Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Laugardagur - Um allan bæ og út fyrir bæ

Sjötta vikan í æfingaráætluninni eru búnar og tíu vikur eftir.

Í dag var lengsta hlaupið á þessu ári, 21 kílómetri, og laugardagshlaupin eiga eftir að lengjast. Þessi dagur hófst með hefðbundnum hætti, þ.e. ef skal hlaupið. Ég fékk mér tvo bolla af sykruðu tei, tvær brauðsneiðar með osti og þá var stólgangur. Smurði auma bletti hitakremi - óttaðist sköflungsverk - og bar vaselín á núningsfleti, klæddist hlaupagalla, fór þó ekki í eins margar peysur og áður. Fyllti brúsana af vatni, tók með mér eitt orkugel og iPodinn. Í dag skyldi hlustað á Krossgötur.

Leið mín lá fyrst í áttina að Setbergi en gangstéttin var þakin klaka svo ég ákvaða að taka nokkrar slaufur um Álfaskeið, Hverfisgötu og Austurgötu, þá Hringbraut og Suðurgötu. Á sjöunda kílómetra stoppaði ég við Þjóðkirkjuna, til að fá mér að drekka. Þar hitti ég Davíð Þór og Ásgrím en þeir voru á leiðinni á Súfistann í heilsubótargöngu. Ég kvaddi þá og hélt í áttina að Holtinu og sem áður voru teknar lykkjur og slaufur. Er þeim var lokið hélt ég út á Álftanes og á leið minni þangað hitti ég Gísla ritara og þegar kominn út að Hrafnistu komu hlaupaflokkur Haukanna, þar voru sem áður fremst í flokki Jóhann og Díana. Þau höfðu ákveðið að fara öfugan hring. Allt í lagi með það; ég næ í skottið á þeim síðar. Er ég var búinn með Álftaneshringinn fór ég heim.

Ég er þokkalegur eftir hlaupi, aðeins þreyttur í fótum og þyrstur. Ég hvíli á morgun, fer kannski í sund og ligg þá í pottum. Á mánudaginn eru brekkusprettir. Bíst við að fara út á Álftanes, þar er hin rómaða vaselínbrekka; það fer þó allt eftir veðri. Svo er ein gata við Lækinn hér í Hafnarfirði. Þar er rík hefð fyrir brekkusprettum.  Langa hlaupið á laugardaginn næsta verður svo 24 km.


Föstudagur - Flottur á klakanum

Hefðbundið liðkunarhlaup á föstudegi; hálfur sjöundi á hægum hraða og stokkið á milli klakanna. Á morgun verður langt rólegt um nærsveitirnar; næstum hálft maraþon, og þá skipti miklu að fara ekki of hratt af stað í upphafi og hlaða sig orku áður en lagt verður í hann. Hefi ekki enn ákveðið hvaða leið ég ætla að fara en fer eftir veðri á morgun.


Miðvikudagur - Röskleg skokktrunta

Þetta var rösklegt hlaup um fjörðinn. Kalt var úti, gjóla af norðri og brautin hörð. Óttaðist að þetta væri allt of mikið; þriðji dagurinn sem ég hleyp og kalt úti. Í kvöld gætti ég að líkamsburði í þessu hlunkahlaupi; mér hættir til að halla mér of mikið fram og þá verður átakið á bakið fullmikið. Nú skyldi hlaupið beinn í baki, ögn fett og kassinn sýndur. Það er eins sé verið að tala um gæðing en ekki skokktruntu. Þetta voru næstum fimm km rösklegir og þrír til upphitunar og niðurskokks; samtals átta km og meðaltaktur á skeiði 5:15 mín/km.

Þegar ég kom heim drakk ég fullt af vatni og gúffaði próteini. Á morgun verður hvílt, kannski synt (lesist: pottalega). Á föstudaginn verður svo létt til liðkunar en á laugardaginn langt, lengst á þessu ári 21 km. Þetta getur allt breyst; spáð er roki og rigningu.


Þriðjudagur - Rólegt um Velli í frosti

Síðdegisskokk um Vellina í miklu frosti, örugglega meira en fimm gráður og gjóla. Hefði átt að bera hitakrem á sköflunga í þessum kulda, þeir létu vita af sér en ekkert slæmt. Hljóp átta kílómetra á hægum takti. Þekki ekki alveg hverfið svo þetta voru hringir og fléttur - fram og til baka en hefi úthugsað leið fyrir næsta hlaup í þessi hverfi. Eftir hlaup fór ég í sund, þar sem dóttirin og frænka hennar, voru að ljúka sundæfingu. Ég lagðist í pottinn og teygði á fúnum fótum.

Mánudagur - Massaðir sprettir

Mánudagur er dagur spretta og rösklegheita. Í dag voru það átta sinnum fjögurhundruð metrar með tvö hundruð metra hvíldarskokki í millum. Það var kalt, svo ég bjó mig vel áður áður en ég fór út. Bar hitakrem á mína aumu bletti og liðkaði auman skrokk. Um stund velti ég fyrir hvert skyldi haldið og ákvað að gera sama og síðast; best er að hlaupa hjá elliheimilnu, þar er gata sem fáir bílar aka um.

Tölurnar eru þessar. Fyrst vegalengd, þá tíminn sem það tók að hlaupa, hlaupataktur og svo hraði. Kemur mér skemmtilega á óvart að mér skyldi takast að auka hraðann undir lokinn. 

 400    1:47     4:27 mín/km =13.46 km/t     
 400    1:49     4:32 mín/km =13.21 km/t     
 400    1:45     4:22 mín/km =13.71 km/t     
 400    1:48     4:30 mín/km =13.33 km/t     
 400    1:43     4:17 mín/km =13.98 km/t     
 400    1:38     4:05 mín/km =14.69 km/t     
 400    1:40     4:10 mín/km =14.40 km/t     
 400    1:35     3:57 mín/km =15.16 km/t    

Á morgun verður rólegt bæjarhlaup, liðkun. 


Laugardagur - Hundapiss á stígum Hafnarfjarðar

Langt rólegt næstum 18 km hlaup um Hafnarfjörð. Fór Setbergshringinn, þaðan upp á Holt, út á golfvöll og til baka, lykkju um Suðurgötu, Hringbraut, svo með fram sjónum og heim. Sá nokkra hlaupara en mest hunda úti að ganga með eigendur sína og hundapiss við ljósastaura og steina, heiðgula hlandbletti - hélt að appelsínusvalastríðið væri hafið en þetta eru þá merkingar hundanna um allan bæ til að rata heim með eigendurna.

Heim kominn fékk ég mér skyrhræring með kraftadufti. Reif upp einn svínabóg, skar puru og sauð, skellti stykkinu síðan í ofn. Bíð nú þess að dýrið verði fullsteikt og það tekur tíma.

Á morgun verður hvílt, veit ekki með hversu virk sú hvíld skal vera. Esjugangan, síðasta sunnudag, tók á. Bíst við pottalegu, var búin að lofa dóttur sundlaugaferð. Á mánudag verða svo sprettir, átta sinnum fjögurhundruð, og svo er "Powerade" á fimmtudaginn. Við skulum sjá til hvernig færðin í Elliðaárdal verður og veðrið áður en ég ákveð hvort taka skuli þátt. Ætla ekki að hlaupa þetta í roki og rigningu minnugur þess er ég hljóp á rörið og datt ofan í krapapoll sem er í sjálfum sér mjög flott og hetjulegt eftir á að hyggja.


Föstudagur - Hlauptu ei svangur

Fór út, það var loksins nógu hlýtt í þessum kulda, og rúllaði rólega um hverfið einn hálfan sjöunda kílómetra. Klæddi mig vel og bar hitakrem á aumingjapunktinn á bakinu, en hann hefur verið að hrella mig upp á síðkastið, líklegast vegna þess að ég hefi ekki verið nógu duglegur að teygja.

Ég ætlaði að vera duglegri til hlaupa í þessari viku en í meira en sjö gráðu frosti verður manni stundum kalt og svo hefir bakið verið að stríða mér, fyrr nefndur aumingjapunktur.

Mistökin fyrir þetta hlaup, ellegar rölt og liðkunarhlaup, voru að ég hafði ekki borðað nógu mikið áður en ég fór af stað. Þegar nokkrir kílómetrar voru eftir tæmdist tankurinn og ég varð að taka þetta á þrjóskunni. Var því feginn að komast heim til að gúffa í mig flatbökuafgöngum og rest af súkkulaðiköku.

Á morgun, ef vilji verður fyrir hendi, þá skal hlaupið langt og rólega næstum 18 km. Fyrsta langa hlaupið. Nú fara hlaupin að laugardagshlaupin að lengjast! Nú ætla ég að gæta mín á því að fara rólega eins og harðstjórinn skipar mér fyrir. Þá er það bara spurning um veður og hvaða leið verður farin. 


Þriðjudagur - Rólegt í frosti

Átti að hlaupa í gær en þreyta eftir fjallgöngu dróg úr mér allan kraft svo ég lá bara heima í leti. Í kvöld fór ég út og það var ískalt, sjö gráðu frost á mæli. Hljóp rólega um hverfið, átta kílómetra á hlaupatakti 6:16 sem var erfitt, þ.e. halda aftur af hraðanum, þegar ég varð að halda á mér hita. Ég var ekki einn á hlaupum í þessum kulda, hitti fjórar hlaupara og þar af var Halli einn þeirra.

Á morgun verður það sama vegalengd en hraðar. Þarf þó að finna leið til að teygja á þessu árans baki - punkturinn stirði er að angra mig öðru hvoru. 

Húsfrúin gerði, eins og oft áður, grín að mér þegar ég var að hita upp og teygja, sem er vel skiljanlegt. Var að sveifla löppunum fram og aftur, gert til að liðka stirða fætur, og þótti henni þeir ekki lyftast hátt eða mikið. Lék hún þá þetta eftir mér og veit nú að ég á langt land.


Sunnudagur - Esja klifin

Virk hvíld í dag og til að vera vikur í hvíldinni fór ég með mági mínum upp á Esju. Þetta var erfiðara en ég átti von á; enda kappsfullir karlar á ferð. Kálfar voru, til að byrja með, stífir og harðir en urðu mýkri þegar á leið. Hann lánaði mér göngustafi sína og við náðum upp að "Steini" á 1:08 (hér er komið viðmið fyrir næstu för, því þetta er víst mjög góð æfing fyrir Laugaveginn og þá hlaupa menn þessa sömu leið). Ekki var stoppað þar, nema til að segja öðrum fjallageitum, að við ætluðum á toppinn á meðan aðrir sátu eftir. Ekki vissi ég, græninginn, sem hafði ekki farið áður á fjallið, hvað það þýddi nema það sem hann sagði: "upp þessa brekku og hún virðist fær". Þetta gerðum við, hann fór á undan og ég í fótspor hans, brekkan var brött, snjórinn laus og við urðum að stíga í annarra spor er voru stundum vanfundin. Þetta tókst og við komumst á toppinn þar sem við fengum okkur hressingu, fórum í þurr föt og við fórum aftur niður. Það var erfitt að fara niður bröttustu brekkuna en ég fékk brodda og þá gekk mér betur. Er við komum niður var teygt og svo haldið heim.

Þegar þetta er skrifað örlar fyrir þreytu í fótum sem verður horfin á morgun er ég fer í "fratleik" að hætti hlaupara.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband