Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Þriðja hlaup í annarri viku

Hljóp í 30 mínútur, fór rólega yfir, enda átti þetta hlaup, skv. áætlun að vera rólegt . Ætli mér hafi ekki tekist það því meðalpúls var aðeins 145, öllu lægri en vanalega. Oftast fer ég hraðar yfir. Dóttirin fylgdi mér, sem oft áður, á hjóli og við breyttum leiðinni, var búinn að lofa henni að fara fram hjá leikskólanum, svo við beygðum upp af Strandgötunni og fórum fram hjá Gamla bókasafninu, eftir sundurgrafinni Hverfisgötu og upp Smyrlahraun. Fyrir vikið var meira um brekkur og mæddist stúlkan á leiðinni. Vegalengdin var skv. borgarvefsjá 4.5 km.

Eitt veldur mér áhyggjum á hlaupum, og kann að vera að þar sé líkaminn að kalla eftir nýjum skóm (fiskað eftir réttlætingu!); verkir í vinstri löpp: Bæði í kálfa og kringum hné. Brátt byrja útsölur í íþróttaverslunum og jafnvel á morgun skoða ég hvað er í boði. 

Hestafrændi kom í heimsókn og lét hann vita af næsta áætlaða hlaupi: 7.7.2007. Nú er bara að sjá til hvort kroppur verði í lagi og þá verður fyrsta 10 km. tímatökuhlaup.

Polar-menn skipa mér í hlaup á sunnudag og er yfirskriftin "interval". Skilst það vera hratt og rólega til skiptis. Sjáum til með hné og kálfa en farið verður. Kannski verð ég kominn með nýja skó.


50 mínútur um Hafnarfjörð

Ætlaði varla að nenna þessu þegar ég kom heim úr vinnu. Vældi og volaði í sjálfum mér í allan dag; æ og ó! kálfar og læri, eitthvað er nú þar í ólagi. Ákvað þó að bera íþróttakrem á vel vaxinn kálfa og fara af stað, vera ekki bráður og ör á fyrstu metrunum. Nokkur verkur í sköflungi í upphafi en þegar ég var orðinn heitur lagaðist það. Stoppaði tvívegis og teygði. Gætti mín á að púls væri ekki of hár, og það þýddi að ég fór ekki hratt yfir. Á leiðinni hljóp ég fram á tvær konur og voru það allir er ég sá á hlaupum.

Gerandi langt hlaup stutt: 8,0 km. á 49 mín. (hef nú farið hraðar yfir), meðalpúls 148 (var meðvitað).

Næsta tímatökuhlaup verður 7. júlí en ekki ákveðið hvaða vegalengd.

Næsta hlaup á Frjádag, 20 mín., rólegt rölt. 


Upphaf viku: Léttur hringur, undirbúningur

Áætlun vikunnar krefst þess að ég fari fjögur hlaup, í 15 mín., 50 mín. og tvívegis 20 mín. Í dag hljóp ég í næstum 20 mín. í stað 15. Leiðin sem ég fór er skv. Borgarvefsjá 3,4 km. Þá hefst vælið - kannski er það svo í upphafi hvers hlaupaferils, - eftir teygjur á stífum vöðvum og herptum sinum hefi ég verið með verk í framanverðum sköflungi; það er svo sem ekki nýtt. Enn ein vísbendingin um að ég skuli kaupa mér nýja skó og eftir kjánakaupin í gær (skrefmælir með tónhlöðungi) neyðist ég til að kaupa Nike skó.

Á morgun er 50 mín. hlaup og vonandi verða þessir verkir í framanverðum sköflunginn horfnir. Ætla að smyrja bólgukrem sem unglingurinn íþróttamaðurinn fékk fyrir nokkru. Smyr það á þegar ég kem úr sturtu. Svo er spurning um að kæla.


Vikunni lokið með 30 mínútna hlaupi

Vikunni lauk með 30 mínútna hlaupi í gærkvöldi - sunnudag. Hljóp sömu leið og venjulega, spretti úr spori á löngu köflunum og brekkunni við Sólvang; var þá með dóttur og hjól í drætti. Dóttirin fylgdi með á hjólinu sem áður og var oftast nær á undan. Þetta gekk alveg ágætlega, engir verkir að ráði í hnésbót vegna stirðleika. Stoppaði einu sinni til að teygja á kálfum og lærum, er ekki að ástæðulausu kallaður Íslands stirðasti maður. 

Í stuttu máli sagt þá hélt ég áætlun og bætti um betur. Ein æfing til viðbótar. Fimm æfingar, hljóp samtals í 2 klst. og 41 mín., samtals 26,3 km. og brenndi 2.489 kkal. Breytir þó litlu með þessar kkal. eigi verð ég léttari.

Þessi vika skv. áætlun Polar-mann er auðveld og ég ætla að fylgja henni. Ástæðan er einföld: svo eigi komi upp álagsmeiðsli. Nógu stirður er ég og liðkast seint. Á að hlaupa fjórum sinnum: 15 mín., 50 mín., 20 mín., 20 mín. Fyrsta hlaupið er á morgun, Týsdag, þá langt hlaup á Óðinsdegi og svo hvíld. Að lokum tvö til viðbótar með hvíld á milli. Sé til hvort aukahlaupi verði skotið inn á milli.

Gerði kjánakaup. Keypti hlaupamæli fyrir iPod en vissi ekki að sérstaka skó af Nike-gerð þarf svo allt gangi nú eftir. Ég neyðist því til að kaupa mér skó á næstu vikum. Þarf hvort eð er að endurnýja. Það verður gaman. 

5 - 2:41 - 26,3 - 2.489 


30 mínútna rúntur með dóttur

Gekk ágætlega að hlaupa litla hringinn og dóttirin fylgdi mér á hjóli. Stundum var ég á undan en hún oftast. Vindur var nokkur en veðrið gott -- sól og hiti -- svo það skipti ekki máli. Þurfti þó stundum að ýta henni á hjólinu þegar mótvindurinn var mestur.

Í dag er miðnætur- og Jónsmessuhlaup en ég tek ekki þátt í ár; vonandi á næsta ári. Hljóp 2003, og var það fyrsta tímatökuhlaupið mitt. Kom sjálfum mér á óvart og fór 10 km á 52 mínútum. Veit að ég get það ekki í dag en vonandi á næstu vikum.

Ég og dóttirin vorum á fótboltamóti í dag. Hún spilar í 8. flokki og gaman að sjá leikgleði stúlknanna. Þeim gekk ekki vel en það skipti þær ekki máli; tóm gleði og fögnuðu stundum þegar andstæðingarnir skoruðu.


Nú voru það 43 mínútur

Fyrsta færslan.

Hljóp í 43 mínútur og fylgi áætlun Polar-manna eins og oft áður. Eftir hlé í nokkra daga, var í Danmörku, þá náði ég í nýja áætlun og vonandi held ég hana út. Hef ekki verið nógu duglegur að æfa til að fara hálft maraþon eins og var ætlunin. Nú er, af hófsemd, stefnt á 10 km í tímatökuhlaupum.

Leiðin sem ég fór er skv. Borgarvefsjá 7,4 km. Finn þó aðeins fyrir verk í kálfa - alltaf vælandi - en vonandi er það ekkert. Vonandi aðeins þreytuverkur og vöðvi í uppbyggingu. Gæti mín þó á því að teygja vel og vendilega þegar æfingu er lokið. Líka á meðan hlaupi stendur.

Skv. áætlun er 30 mínútna hlaup á morgun - lofaðir séu Polar-menn - og stúlkubarnið fer með hjólandi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband