Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Sunnudagur - Geðhlaup

Tók þátt í Geðhlaupinu í morgun. Fór kílómetrana tíu á 50:20. (Opinber tími er ekki enn kominn en leiðrétti þegar hann kemur.) Markmiðið var að bæta síðasta tíma, sem var rúmar 52 mínútur, og helst ná að hlaupa undir 50 mínútum. Ég var ekki langt frá því, það kemur vonandi næst. Hefði átt að borða aðra orkustöng áður en ég fór af stað!

Spurning hvort ég taki þátt í Powerade hlaupinu í vikunni, kemur í ljós.


Þórsdagur - Í roki og rigningu með Roger Waters

Það var sannarlega frískandi að hlaupa í rigningu, litla hringinn sem er hálfur sjötti kílómetri. Skipun dagsins var hálfrar stundar hlaup og ég var þremur mínútum lengur á leiðinni. Stundum blés hressilega á móti ellegar með, og þá rigndi sem ég stæði í kröftugu steypubaði. Ég reyndi einnig að fara rólega yfir og halda mig innan púlsmarka. Meðan ég hljóp hlustaði ég á Roger Waters, The Pros og Cons of Hitch Hiking. Samhliða mér, hluta leiðarinnar, var eitt kona á hlaupum en leiðir skildi á horni Strandgötu og Lækjargötu; maður er þá ekki einn rúllandi ringlaður í rigningu.

Kannski er hækkunin og stuðpúðinn í skónum að gera sitt gagn. Í óskhyggju held ég að fótameinin séu að hverfa. Sem áður - eftir hlaup, hversu hröð sem þau eru - teygði stirðbusinn eins vel og hann gat. En og aftur var það uppáhalds teygja í dyragætt og þá létt lendarteygja.

Næst verður hlaupið á laugardaginn, í hálfa klukkustund. Líklegast sami hringur og í dag. Veðurspáin er þó ekki vænleg; rigning og aftur rigning. En ef veðrið verður eins og í dag þá veður það allt í lagi. 


Týsdagur - Með hælum

Fór í verslunina Afrek í dag og keypti mér innlegg. Setti í skóna og fór út að hlaupa, nokkuð hærri en áður; kominn með dempara! Nú er bara að sjá til hvernig það á eftir að reynast mér, verður það mér til betrunar og bótar. Fór sama hring og undanfarna daga, reyndi að fara hægt yfir. Tíminn var sá sami og oft áður, 47 mínútur. Þegar þetta er skrifað, rúmri klukkustund eftir hlaup finn ég engan verk. Aðeins hóflegan seyðing. Vonandi lagast þetta allt núna með dempurum. Reyndi svo að teygja eins vel sem ég gat. Helst á hásin og lá lengi í dyragætt, þykist finna að þetta verður smám saman betra.

Annars mældi ég mitt "OwnIndex" á sunnudaginn og mér til undrunar þá stökk það upp um níu stig og er nú með 49 stig, með heilsufarsdóminn: "Very Good". Voru þá liðnir tveir mánuðir frá síðustu mælingu. Í dag vantar oss aðeins fimm stig að komast í úrvalsflokkinn "Elite" en i næstu viku vantar mig aðeins tvö stig, þá á ég afmæli og kemst hratt yfir múrinn í sælureit úrvalsmanna.  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband