Laugardagur - Synt til liðkunar með bringusundshné

Hef ekki hlaupið neitt þessa vikuna. Velti því fyrir mér í morgun að fara langt en sundbrölt síðustu vikna hefur þreytt vinstra hné - klassískt bringusundshné með eymslum utanvert, nokkuð sem er þekkt meðal kappsfullra sundmanna. Af þeim sökum læt ég duga að hjóla og synda á meðan þetta jafnar sig. Fór því í laugina í þriðja skiptið í þessari viku og synti með blöðkunum - æfði skriðsunds- og baksundstök. Í potti var svo teygt af krafti - fann nýja teygju fyrir aftanverð læri, og ég nötraði.

Ég hjólaði fjórum sinnum til vinnu, það rigndi á mig í flest öll skiptin og varð ég gegnblautur til fóta. Í eitt skiptið á leiðinni heim, þegar rigndi sem mest, sprakk að framan. Varð hjólagarpur að setjast inn í strætóskýli til að skipta um slöngu  og það gekk vel. Aðrir ferðalangar, sem komu inn í skýlið urðu sannarlega undrandi er þeir sáu hvílík hetja var þarna; menni sem næstum reif dekkið af gjörðinni með tönnunum, skipti um slöngu og pumpaði í nýja slöngu á fumlausan hátt.

Þá var ég næstum farinn að gráta einn morguninn; hélt Garminn minn, traustan fylgdarsvein, dauðann. Ég stóð sportlegur frammi á gangi. Klæddur í hjólabrók með buff á höfði og hjálm í klofi (átti eftir að setja hann upp á hausinn). Var tilbúinn til brottfarar, út í rokið og rigninguna, með sportúrið á handlegg og kveikti á því. Beið þess að himintunglin næðu sambandi við mig. Ekkert gerðist og ég fylltist örvæntingu - auður, tómur skjárinn glotti - en lét ekkert á því bera hversu aumur ég var. Fór klökkur inn í eldhús og setti Garminn í samband við ferskt rafmagn, ekkert gerðist. Ég fór út án úrs og lagði hjólandi af stað. Alla leiðina til vinnu velti ég því fyrir mér hvað skyldi gera. Ekki hef ég efni á að kaupa nýjan Garm - kosta nú 44 þúsund en kostuðu 24 er ég fékk hann haustið 2007. Góða sterka íslenska krónan! Hugsaði með mér: Ég hætti snemma í dag og hjóla heim. Fer til þeirra sem flytja inn Garmana og læt þá líta á, ég hringi í húsfrúna og bið um bílinn til að reka þessi bráðnauðsynlegu erindi. Allt þetta var gert en húsfrúin svaraði ekki. Svo hringdi hún til baka og var heima. Ég bað hana klökkri röddu að líta á gripinn - og viti menn! Hann var á lífi. Rafhlaðan var bara tóm og ég að taugaveiklast að óþörfu. Ég tók gleði mína á ný. Þá sagði hún: Þú ert fljótur til þegar þetta bilar og minnti mig á hillur i kjallara sem bíða þess, og hafa beiðið lengi, að vera settar upp.

Kannski verður synt á morgun. Leiðtoginn hefur sent okkur æfingu í tölvupósti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband