Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Laugardagur - Þreytt þyngslahlaup

Til að blása lífi í hlaupaæfingarnar ákvað ég að hlaupa aðeins um bæinn. Á laugardögum eru löng hlaup og skv. plani átti ég að hlaupa 19 km. Fór út og lagði af stað: Fyrstu 10 voru ágætir, en eftir það þyngdist hvert spor. Varð smám saman máttlaus og þungur. Þegar ég var búinn með 15 nennti ég ekki meira. Hætti að hlaupa og gekk heim. Hjólaferðin langa í gær og liðkunarhlaupið eftir það sat í mér og lappirnar voru þungar.

Á morgun verður eingöngu legið í potti - bónus ef ég syndi smávegis.


Föstudagur - Þriggja nesa hjólaferð og þyngslaskokk

Þriggja daga leyfi frá hlaupum og hjóli kalla á hörkuæfingar - sukkjöfnun. Ég vaknaði seint, var þreyttur eftir ferðalagið, en ákveðin að ég skyldi bæði hjóla eða hlaupa í dag. Ég leit út og sá að "hann" var rigningarlegur en lét það ekki aftra mér. Um leið og ég var búinn að taka hjólið úr geymslunni og að taka það til byrjaði að rigna. Ég fór í regnjakka og lagði af stað. Ákvað að fara um nesin þrjú - þau voru bara tvö síðast - upp í Mjódd og svo um Kópavog og heim. Fyrst var það Álftanes. Þar rigndi, sem væri hellt úr fötu, og ég orðinn rennandi blautur til fótanna - þarf nauðsynlega að fá mér eitthvað til að skýla þeim. Eftir Álftanes hjólaði ég sömu leiðina og síðasta laugadag. Þetta var aðeins lengra, meira en 50 km, og ég bætti tímann um nokkrar mínútur þótt það hafi nú ekki verið markmiðið.

Kominn heim var ég þreyttur í fótum og ógeðslega kalt á tánum. Var of þreyttur til að teygja. Lagðist upp rúm og sofnaði. Nokkru síðar koma mágur minn, róðrakappinn, og við vorum búnir að ákveða að hlaupa stuttan hring - liðkunarhlaup fyrir helgarátökin. Það gerðum við og ógeðslega var ég nú þungur á mér og verkjaði í þreytta vöðva.

Hlaupaprógrammið skipar mér að hlaupa á morgun, næstum 19 km. Ég reyni. Nú farinn að teygja og þamba vökva. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband