Færsluflokkur: Hlaup

Fimmtudagur - Flugleiðahlaup 33:13

Þetta var ágætt hlaup. Ég hljóp þetta á 33:13 (35:43), bæting um tvær og hálfa mínútu. Mér leið vel allt hlaupið, hið minnsta betur en síðast, fyrir árið síðan. Þá þurfti ég að stoppa tvisvar sinnum til að ná aftur andanum og var nærri dauður þegar ég kom í mark.

Á morgun verður hvílt og svo liggur fyrir að hlaupa langt um helgina.


Miðvikudagur - Jafnt og þétt í úða

Mitt var að hlaup næstum 5 km jafnt (steady) - dæmi um þegar hlaupaáætlanir stjórna lífi hlauparans - og hlauptakturinn á bilinu 5:26-5:14 mín/km.  Ég keyrði dótturina á sundæfingu og sagði henni að hitta mig svo í lauginni þegar hún væri búinn að synda og ég að hlaupa. Ég fór hlaupandi frá lauginni og velti fyrir mér; hve hratt skal fara, og var með Flugleiðahlaupið, sem er á morgun, í huga. Er ekki best að hvíla og taka því rólega fyrir keppnishlaup? En það varð nú ekki alveg svo, ég hljóp jafn og þétt, næstum fimm km og hlaupatakturinn var 5:02 mín/km. Allt í lagi með það! Hvíli bara vel í kvöld! Í lauginni teygði ég vandlega og fann hvernig rólegar teygjur, t.d. fyrir aftanverð læri, eru betri en þessar höstugu teygjur sem ég hefi stundum beitt. Maður lærir þetta smám saman. Annars er axlarverkurinn kominn og við honum er aðeins eitt ráð; sittu beinn og höfuðið aftur.

Jæja! Flugleiðahlaupið er á morgun. Síðast hljóp ég kílómetrana sjö á 35:43. Veit ekki hvað ég geri á morgun. Fer allt eftir "fílíngnum" þegar verður hleypt af stað. 


Þriðjudagur - Kjáni tapaði texta í stafrænu svartholi

Var búinn að skrifa eina langa færslu en gerði eitthvað vitlaust og hún týndist í stafrænu svartholi. Mun nú endurskrifa hana stytta. Helstu atriði: Kveinaði yfir verk í öxl, sagði frá að hetjan hefir haldið það út að gera bæði armbeygjur (aumingjaútgáfuna) og bolbeygjur. Nennti varla að fara út en fór og hljóp 8 km á rólegum hraða og næst verður hlaupið á morgun, stutt aðeins um 5 km en svo kemur að Flugleiðahlaupi. Styttri útgáfa.

Sunnudagur - Loksins innan marka

Fyrsti dagurinn í 16 vikna æfingaráætlun fyrir Reykjavíkurmaraþon rann upp, hlýir vindar blésu, og ég fór út og hljóp af stað. Fyrir mér lá að hlaupa rólega einar 4 mílur eða 6,44 km og hlaupatakturinn á bilinu 6:01-6:14 mín/km. Þetta tókst mér og ég reyndi að halda aftur af mér - og vera ekki graður eins og konan í sundlauginni sagði þegar menn voru að rekja hlaupasögur. Fáir voru á ferli en er ég hlaup göngustíginn að baki Álfaskeiði kom Steinn þríþrautarkappi á fleygiferð á hjólinu.

Þegar hlaupi lauk fórum við dóttirin í sund og fyrir valinu varð Árbæjarlaug, sem er að vísu langt frá heimilinu; þar teygði ég og hitti aðra hlaupara sem voru að koma úr löngu helgarhlaupunum. Þar skiptust menn á sögum og hve erfitt það getur verið að hlaupa rólega og það var þá sem konan kenndi óhemjuháttinn við greddu sem er alveg ágætt.

Lesendum hefi ég lofað bol- og armbeygjum og skal þeim til upplýsingar tilkynnt að nú, þegar þetta er skrifað, nokkrum klukkustundum eftir hlaup og sund; að í valnum liggja 50 bolbeygjur og tíu armbeygjur. Skal ég fúslega viðurkenna að armbeygjurnar voru mjög erfiðar.

Á morgun verður hvílt en svo mun ég hlaupa hægt 8 km á þriðjudaginn (6:05-5:52 km/mín). Einnig skal tilkynnt að ég hefi skráð mig í Flugleiðahlaupið á fimmtudaginn.


Laugardagur - Farið af stað einum degi of snemma

Út að hlaupa einum dagi of snemma. Æfingaráætlunin byrjar víst ekki fyrr en á morgun, sunnudag. Uppgötvaði þetta þegar ég, samvitzkusamlega, ætlaði að velja æfingu dagsins: 4 mílur rólegar (6:01-6:14 mín/km). Ég var kominn út, garmurinn hafði náð sambandi við gervihnettina, og það var ekkert annað að gera en að hlaupa rólega af stað. Var ekki búinn að ákveðan neina sérstaka leið, nema eða ná út úr þessu einhverjum hring. Börnin vöknuð og dóttirin tilbúin að hleypa mér út og drengurinn í sturtu, en móðirin í útlöndum með vinnufélögum. Þetta átti að vera rólegt hlaup og mér tókst það. Hljóp þessar 4rar mílur eða 6,44 km á 38:24 mín er gerir hlaupataktinn 5:57 mín/km.

Það sem er þó merkilegast, og lofaði síðast þegar ég skrifaði. Að nú skal byrjað á styrkjandi æfingum. Áður en ég fór af stað þá gerði ég tuttugu magaæfingar og þegar ég kom heim á endurtók ég leikinn og gerði aftur tuttugu magaæfingar. Þá er bara að bæta við armbeygjunum, bæti þeim við á morgun.

Á morgun byrja ég að hlaupa samkvæmt áætluninni: 4M rólega.

Set hér inn til fróðleiks hvernig Garmurinn skilgreinir hraðann og ég mun reyna að halda þessu:

rólegt (easy) 6:14-6:01 mín /km
hægt (slow) 6:05-5:52 mín/km
jafnt (steady) 5:26-5:14 mín/km
rösklega (brisk) 5:13-5:01 mín/km
hratt (fast) 5:01-4:48 mín/km


Uppstigningardagur - Fór léttur um bæ

Nú er komið að því! Hefi, eins og komið hefir fram hér á síðunni, skráð mig í Reykjavikurmaraþon, sem verður haldið á afmælisdegi bróður míns, og ætli ég að koma mér í mark á sómasamlegum tíma verð ég að byrja að fyrir hlaupið það arna. Mér reiknast til að nú séu sextán vikur þar til hlaupið verður af stað. Má ekki seinna vera.

Ég hefi verið að skoða æfingaráætlanir og eru þær flest allar eins. Róleg hlaup, hröð hlaup og löng hlaup, og þá ýmis tilbrigði við þetta. Á www.runnersworld.co.uk eru áætlanir af ýmsum toga, m.a. sem hægt er að hlaða beint í Garm. Eg sókti mér eina og nú hefi ég sett hana í Garminn minn. Nú er ekkert að vanbúnaði nema bara fara út að hlaupa. Sókti áætlun sem kemur manni í mark á 3:45, og forsendurnar eru þessar, í stuttu máli: Að geta hlaupið hálft maraþon á undir 1:45 (hefi hlaupið á 1:47) og 10 km á undir 46 (ég hefi hlaupið á 49) og hlaupa minnst 40 km á viku. Þetta allt get ég gert. 

Skv. áætluninni á ég að byrja með rólegu 4ra mílna hlaupi á laugardaginn en ég gat ekki beðið og fór út og hljóp rólega; athuga hvort þetta gangi nú vel í Garminn og þá líka í mig. Fór því út í þessari blíðu sem er núna, var kominn með í öxlina og bakið af langlegum og aumingjagangi kvefsóttarinnar – varð að draga drulluna upp úr lungunum og hreinsa ennisholur. Þetta átti að vera rólegt hlaup og hlaupatakturinn um 6:01–6:14 mín/km. Þetta tókst hjá mér, var akkúrat á 6:00 og vegalengdin 6,44 km. Þetta verður endurtekið á laugardaginn, en þá hefst æfingaráætlunin með formlegum hætti.

Lesendum til fróðleiks! Ég gerði nokkra tugi magaæfinga - verð víst að styrkja mig og þá eru það armbeygjurnar sem ég verð að bæta við þessa styrkjandi líkamsrækt. Til að þetta gangi eitthvað, með styrkjandi æfingar, þarf ég að koma mér upp einhverju umbunarkerfi.

Frétti að nú væri fullbókað á Laugaveginn 2008 – plássin 150 fylltust fljótt og kominn biðlisti. Þetta er svo sem allt í lagi af minni hálfu! Ætli maður verði ekki fyrst að hlaupa heilt maraþon áður en maður fer í slíkt ultramaraþon. Sé að einn hlauparinn, Stefán Gíslason, hvetur menn til að taka þátt í fjallahlaupunum hans; kannski geri ég það. Mun fylgjast með síðunni hans.

Annars er hlaupadagskráin þessi: 4M rólegt á laugardaginn, 5M hægt á þriðjudag og 3M rösklega á miðvikudag. Þá langar mig að hlaupa í Flugleiðahlaupinu á fimmtudaginn, sjáum til hvernig vikan líður. 


Mánudagur - Kominn heim frá útlöndum með kvef og sár á nefi

Hausinn er fullur af kvefi, hlustarverkir og ennið aumt. Hlunkurinn verður að komast út að hlaupa og hreinsa út þennan óhroða. Vonandi verð ég laus við kvefið í lok vikunnar og þá tilbúinn að hlaupa. Það styttist í Flugleiðahlaupið, sem verður vonandi mitt næsta hlaup; það markaði upphaf hlaupatímabilsins sem nú hefur varað í eitt ár. Vil helst ekki sleppa því.

Útiveran, dvölin í Kaupmannahöfn, varð til þess að ég "hvíldi" kvefaður í eina viku og væri ekki fyrir kvefið, þá væri mér ekkert að vanbúnaði að spretta strax úr spori. Engin meiðsli og allt með ágætum.

Mér reiknast að nú séu um sextán vikur þar til Reykjavíkurmaraþonið verður og ég búinn að skrá mig fyrir löngu. Nú er best að byrja að æfa af festu; hægt og rólega. Á þessu æfingartímabili ætla ég að gera þetta allt rétt, gera styrktaræfingar og svo framvegis. Undanfarnar vikur hef ég reynt ýmislegt í hlaupunum - róleg hlaup, sprettir, löng hlaup, brekkusprettir og fleira slíkt - stundum í nokkrar vikur og stundum með hléum; nú verður þetta massað með vísindalegri nálgun. Veit að ég verð að gera styrkjandi æfingar og teygja ef ég ætla mér að tækla þetta. Eftir nokkrar vikur fer ég til Tenerife með fjölskyldunni í tvær vikur og þar munum við búa á einhverju fínu hóteli. Þar er íþróttasalur og allt og þá verður æft af þunga. 


Sunnudagur - Rólegt sund, en mest í potti og lék við barn

Að fara í sund var mín aðferð til að losa um stirðan kropp. Á blöðkunum fór ég tíu ferðir. Langa hlaupið í gær situr í mér. Verkur í vöðvafestingu á vinstri rasskinn, við lærbeinið. Vonandi verður þetta farið á morgun. Svo eru þetta nú bara almennar harðsperrur í fótum.  Annars var ég þreyttur í allan dag og sofnaði; kenni hlaupinu um. Í kvöld hjólaði ég svo stuttan hring með dóttur minni, taldi ekkert vit í að hlaupa svona á mig kominn. kannski hleyp ég á morgun, en það verður nú bara eitthvert lull.

Laugardagur - Mitt lengst hlaup til þessa; að sækja sér vatn og plástur

Ákvað að hlaupa inn í vinnu, fá mér gosvatn úr brunninum og blástra á blöðrur, og aftur til baka. Mæla vegalengdina, ef ég skyldi nú gera þetta aftur. Hlaupið var, að mestu, auðvelt og þægilegt, leið ágætlega - og stundum spretti ég úr spori, án þess að rjuka áfram undir fimm á km., reyndi að halda aftur af mér - því ég kveð heimleiðinni - þarf víst að komast til baka. Ætlaði nú helzt ekki að þurfa, niðurbrotin og sár, að panta leigubíl og biðja hann um að keyra mig sveittan heim. Síðustu þrír kílómetrarnir, gegnum Garðabæ - nýjasta hverfið við Hafnarfjörð, voru erfiðir. Komnir þreytuverkir í læri en ég þrjóskaðist áfram; ætlaði sko alls ekki að gefst upp. Þetta voru 25 km og hlaupatakturinn, að meðaltali, 5:31 mín/km sem ég er nú bara ánægður með. Er ég fór af stað gældi ég við að hlaupa 30 km en það verður síðar; maður er nú alltaf svo kappsfullur. Þegar ég kom heim var ég stirður í lærum en eftir að hafa borðað og drukkið er ég allur að koma til. Mesta meinið eru þó sprungnu blöðrurnar, á fótum mér, sem meiða mig.

Fimmtudagur - Maður með sprungnar blöðrur fer rólega um bæinn

Nokkrar blöðrur á fótum mér, þær sem voru kynntar í gærkvöldi, sprungu við "átök" kvöldsins. Ég hljóp hefðbundna leið upp á holt og til baka. Þar sem blöðrurnar sprungu á miðri leið tókst mér loksins að hægja á mér og hlaupatakturinn varð lægri en í gær; 5:44 km/mín. Svo það er önnur leið, en að hafa dótturina með á hjóli, til að hlaupa rólega - að hlaupa með sprungnar blöðrur á fótum sér; kann þó betur við að hafa dótturina með í för en kveljandi fótamein. Eins og fyrri kvöld í vikunni voru þetta 10 km. Hefi ekki enn ákveðið hvað verður gert þegar kemur að langa hlaupinu um helgina. Þarf að hnoða saman tveimur fyrirlestrum - kannski heima eða kannski í vinnu - og gæli við að hlaupa þaðan og heim. Sjáum til! sjáum til!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband