Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Gamlárshlaup 2007

Þreytti Gamlárshlaup ÍR 2007, í fyrsta skipti. Tími mínn var 53:35. Hlaupatakturinn var sannarlega misgóður, hratt í upphafi en mótvindur á Ægissíðu dróg úr mér allan kraft og ég missti niður taktinn. Annars var þetta alveg ágætt. Veit, að ef ég ætla á næstunni að fara 10 km á undir 50 mínútum, þá verð ég að leggja stund á hraðaæfingar.

Set hér hlaupataktinn:

1 - 4:36
2 - 4:38
3 - 4:48
4 - 4:50
5 - 5:14
6 - 5:51
7 - 5:11
8 - 5:37
9 - 6:47
10 - 5:42

 Annars þakka ég lesendum fyrir hlaupaárið.


Frjádagur - Hlaup í frosti

Fór út í frostið, -6°C, og hljóp litla hringinn rólega: 6,5 km á 36 mín. (það er kannski ekki rólega); hlaupataktur 5:37 mín/km. Klæddi mig vel. Fór í þrjá boli; hlýra, stutterma og síðerma, og utan yfir í hettupeysu. Ég var í hlaupanærbuxunum mínum og síðbuxum. Þá var ég með vettlinga og húfu. Ekki varð mér kalt en stundum varð ég að hlaupa hratt til að halda á mér hita. Þegar ég nálgaðist heimilið fór ég um ótroðna stíga; það reyndi öðru vísi á. Það er nú víst svo að maður á líka að hlaupa á annars konar undirlagi. Annars verður bara hvílt fram á gamlársdag og þá er það spurningin um hvernig viðrar þá þegar Gamlárshlaup ÍR verður þreytt.

Annars var vikan svona. Fór fjórum sinnum út að hlaupa, hefi vanalega farið þrisvar sinnum. Heildarvegalengd: 36,3 km (24,7 km / 18,8 km, vikurnar tvær á undan).


2ar í jólum - Sukkjöfnun

Veðurspáin fyrir morgundaginn - 3ja í jólum - lofar ekki góðu, mikið frost og rok, svo ég fór út að hlaupa í stað þess fresta hlaupi vegna veðurs. Ákvað að hlaupa lengur en í eina klst. Hljóp eftir snævi þöktum eða vel hreinum (sköfnum) götum og gangstígum. Munur að vera kominn með keðjur, annars hefði þetta ekki verið hægt. Hraðinn var ekki mikill enda var nú varla hægt að beita sér nokkuð í þessari færð. Tölurnar eru þessar: 11 km. á 1:o6 og hlaupataktur 6:06 km/mín. Meðalpúls 156. Hraðast fór ég km á 5:13 mín. og hægast 7:33 mín. Þegar ég fór svona hægt var það ófærðin sem tafði för og ég ekki viss um hvaða leið ætti að fara. Stefndi á holtið og þegar ég var kominn í áttina þangað sá ég að ekkert var búið að skafa, hefði þurft að hlaupa úti á miðri götu en það er ekki þægilegt með keðjurnar, svo ég sneri við. Það er svo sem allt í lagi.

Skv. æfingaráætlun ætlaði ég að hlaupa á morgun og hinn; ekki í dag. Nú er ég búinn með hlaupið sem átti að verða á morgun og þá er bara eftir hlaupið eftir tvo daga. Þá skal hvílt fram að gamlárshlaupi. Kannski var hlaupið í dag sukkjöfnun, eftir tvöfalt hangikjöt gærdagsins, og ég held mig bara við æfingaráætlunina, hleyp í frostinu á morgun eftir afmæliskaffið.


Jóladagur - Morgunhlaup á morgni jóladags

Það var sofið fram eftir í morgun; rumskaði þó þegar einhver setti trukkinn sinn í gang en sofnaði aftur. Við fórum á fætur um kl. 10 og ég ákvað að fara út að hlaupa áður en haldið yrði í matarboð hjá bróður mínum. Úti var jafnfallinn snjór og kom sér vel að eiga keðjur. Á leið minni sé ég að fleiri hlauparar höfðu farið um stígana í Hafnarfirði, hitti einn hlaupara á leiðinni. Þekki hann ekki en hef séð hann oft - og það löngu áður en ég fór að hlaupa. Las grein um hann í blaði fyrir mörgum árum. Fullorðinn maður sem hleypur í öllum veðrum. Leið mín lá út að Suðurbæjarlaug en stytti aðeins þegar ég nálgaðist heimilið - fór ekki út að Actavis, heldur fram hjá Nóatúni og heim. Samtals voru þetta u.þ.b. 8 km á 40 mínútum. [Tölur ekki staðfestar, hef ekki garminn hjá mér. Er hjá mágkonu minni bíðandi þess að næsta hangikjötsát hefjist.] Hefði ég farið fyrr af stað - ekki sofið svona langt fram eftir og ekki bundinn af því að fara í mat hjá bróður mínum - hefði ég farið lengri. Teygjur voru  lélegar þegar ég kom heim. Varð að rjúka í sturtu og í matarboðið. Reyndi þó að teygja aðeins á kálfum og lærum - en það var nú meira gert til málamynda.

Hitti mág minn í gærkvöldi, er við vorum báðir útkýldir af kjöti, og hann sagðist til í að hlaupa með mér í Gamlárshlaupi ÍR. Væri jafnframt búinn að hlaupa einu sinni. Þá er best að búa til æfingaráætlun fram að hlaupi. Í dag eru sex dagar í hlaup. Bráðabrigðaáætlun, sem stenst vonandi ef veður verður skaplegt og kvefið og ónotin í hálsinum séu ekki upphaf neins. Hleyp tvívegis - 27. og 28. desember - tíu km fyrri daginn og sjö þann síðari. Athuga fyrri daginn hvort ég næ að halda hlaupatakti undir 5:00 km/mín og þá létt hlaup daginn eftir. Hvíli laugardag og sunnudag. Fer annan hvorn daginn í Sundhöll Hafnarfjarðar í heita pottinn og læt þar bununa ganga á alla auma staði.

Jæja, nú meira hangikjöt!


Þorláksmessa - Keðjur og nærbrækur

Gaf sjálfum mér í jólagjöf keðjur og nærbrækur, keyptar í Afreksvörum - ekki mislesa í Ástarvörum. Að sjálfsögðu var ekki hægt annað en að reyna græjurnar þegar heim var komið. Konu minni þótti nú fullmikið að kaupa nærbrækur í hlauparaverslun. Nærbrækur myndi fáu breyta og ég myndi ekki heldur viðurkenna annað en að þær væru til hins betra. Ég ákvað að hlaupa upp á Holt. Mynd af leið! Leið sem er um 11 km og hlaupatakturinn var 5:38 mín/km í -3°C. Keðjurnar reyndust vel í alla staði, í brekkum og beygjum, og það sama verður að segja um nærbrækurnar.

Þegar ég kom heim gerði ég mínar helstu teygjur og fékk soninn til að teygja á fótunum. Hann tók á mér, píndi mig hæfilega, eða skal ég segja illilega. Hélt við hné og teygði; ó hvað ég er styrður. Vonandi lagast þetta; þykist finna mun á hásin og svæðingu í kring.

Hitti í gær hestafrænda - mág minn sem seldi hestana sína fyrir 10 árum - og sagði honum að ég væri búinn að skrá hann í Gamlárshlaup. Sjáum til hvað gerist. 

Veit ekki með hlaup á morgun, aðfangadag. Mitt að búa til mat og keyra út jólagjafir. Annars verður örugglega hlaupið á jóladag: Tvö matarboð og kaffi í milli. 


Frjádagur - Einmanna hetja í hagléli

Fór sömu leið og síðast, 8,7 kílómetrar á 48 mínútum og meðalpúlsinn 165. Held að þetta sé nú allt að koma. Lenti í hagli á leiðinni en hvarflaði aldrei að mér að hætta. Hetjur láta ekki smá hagl slá sig út af laginu. Fyrr í dag, á sundmóti með dóttur, hitti ég hlaupara sem æfir fyrir þríþraut í Köln; við lesum hvors annars blogg. Hann hefir séð færslur mínar um meiðsl og ráðlagði mér að gera eina æfingu og sýndi mér á sundbakka. Hún mun "vonandi" losa um hásinarinnar leiðinda verk. Þetta er sama æfingin og annar hlaupari sagði mér að gera. Þegar ég kom svo heitur heim eftir hlaupið gerði ég þessa æfingu. Hefi svo gert hana öðru hvoru í kvöld á milli tiltekta.

Tölur fyrir þessa viku eru: Vegalengd: 24,7 km  (18,8 km).

Næst verður hlaupið á sunnudag. Spurning hvernig tekst að hlaupa á jólum og milli jóla og nýárs.  


Týsdagur - Lengsta hlaup til þessa

Greip tækifærið, nú þegar loksins kom logn, og fór út að hlaupa. Veit ekki hvort ég hafi gert of mikið af því góða. Reyndi að spyrna jafnt, vera beinn í baki, halda öxlunum niðri og stökkva á stundum, kalla fram annars konar álag á hásin og hæl. Var nokkuð þreyttur þegar ég kom heim - ekki að ég hafi verið móður - heldur svona; nú hefi ég tekið vel á. Hljóp út að Suðurbæjarlaug og upp Hringbraut, og sömu leið og áður út að húsi Actavis. Reyndi að fara hægt yfir í upphafi, gekk ekki alveg eftir, gaf í á nokkrum stöðum á leiðinni. Hlaupataktur, var að meðaltali 5:30 en hraðast fór ég kílómetrann á 4:44. Vegalengdin var 8,7 á 48 mínútum og meðalpúls 167. Á leiðinni velti ég fyrir mér hvort ég ætti að taka þátt í Gamlárshlaupi ÍR, og fara undir 50 mínútum. Þegar ég kom heim fékk húsfrúin að teygja á lærvöðvum, þeir hafa sjaldan eða aldrei verið eins stuttir og núna. Verð að halda áfram að teygja.

Í síðustu viku hljóp ég þrívegis, verð - hið minnsta - að jafna það í þessari viku. Væri gott ef ég bætti  um betur og færi fjórum sinnum. Næstu tvö hlaup verða stutt, n.k. hvíldarhlaup, og er þá að hugsa um stutta hringinn upp Lækjargötu og út að húsi Actavis. Annars fer það alveg eftir veðri. Lægðirnar bíða víst í röðum og maður verður að leita færis.  


Sunnudagur - Í miðju stormsins

Það hætti að rigna og lygndi. Veðurspáin fyrir næstu daga er ekki vænleg fyrir útihlaup - fleiri lægðir á leiðinni - og að þeim sökum tók ég fram hlaupagræjurnar, setti kjúkling í ofninn, og fór út að hlaupa.  Sleppti ystu klæðum, enda hiti um 9°C. Reyndi að fara hægt yfir á fyrsta kílómetranum, gekk ekki alveg eftir - fór aðeins of hratt - en það var allt í lagi. Annars var þetta alveg ágætt hlaup. Fór sömu leið og í gær nema ég lengdi leiðina undir lokin, fór út að húsi Actavis, samtals um 7 km. og meðalhlaupataktur 5:42 mín/km. Er ég sneri heim við endann á Reykjavikurvegi byrjaði að rigna og hvessti á ný. Hér er mynd af leiðinni. Líklegast hljóp ég í miðju stormsins, því núna rúmlega klst. síðar er er komin rigning og hávaðarok. Kominn heim fékk sonurinn það hlutverk að teygja á fótum vorum og þeir titruðu, en finn að þetta gerir mér gott. Hann manaði mig til að gera magaæfingar, þær sömu og hann gerir eftir handboltann, ég lét það eftir honum og finn hve mikill dauðans aumingi ég er.

Næst verður hlaupið á morgun, en annars fer það eftir veðri, ef ekki hægt þá síðar. Ætla að fara sömu leið og í dag en lengja svo þegar líður á vikuna.  


Laugardagur - Kona pínir karl sinn

Ég fór út í morgun og hljóp sömu leið og áður í þessari viku. Nokkur hálka var á gangstéttum en götur verið saltaðar. Ég var snemma á ferð, engir bílar, svo ég leyfði mér að fara út á götu. Annars hljóp ég líka utan vega á grasi. Það reynir á hlauparann með öðrum hætti, n.k. utanvegahlaup! Fór hraðar yfir og þegar ég kom heim fékk húsfrúin að teygja á karli sínum. Hún hló að stirðleika mínum meðan hún píndi mig. Þetta var alls ekki þægilegt. Mínar teygjur til fótanna hafa kannski ekki verið réttar eða af neinu afli.

Set hér lesendum til fróðleiks hlaupatakt þessara þriggja hlaupa, fyrir hvern hlaupinn kílómetra. Fyrst hlaup dagsins í dag, þá í fyrradag og svo tveimur dögum áður. Veit svo sem ekki hvernig skuli túlka þetta. En segjast verður að ég jók hraðann alla vikuna. Tókst þó, eins og ég sagði eftir fyrsta hlaupið, að fara hægt yfir á fyrsta kílómetranum, enda var það ætlunin. Hita upp með hægu hlaupi í upphafi; fer enn of hratt og úr því þarf ég að bæta. Sé á hinum ýmsu hlaupasíðum að menn hita upp með hægu hlaupi, tölti, og svo má gefa í með ýmsum hætti en ljúka með hægu hlaupi. Verð að reyna þetta.

1 - 5:43 - 5:38 - 5:08
2 - 5:17 - 5:35 - 5:34
3 - 5:15 - 6:03 - 6:08
4 - 5:45 - 6:13 - 6:44
5 - 5:59 - 6:01 - 6:32
6 - 5:41 - 6:16 - 6:30

Annars á ég ekki von á því að hægt verði að hlaupa á morgun, sunnudag; enn ein lægðin á leiðinni. Vonandi næ ég að hlaupa á mánadag og svo framvegis. Vonandi, að lámarki, þrjú hlaup. Hlaup vikunnar, sem er að líða, voru samtals 18,8 km. Í næstu viku ætla ég bæta við, hafa hlaupin fjögur. Þrjú millilöng, eins og þau í þessari viku, svo eitt lengra. Sjáum bara til eftir því hvernig veðrið verður.


Þórsdagur - Sonur teygir föður

Þegar ég kom úr vinnu leit ekki út fyrir nein hlaup vegna veðurs en það rættist úr og lægði eftir snjókomuna. Hljóp sömu leið og í fyrradag, næstum 6 km. - hlaupataktur 5:58. Púls var lægri og leið betur. Færðin var ágæt, engin hálka eins og í fyrradag, og gaman að hlaupa í nýföllnum snjó. Kominn heim gerði ég allar mínar teygjur - finn að lendarvöðvar eru stuttir, þeir eru baksins böl - og svo fékk sonurinn að teygja á mínum fótum, píndi mig. Vonandi nær hann að laga þennan lappanna stirðleika. Þyki bjartsýnn þessa stundina.

Annars finnst mér að bílstjórar, sumir hverjir, ættu að skammast sín þegar kemur að vel merktum gangbrautum og gangandi eða hlaupandi fólki. Á leiðinni sem ég hljóp í dag eru að minnsta kosti fjórar vel merktar gangbrautir og þar stoppa bílstjórar sjaldan þegar maður er á ferðinni. Tek fram að maður er vel merktur í sjálflýsandi vesti. Ein gangbrautin er við lögreglustöðina og er undantekning að þeir stoppi. Þetta lýsir íslenskri umferðarmenningu!

Næst verður hlaupið á laugardaginn, veðurspáin er ágæt - en maður veit aldrei.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband