11.12.2007 | 21:19
Týsdagur - Píndur faðir milli lægða
Loksins, eftir langt hlé, var hlaupið. Hefi verið að hvíla auma hásin, lélega sin, sem er mér ætíð til ama. Finnst sem hún sé nú í lagi, sérstaklega eftir að ég fékk teygjusokkinn hjá syninum. Fór því út í náttmyrkrið og hálkuna eftir að hafa gefið börnunum að borða og hljóp mína leið. Áður en ég fór af stað bar ég hitakrem á alla auma staði og náði tenginu við gervihnettina. Sem áður hljóp ég of hratt í byrjun - þetta verð ég að laga - en hægði svo á mér, helst þó vegna þrekleysis. Hlé á hlaupum, með öldrykkja og hóflausu áti í útlöndum, er ekki til að bæta ástandið. Þegar ég kom heim eftir hlaupið hófust teygjur og ég fékk soninn, handboltamennið, til að teygja á mér. Aðallega lærvöðvum; þar var faðirinn píndur. Nú er ég, eins og aðrir, á milli lægða, stormur í gær og annar annað kvöld, svo það er spurning hvenær ég hleyp næst. Þegar þessi skrif eru á enda sest ég í sófa og kæli sinina í tíu mínútur tvisvar sinnum. Þá hitakrem og bæli.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2007 | 17:41
Laugardagur - Morgunhlaup
Fór út í morgun, veðrið var frábært; við frostmark og logn, og ég hljóp og ekki hljóp litla hringinn. Heildarvegalengd var 6.1 og fór ég fyrstu kílómetrana á þokkalegum tíma, án allra verkja eða vandræða, hlaupataktur 4:48 og 4:38. Ætlaði svo sem ekki að hlaupa svona hratt í upphafi; varð að hlaupa i mig hita. Svo ákvað ég að fara hægar yfir, var orðinn þyrstur; hefði átt á drekka meira vatn áður en ég fór af stað. Kom við í sjoppu á Flatahrauni og fékk vatn. Stúlkan fékk mér stóra könnu og ég drakk. Eftir nokkurn tíma, á fjórða og fimmta kílómetra, fann ég fyrir eymslum aftaní hægra læri, sama og um daginn. Vonandi er það ekki upphafið á neinni alvarlegri slæmsku. Held að innleggin, sem ég keypti í vikunni, séu að gera sitt gagn. Þegar ég kom heim reyndi ég að gera allar mínar teygjur og lá lengi í dyragættinni og teygði á lærvöðvum.
Næst verður hlaupið á morgun eða mánadag, fer svo til útlanda og þá verður hlé.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2007 | 22:23
Þórsdagur - Hlaup eftir innkaup
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2007 | 15:56
Laugadagur - Í íþróttahúsi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2007 | 23:23
Mánadagur - Slappt hlaup, stekkjarstaur
Fór út um níu leytið og hljóp af stað. Ætlaði hefðbundna leið - litla hringinn - en þegar ég jók hraðann, er leiðin lá upp eftir Lækjargötu, hljóp illur verkur aftan í lærið. Hætti hlaupi og haltraði heim, fúll stekkjarstaur! Kominn heim tók ég ísmola úr frysti, bleytti og lagði aftan á lærið, einnig hásinarhelvítið. Lærdómurinn er þessi: hvíldu nú, komdu þér inn í íþróttahús og gerðu styrkjandi æfingar fyrir kroppinn. Brátt fer að frysta og þá verður varla hægt að hlaupa úti við. Annars er allt gott að frétta af bakinu.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2007 | 19:06
Laugardagur - Langt hlaup á holtið
Þegar ég fór á fætur með dótturinni í morgun, rétt fyrir hálf átta, var rigning og rok. Leit þá ekki út fyrir að yrði hlaupið. Á meðan hún horfði á barnaefni lá ég í bæli sonar og svaf; hann var ekki heima í nótt heldur í bílskúr hjá skólabræðrum að "lana", spila tölvuleik. En um klukkan 10 var hætt að rigna og rokið lægt. Þá ákvað ég að fara út og hljóp upp á holt en þó ekki lengri leiðina; fer hana næst og þar næst upp hjá Kaplakrika og yfir göngubrúna í Garðabæ.
Tölur eru þessar: Tími: 1:02. Vegalengd: 11.15 km. Hlaupataktur: 5:35. Púls: 159.
Hér er hlaupatakturinn í dag. Í sviga eru tölur frá því í fyrradag en þá var hlaupin sama leið í upphafi og lokin.
1 - 5:20 (5:03)
2 - 4:50 (4:41)
3 - 5:25 (5:13)
4 - 5:25 (5:09)
5 - 5:51 (5:54)
6 - 6:15
7 - 5:57
8 - 5:45
9 - 5:36 (5:42)
10 - 5:39 (5:35)
11 - 5:32 (6:03)
Þegar ég kom heim eftir hlaupið gerði ég styrkjandi æfingar og reyndi að teygja sem ég best gat.
Annars þarf ég að búa mér til einhverja æfingaáætlun. Eru lesendum með einhverjar hugmyndir. Hef heyrt um SUB áætlanir, þá vísað til www.time-to-run.com, og Yasso spretti. Hvaða reynslu hafa menn af þessu? Markmið mitt er að komast undir 50 mínútur í 10 kílómetrum. Á best frá árinu 2003 í 10 km. 48:08.
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2007 | 21:57
Þórsdagur - Bæjarsprettir
Komst ekki í Powerade-hlaup nóvembermánaðar; kvendið á löngu áður ákveðnum kvennafundi og ég ekki getað æft vegna bakverkja. Ákvað þess heldur að hlaupa innanbæjar (hér er mynd af leiðinni) og fara hratt yfir til að byrja með; kannski átti ég hita betur upp svona áður en gefið er í. Nú, í fyrsta skipti, var hlaupatakturinn lægri en 5 mínútur, og um fimm mínútur, og svo hægði ég á í síðari hluta. Birti hlaupataktstölur hér fyrir neðan.
Annars fór ég til sjúkraþjálfarans í dag og hann kenndi mér styrkjandi æfingar fyrir bakið. Ég veit að þar þarf að laga ýmislegt; mér hafa alltaf leiðst tækjaæfingar. Lofa þó að reyna mitt besta. Kannski - ekkert kannski hér - mæti ég í Íþróttahús Háskólans og gera þessar styrkjandi æfingar sem mér voru kenndar.
Leiði minn á tækjaæfingum er ugglaust kominn til frá því er ég fór eitt sinn með skólafélaga mínum í sal hafnfirskra kraftlyftingarmanna um miðjan 9da áratug síðustu aldar, líklega árið 1986. Þar var ég ásamt mörgum sveittum mönnum og reyndi að fylgja einhverri æfingaráætlun. Kom að því að gera, ef ég man rétt, styrkjandi æfingu fyrir bak og átti þá að halla mér fram og reka rassinn upp í loft, fetta mig, og lyfta lóðum. Sáu tröllin að ég fór ekki rétt að og mættu og vildu hjálpa. Endaði með því að þeir stóðu fjórir eða fimm og reyndu að laga líkamsburðinn við æfinguna. Þótti mér þar full langt gengið og hvarf út úr salnum með hægð eftir að hafa náð að gera þessa æfingu og mætti aldrei aftur. Kannski var það rangt af mér, væri þá jafnvel betri í baki en raun ber vitni. - Þetta var nú annars innskot til fróðleiks en ég ætla samt að reyna að mæta í Íþróttahús Háskólans og gera æfingarnar.
Ef allt gengur vel verður hlaupið næst á laugardaginn, fer þó mest eftir veðri.
1 - 5:03
2 - 4:41
3 - 5:13
4 - 5:09
5 - 5:54
6 - 5:42
7 - 5:35
8 - 6:03
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2007 | 20:40
Týsdagur - Hljóp á ný
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2007 | 22:39
Þórsdagur - Illska hljóp í bakið og hlé í nokkra daga
Hlaup | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2007 | 20:33
Óðinsdagur - Af tveimur kostum var sá hættumeiri valinn!
Um miðjan dag, eftir kassaburð, fann ég verk í baki; þar voru gömul eymingjameiðsl, örsökuð af stíf- og stirðleika, að láta vita af sér. Þegar ég, í lok dags, tók strætisvagninn heim reyndi ég að gera eins og sjúkraþjálfarinn hafði kennt mér fyrir löngu, sitja rétt, og velti fyrir mér hvort ég ætti að hlaupa eða ekki. [Reyni líka að sitja rétt þegar ég skrifa þetta!] Hugsaði jafnframt, ef ég geri ekkert versnar þetta bara svo ég tók fram hita- og bólgukrem; og varð hinn smurði. Fór út í kuldann og sagði bara, sný til baka ef allt fer í klessu, ákvað einnig að kanna nýtt upphaf á hlaupaleiðinni; fara út á Breiðvang og þaðan út að Hrafnistu. Fann ekki rétta leið strax, hélt að göngustígur lægi út með hverfinu, svo var ekki; en fundvís fann að lokum. Smámsaman minnkaði verkurinn í bakinu en ég varð nú aldrei algóður, hélt áfram og ákvað að fara litahringinn með þessari viðbót, nýtt upphafi og aumt bak. Ákvað einnig að fara hægt og það tókst. Þegar ég kom heim vandaði ég mig svo vel og vandlega við teygjurnar, og finn að lærvöðvar eru misjafnir, báðir stuttir en annar styttri. Að lokum var lagst í heitt bað. Ég vona bara að þetta verði horfið á morgun og alfarið um helgina og láti alls ekki á sér kræla í næstu viku; því þá er Powerade-hlaup.
Tími: 0:44. Vegalengd: 7.5 km. Hlaupataktur: 5:51. Púls: 153. - Mynd.
Hlaup | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)