14.2.2009 | 13:31
Laugardagur - Um allan bæ og út fyrir bæ
Sjötta vikan í æfingaráætluninni eru búnar og tíu vikur eftir.
Í dag var lengsta hlaupið á þessu ári, 21 kílómetri, og laugardagshlaupin eiga eftir að lengjast. Þessi dagur hófst með hefðbundnum hætti, þ.e. ef skal hlaupið. Ég fékk mér tvo bolla af sykruðu tei, tvær brauðsneiðar með osti og þá var stólgangur. Smurði auma bletti hitakremi - óttaðist sköflungsverk - og bar vaselín á núningsfleti, klæddist hlaupagalla, fór þó ekki í eins margar peysur og áður. Fyllti brúsana af vatni, tók með mér eitt orkugel og iPodinn. Í dag skyldi hlustað á Krossgötur.
Leið mín lá fyrst í áttina að Setbergi en gangstéttin var þakin klaka svo ég ákvaða að taka nokkrar slaufur um Álfaskeið, Hverfisgötu og Austurgötu, þá Hringbraut og Suðurgötu. Á sjöunda kílómetra stoppaði ég við Þjóðkirkjuna, til að fá mér að drekka. Þar hitti ég Davíð Þór og Ásgrím en þeir voru á leiðinni á Súfistann í heilsubótargöngu. Ég kvaddi þá og hélt í áttina að Holtinu og sem áður voru teknar lykkjur og slaufur. Er þeim var lokið hélt ég út á Álftanes og á leið minni þangað hitti ég Gísla ritara og þegar kominn út að Hrafnistu komu hlaupaflokkur Haukanna, þar voru sem áður fremst í flokki Jóhann og Díana. Þau höfðu ákveðið að fara öfugan hring. Allt í lagi með það; ég næ í skottið á þeim síðar. Er ég var búinn með Álftaneshringinn fór ég heim.
Ég er þokkalegur eftir hlaupi, aðeins þreyttur í fótum og þyrstur. Ég hvíli á morgun, fer kannski í sund og ligg þá í pottum. Á mánudaginn eru brekkusprettir. Bíst við að fara út á Álftanes, þar er hin rómaða vaselínbrekka; það fer þó allt eftir veðri. Svo er ein gata við Lækinn hér í Hafnarfirði. Þar er rík hefð fyrir brekkusprettum. Langa hlaupið á laugardaginn næsta verður svo 24 km.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.