Laugardagur - Álftneshringurinn með vaxandi hraða

Ákvað að fara Álftaneshringinn sem er um tíu kílómetrar. Ætlaði að hlaupa rólega og liðka til nýju skóna. Þegar ég kom að svokallaðri "vaselínbrekku" - sem er sjöundi kílómetrinn - þá jók ég hraðann og svo enn frekar þegar ég komst upp á toppinn en hægði svo á þegar kom að síðasta kílómetranum. Þá rólega eftir það, heim á leið. Samtals voru þetta 11,5 km. Hlaupatakturinn er hér fyrir neðan. Enn er sköflungurinn að angra mig. Í kvöld ætla ég að kæla hann og verður forvitnilegt að athuga hvernig hann verður á morgun. Þá ætla ég að hvíla, kannski hjóla ég um bæinn. 

1 - 5:35
2 - 5:21 
3 - 5:31
4 - 5:33
5 - 5:23
6 - 5:27
7 - 5:18 
8 - 5:12 
9 - 4:36
10 - 5:21
11- 5:35


Föstudagur - Sköflungur skælir stirðan

Hefi ekkert hlaupið frá því á mánudag því sköflungur skælir mig. Keypti mér nýja mjúka skó í gær og mun reyna þá í kvöld verði enginn verkur. 

Kvöldið kom og ég fór út að hlaupa í nýju skónum, keyptum í Afreksvörum.  Enn fer ég rólega, er að hressa mig við eftir mitt hálfa maraþon. Hlaupnir voru tíu kílómetrar á rólegu hraða og skal hlaupataktur vera nálægt sex mínútum. Ekki tekst það nú alltaf, - varð að hlaupa í mig hita - og fer þá að jafnaði á 5:40. Lausn: Verð að taka barnið með mér, það hjólandi og ég hlaupandi, ef ná skal að fara rólega yfir.

Ég bind miklar vonir við þessa skó sem eru styrktir og mýkri en þeir gömlu. Vonandi hverfa mér allir aumir staðir og fisléttur fer ég um göturnar. Nú er bara að sjá til. Veit að ég er enn allt of stirður. 

Vormaraþon 2008: Maðurinn í bláu jakkanum, fyrir hlaup

Fékk lánaða mynd af vef Laugaskokkara. Myndasmiður: Sumarliði Óskarsson. Maðurinn í bláa jakkanum, þessi með sundhettuna í bakgrunn, er undirritaður. Veit ekkert um herrann sem verið er að taka mynd af.


Mánudagur - Fór rólega um bæinn, stirður staurfótur

Mér til lækningar, eftir mitt annað hálfa maraþon sem ég hljóp á 1:46:56 bætandi tíma frá því fyrir fimm árum, hljóp ég rólega 10 km ögn stirður sem staurfótur um bæinn. Þetta var ágætt; sköflungsverkur var mér til leiðinda en hvarf smám saman þó ekki alveg algjörlega. Á morgun verður hvílt, svo verður leikurinn endurtekinn á miðvikudaginn. Aftur rólegt staurfótahlaup!

Laugardagur - Hálft maraþon 1:46:56

Hljóp mitt annað hálfa maraþon. Tíminn var 1:46:56. Hlaupataktur var nálægt 5:01 mín/km og er ég mjög ánægður með þennan árangur. Upphaflega áætlunin var að hlaupa rólega, hvern kílómetra á 5:35. Alls ekki ofgera eins og í síðasta langa hlaupi fyrir viku. En ég fylgdi straumi hlaupara og leið bara vel; hafði alltaf einhvern til að elta uppi og taka fram úr, án þess að vera með einhvern æsing. Ætlaði að sjá til hvernig ég væri þegar ég kæmi að snúningspunktinum úti á Ægissíðu. Þar leið mér ágætlega og ákvað að halda sama takti. Þegar ég kom í mark var ég nokkuð þreyttur. Síðustu þrír kílómetrarnir voru erfiðir og óttaðist ég að ég þyrfti að ganga eitthvað af leiðinni en ég hélt það út hlaupandi. Hefði leynst þarna einhver "rafstöðvarbrekka" hefði kappinn þurft að ganga. - Undirbúningur fyrir þetta hlaup fólst í hvíld og áti. Fékk mér Seríós í morgunverð og kraftakex klukkustund fyrir hlaup. Svo var hlaupið af stað og á leiðinni gleypti ég hlaup stuttu áður en ég kom að hverri brynningarstöð. Efa ég ekki að það hefur haft jákvæð áhrif. - Þegar ég kom í mark fékk ég mér nóg að drekka. Kók og Powerade. - Þá ber að geta þess að ég fékk prótein í útdráttarverðlaun. - Er öllu var lokið við stokkinn í Elliðaárdal fór ég í sund og lág lengi í heitum potti og teygði. - Að lokum hrósa ég fyrir framkvæmd hlaupsins.

Fimmtudagur - Liðkun fyrir lengra hlaup

Ef hlaupið skal í vormaraþoni, næsta laugardag, skal liðka kropp með rólegu hlaupi. Ég skráði mig seint en vonandi ekki of seint. Þegar langt var liðið á liðkandi hlaup leið mér vel, en fyrst var verkur í sköflungi sem hvarf, sem betur fer. Teygt var vendilega þegar heim var komið. Hljóp 11 km og hlaupatakturinn var 5:27 mín/km; reyni að halda sama takti á laugardaginn, ef ég fæ að vera með.
 

Mánudagur - Rólegt hlaup með dóttur

Ég fór út í morgun með dóttur minni, hún á hjóli en ég á tveimur jafnfljótum. Eins og komið hefur fram undanfarið þá er aftanvert vinstra læri að angra mér. Get ekki beitt því sem skyldi; næ ekki að rétta úr því að fullu. Þegar við komum heim teygði ég og reyndi teygju sem sjúkraþjálfarinn kenndi mér fyrir nokkrum árum og ég hefi sniðgengið, teygju sem ég lærði til að laga á mér bakið. Þetta er teygja er fótboltamenn gera og tekur í læri, nára og hásin. Og sem áður þá hlær húsfrúin þegar hún sér mig teygja. Finnst ég stirður! Teygjur héldu svo áfram í sundi með dóttur. Annars eru tölurnar þessar: Átta km. og hlaupatakturinn 5:56. Tókst þá loksins að hlaupa rólega og er það allt dótturinni að þakka. Hún fylgdi mér á hjólinu. Á morgun verður hvílt og vonandi lagast fóturinn.

Fréttir helstar: Gekk frá skráningu í Reykjavikurmaraþon, og að sjálfsögðu í heilt. Heitið verður á bróður minn - hann á afmæli þann 23. ágúst þegar hlaupið fer fram - og einhvert góðgerðarverkið sem er enn óákveiði.


Sunnudagur - Of geyst farið

Átti að vera langt og rólegt. Herrann fór út, hlaðinn orku eftir kexát og með drykki í belti, og lagði kappsfullur af stað út á Álftanes í áttina að Vaselínbrekku og upp hana á góðum hraða. Vissi þá að ég fór of hratt en gat ekki hægt á mér. Þetta kom mér í koll því þegar 11 km voru búnir þvarr mér orka með sköflugnsverk og ég hætti hlaupi þegar kominn fram hjá bryggjubyggð hafnfirskra. Má þá lita á þetta sem ágæta tempó-æfingu. Lærdómurinn af þessu er, að ef ég ætla að hlaupa í marsmaraþoni um næstu helgi þá má ég ekki hlaupa of hratt í upphafi; hlaupatakturinn má ekki vera 5:07 mín/km eins og áðan. Á frekar að miða við 5:30 og vera sáttur við að hlaupa á undir tveimur klst. Mér reiknast til að hlauptatakurinn í mínu síðasta hálfmaraþoni fyrir fimm árum hafi verð 5:05 og ég bersýniega ekki tilbúinn í þann hraða. Nú hefst róleg vika og sjáum til er nær dregur helginni hvort ég taki þátt í marsmaraþoni.

Laugardagur - Virk hvíld; hjólað um bæinn

Til að gera eitthvað á hvíldardegi fór ég út að hjóla og fór víða um bæinn. Kannaði nýjar hlaupaleiðir og fann langa aflíðandi brekku sem ég verð að reyna við. Hún er í hinu nýja Áslandshverfi hjá hesthúsunum. Sjáum til, einhvern tímann mun ég reyna við hana en þá verður farið rólega til að byrja með. Ég stoppaði nokkrum sinnum á leiðinni og athugaði mitt aftanverða læri og finn að það er svo sem í lægi. Það sem háir mér eru stuttir vöðvar; reyni að bæta úr því með teygjum. Annars eru tölurnar þessar: 14 km. á 51 mínútu. Púls 133/165. 

Á morgun er langt hlaup. Sjáum til hve lengi og langt ég hleyp, því það er vika í vormaraþon og mig langar að taka þátt. Hlaupa hálft og jafna þá gamla tímann frá 2003: 1:48 klst. 


Föstudagur - Rólegt með barni

Ég og dóttirin fórum út í morgun; hún hjólaði en ég hljóp. Þetta átti að vera rólegt og það tókst. Við fórum átta km. Hlaupatakturinn var 5:50 mín/km og púls 146/162. Þó var lærið að angra mig, vonandi verður það komið í lag fyrir sunnudaginn, en þá á ég að hlaupa langt hlaup. Þegar við komum heim reyndi ég að teygja vel og vonandi verður þetta allt í lag. Nú fær barnið að setja inn einn broskarl: Grin

Skírdagur - Sprett um bæinn á skyrdegi

Í nokkrum kulda á "skyrdegi", eins og barnið sagði, var sprett úr spori um bæinn. Æfingaráætlunin skipaði mér að hlaupa þrjár mílur - næstum 5 km - og halda hlaupatakti við 5:20 mín/km. Þetta gekk eftir, ég fór út og hitaði upp í nokkrum kulda, þá var gefið í og farið geyst. Hlaupatakturinn skiptist svo á milli sprettanna þriggja, meðaltal: 4:30, 4:59 og 5:06 mín/km. Hefði líklega átt að vera i öfugri röð; ljúka á miklum hraða. Á milli spretta gerði mjög stutt hlé - rétt til að kasta mæði. Í niðurskokki (verð að finna eitthvað annað orð) kom ég við á bensínstöð og fékk vatn. Á morgun verður rólegt hlaup og þá fær dóttirin að hjóla með.

Hefi velt því fyrir mér hvort hetjan ætti að hlaupa hálft maraþon í vormarþoni - þann 29. mars - og hafa það sem langa hlaupið. Að vísu fellur það ekki að æfingaráætluninni en þá skal hafa í huga að æfingaráætlunin er nú aðeins til að styðjast við því ekki hefi ég enn skráð mig í neitt heilt; er aðeins verið að styrkja kropp.

Nú skal haldið áfram að teygja!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband