Sumardagurinn fyrsti - Víðavangshlaup ÍR

Mágur minn hringdi í mig í gærkvöldi og brýndi mig til þátttöku. Eftir að hafa afsakað mig vegna skælds sköflungs gaf ég eftir; hjólamennskan hlýtur að hafa bætt hann og lagað! Ég vaknaði snemma, eða dóttirin sá til þess - spennt yfir sumargjöfinni. Bar bæði hitakrem og bólgueyðandi á beinin ber og gerði nokkrar léttar æfingar. Mágur sótti mig um ellefu og á leiðinni inneftir ræddum markmið okkar og tíma. Eftir að hafa greitt gjaldið hituðum við upp. Ég gætti þess að gera nóg af teygjum, því ég óttast ætíð að sköflungurinn taki upp á að eyðileggja fyrir mér kappsfullan sprett.

Klukkan tólf var sprett úr spori. Ég hefi tvívegis hlaupið þessa vegalengd, 2003 og 2007. Á sömu slóðum en ekki sömu leið. Í fyrra skiptið hljóp ég á 22:04 mín. og síðara skiptið 24:10 mín. Markmið mitt var hið minnsta að jafna bæta frá því síðast og best væri að slá gamla metið. Við ákváðum að koma okkur fyrir framarlega þannig að við hefðum tækifæri á að gefa í strax í upphafi.

Ég mun ekki halda því fram að hlaupið hafi verið þægilegt; það var ekki heldur óþægilegt - heldur tók bara vel í. Ég kom í mark á 22:42 og vantaði ekki mikið upp á bæta tímann. Það kemur alveg örugglega næst. Mágurinn gerði betur og hljóp á 21:18.

Hlaupatakturinn var þessi:

 1000    4:11     4:11 mín/km =14.34 km/t     
 1000    4:29     4:29 mín/km =13.38 km/t     
 1000    4:39     4:39 mín/km =12.9 km/t     
 1000    4:43     4:43 mín/km =12.72 km/t     
 1000    4:33     4:33 mín/km =13.19 km/t      

Á laugardaginn er vormaraþon en því miður tek ég ekki þátt. Skældi sköflungurinn sá til þess. Missti úr of margar langar æfingar. Annars leggst sumarið bara vel í mig (þ.e. ef sköflungsverkurinn er að baki). Hefi hug á að taka þátt í næstu tímatökuhlaupum og svo verð ég að byrja að lengja hlaupin; það styttist í "Laugaveginn".

Á morgun verður hjólað ef veður leyfir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband