Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Mánudagur - Kálfur sporlétti á Kapla með boltakellum

Kálfur hljóp sex 800 metra spretti (tók þá ekki eins og stundum er sagt). Hann fór upp í Kaplakrika á frjálsíþróttabrautina, sem var snævi þakin, og þar hafði hann tækifæri til að glenna sig - í kvöld voru fótboltastúlkur að hlaupa. Hann æstist allur við þetta, eins og þegar boltadrengirnir voru að reyna sig, og tók sporléttur fram úr þeim við hvert tækifæri sem gafst.

Ég bar sprettina í dag saman við þá sem ég hljóp í lok janúar og sýnist mér að púlsinn hafi fallið að jafnaði um tíu slög og hraðinn aukist töluvert. Núna var hlaupatakturinn að meðaltali um 4:39 en þá um 4:52. Hraðast fór ég vegalengdina núna 3:29 mín en síðast 3:40 og ég að dauða kominn þegar því lauk. 

Skrokkurinn var þokkalegur - nema mig verkja ögn í sköflung í upphafi og kálfur var stífur og ég gat nú ekki alveg beitt mér. Þarf að finna eitthvað til að losa um þennan auma vöðva. Þetta mein skal burtreka.

Á morgun, skal ég samkvæmt áætlun, hlaupa rólega, eina átta kílómetra. Vonandi tekst mér það áfallalaust, á miðvikudaginn skal fara rösklega eina sextán en um helgina eru það þrjátíu kílómetra sem er mælikvarðinn um að ég geti hlaupið mitt heila maraþon í lok næsta mánaðar.


Fimmtudagur - Hljóp í Powerade á 48:21

Þetta var mitt fyrsta tímatökuhlaup á þessu ári. Veðrið var stillt og gott, hiti við frostmark og örlítil ísing á brautinni en alls ekki til trafalla. Ég fór af stað með það að markmiði að jafna tímann frá því fyrir ári - 49:18 - og óskandi ef mér tækist að bæta hann. Klukkan mín mældi 48:21 en bíðum þar til opinber tími birtist.

Þetta tókst mér og ég reyndi að hlaupa af skynsemi - mundi að fyrst væri á fótinn í u.þ.b. 2,5 km, þá niður í móti í næstum fimm og svo upp brekku dauðans - hin margnefnda rafstöðvarbrekka. Hún var erfið en kannski léttari en áður og þakka ég það brekkusprettum. Notaði þá aðferð að telja staura og urra þegar ég væri búinn að hlaupa fram hjá tíu. Á síðasta kílómetranum notaði ég sömu aðferð og gaf í. Ég sé að fyrsti kílómetrinn var lélegastur af þeim öllum og er það aðeins mannþrönginni í upphafi að kenna - kannski þarf ég bara að koma mér framar í startinu.

Þarna voru mörg kunnuleg andlit og hestafrændi hljóp með mér.

Hlaupatakturinn og hraði var þessi:

 1000    5:08     5:08 mín/km =11.69 km/t   
 1000    4:52     4:52 mín/km =12.33 km/t     
 1000    4:50     4:50 mín/km =12.41 km/t     
 1000    4:37     4:37 mín/km =13.00 km/t     
 1000    4:35     4:35 mín/km =13.09 km/t     
 1000    4:29     4:29 mín/km =13.38 km/t     
 1000    4:37     4:37 mín/km =13.00 km/t     
 1000    5:08     5:08 mín/km =11.69 km/t     
 1000    5:24     5:24 mín/km =11.11 km/t     
 1000    4:41     4:41 mín/km =12.81 km/t


Þriðjudagur - Þyngslahlaup

Þetta var rólegt þrettán kílómetra þyngslahlaup og mér fór ekki að líða vel fyrr en vel var liðið á skokkið. Ég var með verk í sköflungi og kálfum enda var líka tekið á því í gær. Held að mér sé enginn annar kostur í boði en að kaupa mér nýja mjúka skó - dempun er löngu farinn úr þessum sem ég á - enda botnar slitnir og skór næstum eins árs.

Ef veðrið verður vont á morgun þá hvíli ég; ef gott á fimmtudag þá tek ég þátt í Powerade. Verð hið minnsta að ná einu á þessum vetri og þetta er það síðasta í vetur.

 


Mánudagur - Massatempóhlaup með vaxandi hraða

Vaxandi massatempóhlaup um fjörðinn. Dagskipunin hljóðaði upp á þrem sinnum 2,4 kílómetrar á góðum hraða. Átti að hlaupa hvern sprett á hlaupatakti á bilinu 5:20-5:08 mín/km. En óþekkur, sprettharður, gat ekki farið svona hægt heldur hljóp hvern sprett á með meiri hraða enn þann fyrri: 5:00; 4:50 og 4:40, og ákvað að gefa í í þeim síðasta.

Kominn heim var ég bara þyrstur og svangur og gerði eins og sonurinn, fyllti könnu af vatni og þambaði. Á morgun skal hlaupa rólega eina 12 kílómetra og gæli svo við að hlaupa Powerade á fimmtudaginn.


Laugardagur - Mitt lengsta til þessa

Dagskipunin hljóðaði upp á 28 kílómetra rólegt hlaup á hægum hraða. Ég lagði af stað um klukkan níu í morgun, því ég vissi að þetta myndi taka einhvern tíma, 2:46 klst.  Ég hafði áður talað við hestafrænda og ákvað að pikka hann upp þegar ég væri hálfnaður með hlaupið. Leiðin var hefðbundin: Slaufa um Setbergið, Lækjargata, Hverfisgata, miðbær og þaðan upp á Holt. Þá var ég búinn að hlaupa fjórtán kílómetrar og Haraldur bættist við og haldið út á Velli og þaðan niður í bæ og út að Hrafnistu og svo til baka um Álftanesveg. Að lokum lykkja um Norðurbæinn og heim. Þegar hlaupagikkir komu heim hófst mikið át og hleðsla eftir átökin. Við drukkum íþróttadrykki, átum próteinstykki og fleira sportlegt. Svo var farið í sund til að teygja og jafna sig eftir átökin.

Þegar ég var búinn að þessu var stefnt í barnaafmæli en ég fylltist þreytu og ákvað hleypa mæðgunum einum en vera sjálfur heima. Ætlaði að leggja mig í smá stund en svaf í þrjá tíma og þegar þetta er skrifað er ég enn svolítið þreyttur.

Annars eru tölurnar þessar: Ég hljóp sömu vegalengd og í síðustu viku, 51 kílómetra. Svo öllu sé haldið til haga þá sleppti ég einu hlaupi, æ! það var svo kalt. Hlaup vikunnar tóku 5:20 klst. Meðalpúlsinn hefur lækkað um sex slög, er núna 145 slög.

Í næstu viku verður þetta með sama hætti - hratt, rólegt, rösklegt, rólegt og hálft maraþon. Nú er bara að jafna sig eftir átök dagsins í dag. Kálfurinn er þreyttur í vinstri kálfa!


Föstudagur - Hefðbundið liðkunarhlaup á 132 slögum

Ég nennti ekki að hlaupa í frostinu á miðvikudaginn. En, á föstudögum, eins og allir mínir dyggu lesendur vita, að þá er létt liðkunarhlaup fyrir lengri hlaup á laugardögum; farið er rólega um hverfið. Keppst við að fara eins hægt og mér er uppálagt - það tókst næstum og viti menn púlsinn hefur aldrei verið eins lágur, 132 slög.

Á morgun verða hlaupnir 28 kílómetra á rólegum hraða og þá verður best að klæðast í tvöföldum buxum - ef mér verður kalt þá fæ ég verk í sköflunginn sem hverfur ekki fyrr en ég er orðinn sæmilega heitur. Fyrst ætla ég að hlaupa lykkju um hverfið og slaufu um Setbergið, og sækja svo "hestafrænda" upp á Holt, og hlaupa með honum síðustu kílómetrana. Þetta verður spennandi - mun skrokkurinn þola álagið.


Þriðjudagur - Þreytt rólegt hlaup á Völlum

Fáar fréttir af þessu hlaupi nema hlaupandinn var þreyttur og svangur. Hljóp, rólega um Vellina, tvo hringi, rúmlega ellefu kílómetra, og stundum blés á móti og skaflar voru á göngustígum. Eftir hlaup fór ég í sund með dóttur og frænku. Teygði og velti fyrir mér hvort ég ætti ekki að hvíla á morgun - var lengi þeirrar skoðunar og er enn. Þetta breytist á morgun - þá verð ég sprækur.

 


Mánudagur - Spóaleggur spretti úr spori

Þetta var í fyrsta skipti sem ég hljóp tvöhundruð metra spretti og þeir voru tólf. Ég ákvað að fara upp á Kapla, þar er undirlagið mjúkt og svo sportlegt að hlaupa á braut. Er ég kom þangað voru fleiri fyrir, sporléttir fótboltadrengir og tvær stúlkur, einnig sporléttar.

Ég átti að hlaupa sprettina á hlaupataktinum 5:06-4:54 á laupataktinum. Ég var nú svo bráður - fylltist kappi þar sem ég var ekki einn á brautinni og fannst að ég yrði að taka fram úr fótboltadrengjunum sem ég og gerði. Hljóp því sprettina beinn og brattur, hraðast 3:36 og hægast 4:23.

Skrokkurinn, á meðan ég hljóp og eftir sprettina, var fínasta lagi - ég gætti þess að hita sköflunga vel og vandlega áður en ég fór af stað. Á morgun verð ég heima, það er starfsdagur í skóla, og ætla að fara snemma út að hlaupa. Það liggur fyrir að hlaupa rólega næstum tólf kílómetra og kannski, ef færðin verður í lagi fer dóttirin með.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband