síðastur en með þeim síðustu. Í 303 sæti af 312 og tíminn 8:53:52 klst. Núna, daginn eftir, er ég í þokkalegu ástandi nema að stirður í lærum og er sem Stekkjastaur. Ef ég tek þátt í þessu hlaupi aftur, sem er æði líklegt, þá þarf ég að æfa mig ögn betur. Hlaupa upp og niður fleiri fjöll, ekki bara einu sinni upp á Esju. 

Að lokum vil ég bara lýsa yfir ánægju með framkvæmd hlaupsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband