20.6.2009 | 20:34
Laugardagur - Sportleggur hljóp sitt lengst hlaup
Í dag eru fjórar vikur þar til sportleggur hleypur "Laugaveginn" og ég hljóp mitt lengsta hlaup til þessa. Dagskipunin hljóðaði upp á hægt 32 kílómetra skokk. Ég vissi að flokkur væri að fara frá Árbæjarlaug upp í Heiðmörk um hálf níu svo ég ákvað að mæta þangað í morgunsárið. Síðan var lagt í hann.
Eftir um tíu km skiptist hópurinn upp í tvo hópa, síðar skiptist annar hópurinn í tvennt og var ég í honum. Allir skiluðu sér aftur að Árbæjarlaug og fór hver hópur mislangt: 30, 32 og 35 km. Held að það hafi verið mér til happs að vera ekki einn í þessu hlaupi því ég er viss um að þá hefði ég fyrir löngu verið búinn að sprengja mig. Stoppað var á fimm kílómetra fresti til að taka inn orku og held ég það skynsamlegt, og gerðum við slíkt þar til tólf kílómetrar voru eftir. Að visu fór ég, ásamt félaga mínum, með vaxandi hraða. Hlaupatakturinn fyrstu tíu var 6:11 mín/km, svo 6:04 og þá 5:48. Síðustu tvo á 5:40. Að jafnaði var hlaupatakturinn 6:00 Fyrstu tíu kílómetrarnir voru áreynslulausir því alltaf var ég að fylgjast með hvort kæmi verkur í mjöðm. Næstu tíu voru allt í lagi. Þeir síðustu tólf voru þyngri enda þurftum við til að klára hringinn að taka litla Poweradehringinn tvívegis til að ljúka og þar er stutt brekka sem tók í, sérstakelga í seinna skiptið. Það kom mér á óvart hvað ég komst létt frá þessu. Nú, þegar þetta er skrifað, er ég ágætur í skrokknum - verkjar aðeins í mjöðm. Mínir stuttu mjaðmargrindarvöðvar að stríða mér en þeir jafna sig.
Næsta laugardag verður hlaupið enn lengra: 36 km. en svo trappar maður sig niður; 29 og 20 km. Á morgun verður hvílt, kannski hjóla ég.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allt getur verið svo óvænt og ótryggt, alveg eins og í Æseif. Hjólaði lengri leið til vinnu, bara vissi ekki hvað ég var að gera, og fór fyrir Kársnesið. Hvað er menn að pæla; hjóla lengri leið til vinnu þegar engin þörf er á slíkri vitleysu. Þegar vinnu lauk hjólaði ég í áttina heim, þá hitti ég félaga mína í hlaupahópnum en þeir voru við Nauthólsvík. Foringinn stöðvaði mig og spurði hvort ég væri ekki til í að hlaupa með. Ég sem er leiðitamur hljóp með, næstum níu kílómetra - rólegt skokk - en fór ekki í sjóinn eftir hlaup; var ekki með skýlu. Þá var ráð að hjóla heim - kökur og snittur biðu í afmæli tengdamóður minnar. Ekki gat ég nú farið beint heim, heldur varð ég að hjóla hringinn á Arnarnesinu. Nú get ég lengt leiðina til og frá vinnu.
Á morgun hvíli ég - ekkert liðkunarhlaup. Svo langt á laugardaginn, eins langt og druslan kemst. Samt mun ég hjóla í vinnuna.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2009 | 22:12
Miðvikudagur - Sporléttur er þungstígur
Æfingaráætlun skipaði mér að hlaupa rösklega í dag - skiptir engu hvort það sé sautjándi júní eða ekki. Eftir að hafa mætt á Víðistaðatún og beðið lengi í röð með dóttur til að komast í hoppukastala fórum við heim. Mæðgurnar fóru í skrúðgöngu en ég út að hlaupa. Var stirður eftir afrekin í gær en ákvað að fara hægt til að byrja með - hita vel upp og fara mína næstum fimm kílómetra, hvern km. á næstum fimm mínútum eins og prógrammið sagði mér að gera. Þetta gekk eftir en sporléttur var þungstígur síðasta spölinn. Niðurskokkið, mílan sem á að vera rólegt, varð rólegt skokk - oftast á ég erfitt með að halda aftur af mér. Kominn heim reyndi ég að teygja - fann fyrir ónotum í aftanverðu læri.
Á morgun verður ekki hlaupið en ég ætla nú að hjóla í vinnuna. Félagar mínir, Steinn og Helgi, sem hafa oft hjólað á sömu slóðum og ég, bentu mér á fínar lykkjur til að lengja, bæði á Arnarnesi og Kársnesi. Ég er búinn að skoða þetta Google Earth og aldrei að vita nema það verði bætt í í fyrramálið.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2009 | 23:57
Þriðjudagur - Flóðhesturinn hljóp
Bæði í dag og gær fór hlunkurinn um hjólandi og hlaupandi. Hljóp að vísu bara í dag; þetta hljómar bara betur svona. Það þýðir lítið að láta frjókornin slá sig út af laginu og fella sig; frekar fara hjólandi í vinnuna og til baka. Ræskja sig nokkrum sinnum og láta gossa. Fátt er til tíðinda af hjólamennsku nema að brátt mun ég lengja leiðina - spurning um að fara út fyrir Kársnesið, bara ef bæri búið að malbika þennan bút í Fossvogi. Leiðinlegt að þurfa að fara af baki og teyma yfir hæðina.
Eftir vinnu, kominn heim eftir nokkra hvíld fór ég út að hlaupa. Hef ekki hlaupið síðan í Vatnsmýrarhlaupi og því var ekki seinna vænna en að hlaupa lítið eitt. Því í fyrradag staðfesti ég þátttöku mína í "Laugaveginum" og nú er mánuður til stefnu. Í kvöld skokkaði ég 14,5 km á hægum hraða. Var nú þungur á mér - hljóp sem mest á grasi og utan vega. Fæturnir eru ekki alveg að samþykkja að hjóla og hlaupa sama daginn - en ætli ég hafi ekki bara gott af því.
Á morgun verður rösklegt 4,8 km. hlaup, fyrst upphitun og svo rólegt til hvíldar. Reyni að fara snemma út og svo með dóttur í sund.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2009 | 17:35
Laugardagur - Frjókorn hlupu karl um koll
Ætlunin var að taka þátt í 7 tinda hlaupi sem haldið er í Mosfellssveit í dag en það breyttist í gær þegar frjókorn skelltu mér í bæli og stífluðu hausinn, kýrskýra. Þannig er málum háttað að fyrir utan heima hjá mér standa tvö falleg tré sem blómgast á hverju ári - ekki veit ég hvað þau heita - og senda blómin frá sér frjó og angan. Ég í andavaraleysi, fattaði ekki að loka gluggum og gleypa töflur er ég kom heim frá útlöndum á fimmtudagskvöldið. Vaknaði því slappur á gær og bjóst við að ég myndi ná að jafna mig allan þann daginn en í morgun var útséð að ekki myndi ég hlaupa af neinu viti og afréð því að hætta við þátttöku. Vonast bara til að vera laus við þetta á mánudaginn svo ég geti nú byrjað á því að hjóla til vinnu.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2009 | 23:57
Laugardagur - Úlfljótsvatnshlaup
Í dag hljóp ég Úlfljóstvatnshlaupið, ásamt mörgum öðrum og þar á meðal skólabróður mínum, Pjetri St. Arasyni. Þetta er nýtt utanvegahlaup sem er glæsilegt í alla staði. Leiðin fjölbreytt: Ég varð að hoppa yfir skurði, stökkva yfir lækjarsprænur, fara upp og niður grýttar brekkur, hlaupa eftir hjólförum og kindastígum - mjög skemmtilegt. Aðstaða á keppnisstað og drykkjarstöðvar eins og maður vill hafa það. Veðrið var líka framúrskarandi gott.
Hlaupið var auglýst sem 20+ km svo maður vissi í sjálfu sér ekki hvenær það væri búið, nema að það væri lengra en 20 km og hélt ég það vera eitthvað um 21. Þannig að þegar kom að lokum þess gaf ég í og jók hraðann frá 16da kílómetra - reyndi að láta mig rúlla - og þegar næstu nítján voru í höfn var okkur sagt að þrír væru eftir. Af þeim sökum var ég búinn með endasprettinn aðeins áður en ég kom í mark. Síðasti kílómetrinn var því erfiður.
Er þetta er skrifað er ég öng stífur og með strengi; verstur þykir mér verkurinn í táberginu sem kemur aftur og aftur. Nú er bara að meta ástandið og svara spurningunni hvort herrann sé tækur í Laugavegshlaupið. Annars held ég að hjólatúrarnir séu að bæta mitt ástand - læri og lappir voru fínar allt hlaupi, fann aðeins fyrir þreytu í IT-bandi en það lagaðist með teygjum og togi.
Á morgun fer ég til útlanda og verð þar fram á fimmtudag; kannski góð hvíld fyrir "7 tindahlaupið"!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2009 | 22:13
Fimmtudagur - Hjólað í bráðri hættu
Í anda sannrar íþróttamennsku er haldið áfram að hlaupa og hjóla, bæði kvölds og morgna. Þess á milli er teygt og skemmt heimilisfólki - ekki öllum býðst að horfa á stirðasta menni Íslands reyna sig. Í morgun á leið minni til vinnu, kominn framhjá Nauthólsvík, sprakk slangan í afturdekkinu á hjólinu og neyddist íþróttamennið til að taka strætó upp á Hlemm. Fór með hjólið í viðgerð og fékk gert við það. Nú þarf ég að læra listina og strjúka dekkjunum oftar í leit að glerbrotum. Sótti svo fákinn seinnipartinn og hjólaði heim. Til að ná þeim kílómetrum sem farnir eru venjulega tók ég nokkrar slaufur - Kársnes og Arnarnes.
Á Álftanesveginum tók bjálfi á stórum jeppa fram úr öðrum slíkum er þeir keyrðu á móti mér. Fann ég hvernig hjartað tók kipp er ég uppgötvaði í hvílíkri hættu ég var.
Hefi hlaupið einu sinni - rólega eina 15 kílómetra - og IT-bandið spilar á mig og þess vegna reyni ég að slaka á því með teygjum. Löpp upp á borð og þokkafull lendarteygja með mjaðmaskaki.
Hefi skráð mig í utanvegahlaup á laugardaginn - mun ekki hlaupa neitt fyrr en þá. Eftir hlaupið verður staðan metin og reynt að svara spurningunni: Er hlunkur tækur í Laugaveg? Held þó áfram að hjóla.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2009 | 23:39
Mánudagur - Sprettir teygðir með dóttur
Verið latur við skýrslugjörð síðustu vikuna. Annars hef ég reynt að hjóla og hlaupa. Í dag, eins og aðra mánudaga, voru sprettir. Ég og dóttirin fórum upp á Kapla og fyrir lág að hlaupa þrem sinnum 2,4 km hratt; halda hraðanum á bilinu 4:48-5:02 mín/km. Ég var þungur á mér, þreyttur eftir tilhlaupið síðasta laugardag þegar ég reyndi að hlaupa 29 km en gafst upp eftir 23 er öll orka var búin - lærin orðinn þung. Ætli ég hafi ekki hitt þennan "vegg" sem er stundum talað um. Harðsperrurnar eftir tilhlaupið það voru ótrúlegar þrátt fyrir teygjur og tog.
En að afreki dagsins í dag. Við vorum komin upp í Kapla fyrir hádegi og þar var hlaupið hratt, og að sjálfsögðu fór ég of hratt. Hver sprettur var hlaupinn; sá fyrsti hraðastur af þeim öllum og svo dróg úr. Hefði átt að vera á hinn veginn. Gaman er að bera þessa æfingu saman við aðra samskonar er ég hljóp 9. mars (tölur í sviga). Fór hraðar og púlsinn almennt lækkað. Þegar hlaupum var lokið reyndi ég hvað ég gat til að teygja og liðka. Síðar fórum við í sund og þar hélt ég áfram að teygja. Kominn heim hélt ég svo áfram að teygja. Liggjandi nötrandi í dyragætt með skakklappir uppi á vegg - gott að enginn sá til mín.
4:31 (5:01) - 144 (156)
4:36 (4:52) - 143 (163)
4:42 (4:40) - 163 (162)
Á morgun verður hjólað í vinnuna og svo hlaupið rólega um kvöldið.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2009 | 21:54
Mánudagur - Örn og börn hlupu
Á mánudögum eru sprettir. Í dag voru það fjórtán sinnum 200 metrar - og að venju fór ég of geyst; bara aðeins. Hlaupatakturinn var rétt undir fjórum, á bilinu 3:35-4:00 mín/km., en átti að vera um 4:15. Mér leið ágætlega nema það var örlítill verkur í vinstri lendarvöðva.
Með mér á æfingu var dóttirin síkáta - hljóp hún með á vellinum. Sonurinn var svo að hamra lóðin í Kapla. Svo hlupu feðgar heim, að vísu var drengurinn aðeins á unda. Móðirin var hins vega kvefuð heima. Ég hitti gamlan skólabróður minn þarna á Kapla, en hann er með drenginn og aðra handboltadrengi á styrktaræfingu, og sýndi hann mér nokkrar teygjur - og kominn heim var karl á fimmtugsaldri að fetta sig á stigagangi.
Á morgun er langt rólegt - sjáum til með lendarvöðvann sem virðist stýra þessu öllu.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2009 | 16:12
Laugardagur - Hálft maraþon og verkur í lendarvöðva
Til eiga einhverja von um ljúka Laugavegshlaupi á sómasamlegum tíma verður maður að halda sér við og reyna hvað maður getur til að bæta þol og úthald. Samkvæmt mínu æfingarprógrammi átti ég að hlaupa hálft maraþon í dag og skyldi hlaupatakturinn vera á bilinu 5:12-5:02 mín/km. Ekki var ég mjög spenntur þegar ég kom mér loksins út úr húsi, var stífur í lærum. Ég lagði af stað og gætti mín á því að fara ekki of hratt. Taka drykkjarpásu þegar ég væri búinn með 6, 11 og 15 km og fá mér orkuskot í fyrstu tvö skiptin. Mér leið ágætlega meðan ég var á ferðinni en síðustu tveir km. voru erfiðir; helvítis verkur í vinstri mjöðm - þarf að teygja vel á þessum lendarvöðvum. Annars lauk ég hlaupinu á 1:45 og veit að ég get betur.
Ég hljóp sömu vegalengd fyrir þremur mánuðum, og þá var ég ekki byrjaður að hjóla. Þá fór ég hægar yfir og hlaupatakturinn var 5:21 en í dag var hann 5:00. Merkilegast þykir mér þó að púlsinn hefur lækkað umtalsvert, úr 166 slögum (86%) í 144 slög (75%). Held að hjólamennska, til og frá vinnu, bæti þolið og lækki púlsinn.
Á morgun ætla ég að hvíla - ef eitthvað þá fer ég í sund. Annars var vikan svona. Hljóp 50 km. og hjólaði 107 km., samtals á 9 klukkustundum.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)