Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
11.12.2007 | 21:19
Týsdagur - Píndur faðir milli lægða
Loksins, eftir langt hlé, var hlaupið. Hefi verið að hvíla auma hásin, lélega sin, sem er mér ætíð til ama. Finnst sem hún sé nú í lagi, sérstaklega eftir að ég fékk teygjusokkinn hjá syninum. Fór því út í náttmyrkrið og hálkuna eftir að hafa gefið börnunum að borða og hljóp mína leið. Áður en ég fór af stað bar ég hitakrem á alla auma staði og náði tenginu við gervihnettina. Sem áður hljóp ég of hratt í byrjun - þetta verð ég að laga - en hægði svo á mér, helst þó vegna þrekleysis. Hlé á hlaupum, með öldrykkja og hóflausu áti í útlöndum, er ekki til að bæta ástandið. Þegar ég kom heim eftir hlaupið hófust teygjur og ég fékk soninn, handboltamennið, til að teygja á mér. Aðallega lærvöðvum; þar var faðirinn píndur. Nú er ég, eins og aðrir, á milli lægða, stormur í gær og annar annað kvöld, svo það er spurning hvenær ég hleyp næst. Þegar þessi skrif eru á enda sest ég í sófa og kæli sinina í tíu mínútur tvisvar sinnum. Þá hitakrem og bæli.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)