Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Þriðjudagur - Vottar enn fyrir harðsperrum

Á þriðjudögum er oftast nær sprettir en eftir átök laugardags var réttast að taka því rólega. Fjölmargir voru mættir upp á Kapla - sama gengið og áður en vantaði þó Nonna. Dagskipun var hægur hlaupataktur og Hrönn leiddi hópinn. Farið var í áttina að Garðabæ og skrölt með fram villunum á Sjálandi og kvendin fóru í kælingu; þær vættu leggi og skó í ilströndinni en ég ásamt fleirum lét það ógert. Komin til baka upp á Kapla þá var teygt og rædd hátíð hlaupahópsins sem verður í næsta mánuði. Næsta æfing er á fimmtudaginn.

Bara til að því sé haldið til haga: Þá hjólaði ég til og frá vinnu.


Reykjavíkurmaraþon 2010, hálft

Ég vaknaði klukkan sex, teygði á fótum, kreppti ristar og skynjaði að allt virtist í lagi – ég gæti, ef ég vildi, hlaupið eins og vindurinn í RM. Skrokkurinn var í þokkalegu standi – fótameinin öll hin sömu, hvorki meiri né minni. Kominn á fætur klæddi ég mig í hlýrabol, sem ég keypti í gær og nú er ég ógeðslega kúl, stuttbuxur, sokka og skó. Tíndi saman í tösku annað hlaupadót sem ég taldi mig þurfa að hafa með mér til Reykjavíkur. Ég borðaði hefðbundinn morgunverð, hafragraut með hunangi, appelsínusafa og tvöfaldan expressó. Að þessu loknu gerði ég bæði liðkandi og losandi æfingar en gætti mín á því að fara rólega í allar fettur.

Brynja Björg og Erla sóttu mig svo um átta og við fórum inn til Reykjavíkur. Er við nálguðumst bæinn sáum við að veðrið var allt annað en í Hafnarfirði, þar sem það er ævinlega best. Runnu á okkur tvær grímur er við sáum sjóinn við Sæbrautina, freyða og frussast langt upp á götu. Ég velti því fyrir mér hvort það væri ráðlegt að hlaupa í hlýrabol í þessum kulda. Gerðist ég hlaupahlunkur með vaxandi taugaveiklun; aukabolur eða ekki – þar er efinn.

Við komum að MR skjálfandi á beinunum, hittum liðsfélagana og fóru menn með brýningar og hvatningarorð. Tíminn leið hratt og menn rottuðu sig saman í hópa eftir því hve hratt skyldi farið. Ákváðum nokkur, Kristín, Þórdís og Guðmundur að fylgja héra – liðsmanni hlaupahópsins – er ætlaði að fara leiðina á 1:45 og sjá svo til hvernig hvernig hverjum og einum liði.

Skyndilega varð markbyssunni skotið og við rukum af stað. Öll, svo uppfull af orku, reyndum við að hafa hemil á okkur. Ég og Guðmundur fylgdumst að vel og lengi, kannski vissi hann ekkert af mér, og gætti ég þess að missa hann aldrei langt frá mér. Á leiðinni út á Seltjarnarnes hitti ég félaga vorn Arnar, Bjartsmennið mesta, sporléttu hindina. Við köstuðum kveðjum hvor á annan og héldum áfram einbeittir. Hlaupið hélt áfram og það fór aðeins að blása og allt í einu var sé staddur inni í þvögu hlaupandi karla sem klufu svo vel vind og héldu góðum hraða, og allir hlaupararnir söfnuðust saman bak við hávaxinn vindbrjót er allt klauf. Það var alveg ágætt því ég hafði breytt áætlun minni ögn; í stað þess að fara á 4:50–4:55 tempói ákvað ég að bæta í til að eiga eitthvað upp á að hlaupa ef vindurinn á Sæbrautinni yrði óþolandi. Þess gerðist ekki þörf – ég hélt uppteknum hætti og gaf ekkert eftir. Meðaltempóið var komið í 4:40 og nú var bara að halda því til loka og stundum efaðist ég um hvort það væri gerlegt. Að venju stoppa ég á drykkjarstöðvum, hef aldrei náð þeirri tækni að drekka á ferð, fæ alltaf allt í andlitið. Ég sleppti fyrstu stöðinni, fékk mér tvö glös af vatni á þeirri næstu og þar eftir annarri hverri. Það vantaði einhvern vökva í kroppinn til að jafna út orkugelið sem ég gleypti í upphafi hlaups; kannski ekki rétt að gera svo því maginn var eitthvað að láta vita af sér.

Eins og aðrir þá hélt ég áfram að hlaupa. Fram undan mér var Guðmundur og gætti ég þess að missa hann ekki langt frá mér, svo voru það sporlétti Ameríkaninn, sem var að hlaupa heilt, og annar karl sem ég hef séð í mörgum hlaupum. Við skiptumst á að leiða og halda uppi hraða. Það verður ekki sagt að þetta hafi verið neitt sérstaklega þægilegt en þetta var samt sem áður ekkert óþægilegt.

Miklu skipti, þegar maður var að djöflast þetta, að leiðtoginn Steinn, hið margfalda járnmenni, var alltaf að brýna. Hann hjólaði milli staða og kallaði hvatningaorð og það varð til þess að maður gaf í og fékk aukinn kraft. Einnig var þar vestfirska járnmennið, Bobbi, sem lét í sér heyra. Takk fyrir það – alltaf gott að fá hvatningu.

Hlaupið hélt áfram, og mér finnst munur að búið er að breyta leiðinni; ekki lengur hlaupið gegnum gámasvæði. Nú eru tvær brekkur í stað einnar sem er löng – bananabrekkan við Klepp. Áður en ég kom að brekkunum gerðist nokkuð. Maður einn, sem ég sporléttur tók fram úr og hafði hinn þokkalegasta hlaupastíl, kallaði: Örn! ekki hægja á þér! Þar var kominn skjalavörðurinn og ritstjórinn á Selfossi, Þorsteinn Tryggvi. Báðir ætluðum við að bæta okkur ef aðstæður væru okkur að skapi – fara rólega af stað en hlaupa þetta á undir 1:40 ef svo bæri við. Þetta fyllti mig krafti, að vera lítill leiðtogi, og ég bætti frekar í heldur en hitt; ég hljóp og ég hljóp, og hann hljóp á eftir mér. Kominn upp á Kleppsveg í áttina að Laugarásbíói reyndi ég að halda jöfnum hraða; ekki bæta of mikið í. Það gekk eftir og ég hljóp á jöfnum hraða. Einn og einn kílómetri að baki og það styttist í markið. Þegar ég kom svo að Höfða sá ég að ég hafði möguleika á að bæta tíma minn svo um munar. Því skal þó ei neitað að það var kominn þreyta í lappir – en ég hélt áfram. Þar var enn einn FH-ingurinn og haldið var uppteknum hætti – hlaupið. Svo allt í einu var ég kominn inn á Lækjargötu og markið blasti við mér. Ég leit á hlaupaúrið og sá að ef ég gæfi nú í, tæmdi tankinn og öskraði ögn, myndi mér takast að hlaupa þetta á undir 1:40. Ég beit á hinn jaxlinn og gaf í – tók fram úr.

Hlunkur komst í mark: Hálft maraþon, PB 1:39:34 (markklukka), 1:39:15 (flaga). Fjörutíu mínútna múrinn hefur verið brotinn.

Í markinu voru allir kátir og hressir – þó mest sveittir og þyrstir. Piltungar og stúlkur gáfu okkur að drekka. Þegar komið var af marksvæði hittist hópurinn hreifur. Allir voru að bæta sig. Ég ætlaði að gera allt rétt og hlaupa stutt rólegt niðurskokk en líkaminn sagði nei – lærin eru steikt og stíf, og eru það enn þegar þetta er skrifað nokkrum klukkustundum síðar. Þetta er að ég held mitt sjöunda hálfa maraþon. Hljóp fyrst 2003: 1:49:37. Gaman að það er alltaf hægt að bæta sig.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband