Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Laugardagur - Synt til liðkunar með bringusundshné

Hef ekki hlaupið neitt þessa vikuna. Velti því fyrir mér í morgun að fara langt en sundbrölt síðustu vikna hefur þreytt vinstra hné - klassískt bringusundshné með eymslum utanvert, nokkuð sem er þekkt meðal kappsfullra sundmanna. Af þeim sökum læt ég duga að hjóla og synda á meðan þetta jafnar sig. Fór því í laugina í þriðja skiptið í þessari viku og synti með blöðkunum - æfði skriðsunds- og baksundstök. Í potti var svo teygt af krafti - fann nýja teygju fyrir aftanverð læri, og ég nötraði.

Ég hjólaði fjórum sinnum til vinnu, það rigndi á mig í flest öll skiptin og varð ég gegnblautur til fóta. Í eitt skiptið á leiðinni heim, þegar rigndi sem mest, sprakk að framan. Varð hjólagarpur að setjast inn í strætóskýli til að skipta um slöngu  og það gekk vel. Aðrir ferðalangar, sem komu inn í skýlið urðu sannarlega undrandi er þeir sáu hvílík hetja var þarna; menni sem næstum reif dekkið af gjörðinni með tönnunum, skipti um slöngu og pumpaði í nýja slöngu á fumlausan hátt.

Þá var ég næstum farinn að gráta einn morguninn; hélt Garminn minn, traustan fylgdarsvein, dauðann. Ég stóð sportlegur frammi á gangi. Klæddur í hjólabrók með buff á höfði og hjálm í klofi (átti eftir að setja hann upp á hausinn). Var tilbúinn til brottfarar, út í rokið og rigninguna, með sportúrið á handlegg og kveikti á því. Beið þess að himintunglin næðu sambandi við mig. Ekkert gerðist og ég fylltist örvæntingu - auður, tómur skjárinn glotti - en lét ekkert á því bera hversu aumur ég var. Fór klökkur inn í eldhús og setti Garminn í samband við ferskt rafmagn, ekkert gerðist. Ég fór út án úrs og lagði hjólandi af stað. Alla leiðina til vinnu velti ég því fyrir mér hvað skyldi gera. Ekki hef ég efni á að kaupa nýjan Garm - kosta nú 44 þúsund en kostuðu 24 er ég fékk hann haustið 2007. Góða sterka íslenska krónan! Hugsaði með mér: Ég hætti snemma í dag og hjóla heim. Fer til þeirra sem flytja inn Garmana og læt þá líta á, ég hringi í húsfrúna og bið um bílinn til að reka þessi bráðnauðsynlegu erindi. Allt þetta var gert en húsfrúin svaraði ekki. Svo hringdi hún til baka og var heima. Ég bað hana klökkri röddu að líta á gripinn - og viti menn! Hann var á lífi. Rafhlaðan var bara tóm og ég að taugaveiklast að óþörfu. Ég tók gleði mína á ný. Þá sagði hún: Þú ert fljótur til þegar þetta bilar og minnti mig á hillur i kjallara sem bíða þess, og hafa beiðið lengi, að vera settar upp.

Kannski verður synt á morgun. Leiðtoginn hefur sent okkur æfingu í tölvupósti.


Þriðjudagur - Var með klofkút í kvöld

Mætti á sundæfingu karla og kellinga í kvöld og finn mun - framfarir mínar eru marktækar enda syndi ég með klofkút. Meistaraefnið spinnir nú léttilega og tekur kafsundstak, telur milli sundtaka og lætur sig fljóta, teygir á búk í handatökum bringusunds og skriðs, lætur tær snertast er fætur koma saman. Horfir afslappaður á botninn, setur sveig á handahreyfingu í skriðsundstaki, gætir sín á að anda og reynir ekki að skvetta á aðra sundmenn. Efnið er ekki fyrst, en fer hraðar.

Hjólaði til vinnu í morgun og lengdi fyrir nesin á leiðinni inn eftir. Mikill mótvindur á leiðinni til baka og fór beint yfir hæðirnar. 


Laugardagur - Hjólað eftir snittum

Ég sótti hjólið úr viðgerð í vikunni, nú skipt var um alla teina í afturgjörð nær tannhjólum; gjörð af þessari gerð þolir ekki mikla notkun. Í dag var mér ekki til setunnar boðið, ég varð að fara út að hjóla. Túrinn var stuttur - rúm klukkustund og 30 km. - og fór um innanbæjar. Hjólaði með fram ströndinni og er var ég kom út á enda, við Straumsvík þar sem var verið að opna nýja skítadælustöð og prúðbúnir stóðu, og var mér af einum kunnugum boðið upp á snittur. Að sjálfsögðu þáði græðgigrís nokkrar og hjólaði svo af stað nokkra hringi.

Veit ekki með morgundaginn: Síðbúið bekkjarafmæli hjá dóttur um hádegisbil en eftir það geri ég eitthvað.


Fimmtudagur - Það er karl með klofklút í lauginni!

Ég mætti á Garpaæfingu í kvöld - man ekki alveg hvað var uppálagt. Eitt er þó alveg víst: Ég fór mikinn miðað við mína getu! Fyrst syndi ég eingöngu á höndum og síðan með fótum, svo bæði á höndum og fótum. Er meistarinn reyndi sig aðeins á höndum - eins og á öðrum garpaæfingum - var hann með klofklútinn, erfðagóss frá íþróttadrengnum, og buslaði áfram í skriðsundstökum. Ég fer nú ekki ofan af því að sundtökin eru betri í dag en þau voru fyrir nokkrum vikum en það er langt í land. Þá er mátti synd eingöng, bæði með höndum og fótum, reyndi ég skriðsund og komst ég yfir án þess að vera nærri drukknun. Þá var mér leiðbeint með bringusundið - ekki svona mörg handatök láta þess heldur renna.

Mánudagur - Maður með tábergsblöðru hleypur um Norðurbæinn

Þar sem ekki var hjólað til vinnu og baka, enn brotinn teinn, þá varð ég að fara út að hlaupa. Skv. hlaupaáætlun, sem líklegast nær hámarki í haustmaraþoni í lok október, var mér skipað að hlaupa hratt eins og svo oft á mánudögum. Dagskipunin voru þrír 2,5 km sprettir á hraðanum 5:01-4:48 mín/km. Að sjálfsögðu upphitun, hvíld og niðurskokk.

Kominn út var ég þungur á mér og fann til óþæginda í núningssári frá því í hálfmaraþoninu. Ég límdi  það með íþróttateipi frá handboltadrengnum í þeirri von að þetta yrði ekki alslæmt. Svo var strengur í aftanverðu læri en hann hvarf er ég var kominn af stað, og gleymum ekki harðsperrunum frá því á laugardaginn. Til að slá á óværuna þá teygði ég á milli spretta. Annars var þetta með vaxandi hraða og það skal alveg viðurkenna að þetta tók svolítið á. Fyrsti sprettu á hlaupataktinum 4:47, og næstu tveir á 4:44 mín/km.

Á morgun verða hlaupin hvíld en þessi í stað verður sundæfing hjá Görpum - þá mun ég sýna þokkafullt skriðsund í Ásvallalaug.


Laugardagur - Aftur hálft og tíminn bættur

Á síðustu stundu áðkvað ég að taka þátt í Reykjanes-maraþoni. Ég hljóp í fyrra á 1:46:11 klst.; nú var ráð að mæta aftur og reyna að bæta sig. Það voru kjöraðstæður til hlaups - skýjað, átta til tíu stiga hiti og örlítil gjóla. Ég stillti Garminn til viðmiðunar á 1:41 klst. og lagði af stað. Nú var munur að þekkja leiðina. Hún vel merkt og gæslumenn á hverjum gatnamótum. Til að byrja með hljóp ég á jöfnum hraða og gætti mín á því að fara ekki of geyst. Stoppaði á drykkjarstöðvum og gleypti eitt gel. Á 15 kílómetra þurfti ég að pissa og tapaði við það tíma. Svo koma brekka dauðans - Grænás - og þar ákvað að fara á hægum hraða, vitandi að eftir hana var undanfæti. Þá keyrði ég aftur upp hraðan og fór þetta með vaxandi hraða. Síðasti kílómetrinn var erfiður og þá varð ég að bíta á jaxlinn. Tíminn minn, skv. Garmi, var 1:41:45.

Ég fékk útdráttarverðlaun! Mánaðarkort í líkamsræktinni Lífsstíl en þar sem ég er nú ekki alltaf í Reykjanesbæ þá gaf ég það aftur.

Eftir hlaupið er ég þokkalegur. Að vísu með nuddsár á ilinni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband