Laugardagur - Reykjavíkurmaraþon, 10 km

Ég hljóp og komst í mark. Gefnir eru upp tveir tímar, byssu- og flögutími. Ef ég miða við flöguna þá hlaup ég vegalengdina á 51:02, og er það mun betri tími en ég átti von á. Ég ætlaði að vera undir 60 mínútum og helst á milli 50 og 55 (dulin ósk), og það tókst. Og ef ég hefði nú komið mér fyrir á réttum stað í upphafi hlaups - þar sem þeir sem ætluðu sér á hlaupa á þessum tíma komu saman í startinu -, ekki aftast þar sem ég varð að ganga fyrsta hálfa kílómetrann og lulla áfram í mannmergðinni þá hefði ég kannski náð að hlaupa vegalengdin á undir 50 mínútum. Þó er víst að þetta tókst og ég var á betri tíma en ég átti von á; það eina sem ég get nú er að bæta tímann minn.

Þetta leið þó ekki vel út í gærdag. Þegar ég vaknaði fann ég til illsku í hægra hné (fór, að öllum líkindum, of geyst í fyrradag þegar bollan fór um bæinn, hefði átt að hvíla). Hnéð var stíft og það brakaði í því. Þegar ég kom heim úr vinnu fór ég í gufubað í Sundhöll Hafnarfjarðar, sat inni í klefanum í 20 mínútur í hvert skipti (og þar var vel heitt), fór síðan í nuddpottinn og lét dæluna ganga á hnésbót, kálfa og lærvöðva. Þetta gerði ég þrívegis og var ágætur þegar ég hélt heim á leið. Þegar ég kom heim bar ég PENZÍN á auma staði, gleypti tvær íbófentöflu, fékk mér einn bjór og staup af Gamel Dansk, krosslagði fingur í von um bata, og fór að sofa. Í morgun fór ég snemma á fætur, hreyfði til löppina og hún virtist í lagi. Eftir morgunmat og stólgang byrjaði ég að hita upp með léttum og ljúfum strokum, fylgdi þar leiðbeiningum teygjubókar. Meðan á þessu stóð taugaveiklaðist ég yfir hnénu en það var allt í lagi og hélt ótrauður áfram að hita. Þegar ég kom inn til Reykjavíkur hélt ég svo áfram að hita upp og teygja. Svo var hlaupið.

Hestafrændi tók líka þátt í hlaupinu. Við urðum viðskila fyrir startið og hittumst ekki fyrr en í markinu. Honum gekk betur en mér enda í betra formi . Hefir æft lengur, þó ekki hlaup heldur róðra, og á þar Íslandsmeistaratitilinn vísan. Hann lauk hlaupi á 48 mínútum. Eigum við ekki að segja að mitt næsta markmið verði að ná honum 

Nú er næst að hvíla í nokkra daga, byrja svo á ný í þar næstu viku. Set markið fyrst á Vetrarhlaupin, veit einnig að til að ná árangri þá verð ég að gera ýmislegt, m.a. styrkja mig og létta, og hlaupa lengri vegalengdir án þess að stoppa. Núna, þegar þetta er skrifað, er ég ögn stífur í fótum og hásinin auk (alltaf það sama). Ætla að bera krem á hana og fara snemma að sofa.

Dóttirin tók þátt í Latabæjarhlaupi, og hún hljóp tvisvar. Fyrst með sínum aldursflokki og síðan með vinkonu sinni sem er árinu yngri. 

Að lokum koma hér tölur:

 

33: 3 - 2:03 - 21,0 - 2.124

32: 4 - 3:26 - 34,1 - 3.506 

31: 5 - 3:14 - 32,9 - 3.284

30: 4 - 2:37 - 22,3 - 2.344 

29: 2 - 1:20 - 11,0 - 1.260 

26: 3 - 1:41 - 15,9 - 1.495 

25: 5 - 2:41 - 26,3 - 2.489

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband