Sunnudagur - Vika hins lata

Ekki gekk nú allt eftir í þessari hlaupaviku. Ákvað að taka því rólega því hásin var aum og hné slappt - ekki nýjar fréttir og á maður ekki að hlusta á líkamann! Keypti bólgueyðandi íbófen og bryð nú þrjár töflur á dag. Hnéð er að komast í lag - engir verkir - en hásin enn aum; verður betri er ég hita hana og teygi. Vonandi verð ég góður í næstu viku. Þótt hlaup vikunnar sem nú er að líða hafi aðeins verið tvo er markið sett hærra í næstu viku; þrjú hlaup hið minnsta.

Hlaupaskórnir söfnuðu þó ekki ryki, þótt ég hafi gert það. Drengurinn - handboltamennið - fékk þá að láni og fór út að hlaupa. Aðrir gamlir hlaupaskór eru of litlir á hann. Handboltaæfingar eru byrjaðar og hann fer nú út að hlaupa á hverjum degi, breytir engu hvort hafi verið æfing eða ekki. Við prófuðum "Polar Own Index" á drengnum og fær hann 54 stig á meðan ég hangi í 40 stigum. Svo ég verð nú að taka mig á ætli ég að ná honum eða Íslandsmeistaranum.

Stundum er rætt um virka hvíld. Ég og dóttirin fórum í sund í Laugardalslaug. Á meðan hún renndi sér af kappi í stórri rennibraut þá teygði ég og djöflaðist svo með henni í lauginni. Merkileg þykir mér nýjung þeirra, pottur sem í er heitur sjór. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband