Færsluflokkur: Hlaup
25.12.2007 | 16:38
Jóladagur - Morgunhlaup á morgni jóladags
Það var sofið fram eftir í morgun; rumskaði þó þegar einhver setti trukkinn sinn í gang en sofnaði aftur. Við fórum á fætur um kl. 10 og ég ákvað að fara út að hlaupa áður en haldið yrði í matarboð hjá bróður mínum. Úti var jafnfallinn snjór og kom sér vel að eiga keðjur. Á leið minni sé ég að fleiri hlauparar höfðu farið um stígana í Hafnarfirði, hitti einn hlaupara á leiðinni. Þekki hann ekki en hef séð hann oft - og það löngu áður en ég fór að hlaupa. Las grein um hann í blaði fyrir mörgum árum. Fullorðinn maður sem hleypur í öllum veðrum. Leið mín lá út að Suðurbæjarlaug en stytti aðeins þegar ég nálgaðist heimilið - fór ekki út að Actavis, heldur fram hjá Nóatúni og heim. Samtals voru þetta u.þ.b. 8 km á 40 mínútum. [Tölur ekki staðfestar, hef ekki garminn hjá mér. Er hjá mágkonu minni bíðandi þess að næsta hangikjötsát hefjist.] Hefði ég farið fyrr af stað - ekki sofið svona langt fram eftir og ekki bundinn af því að fara í mat hjá bróður mínum - hefði ég farið lengri. Teygjur voru lélegar þegar ég kom heim. Varð að rjúka í sturtu og í matarboðið. Reyndi þó að teygja aðeins á kálfum og lærum - en það var nú meira gert til málamynda.
Hitti mág minn í gærkvöldi, er við vorum báðir útkýldir af kjöti, og hann sagðist til í að hlaupa með mér í Gamlárshlaupi ÍR. Væri jafnframt búinn að hlaupa einu sinni. Þá er best að búa til æfingaráætlun fram að hlaupi. Í dag eru sex dagar í hlaup. Bráðabrigðaáætlun, sem stenst vonandi ef veður verður skaplegt og kvefið og ónotin í hálsinum séu ekki upphaf neins. Hleyp tvívegis - 27. og 28. desember - tíu km fyrri daginn og sjö þann síðari. Athuga fyrri daginn hvort ég næ að halda hlaupatakti undir 5:00 km/mín og þá létt hlaup daginn eftir. Hvíli laugardag og sunnudag. Fer annan hvorn daginn í Sundhöll Hafnarfjarðar í heita pottinn og læt þar bununa ganga á alla auma staði.
Jæja, nú meira hangikjöt!
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2007 | 20:29
Þorláksmessa - Keðjur og nærbrækur
Gaf sjálfum mér í jólagjöf keðjur og nærbrækur, keyptar í Afreksvörum - ekki mislesa í Ástarvörum. Að sjálfsögðu var ekki hægt annað en að reyna græjurnar þegar heim var komið. Konu minni þótti nú fullmikið að kaupa nærbrækur í hlauparaverslun. Nærbrækur myndi fáu breyta og ég myndi ekki heldur viðurkenna annað en að þær væru til hins betra. Ég ákvað að hlaupa upp á Holt. Mynd af leið! Leið sem er um 11 km og hlaupatakturinn var 5:38 mín/km í -3°C. Keðjurnar reyndust vel í alla staði, í brekkum og beygjum, og það sama verður að segja um nærbrækurnar.
Þegar ég kom heim gerði ég mínar helstu teygjur og fékk soninn til að teygja á fótunum. Hann tók á mér, píndi mig hæfilega, eða skal ég segja illilega. Hélt við hné og teygði; ó hvað ég er styrður. Vonandi lagast þetta; þykist finna mun á hásin og svæðingu í kring.
Hitti í gær hestafrænda - mág minn sem seldi hestana sína fyrir 10 árum - og sagði honum að ég væri búinn að skrá hann í Gamlárshlaup. Sjáum til hvað gerist.
Veit ekki með hlaup á morgun, aðfangadag. Mitt að búa til mat og keyra út jólagjafir. Annars verður örugglega hlaupið á jóladag: Tvö matarboð og kaffi í milli.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2007 | 23:43
Frjádagur - Einmanna hetja í hagléli
Fór sömu leið og síðast, 8,7 kílómetrar á 48 mínútum og meðalpúlsinn 165. Held að þetta sé nú allt að koma. Lenti í hagli á leiðinni en hvarflaði aldrei að mér að hætta. Hetjur láta ekki smá hagl slá sig út af laginu. Fyrr í dag, á sundmóti með dóttur, hitti ég hlaupara sem æfir fyrir þríþraut í Köln; við lesum hvors annars blogg. Hann hefir séð færslur mínar um meiðsl og ráðlagði mér að gera eina æfingu og sýndi mér á sundbakka. Hún mun "vonandi" losa um hásinarinnar leiðinda verk. Þetta er sama æfingin og annar hlaupari sagði mér að gera. Þegar ég kom svo heitur heim eftir hlaupið gerði ég þessa æfingu. Hefi svo gert hana öðru hvoru í kvöld á milli tiltekta.
Tölur fyrir þessa viku eru: Vegalengd: 24,7 km (18,8 km).
Næst verður hlaupið á sunnudag. Spurning hvernig tekst að hlaupa á jólum og milli jóla og nýárs.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2007 | 22:35
Týsdagur - Lengsta hlaup til þessa
Greip tækifærið, nú þegar loksins kom logn, og fór út að hlaupa. Veit ekki hvort ég hafi gert of mikið af því góða. Reyndi að spyrna jafnt, vera beinn í baki, halda öxlunum niðri og stökkva á stundum, kalla fram annars konar álag á hásin og hæl. Var nokkuð þreyttur þegar ég kom heim - ekki að ég hafi verið móður - heldur svona; nú hefi ég tekið vel á. Hljóp út að Suðurbæjarlaug og upp Hringbraut, og sömu leið og áður út að húsi Actavis. Reyndi að fara hægt yfir í upphafi, gekk ekki alveg eftir, gaf í á nokkrum stöðum á leiðinni. Hlaupataktur, var að meðaltali 5:30 en hraðast fór ég kílómetrann á 4:44. Vegalengdin var 8,7 á 48 mínútum og meðalpúls 167. Á leiðinni velti ég fyrir mér hvort ég ætti að taka þátt í Gamlárshlaupi ÍR, og fara undir 50 mínútum. Þegar ég kom heim fékk húsfrúin að teygja á lærvöðvum, þeir hafa sjaldan eða aldrei verið eins stuttir og núna. Verð að halda áfram að teygja.
Í síðustu viku hljóp ég þrívegis, verð - hið minnsta - að jafna það í þessari viku. Væri gott ef ég bætti um betur og færi fjórum sinnum. Næstu tvö hlaup verða stutt, n.k. hvíldarhlaup, og er þá að hugsa um stutta hringinn upp Lækjargötu og út að húsi Actavis. Annars fer það alveg eftir veðri. Lægðirnar bíða víst í röðum og maður verður að leita færis.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2007 | 20:01
Sunnudagur - Í miðju stormsins
Það hætti að rigna og lygndi. Veðurspáin fyrir næstu daga er ekki vænleg fyrir útihlaup - fleiri lægðir á leiðinni - og að þeim sökum tók ég fram hlaupagræjurnar, setti kjúkling í ofninn, og fór út að hlaupa. Sleppti ystu klæðum, enda hiti um 9°C. Reyndi að fara hægt yfir á fyrsta kílómetranum, gekk ekki alveg eftir - fór aðeins of hratt - en það var allt í lagi. Annars var þetta alveg ágætt hlaup. Fór sömu leið og í gær nema ég lengdi leiðina undir lokin, fór út að húsi Actavis, samtals um 7 km. og meðalhlaupataktur 5:42 mín/km. Er ég sneri heim við endann á Reykjavikurvegi byrjaði að rigna og hvessti á ný. Hér er mynd af leiðinni. Líklegast hljóp ég í miðju stormsins, því núna rúmlega klst. síðar er er komin rigning og hávaðarok. Kominn heim fékk sonurinn það hlutverk að teygja á fótum vorum og þeir titruðu, en finn að þetta gerir mér gott. Hann manaði mig til að gera magaæfingar, þær sömu og hann gerir eftir handboltann, ég lét það eftir honum og finn hve mikill dauðans aumingi ég er.
Næst verður hlaupið á morgun, en annars fer það eftir veðri, ef ekki hægt þá síðar. Ætla að fara sömu leið og í dag en lengja svo þegar líður á vikuna.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2007 | 21:44
Þórsdagur - Sonur teygir föður
Þegar ég kom úr vinnu leit ekki út fyrir nein hlaup vegna veðurs en það rættist úr og lægði eftir snjókomuna. Hljóp sömu leið og í fyrradag, næstum 6 km. - hlaupataktur 5:58. Púls var lægri og leið betur. Færðin var ágæt, engin hálka eins og í fyrradag, og gaman að hlaupa í nýföllnum snjó. Kominn heim gerði ég allar mínar teygjur - finn að lendarvöðvar eru stuttir, þeir eru baksins böl - og svo fékk sonurinn að teygja á mínum fótum, píndi mig. Vonandi nær hann að laga þennan lappanna stirðleika. Þyki bjartsýnn þessa stundina.
Annars finnst mér að bílstjórar, sumir hverjir, ættu að skammast sín þegar kemur að vel merktum gangbrautum og gangandi eða hlaupandi fólki. Á leiðinni sem ég hljóp í dag eru að minnsta kosti fjórar vel merktar gangbrautir og þar stoppa bílstjórar sjaldan þegar maður er á ferðinni. Tek fram að maður er vel merktur í sjálflýsandi vesti. Ein gangbrautin er við lögreglustöðina og er undantekning að þeir stoppi. Þetta lýsir íslenskri umferðarmenningu!
Næst verður hlaupið á laugardaginn, veðurspáin er ágæt - en maður veit aldrei.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2007 | 21:19
Týsdagur - Píndur faðir milli lægða
Loksins, eftir langt hlé, var hlaupið. Hefi verið að hvíla auma hásin, lélega sin, sem er mér ætíð til ama. Finnst sem hún sé nú í lagi, sérstaklega eftir að ég fékk teygjusokkinn hjá syninum. Fór því út í náttmyrkrið og hálkuna eftir að hafa gefið börnunum að borða og hljóp mína leið. Áður en ég fór af stað bar ég hitakrem á alla auma staði og náði tenginu við gervihnettina. Sem áður hljóp ég of hratt í byrjun - þetta verð ég að laga - en hægði svo á mér, helst þó vegna þrekleysis. Hlé á hlaupum, með öldrykkja og hóflausu áti í útlöndum, er ekki til að bæta ástandið. Þegar ég kom heim eftir hlaupið hófust teygjur og ég fékk soninn, handboltamennið, til að teygja á mér. Aðallega lærvöðvum; þar var faðirinn píndur. Nú er ég, eins og aðrir, á milli lægða, stormur í gær og annar annað kvöld, svo það er spurning hvenær ég hleyp næst. Þegar þessi skrif eru á enda sest ég í sófa og kæli sinina í tíu mínútur tvisvar sinnum. Þá hitakrem og bæli.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2007 | 17:41
Laugardagur - Morgunhlaup
Fór út í morgun, veðrið var frábært; við frostmark og logn, og ég hljóp og ekki hljóp litla hringinn. Heildarvegalengd var 6.1 og fór ég fyrstu kílómetrana á þokkalegum tíma, án allra verkja eða vandræða, hlaupataktur 4:48 og 4:38. Ætlaði svo sem ekki að hlaupa svona hratt í upphafi; varð að hlaupa i mig hita. Svo ákvað ég að fara hægar yfir, var orðinn þyrstur; hefði átt á drekka meira vatn áður en ég fór af stað. Kom við í sjoppu á Flatahrauni og fékk vatn. Stúlkan fékk mér stóra könnu og ég drakk. Eftir nokkurn tíma, á fjórða og fimmta kílómetra, fann ég fyrir eymslum aftaní hægra læri, sama og um daginn. Vonandi er það ekki upphafið á neinni alvarlegri slæmsku. Held að innleggin, sem ég keypti í vikunni, séu að gera sitt gagn. Þegar ég kom heim reyndi ég að gera allar mínar teygjur og lá lengi í dyragættinni og teygði á lærvöðvum.
Næst verður hlaupið á morgun eða mánadag, fer svo til útlanda og þá verður hlé.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2007 | 22:23
Þórsdagur - Hlaup eftir innkaup
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2007 | 23:23
Mánadagur - Slappt hlaup, stekkjarstaur
Fór út um níu leytið og hljóp af stað. Ætlaði hefðbundna leið - litla hringinn - en þegar ég jók hraðann, er leiðin lá upp eftir Lækjargötu, hljóp illur verkur aftan í lærið. Hætti hlaupi og haltraði heim, fúll stekkjarstaur! Kominn heim tók ég ísmola úr frysti, bleytti og lagði aftan á lærið, einnig hásinarhelvítið. Lærdómurinn er þessi: hvíldu nú, komdu þér inn í íþróttahús og gerðu styrkjandi æfingar fyrir kroppinn. Brátt fer að frysta og þá verður varla hægt að hlaupa úti við. Annars er allt gott að frétta af bakinu.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)