Færsluflokkur: Íþróttir

Miðvikudagur - Annar í endurhæfingu

Eftir nokkra umhugsun, teygjur og fettur, fór ég út að hlaupa - var uppfullur af þjóðrembu eftir hyllingarhátíð við Arnarhól og orðuveitingu, og ég dóttirin sungum hástöfum, með landslýð, fyrir framan sjónvarpið, lagið sem allir þekkja: Öxar við ána, og sonurinn, sem var á leiðinni á handboltaæfi,ngu sagði: þið eruð klikk. Hlaupið var rólegt, lykkjur og útúrdúrar um Hafnarfjörð. Næstum þrettán kílómetrar og hlaupatakturinn um 5:51 mín/km. Næst verður, líklegast, hlaupið á föstudag.

Á hlaupunum, velti ég því fyrir mér hvort það væri nú ekki ráð að blekkja sig - leggja gildru, egna fyrir mig gulrót og verðlauna - fara í íþróttahúsið og gera styrkjandi æfingar. Belgsmörinn hverfur ekki og alltaf er ég jafn þungur. Þarf að koma mér upp einhverju kerfi og svo að ákveða hvað skuli vera í verðlaun.


Þriðjudagur - Ónot í læri

Finn fyrir verk aftan í læri - þið hefðuð átt að sjá mig hlaupa á eftir strætó í dag - og að verkjarins sökum fór ég því í sund í stað þess að hlaupa. Ekki var mikið synt, þrátt fyrir fögur fyrirheit, en þess heldur legið í potti og hitað. Er heitur þá reyndi stirðbusinn sig við teygjur. Eftir því sem á leið, og ég varð heitari, þá lagaðist verkurinn. Lifi ég í von að þar sé allt ónotalegt að hverfa úr mér. Þessi sami verkur hefur áður leikið með mig og hann er aðeins vegna stirðbusaháttar.

Sé til með hlaup á morgun!


Mánudagur - Skakklappast með harðsperrum um bæinn

Áður en ég mætti í kökuafmæli skakklappaðist ég um bæinn, mjög rólega, til að ná úr mér harðsperrum dauðans. Í dag, og í gær, var mér erfitt um gang - aðeins harðsperrur, sem betur fer, að ég held - og að labba niður stiga var hin mesta þolraun. Nú, þegar ég hefi hlaupið 6,5 km. á rólegum takti 6:11 mín/km, er ég betri en áður. - Á morgun ætla ég að hlaupa aftur, kannski fer ég lengra, en held að ég auki ekkert hraðann.

Laugardagur - Þriðja hálfa maraþonið

Þreytti mitt þriðja hálfa maraþon rétt í þessu. Tíminn var 1:53:58 og hlaupatakturinn, að jafnaði, 5:21 mín/km. Hann sveiflaðist mjög mikið frá 4:45 og 6:53. Í upphafi hlaups var markið sett hátt, hetjan ætlaði sér að hlaupa á 1:40 klst. og til þess hefði hlaupatakturinn átt að vera, að jafnaði 4:45 mín/km, en fljótlega kom í ljós að ég myndi ekki ná því - ætlaði að bæta minn síðasta tíma um þónokkrar mínútur en var langt frá því. Ég hef áður hlaupið hálft á 1:49 (2003) og 1:47 (2008). Á einum stað á leiðinni - upp brekkuna þegar komið var af hafnarsvæðinu - þvarr mér þrek og ég gekk, það var þegar takturinn fór í næstum sjö mínútur með kílómetrann. Svo þegar ég kom upp brekkuna þá vissi ég að aðeins væri hlaupið niður á við og á jafnsléttu og varð léttari í skrefi.

Eitt var alveg ótrúlegt en það var þegar kappinn sem varð í fyrsta sæti mætti okkur áhugamönnunum. Hann þaut áfram og virtist ekkert hafa fyrir þessu. 

Núna eftir hlaupið er líðanin ágæt - um stutta stund, í upphafi hlaups, fann ég fyrir verk í hásin og sköflungi en það hvarf. Annars er núna aðeins þreytuverkur í hælsbót sem vonandi hverfur fljótt. Í hlaupinu gerð ég mér far um að stoppa á drykkjarstöðvum, fékk mér vatn og orkugel; ef ég hefði ekki stoppað svo lengi við það hefði tíminn kannski orðið betri en efa það. Þá hefði engin orka verið til að hlaupa. Þá tókst mér að sækja fallega og stóra blöðru og ætla ég að láta hana alveg vera.

