Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Þórsdagur - Út þrátt fyrir leti

Ætlaði varla að nenna út að hlaupa en þegar líða tók að kvöldi og ég búinn að taka til og ryksuga - vitandi vits að teygja á kálfum, mýkjandi hásin, sitjandi á hækjum mér gætandi þess að lyfta ekki iljum frá gólfi (ó hvað það getur verið erfitt nema haldandi í eitthvað, en gengur betur finnst mér, og húsfrúin hlær) - var ekki hægt fresta lengur. Veit ekki hvort það var sjálfsblekking en þetta, að teygja á, virðist bæta hægra hnéð sem hefir verið stirt og stíft (sjá skrif mín fyrir Reykjavíkurmaraþon). Ákvað að fara litla hringinn sem er rúmlega fimm kílómetrar og reyna að fara hægt yfir; allt gert til að draga úr álagi. Það tókst að mestu en gengur illa að fara hægt.

Nú, þegar þetta er skrifað tveimur klukkustundum eftir hlaupin og ég ligg uppí rúmi, búinn fyrir all löngu að teygja, þá helst á hnésbótarsin (e. hamstring) í dyragætt er líðan ágæt. Ætla þessa vikuna að fylgja æfingaráætlun. Næsta hlaup er á laugardaginn og þá skal fara létt yfir í hálfa klukkustund og mun ég taka hjólandi dóttur með. Hún hefur kvartað yfir því að ekkert hafi verið hlaupið upp á síðkastið. Þá næst á sunnudaginn í þrjá stundarfjórðunga.

Ákvörðun: Næsta tímatökuhlaup verður Hjartadagshlaupið 30. september og tek Íslandsmeistarann í róðri með.  


Týsdagur - Lullandi áfram

Fór heiman frá mér og hélt upp á Kaplakrika; ætlaði að hlaupa (lulla) hið minnsta tíu hringi á brautinni og aftur heim. Hlaupa í næstum 40 mínútur. Reyndi að fara rólega yfir og mér tókst það. Fannst þó púlsinn vera allt of hár og skelli ég sökinni á fótameinin - hásin og hnésbót (alltaf sama vælið!). Veit ekki hvað veldur, hefi fengið mér nýja skó, teygi vel og vandlega eftir forskrift sjúkraþjálfarans, smyr mig mýkjandi og bólgueyðandi smyrslum, en vafalaust er ástæðan sú að ég er enn of þungur; finnst ekkert ganga í að létta mig, verð þó massaðari. Húsfrúin segir það mataræðið! Árið 2003, er ég var léttari en núna, voru engin fótamein. Vonandi léttist ég og þá hverfa þessa fótamein. og hverfur brátt mín mittistólg.

Gerist sjálfhverfur og birti mynd af mér, tekna af Torfa sem er með síðuna hlaup.is. Þessi mynd var tekin er ég nálgaðist endamarkið í síðasta Flugleiðahlaupi og var að dauða kominn, þyngri og þrekaður (glöggir lesendur sjá jafnvel lögregluna á mótorhjólinu fyrir aftan mig sem er við öllu búin). Þetta var fyrsta tímatökuhlaupið í mjög langan tíma. Fyrri hluta hlaupsins fór ég of greitt og var öll orka búin þegar ég hafði lokið tveir þriðju leiðarinnar en hvatningarorð og þrjóska kom mér í mark á tímanum 35:43.

 

Flugleiðahlaup 2007 - næstum dauður

 

Þórsdagur, næsta hlaup í hálfa stund. Vonandi hressist ég.


Sunnudagur - Hlaupið að nýju

Fór upp í Kaplakrika á hlaupabrautina þar. Tel mig nú heilan heilsu en líklegast fæ ég það í bakið (alltaf sama svartsýnin). Ákvað að fara létt yfir og hlaupa hið minnsta í hálftíma. Með hléum, þar sem allar helstu hásina og lærisins teygjur voru reyndar, hljóp ég eða skokkaði 15 hringi sem eru samtals 6 km. Meðan á hlaupunum stóð fann ég fyrir örlitlum eymslum aftan í hægra hnéi en fór um leið og ég var orðinn heitur. Nú, þegar þetta er skrifað, hálfri annarri klukkustund eftir hlaup og vandaðar teygjur, er engin verkur. Kannski ætti ég að mæta í leikfimissalinn og gera nokkrar styrkjandi æfingar fyrir lappirnar. Vitað að þær eru ævinlega til vandræða.

Næst verður hlaupið eftir tvo daga og í hálfa klukkustund. Kannski fer ég aftur upp á Kaplakrika og sjáum þá til hvort allt verði í lagi. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband