29.10.2007 | 20:23
Mánadagur - Hlaupið með húsráðum
Lagði leið mína inn til Reykjavíkur í dag. Ætlað að kaupa eitthvað fallegt fyrir gjafabréfið frá bróður mínum og fjölskyldu hans en búðin var lokuð. Hitti þó einn hafnfirskan hlaupara, og eins og þeirra er háttur voru raktar meiðsla- og batasögur. Ég rakti raunir minnar hásinar og fékk það húsráð að blanda saman hitakremi og verkjastillandi hlaupi, og til að gera gott úr kaupstaðaferð fór ég í hafnfirskt apótek og keypti góssið. Kominn heim varð ég hinn smurði, skreytti meinið teygjusokk, fór í tvöfaldar buxur - þær innri þraungvar - og skrýddist að lokum glitvestinu; þar með varð ég hæfur til hlaupa.
Dagskráin var að hlaupa litla hringinn og bæta um betur, helst að ná undir 30 mínútum. Á leiðinni ákvað ég að breyta ögn og fór út að Actavis-húsinu. Hér er mynd. Fékk fyrirspurn um hvernig þetta væri gert: Þetta er gert með forriti sem tekur við upplýsingum úr garmni og er á www.motionbased.com. þar er svo hægt að kalla fram skýra mynd af hlaupaleiðinni. Vonandi er einhver hjálp í þessu.
Á leiðinni var nokkur hálka, stígar voru auðir en svellbungur ellegar blettir svo ekki gat ég beitt mér að fullu heldur hljóp úti í kanti. Munaði minnstu, í eitt skipti, að ég misstigi mig illilega er taka þurfti krappa beygju en fann hvað verða vildi og gat stoppað það af.
En tölur dagsins eru þessar: Tími: 0:37. Vegalengd: 6.7 km. Hlaupataktur: 5:33. Púls: 162.
Næst verður hlaupið á Óðinsdegi, ekki á morgun heldur hinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.