Á morgun verður farið í sund og svo haldið áfram að æfa og kannski kemst ég einhvern tímann á þeim tíma sem ég ætlaði í dag. 

Opinber tími: 1:53:48 (1:52:58)

450. sæti af 1264.

111. sæti af 207 í aldursflokki 40-49 ára. 


Miðvikudagur - Stutt hlaup og karbódrykkir

Þetta var stutt hlaup - fimm kílómetrar - að heiman og heim. Fór rólega eins og mér var uppálagt. Einn ljóður var á hlaupinu, verkur í sköflungi en hann fór á þriðja kílómetra. Vonandi verð ég verkjalaus á laugardaginn. Ég hef verið duglegur að gera bolteygjur og hamstrengs, allt í þeirri von að þetta bæti mig. Ég keypti dunk af "karbó" sem ég drekk nú skv. fyrirmælum.

Þriðjudagur - Rólegt hlaup til liðkunar

Þetta var rólegt hlaup með fram ströndinni til liðkunar með dóttur, hún hjólaði og ég hljóp "rólega". Ég ætlaði að fara hægar yfir en hún hjólaði hratt að ég varð að fara fór hraðar en stóð til. Þegar hlaupi lauk fórum við heim, að borða borðuðum og síðan í sund. Helda áfram að teygja á skrokk, sérstaklega á lendarvöðvum og hamstreng hægri fótar. Síðar í dag ætla ég að kaupa eitthvert "karbóduft".

Mánudagur - Hlaupið rólega eftir nudd

Þetta var rólegt hlaup, sex og hálfur kílómetri, til að meta stöðuna og fann aðeins fyrir í sköflungi sem hvarf þegar leið á. Fyrr í dag fór ég í nudd, konan gaf mér. Þar var átt við fætur, læri og kálfa, og sagði nuddarinn að ég væri grjótharður. Á morgun verður hlaupi aftur en þá rólegir sex kílómetrar.

Sunnudagur - Heitakrem, heitur bakstur og sundlaug

Jákvæður þessa stundina um þátttöku í hlaupinu á laugadaginn; er þó ekki tilbúinn að gefa neitt upp um tíma. Þó freistandi að bæta tímann, ekki nema nokkrar mínútur. Í dag hef ég borið hitakrem á lærið, lagt á bakstur, teygt og nuddað. Í morgun fór ég í sund með dóttur og í Sundhöllinni er hægt að fá blöðkur og ég reyndi þær. Fór rólega, allt gert til að athuga stöðuna. Dvaldi í potti í nokkra stund og lét þó alveg vera að nudda lærið eins og síðast - og varð til að hleypa öllu í bál og brand.

Fram að hlaupi verður æft með þessum hætti. Hið minnsta byrjað svona og tók þetta að láni af www.hlaup.is:

  • Mánudagur: 6-7 km rólegt
  • Þriðjudagur: 6 km rólegt
  • Miðvikudagur: 5 km rólegt
  • Fimmtudagur: Hvíld
  • Föstudagur: 3 km, rólegt
  • Laugardagur: Keppni
  • Sunnudagur: 30 mín ganga

 


Föstudagur - Aðeins hlaupið í spik

Þessa dagana er ekkert hlaupið. Eftir hlaupið síðasta þriðjudag, sem var ágætt, var ég þreyttur og ákvað að hvíla á miðvikudegi í stað þess að hlaupa rösklega. Fór þess heldur með dóttur í sund og lét þar nudddæluna ganga harkalega á auma bletti. Fannst þá að þetta væri alveg ágætt þegar ég kom heim en daginn eftir var allt í lás. Lær- og lendarvöðvi, IT band, og annað þar í kring aumt og sárt, og er enn á þriðja degi. Eins og mér líður nú veit ég ekki hvort ég hlaupi laugardaginn næsta. Ætla að hvíla hlaup fram á mánudag athuga þó með hjólamennsku. Verð að viðurkenna að ég er nokkuð fúll yfir þessu.

Þriðjudagur - Rólegt hlaup, en þungur á mér

Rólegt hlaup, næstum 12 km., og þungur á mér. Sprettir gærdagsins sátu í mér. Undir lokin var ég orðinn orkulaus og því fegnastur er ég komst heim til að næra mig. Held áfram að teygja og fann engan verk í mjöðm.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband