Laugardagur - Sokkabuxur hlauparans

Veðrið undanfarna daga hefir ekki verið hlaupurum í hag. Eftir að hafa hlaupið fyrsta hlaupið í SUB-50 í leiðindafærð, snjókomu og roki, kom enn meira leiðindaveður, færð þyngdist, og ég nennti alls ekki út. Erfiðast var að snjórinn settist alltaf á gleraugun og ég sá ekki neitt. Í gær, föstudag, var ég hreint út sagt bara latur, en þá átti ég að taka spretti og vissi að það væri ómögulegt. Göngustígar og gangstéttar ekki ruddar og því alls ekki hægt að beita sér. Þá kom dagurinn í dag og eftir að hafa legið upp í sófa, horft út í loftið og röflað við sjálfan mig - þessi færð! þessi færð! - skríddist ég sokkabuxum hlauparans og fór út. Ákvað að hlaupa lengi, blandaði íþróttadrykk og setti í brúsana, stillti garminn og hljóp í hálfa aðra klukkustund - 1:30 - og vegalengdin 16 km. Þetta var nokkuð erfitt því færðin var ekki upp á marga fiska.

Meðan ég hljóp velti ég hlaupadagskrá ársins fyrir mér - hver ættu að verða stóru hlaupin. Kannski verður yfirskrift ársins afmælishlaup! Laugavegurinn, sem mig hefur alltaf langað að hlaupa, er 12. júlí og þá á móðir mín afmæli. Reykjavíkurmaraþon, þar sem ég hef þreytt styttri vegalengdir, er 23. ágúst og þá á bróðir minn afmæli. Ég væri ótrúlegra íþróttamenni ef ég nú þreytti þessi hlaup. Eitt ultra maraþon og annað venjulegt. Sjáum til! Annars er annað sem þarf að laga áður en ég þyngi æfingar - verð að finna út hvað það er sem truflar vinstri hásin.

Bendi lesendum á hlaupadagbókina sem er komin á netið. Algjör snilld! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband