Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Föstudagur - Rólegt um bæinn og langt á morgun

Hljóp rólega upp í Setberg og til baka, 6,5 km. Það sem er merkilegast er að mér tókst að hlaupa innan marka, á bilinu 6:14-6:02 mín/km, var á 6:11. Púlsinn var lágur, er kannski að komast í þokkalegt form: 139.

Á morgun verður langt hægt hlaup, 22,5 km. Fer kannski í áttina að Helgafelli eða Heiðmörk. Á sunnudaginn gerist ég sjálfboðaliði og hjálpa til við hálfan hafnfirzkan járnmann.


Miðvikudagur - Rösklegt um bæinn

Ég undirbjó mig betur en oft áður fyrir þetta rösklega hlaup. Hefi verið með verk í mjöðm. Í allan dag hitaði ég og kældi þetta eymdarsvæði. Þegar ég hljóp rólega eina mílu í upphafi fylgdist ég vel með hvort verkurinn kæmi aftur, svo var ekki og þá var gefið í - 6,44 km á hlaupatakti 5:02 mín/km  og púls 164. Þegar hlaupi lauk verkjaði mig ögn; held að ég verði að gera eitthvað róttækt til að losna við þetta. Enda teygði ég vel þegar ég kom heim. Á morgun verður hvílt og svo rólegt á föstudaginn og langt á laugardaginn.

Hafa lesendur lent í vandræðum með samskipti Garms og tölvu. Tölvan hleður Garminn en sendir ekki upplýsingar í forritið. Þekkir ekki tækið og fleira af slíkum toga.


Þriðjudagur - Á Álftanesi eru kríur

Kom heim frá Tenerife um miðjan dag og fannst ég yrði að fara út að hlaupa - sukkjöfnun og afeitrun eftir óreglu í mat og drykk. Enda er ég þremur kílóum þyngri en þegar ég fór. Tek líka fram að ég er enn of þungur.

Ég sleppti sprettum í gær í hitanum á Tenerife en ekki má sleppa hlaupum dag eftir dag. Fyrir lág að hlaupa sjö mílur hægt. Fór út á stuttbuxum - varð að sýna umheiminum hve hraustlegur ég er eftir sólböðin og strandhlaupin - og lagði í hann. Leiðin lá út á Álftanes - stóra hringinn - sem er um tíu km. Þegar ég kom út á nesið mættu mér kríur, sem voru ekki þar fyrir nokkrum vikum, og minntist ég þess er hljóp þar fyrir nokkrum árum og gegnum þétt varplendi. Kríurnar voru alls ekki ánægðar með að ég væri að álpast þarna og steyptu sér ótt og títt að kolli mér. Á þeim tíma var ég með púlsmæli, eins og nú, og þegar kríurnar steyptu sér yfir mig þá rauk púlsinn upp. Ekki ætla ég að endurtaka þennan leik, að láta kríurnar hrella mig. Finn mér aðra leið.

Annars eru tölurnar þessar: 11,27 km. Hlaupatakur 5:54 mín/km. Púls 137. 


Laugardagur - Strandvörðurinn Örn elding á hlaupum

Sönn hetja fór út og hljóp meðfram ströndinni - var þó ekki í rauðri brók eins og strandvörðurinn Hasselhoff. Fyrir lág að hlaupa 12 mílur (19,31 km) á rólegum hraða og vissi hetjan að þetta gæti hún en yrði að gera þetta í áföngum. Hitinn var um 28°C, en engin sól - kannski ágætt - og því ákvað hetjan að skipta þessu upp í nokkra áfanga, þrjá km hvern þeirra. Fyrstu 10 km voru erfiðir, ætli líkaminn hafi ekki verið að venjast þessu - en þegar hlaupið var hálfnað þá varð þetta auðveldara. Í hvert skipti sem ég stoppaði, eftir u.þ.b. þrjá km, teygði ég vel og vandlega og drakk. Hlaupatakturinn var 5:45 mín/km (aðeins meiri en til stóð) og púls 151.

Á morgun verður hvílt, veit ekki með sprettina á mánudaginn. Kannski létt hlaup því á þriðjudaginn förum við heim og þá verður ekkert hlaupið.  


Föstudagur - Hetja í hitapotti

Hetjan fór snemma morguns í hitapottinn á frjálsíþróttavellinum og hljóp 6,5 km. Hitinn var um 30°C og þetta var nokkuð erfitt sökum hita. Hlaupatakturinn átti að vera um 6:00 mín/km og var nærri því, 5:52. Í upphafi hlaupsins var ég stífur í kálfum og kenni þá hitanum um. Þannig að ég stoppaði reglulega til að teygja á og fá mér að drekka. Púlsinn var lágur - 141 - og kannski er það vegna hvíldar til að teygja. Meðan ég hljóp þá voru nokkrir aðrir að æfa og eitt ofurmennið að gera sprettæfingar - slikar æfingar í þessum hita myndu sannarlega ganga af mér dauðum. Þegar hlaupi var búið fór ég í skugga, uppi í stúku, og gerði teygjur. Á morgun er langt hlaup, skv. áætlun 12 mílur, og kannski fer ég mjög snemma út og hleyp þá meðfram ströndinni - ber að ofan sem strandvörðurinn Hasselhoff - og gæti mín á að drekka og hvíla - hleyp þetta í áföngum.

Miðvikudagur - Hlaupið í hitapotti

Þar sem garmurinn fór í gang á ný og ég tók gleði mína varð hetjan að fara út að hlaupa og nú skyldi hlaupa átta km skv. áætlun, jafnt og þétt: 5:26–5:14 mín/km. Ég fór, eins og önnur íþróttamenni, á frjálsíþróttaleikvanginn – Laugardalsvöll. Hitinn var sá sami og í gær, um 30°C, en nú var ég betur búinn. Kom við í búð og keypti hálfan annan lítra af vatni, tók með mér handklæði til að þurrka svita – ótrúlega vont þegar svitinn rennur í augun – og var í íþróttabol (í gær var ég ber að ofan og roðnaði ögn á öxlum og baki). Ég hljóp utarlega, þannig að hver hringur var næstum 500 metrar, og eftir þrjá til fjóra hringi gerði ég hlé á hlaupi: þurrkaði svita, fékk mér að drekka og teygði. Tók nokkurn tíma að stilla hraðann, eins og alltaf fór ég aðeins of hratt í upphafi. Það að hvíla svona í hitanum held ég að sé af hinu góða og skýrir kannski lágan púls (141), nema ég sé að komast í gott form. Eftir þetta hlaup mitt teygði ég vel og vandlega. Það brakaði í hálsinum og er það góðs viti – eitthvað að losna um þetta allt saman. Þegar ég svo kom heim á hótel fór ég í kalda útisturtu til að skola af mér svita og lagðist svo í kalda laugina til að láta vöðvana jafna sig. Hélt svo áfram að teygja þegar ég var lagstur á bekkinn. Annars eru það svo að eftir svona hlaup þá fæ ég verk í hægri rasskinn og veit að það eru hinir stuttu vöðvar sem eru angra mig. Ég verð að teygja betur á þessum skröttum.

Annars eru hlaupin svona:
1. júní – 8 km – 51:38 mín – 6:25 mín/km – 134 púls (á götum úti)
3. júní – 8 km – 46:00 mín – 5:43 mín/km – 155 púls (íþróttavöllur)

4. júní – 8 km – 41:51 mín – 5:12 mín/km – 141 púls (íþróttavöllur)

Skv. áætlun skal hvílt á morgun, fimmtudag, en á föstudaginn eru það 6,5 km rólega en næstum 20 km á laugardaginn. Við skulum sjá til hvað verður gert með hið langa hlaup. Veit að heima á Íslandi væri ég ekki í vanda með að hlaupa þessa vegalengd en hér í hitanum kann það að vera örlítið erfitt.


Þriðjudagur - Hlaupið á "Laugardalsvelli" Tenerifinga

Ég hefi, frá síðustu skrifum, farið tvisvar sinnum út að hlaupa. Þetta hafa verið hin ágætustu hlaup. Eitt er víst, þau reyna á og þá sérstaklega hlaupið í gærdag. þá, fyrr um daginn, í heiðskýru sumarveðri, fóru feðgar út að labba og á heimleiðinni sáum við Laugardalsvöll þeirra Tenerífinga á strönd þeirri sem er kennd við Ameríku, þar hljóp sportlegt fólk, og völlurinn rétt við hótelið. Við þetta æstist ég og ákvað að hér skyldi hetjan hlaupa. Þegar heim á hótel var komið skipti ég um skó, setti á mig Garm og tók með mér vatnsbrúsa. Er ég mætti á völlinn var sólin hátt á lofti, þar er hitamælir sem sýndi mest 32°C og minnst 27°C – og ég hljóp þar átta kílómetra. Munurinn á mér og hinum var sá að þeir virtust ekkert svitna en af mér lak svitinn svo ég gat dregið hárið aftur sem væri ég smurður hárlími (geli). Óþægilegt við þetta svitabað var að saltur sviti lak í augun og mér sveið. Ég hljóp nú ekki hratt og hafði það að reglu að stoppa reglulega og fá mér að drekka og teygja. Verður því ekki neitað að þetta reyndi nokkuð á.

Þegar ég kom heim fór ég í sturtu og lág svo í sólbaði. Þegar nóg var komið að sólbakstri og færa átti afrekin inn í hlaupaforritið lenti í vandræðum með Garm, hann náði ekki sambandi við tölvu og slökkti á sér og lág dauður í höndum mér. Allt rafmagn horfið og allt í tómu tjóni. Við þetta varð ég ósköp fúll og kenndi kvendi um að hafa fiktað með snúruna - syrgði vin minn og átti von á kaupa þyrfti nýjan. En þegar ég vaknaði í morgun var athugað hvort leyndist líf og mér til gleði fór hann í gang en nær ekki sambandi við hlaupaforritin - en hann hleður sig og er nú fullhlaðinn.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband