Færsluflokkur: Hlaup

Mánudagur - Loksins sprettir með kjuklingasamloku í maga

Loksins voru hlaupnir sprettir. Varla var þó farandi út; rok og rigning, en það lægði, hætti að rigna og byrjaði að snjóa. Þá dreif ég mig eftir að hafa verið á báðum áttum, búinn að borða tvær samlokur með kjúkling og osti. Ekki besti undirbúningur fyrir spretti.

Ekki var hægt að hlaupa á Kaplakrika, allt í klaka, svo ég fór út að Hrafnistu. Þar er gamalmennagata sem liggur í boga, út af aðalgötunni og til baka, og sárasjaldan keyrt eftir. Hún er næstum 800 metra löng og tilvalin til að taka spretti á. Þangað á ég eftir að fara aftur.

Dagsskipunin var fjórir 800 m sprettir á hlaupataktinum 5:06-4:54 mín/km. Þetta tókst mér, gerði aðeins betur, og fór ég sprettina, að meðaltali, á: 4:52, 4:50, 4:50 og 4:35. Á síðasta spretti gaf ég í og var líka móður eftir. Og ef þetta er fært yfir í Yasso-einingar þá hljóp ég hvern sprett á: 3:54, 3:52, 3:52 og 3:40 mín. Takist mér að hlaupa tíu slíka spretti á undir fjórum mín þá tekst mér að hleypa heit á undir fjórum klst

Á hlaupunum verkjaði mig í sköflunga - líklega vegna þess hve hratt og fast var stigið niður. Vonandi verður þetta mér ekki til trafala.

Á morgun verður rólegt hlaup, lullandi 11 km.


Miðvikudagur - Stutt hlaup, enn of stirður

Hljóp, mjög rólega, minn stutta hring um bæinn. Sex kílómetra og hlaupataktur 6:04. Er allt of stirður, fæ fljótt verk í fót og svo eru "hamstrengirnir" allt of stuttir. Þetta gerir mig fúlan í skapi. Teygi sem ég get, þetta hlýtar að koma einhvern daginn, það má ekki gefast upp.

Laugardagur - Hjólað og gengið á fjall

Ég hjólaði upp að Kaldárseli, skokkaði að Helgafelli, gekk rösklega á toppinn og niður, skokkaði til baka og hjólaði heim. Slíkt hefi ég aldrei gert áður, hjólað og gengið á fjall í sömu ferð. Þetta reyndi nokkuð á skrokkinn. Sérstaklega þegar ég gekk upp fjallið, þá verkjaði mig í neðarlega í kálfana - þeir urðu grjótharðir en mýktust þegar ég komst upp á topp. Þegar ég settist niður og fékk mér banana og drykk. Heimleiðin reyndi smávegis á, þá var ég með vindinn í fangið.

Næst þegar ég endurtek þetta þá ætla ég að vera með þunna vettlinga, ef ég þarf að bera fyrir mig höndum; fjallið er sem grófur sandpappír. Svo fer ég kannski í aðra skó en hlaupaskó.

Þegar gögn eru skoðuð úr garmi kemur í ljós að þegar komið er upp í Kaldársel er maður í 100 metra hæð yfir sjávarmáli svo hækkunin við Helgafell er ekki nema 283 metrar þótt tindurinn sé skráður eitthvað nálægt 384.


Föstudagur - Hjólað

Ég hélt áfram að hjóla í kvöld. Fór víðsvegar um bæinn. Náði að hjóla 20 km á 58:29 og svo rólega nokkra kílómetra eftir það. Mótvindur dró stundum úr hraða en stundum létti hann mér róðurinn. Á meðan ég hjólaði velti ég fyrir mér hvert ég ætti að hjóla á morgun, löng ferð, og gæli við að hjóla upp að Kaldárseli - þó ekki hratt - og hvort ég ætti að fara upp á Helgafell. Sameina hjólamennsku og fjallarölt! Sjáum til, en þá þarf ég að vakna snemma og nesta mig. Svo var ég að velta fyrir mér hvað ég á að gera í Reykjavíkurmaraþoninu! Var fyrir löngu búinn að skrá mig í heilt, en nú hefi ég ekki geta hlaupið langt lengi og finn aðeins fyrir verk í mjöðm - vil ekki eyðileggja á mér mjöðmina og fordjarfa hlaupaferilinn. Kannski tek ég bara þátt í hálfu eða tíu km.

Miðvikudagur - Loksins hlaupið

Er í sumarhúsi fjölskyldunnar og er nettengdur með pung - netpung. Ég hljóp aðeins - 8 km rólega - gert til að athuga hvert væri ástandið á IT bandinu. Eftir nokkra km kom verkur við mjöðm og ég hætti. Nú verða hlaupin hvíld en teygt.

Þriðjudagur - IT bandið spilar í kvöld

Hljóp rólega og IT bandið byrjaði að spila með mig á 8da eða 9da kílómetra. Úti var rigning, í fyrsta skipti í langan tíma, svo ég gegnblotnaði og fór í nokkra polla. Síendurtekinn verkur í bandi verður til þess að ég ákvað að hvíla það sem eftir vikunnar en halda áfram að gera teygjuæfingar. Mun, af þeim sökum, ekki hlaupa á Akranesi um helgina, beið spenntur eftir þessu hlaupi því mér er sagt að brautin þar sé góð til að bæta tímann sinn. Ég mun hitta sjúkraþjálfarann á fimmtudagsmorguninn; gef honum skýrslu um ástandið og hann ráðleggur mér með framhaldið, og svo fer ég undir lok dags, að hans ráði í göngugreiningu; verður forvitnilegt að sjá hvað kemur út úr því.

Mánudagur - Hlaupið, næstum á skilti


Á leið minni upp á Kaplakrika. þar sem er sprett úr spori, hljóp ég næstum á skilti við blokk gamalmennanna; glápandi á reykjandi drengaula. Sprettirnir, þrítekin míla og hvílt á milli, voru skemmtilegir. Mest um vert var að enginn verkur kom í mjöðm og hásin. Jók ég hraðann eftir því sem sprettum fjölgaði; hraðast kílómetrann á 4:20. Hitti frjálsíþróttaþjálfara sonarins, en hann æfði eitt sinn, og kenndi hún mér liðkunaræfingar fyrir mjaðmir; lofa að gera.

Svo þegar heim var komið var teygt. Á morgun verður rólegt hlaup, og sjáum til með hvernig mjöðm og annað í skældum skokk lætur.

Hér birtast tvær myndir frá Miðnæturhlaupi, ein uppstillt og önnur gjaldgeng í grettu- og geiflukeppni frístundarhlaupara.  

Miðnæturhlaup 2008 (1)Miðnæturhlaup 2008 (2)


Sunnudagur - Rólegt á sunnudegi

Fór út til að athuga ástandið á IT bandinu og það kom fljótt verkur. Verð að teygja á þessu oft á dag og koma í lag. Akraneshlaup, um næstu helgi, er í uppnámi og hvað þá afmælishlaup bróður míns, þann 23. ágúst. Farinn að teygja og nudda.

Laugardagur - Langt rólegt

Þetta var viðmiðunarhlaup; langt rólegt, fylgst með hvort og hvenær IT-bandið byrjaði að spila. Eins og upp á síðkastið þegar ég var búinn með minn 13da eða 14da kílómetra. Fór nýja leið. Upp með Setbergi, fram hjá tveimur vötnum og tveimur golfvöllum, gegnum Garðabæinn - fyrir neðan Hæðina, Sjáland og heim. Kominn heim gerði ég teygjurnar mínar. Á morgun verður farið í sund og nuddað úr sér.

Miðvikudagur - Rólegt um bæinn

Nennti ekki að hlaupa í gærkvöldi, var þreyttur eftir keppnishlaupið kvöldið áður - enda keyrði ég mig út í því hlaupi og bætti tímann, svo má ekki láta æfingarprógrammið stjórna lífi sínu. Þess vegna fór ég út í kvöld og hljóp mitt rólega hlaup - hlaup gærdagsins, án nokkurrar áreynslu. Alveg rétt sem sjúkraþjálfarinn sagði, og ég vitað en ekki virt! maður verður líka að hvíla! Fyrsta kílómetrann var ég þungur og stífur en svo gerðist ég léttari og liðugri en gætti mín á því að gefa ekki í heldur halda hlaupatakti innan markanna 5:52-6:05 og það tókst og í valnum lágu 13 km. Mikilvægast, að ég held, í þessu rólega hlaupi var að fylgjast með mínu IT-bandi og ég held það hafi verið til friðs og þegar ég kom heim gerði allar þær teygjur sem sjúkraþjálfarinn kenndi mér í dag. Ég lofa svo að gera þær allar alla daga (kannski verður það svikið eins og loforðin um armbeygjur og magaæfingar). Á samt ekki von á, vegna anna, að geta hlaupið fyrr en um helgina kann þó að breytast; allt eftir aðstæðum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband