Miðvikudagur - Nuddaðir kálfar

Nennti ekki að hlaupa í kvöld; frestað því til morguns. Konan var mér svo góð á bóndadegi að gefa mér nudd og eftir vinnu lagðist ég á bekk inn í reykelsisreykmettuðu herbergi þar sem spiluð var ljúf panflaututónlist, og þar var ég strokin bæði ljúflega og ákveðið. Tekið var á aumum blettum og stífum kálfum - allt nuddað þar til ég komst í alsælu. Spriklaði þó nokkrum sinnum vegna taugaherpings. Mun örugglega endurtaka þetta því þetta dregur úr hættunni á meiðsl herji á auman skrokk. Og, á morgun verður hlaupið, ó! hve léttur í spori ég verð.

Þriðjudagur - Stífir kálfar fara langt rólegt um bæinn

Þetta var langt rólegt hlaup um bæinn, 11,5 km. Átti stundum erfitt með að halda aftur af hraðanum en með viljastyrk tókst það. Í upphafi hlaups voru kálfar stífir en urðu mýkri þegar á leið. Fór Setbergshring með aukalykkju um höfnina. Færðin var ágæt og nauðsynlegt að vera á keðjum.

Á morgun verður rösklegt þriggja km hlaup með upphitun og niðurskokki (Æ! finnst þetta orð: "niðurskokk" slæmt!)


Mánudagur - Loksins sprettir með kjuklingasamloku í maga

Loksins voru hlaupnir sprettir. Varla var þó farandi út; rok og rigning, en það lægði, hætti að rigna og byrjaði að snjóa. Þá dreif ég mig eftir að hafa verið á báðum áttum, búinn að borða tvær samlokur með kjúkling og osti. Ekki besti undirbúningur fyrir spretti.

Ekki var hægt að hlaupa á Kaplakrika, allt í klaka, svo ég fór út að Hrafnistu. Þar er gamalmennagata sem liggur í boga, út af aðalgötunni og til baka, og sárasjaldan keyrt eftir. Hún er næstum 800 metra löng og tilvalin til að taka spretti á. Þangað á ég eftir að fara aftur.

Dagsskipunin var fjórir 800 m sprettir á hlaupataktinum 5:06-4:54 mín/km. Þetta tókst mér, gerði aðeins betur, og fór ég sprettina, að meðaltali, á: 4:52, 4:50, 4:50 og 4:35. Á síðasta spretti gaf ég í og var líka móður eftir. Og ef þetta er fært yfir í Yasso-einingar þá hljóp ég hvern sprett á: 3:54, 3:52, 3:52 og 3:40 mín. Takist mér að hlaupa tíu slíka spretti á undir fjórum mín þá tekst mér að hleypa heit á undir fjórum klst

Á hlaupunum verkjaði mig í sköflunga - líklega vegna þess hve hratt og fast var stigið niður. Vonandi verður þetta mér ekki til trafala.

Á morgun verður rólegt hlaup, lullandi 11 km.


Laugardagur - Þriðju viku lokið

Engan eymingjagang! Þú skalt út! Þegar ég vaknaði bylti ég mér nokkrum sinnum, þóttist finna verk í vöðva, og hugsaði: Æ! ég hleyp nú varla svona! - En eftir smá stund sagði ég við sjálfan mig: Þú ert búinn að gefa fyrirheit um Laugavegshlaup og klára þetta maraþon sem þú hefur alltaf ætlað að þreyta. Farðu af stað og þetta verður bara fínt.

Ég skríddist hlaupagalla, bar hitakrem á aumu blettinna, og náði í spilastokkinn. Velti vöngum yfir hvort nota skyldi keðjur eða ekki - líklegast enn þá hált. Ákvað að engar keðjur skyldi nota enda snemma á ferðinni og þá tækifæri til að hlaupa á auðum götum. Fyrir lá að hlaupa 14,5 km á hægum takti. Ætlaði að hitta Haukamenn sem hlaupa stundum í áttina að Álftanesi; en þeir hafa farið eitthvert annað eða ég misst af þeim. Svo mitt hlaupa voru slaufur um Hafnarfjörð.

Annars eru helstu tölur þessar síðan æfingar hófust á ný. Þriðja vika er að baki. Í fyrstu viku voru hlaupnir 29 km, í síðustu viku 42,3 km og svo núna 46,1 km.  Ef löngu hlaupin á laugardögum eru borin saman þá kemur í ljós að púls hefur fallið úr 168 í 154, hraðinn er sá sami en lengjast aðeins, og fyrr en varir verður púls kominn niður í 140.

Næsta vika verður skemmtileg - þá eru sprettir. Fjórum sinnum 800 metrar. Hlaupaviku skal lokið með hröðu 10 km hlaupi.

 


Föstudagur - Liðkun fyrir langt

Færðin er slæm og gangstéttar ófærar - hálka og enginn sandur. Varð að fara út á götu, eins og í gær, og fór þar sem umferðin er lítil. Þetta var ekki langt, sex kílómetrar á hægum hraða, enda liðkunarhlaup. Á morgun verður langt, 14,5 km., en nú, þegar þetta er skrifað, er ég þreyttur og engin nenna. Í fyrramálið verð ég skrækur og fer út.

Í vinnunni var auglýst að í næsta mánuði hefst n.k. hreyfingarvika á landsvísu og þá ætlum við, eins og alltaf, að rústa keppninni. Nú mega þeir Einar og Eiríkur Smári vara sig!


Miðvikudagur - Hálkuhlaup í Hafnarfirði

Þetta var þriðja hlaupið í þessari viku og örlar fyrir þreytu. Færðin var slæm; hálka og lítil viðspyrna. Fáir stígar bornir sandi og neyddist, stundum, til að fara út á götu tl halda hraðanum upp. Fór inn í íbúðahverfin og hljóp frísklegur og þokkafullur um hafnfirskar einstefnugötur á móti umferð sem var nú engin. - Heim kominn át ég fiskiklatta (afgang frá kvöldmatnum) og teygði á stuttum hamstrengjum. - Feginn hvíldinni fram á föstudag, þegar hlaupið verður til liðkunar, og svo langt á laugardaginn.

Annars voru tölurnar þessar: 1,6 km í upphitun, 4,8 rösklega og 1,6 km rólega í lokinn. 


Þriðjudagur - Rólegt hlaup eftir próteindrykkinn nýja

Hlaupin í dag voru róleg - átta kílómetrar á hægum takti - og svo var farið í sund til að teygja á leggjum á meðan dóttir og frænka æfðu sund. Ugglaust er það fyndið að sjá karlhlunk í potti kastandi fótum öðru hvoru upp á brún og halla sér svo fram. Hlunk sem titrar og nötrar af vöðvaherpingi. Ég sé engan annan sundhallargest gera svona. Finn að þetta hefur einhver áhrif og ég er ekki ómögulegur í ökkla og get staðið í tröppunni og teygt á hásininni.

Á morgun verður rösklegt, aftur átta kílómetrar.


Mánudagur - Þrír sprettir hraðir er seint tóku enda

Út fór ég og spretti úr spori - sukkjöfnun eftir helgina. Þrisvar sinnum 1,6 km. með stuttri 400 m. hvíld var dagsskipunin. Átti að hlaupa hvern sprett á bilinu 5:20-5:08 mín. Þetta tókst mér og hver sprettur 5:02, 5:04 og 5:07 og síðasti spretturinn var erfiður.

Heim kominn teygði ég, át kjötafganga og drakk tvo lítra af vatni. 

Á morgun verður hlaupið hægt, 8 km.


Laugardagur - Langt út á Álftanes

Dagurinn hófst með lýsis- og tedrykkju og áti, ristað brauð með marmelaði. Þá var skrýðst hlaupaklæðum, t.d. nýjum hlaupanærbuxum frá Ameríku (keyptar þegar dalurinn var 96 kr. (er nú 127 kr.)). Var að vonast eftir að hitta Jóa og Haukana og svo varð. Þegar ég hljóp í áttina að miðbænum hljóp ég í fasið á honum. Hann var að sjálfsögðu fyrstur og meðhlauparar hans langt fyrir aftan. Ég sneri við og við hlupum saman út á Álftanes.

Hlaupið var nú ögn hraðar en harðstjórinn mælti með en ekki svo. Þá var einnig reynt að tala á hlaupum og það tókst. (Las einhvers staðar að það væri ágætis viðmið um rólegt hlaup ef menn gætu haldið uppi samræðum án vandræða, þá væru þeir á réttu róli). Hlaupatakurinn var 5:55 (síðast 6:05) og veglengdin 13 km.

Heim kominn teygði sonur á fótum föður síns. Svo var drukkið og étið skyr til að jafna vökvabúskap og hindra höfuðþrautir. Í eftirrétt var harðfiskur.

Á morgun, sunnudag, verður hvílt en svo hefst ný hlaupavika. Tveimur vikum af sextán er lokið. Farið verður fimm sinnum og hvert með sitt einkenni: sprettir, rólegt, rösklegt, liðkun og langt.


Föstudagur - Liðkunarhlaup

Þetta var liðkunarhlaup; því á morgun verður langt og kannski kræki ég mig á Haukamenn í morgunsárið. Þetta var hægt og rólegt í hálkunni og þess vegna gott að vera á keðjum. Allan tíman var ég verkjalaus í ökkla, og uppgötvaði það ekki fyrr en var meir en hálfnaður. Kálfar voru stífir í upphafi en það aftraði mér ekkert á hlaupunum. Heim kominn, gætti ég þess að teygja vel og vandlega á þeim.

Ég skoðaði önnur hlaup í þessum mánuði, sömu vegalengd og fyrirmæli, og þá kemur í ljós að púls heldur áfram að falla, sem er gott! Í dag var hann, að meðaltali, 146 og verður forvitnilegt að sjá hvað gerist næsta föstudaga þegar sama vegalengd og sami hraði.

Þar til á morgun, langt rólegt næstum þrettán kílómetrar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband