Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
30.9.2007 | 19:40
Sunnudagur - ... ertu með smjör í heilanum
Ég og dóttirin fórum saman út í morgun. Langt síðan hún fór með mér. Fórum sama hring og ég hefi hlaupið alla vikuna og hún hjólaði; var stundum á undan og stundum á eftir mér. Við stoppuðum nokkrum sinnum og drukkum vatn úr brúsa sem hafði verið inni á baði. Okkur til ólukku var sápubragð af vatninu; brúsann hafði hún notað til leikja og stúturinn mengaður.
Ekki var farið hratt yfir; en það var allt í lagi enda ætlun mín að fara frekar rólega, ég vonast til að laga mín fótamein með hægri yfirferð. Eftir hlaupin fórum við feðgin í sund. Hún lék sér í rennibrautinni og hitti það skólasystkini sín. Ég var heitustu pottunum og teygði, lét heita bunu ganga á hásin og hælsbót. Nú þegar þetta er skrifað, nokkrum stundum eftir hlaup og laugaferð, er ég bara ágætur.
Ætlunin var þó að taka þátt í Hjartadagshlaupinu, sem var fyrr í dag, en þar sem ég er ekki kominn með fullan styrk ákvað ég að taka því rólega. Ætla að halda uppteknum hætti. Hlaupa þrisvar í næstu viku og lengja hlaupin lítillega í hvert skipti.
Fyrirsögnin er komin frá dótturinni, sex ára. Ég benti á matta rúðu á Lækjarskóla og sagði, ætli hún snú öfugt. Hún sagði við mig þú ert nú meiri kjáninn, ertu með smjör í heilanum. Hún er frosin. Fannst þetta svo sniðugt orðatiltæki hjá henni, maður á samt ekki að ýta undir svona vitleysu.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2007 | 20:44
Þórsdagur - Sami hringur og áður
Ekki var hægt að hlaupa í gær vegna veðurs. Gott veður þegar ég koma heim úr vinnunni og henti öllu frá mér og fór út. Fór sama hring og í byrjun viku, 8 km. á 47 mínútum. Ekki mikill hraði en eitt af markmiðunum er að fara hægar yfir, þá er álagið á eymingjablettunum ekki eins mikið. Púls var lægri og fannst sem ég gæti beitt mér í lengri tíma, sérstaklega þegar leið á hlaupið.
Hitti fyrr í dag gaman skólabróður, strætófélaga og skokkara, hann hefur átt í vandræðum með hásin og hælsbót eins og ég (hann er líka að vísu forn fótboltahetja). Við stóðum út á götu, nálægt strætóskýli, og sýndum teygur og styrkjandi æfingar sem væru bestar við meinanna blettum. Hann benti mér á að heimsækja "Orkuhúsið" við Suðurlandsbraut. Þar keypti hann sér gelpúða í hlaupaskóna, 9 mm., og þeir hafa öllu breytt. Þarf að fara þangað og kaupa slíkt.
Nú er að ákveða hvort ég tek þátt í Hjartadagshlaupinu á sunnudaginn eða hleyp ég bara einn og yfirgefinn um Hafnarfjörð.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2007 | 20:24
Mánadagur - Áætlun fyrir sunnudagshlaup fæðist
Ég fór út að hlaupa í kulda og örlitlu roki. Var vel búinn, í nýjum sokkum og með nýja hlaupavettlinga. Ætti jafnvel að verða mér út um, æ hvað heitir það, einhvers konar ullar stroffur til að setja á ökla. Nokkuð eins og fótafimir ballettdansarar, helzt kvenkyns, skríðast. Þannig held ég kálfum heitum og varna tognun og eymingjameiðslum.
Þegar ég var kominn út var stefnan sett á Suðurbæjarlaug og eftir Hringbraut, hlaupið meðfram sjónum, út að Actavis - sama leið og áður en ný fletta til að lengja, og að halda mig sem mest innan púlsmarka; stoppa þá eða draga úr hraða væri ég ofan marka. Það gekk þó ekki vel til að byrja með, kroppurinn kaldur en um leið og ég var orðinn heitur rættist í óreglunni. Ætlunin var að fara rólega yfir og hlaupa lengur en í þrjá stundarfjórðunga. Þetta gekk allt eftir, púlsinn varð þokkalegur, ég hljóp í 47 mínútur og vegalengdin, skv. Borgarvefsjá, u.þ.b. 8 kílómetrar.
Þegar ég kom heim hófust hófsamar teygjur. Fyrst var teygt lærvöðvum í dyragætt, og teygju haldið í tvær til þrjár mínútur í senn og gert nokkrum sinnum. Finn að þetta er að koma smám saman; fékk engan verk í hnésbót hægra megin og hásin vinstra megin var einnig þokkaleg. Kannski hefir það breytt einhverju að ég fer nú ekki eins hratt yfir og áður fyrr. Svo var teygt á lendarvöðvum og finn að þar þarf að teygja betur. Svo hefi ég verið að stelast til að teygja á kálfum í strætóstoppistöðvum og stigum. Vonandi lifi ég ekki í sjálfsblekkingu með betra ásigkomulag slitins kropps.
Vikuáætlunin er þessi: Hlaupa létt í 30 til 40 mínutu á Óðinsdegi og Frjádegi. Þá tímataka á Sunnudegi, 10 kílómetrar í Kópavogi.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2007 | 19:39
Laugardagur - Þriðja hlaup og laug
Ætlaði varla að nenna út, en eftir að hafa kveinað ögn yfir fótameinum, og sagt við sjálfan mig: "þetta lagast nú ekki með hreyfingarleysi", og vitandi að veðrið ætti eftir að versna síðar í dag, beitti ég fyrir postulahestana, stakk mér í þröngva sperrileggjabrók, þrjár þunnar peysur - yzt skrýddur verðlaunatreyju sonar frá frjálsíþróttaskeiði hans, setti húfu á kollinn og vettlinga á höndur; og fór af stað. Leiðin var hin sama og áður: Litli hringurinn og út að Actavis. Var aðeins lengur á leiðinni og það er nú allt í lagi enda reynandi að fara hægt yfir. Minnka þannig álag á fætur. Þetta var þó ekki slæmur tími, 41 mínúta í rokrykkingu. Fann þegar þriðjungur var eftir að ég gerðist léttari í spori og vonandi er allt að koma.
Þegar hlaupi lauk fór ég með dóttur í Sundhöll og þar skiptumst við á að djöflast í lauginni, bæði með froskafit, og vera í heitum nuddpottum. Hefi lesið einhvers staðar að fótaæfingar með sundfitjum væru hlaupamanni hollar. Á meðan hún stökk af bretti var ég úti í miðri laug og hélt mér á floti með fimum fótahreyfingum. Í heita pottinum voru sömu staðir og áður nuddaðir, einnig reynt að teygja.
Eftir hádegi fór ég í höfuðstaðinn, kom við í íþróttaverslun og keypti mér hlaupavettlinga. Þeir eru þynnri en mínir vetrarvettlingar, sjáum svo til hvernig þeir munu reynast. Næsta hlaup verður á Mána- eða Týsdegi. Ætla mér að hlaupa í Hjartadagshlaupi og þarf að búa mér til æfingaráætlun. Annar var vikan svona: Hljóp í næstum tvær klukkustundir og fór, skv. lauslegri mælingu, 14 kílómetra. Því ætti næsta vika að vera tvær klukkustundir og tólf mínútur að lámarki. Ef ég hleyp þrisvar ættu það að vera tvö hálftíma hlaup og svo 10 kílómetra tímataka á Sunnudegi.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2007 | 20:21
Þórsdagur - Heill heim á postulahestum
Fór sama hring og í fyrradag. Litli hringur, upp með Læknum, Kaplinn, út að Actavis og heim. Fór aðeins hraðar yfir - tími 37 mínútur - bætti mig um tvær mínútur en það var svo sem ekki markmiðið, aðeins halda mig innan hámarks og lágmarks og púls var í lagi en þó með hæsta móti. Postulahestarnir voru léttfættir (orð úr skáldsögum Ólafs Jóhanns Sigurðssonar um Pál Jónsson blaðamanna og ég hlusta á í hlaðvarpi). Kannski er ég að komast yfir þessi aumu fótamein enda léttist ég og styrkist; spikbagginn að hverfa (annað orð frá ÓJS).
Næsta hlaup verður á laugardaginn og ætla ég að fara sömu leið. Þá er vika í tímatökuhlaup. Ef ég losna við meinið þá ætti ég, eins og ég hef áður sagt, að mæta og hlaupa með Garðbæingum. Þá fæ ég leiðsögn.
Á neti fann ég áhugaverða prófritgerð sem fjallar um hlaupahópa. Höfundar eru Sandra Jónasdóttir og Steinunn H. Hannesdóttir. Titill er Hlaupahópar : könnun á starfsemi hlaupahópa. Á eftir að lesa betur.
Næsta hlaup á laugardaginn. Einnig í rúmlega hálfa klukkustund.
Hlaup | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2007 | 22:15
Týsdagur - Upphaf hlaupaviku
Fór út og hljóp í 38 mínútur. Litli hringurinn með smá viðbót, út að glerhöll Actavis og heim. Þegar maður er loksins kominn út vill maður fara lengra, vonandi gerði ég mér ekkert slæmt. Var stirður í upphafi hlaups og reyndi að fara hægt yfir. Fann fyrir örlitlum eymslum í sköflungi hægra megin, en þegar leið á hlaupið þá hvarf verkurinn. Á leiðinni stoppaði ég við Lækinn og teygði ég lítið eitt undir brúnni. Þegar ég kom heim gerði ég mínar helstu teygjur og þá einna helst "teygja í dyragætt". Þegar þeta er skrifað er ég þokkalegur, sjáum svo til í fyrramálið.
Næst verður hlaupið á Þórsdegi. Reyni að fara snemma, tek stúlkubarnið með - minn hjólandi harðstjóra og þjálfara - og svo förum við í sund. Helst í Sundhöll Hafnarfjarðar, þar er gott nuddtæki.
Lesendum til fróðleiks set ég hér mynd af mér i Vatnsmýrarhlaupinu 2007. Vegalengdina fór ég á 24:10. Á þessari mynd er ég nú ekki eins raunamæddur og þegar ég hljóp í Flugleiðahlaupinu (sú mynd er hér við aðra færslu). Þessa stundina eru ekki til fleiri myndir af mér á hlaupum. Maður veit þó aldrei nema Torfi á hlaupasíðunni ná aftur af mér mynd. Ég fann enga í öllum þeim myndum sem voru teknar í Reykjavíkurmaraþoni.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2007 | 19:57
Mánadagur - Þetta er að koma
Fór í Sundhöll Hafnarfjarðar, ætlaði að synda ögn áður en ég færi í nuddpottinn en Sundfélagið var með æfingu. Allt í lagi með það. Svo ég fór í pottinn og hertók nuddtækið, það eina sem er almennilegt hér í bænum. Nuddaði hásin, hælsbót og lærvöðva, finn að þetta er allt að koma. Líklega mun ég hlaupa á morgun og ætlunin er að hlaupa þrisvar í þessari viku. Nú skal það takast.
Það styttist í næsta tímatökuhlaup, Hjartadagshlaupið 30. september, og ég verð að æfa mig eitthvað áður en að því kemur. Annars er markið sett á Poweradehlaupin.
Set hér lesendum til fróðleiks stutt brot úr lækningabók frá síðari hluta 18. aldar.
Bakverkur sér í lagi
Bind við lifandi ál eður hans roð af honum. Ryð á bakið nýju ufsablóði. Sker lengju af lifandi háf og slett við. Höfuðhár af mey við bind. Far í léreftsskyrtu sest svo við glaðan kolaeld og baka svo heitt sem þolir þar til bakið svitnar og nudda skyrtunni upp og niður; gjör þetta í þrjár reisur, ef ei fer þá vellur vatnið út í síðasta sinni. Smyr bakið í salve af mellefolio eður sjóð brennivín og tóbak saman. Gjör fleiður á spjaldhrygginn með sóley eður spansflugum, en græð aftur með heimulublöðum og það þrisvar eður fjór sinnum ef ei fyrr dugir. Eður takist koppublóð úr spjaldhrygg sem næst lendum. Sé bakið áður vel nuddað og makað við eld. Takist blóð á æð í kálfasporðum. Brúkist axlarbönd, því þröngar buxur verka tíðast þann sjúkdóm. Sé bakverkur af nýrnaveiki eður örðugum stórgangi þá heyra þar til önnur meðöl er sjást síðar, lendarverk.
Hlaup | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2007 | 21:14
Þórsdagur - Sami hringurinn og í fyrradag
Ég hljóp sama hring og í fyrradag. Púlsinn var lægri svo eitthvað er ég að bæta mig.
Þegar ég skutlaði dótturinni á sundæfingu í gær hitti ég gamlan kunningja minn. Hann er sjúkraþjálfari og gamall sundkappi, syndir helst í sjó nú. [Komið að klassísku kveini um íþróttameiðsl.] Ég sagði honum að ég væri byrjaður að hlaupa á ný og væri með verk í hnésbót. Meðan við biðum eftir börnunum þá rakti ég fyrir honum og sýndi þær teygjur sem ég geri að loknum hlaupum. Hann lét mig m.a. lyfta löpp og halla mér fram. Hann gerði þar könnun á hvort það væri aðeins vöðvinn ellegar einnig taugin sem væri aum. Það var hans dómur að þetta væri einhver þreyta í vöðvafestu og sagði mér að halda áfram en fara rólega. Hann er sjálfur byrjaður að hlaupa og segir alltaf erfitt fyrir menn á besta aldri að byrja aftur; þeir vilja oftast fara of hratt yfir.
Þegar ég kom heim, eftir hlaupin í kvöld, gerði ég svo mínar fínu teygjur og þá helst "hamstrengur í dyragætt" og finn að hún er að skila því sem til er ætlast. Eitthvað teygist á stuttum lærvöðvum. Lesendum til fróðleiks þá laumast ég stundum til að teygja á kálfum meðan ég bíð eftir vagninum. Tel mig í trú um að ég nái að hita upp á rösklegri göngu að stoppistöðinni. Það skiptir engu þótt samferðamenn mínir segi við sjálfa sig: Þessi er nú eitthvað skrítinn. Eru það ekki bara annars skrítnir sem ferðast með strætó! Kannski taka þeir ekkert eftir þessu.
Læt þessu lokið í kvöld. Næsta hlaup er á laugardaginn og þá einnig í hálfa klukkustund þótt það sé nú freistandi að hlaupa lengur, það verður á sunnudaginn.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2007 | 21:15
Týsdagur - Út fór ég
Ég fór út að hlaupa; þú ert maður sem getur aldrei beðið! Markmiðið, þessa vikuna, er, að minnsta kosti, þrjú hlaup og hvert um sig skal standa lengur en í hálfa klukkustund. Ef allt gengur að óskum - nú hið klassíska; ég án meiðsla (og hljóma nú sem frækinn knattspyrnukappi - þá verður langt hlaup á sunnudaginn. Leiðin sem ég fór er hinn hefðbundni litli hringur, heiman frá mér út að Hrafnistu, gegnum miðbæinn og upp með Læknum, fram hjá Kaplakrika og heim fram hjá Nóatúni. Leið sem er, skv. Borgarvefsjá, næstum sex kílómetrar og ég hlaup á 33 mínútum.
Púlsinn var hár og þá helst vegna þess að ég gaf í þegar ég fór upp aflíðandi brekkur, sem eru nú varla brekkur. Álagsstaðir, hásin og hné, á sitt hvorum fæti voru að mestu án verkja. Þegar ég kom heim reyndi ég að teygja á þessu öllu af skynsemd (og alltaf er hlegið af mér fyrir stirðleika). Áður en ég fór af stað bar ég hitakrem á líklega verkjarstaði en gætti ekki að því að ég svitna á hlaupum. Svitann þurrka ég með höndum og þær eru mengaðar af kremi. Leifar af kreminu blandast svitanum er rennur í augun og ég sé ekki neitt. Þarf að fá mér húfu til að hindra að svona gerist nú aftur. Átti húfu sem ég notaði á hlaupum. Hún var ágæt en full þykk og svitnaði ég vel. Sá þá vel saltútfellingar úr eigin svita.
Meðan á hlaupinu stóð velti ég því fyrir mér hvort ég ætti nú ekki, á næstu dögum, að mæta í tækjasal Íþróttahúss Háskólans og gera styrkjandi æfingar. Þá helst fyrir fætur og munu þá aumingjaverkirnir líklegast hverfa. Reyni á laugardaginn og fer svo í gufu á eftir.
Næsta hlaup er á Þórsdegi, einnig í hálftíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2007 | 20:01
Sunnudagur - Vika hins lata
Ekki gekk nú allt eftir í þessari hlaupaviku. Ákvað að taka því rólega því hásin var aum og hné slappt - ekki nýjar fréttir og á maður ekki að hlusta á líkamann! Keypti bólgueyðandi íbófen og bryð nú þrjár töflur á dag. Hnéð er að komast í lag - engir verkir - en hásin enn aum; verður betri er ég hita hana og teygi. Vonandi verð ég góður í næstu viku. Þótt hlaup vikunnar sem nú er að líða hafi aðeins verið tvo er markið sett hærra í næstu viku; þrjú hlaup hið minnsta.
Hlaupaskórnir söfnuðu þó ekki ryki, þótt ég hafi gert það. Drengurinn - handboltamennið - fékk þá að láni og fór út að hlaupa. Aðrir gamlir hlaupaskór eru of litlir á hann. Handboltaæfingar eru byrjaðar og hann fer nú út að hlaupa á hverjum degi, breytir engu hvort hafi verið æfing eða ekki. Við prófuðum "Polar Own Index" á drengnum og fær hann 54 stig á meðan ég hangi í 40 stigum. Svo ég verð nú að taka mig á ætli ég að ná honum eða Íslandsmeistaranum.
Stundum er rætt um virka hvíld. Ég og dóttirin fórum í sund í Laugardalslaug. Á meðan hún renndi sér af kappi í stórri rennibraut þá teygði ég og djöflaðist svo með henni í lauginni. Merkileg þykir mér nýjung þeirra, pottur sem í er heitur sjór.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)