Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Mánudagur - Kominn heim frá útlöndum með kvef og sár á nefi

Hausinn er fullur af kvefi, hlustarverkir og ennið aumt. Hlunkurinn verður að komast út að hlaupa og hreinsa út þennan óhroða. Vonandi verð ég laus við kvefið í lok vikunnar og þá tilbúinn að hlaupa. Það styttist í Flugleiðahlaupið, sem verður vonandi mitt næsta hlaup; það markaði upphaf hlaupatímabilsins sem nú hefur varað í eitt ár. Vil helst ekki sleppa því.

Útiveran, dvölin í Kaupmannahöfn, varð til þess að ég "hvíldi" kvefaður í eina viku og væri ekki fyrir kvefið, þá væri mér ekkert að vanbúnaði að spretta strax úr spori. Engin meiðsli og allt með ágætum.

Mér reiknast að nú séu um sextán vikur þar til Reykjavíkurmaraþonið verður og ég búinn að skrá mig fyrir löngu. Nú er best að byrja að æfa af festu; hægt og rólega. Á þessu æfingartímabili ætla ég að gera þetta allt rétt, gera styrktaræfingar og svo framvegis. Undanfarnar vikur hef ég reynt ýmislegt í hlaupunum - róleg hlaup, sprettir, löng hlaup, brekkusprettir og fleira slíkt - stundum í nokkrar vikur og stundum með hléum; nú verður þetta massað með vísindalegri nálgun. Veit að ég verð að gera styrkjandi æfingar og teygja ef ég ætla mér að tækla þetta. Eftir nokkrar vikur fer ég til Tenerife með fjölskyldunni í tvær vikur og þar munum við búa á einhverju fínu hóteli. Þar er íþróttasalur og allt og þá verður æft af þunga. 


Sunnudagur - Rólegt sund, en mest í potti og lék við barn

Að fara í sund var mín aðferð til að losa um stirðan kropp. Á blöðkunum fór ég tíu ferðir. Langa hlaupið í gær situr í mér. Verkur í vöðvafestingu á vinstri rasskinn, við lærbeinið. Vonandi verður þetta farið á morgun. Svo eru þetta nú bara almennar harðsperrur í fótum.  Annars var ég þreyttur í allan dag og sofnaði; kenni hlaupinu um. Í kvöld hjólaði ég svo stuttan hring með dóttur minni, taldi ekkert vit í að hlaupa svona á mig kominn. kannski hleyp ég á morgun, en það verður nú bara eitthvert lull.

Laugardagur - Mitt lengst hlaup til þessa; að sækja sér vatn og plástur

Ákvað að hlaupa inn í vinnu, fá mér gosvatn úr brunninum og blástra á blöðrur, og aftur til baka. Mæla vegalengdina, ef ég skyldi nú gera þetta aftur. Hlaupið var, að mestu, auðvelt og þægilegt, leið ágætlega - og stundum spretti ég úr spori, án þess að rjuka áfram undir fimm á km., reyndi að halda aftur af mér - því ég kveð heimleiðinni - þarf víst að komast til baka. Ætlaði nú helzt ekki að þurfa, niðurbrotin og sár, að panta leigubíl og biðja hann um að keyra mig sveittan heim. Síðustu þrír kílómetrarnir, gegnum Garðabæ - nýjasta hverfið við Hafnarfjörð, voru erfiðir. Komnir þreytuverkir í læri en ég þrjóskaðist áfram; ætlaði sko alls ekki að gefst upp. Þetta voru 25 km og hlaupatakturinn, að meðaltali, 5:31 mín/km sem ég er nú bara ánægður með. Er ég fór af stað gældi ég við að hlaupa 30 km en það verður síðar; maður er nú alltaf svo kappsfullur. Þegar ég kom heim var ég stirður í lærum en eftir að hafa borðað og drukkið er ég allur að koma til. Mesta meinið eru þó sprungnu blöðrurnar, á fótum mér, sem meiða mig.

Fimmtudagur - Maður með sprungnar blöðrur fer rólega um bæinn

Nokkrar blöðrur á fótum mér, þær sem voru kynntar í gærkvöldi, sprungu við "átök" kvöldsins. Ég hljóp hefðbundna leið upp á holt og til baka. Þar sem blöðrurnar sprungu á miðri leið tókst mér loksins að hægja á mér og hlaupatakturinn varð lægri en í gær; 5:44 km/mín. Svo það er önnur leið, en að hafa dótturina með á hjóli, til að hlaupa rólega - að hlaupa með sprungnar blöðrur á fótum sér; kann þó betur við að hafa dótturina með í för en kveljandi fótamein. Eins og fyrri kvöld í vikunni voru þetta 10 km. Hefi ekki enn ákveðið hvað verður gert þegar kemur að langa hlaupinu um helgina. Þarf að hnoða saman tveimur fyrirlestrum - kannski heima eða kannski í vinnu - og gæli við að hlaupa þaðan og heim. Sjáum til! sjáum til!

Miðvikudagur - Enn rólegt með rykkjum

Enn fór ég út hlaupandi og finn mun á mér. Beinhimnubólgan er líklegast á undanhaldi og þakka það smyrslum, bæði bólgueyðandi og kælandi. Hásinin er með besta móti og þakka það nýju skónum sem eru mýkri og léttari. Hlaupið átti, eins og önnur fyrri hlaup vikunnar, að vera rólegt - tókst næstum en fór í kátleik mínum nokkra kílómetra á meiri hraða. Minn rólegi hlaupataktur er líklegast um 5:30 nema ég taki barnið með. Merki um komu sumars er að ég hefi lagt þykkum vetrarsokkum og er kominn í þunna hlaupasokka. Fyrir vikið hringla ég nokkuð í skónum og nuddast - á því von á blöðru síðar í kvöld. Það verður hlaupið aftur á morgun eða á föstudaginn. Á mínu hlaupi, nú áðan, gældi ég við þá hugmynd að hlaupa heim úr vinnunni; skoðum veðurspá og tökum svo ákvörðun.

Mánudagur - Rólegt bæjarhlaup

Þetta var rólegt bæjarhlaup, þó ekki jafn rólegt og í gær, enda hafði barnið lítinn áhuga á að fara út með föður sinum. Fór venjubundna leið: Upp á Holt og aftur til baka með lykkjum. Samtals 10 km á 55 mínútum. Hlaupum verður hagað með þessum hætti út vikuna - rólegt um bæinn þveran. Mun líklegast, ef veðrið verður gott, fara langt um helgina og þá óttast ég að rólegt hlaup fjúki út í veður og vind.

Hér fyrir neðan er mynd af hetjunni úr marsmaraþoni (á eftir að leysa til mín löglegt eintak). Eru lesendur mínir, annars ekki, sammála að hlaupahetjunni hefur farið fram. Ekki sami dauðans svipurinn og þegar hetjan þreytti Flugleiðarhlaup fyrir ári og lögreglan á mótorhjólinu að baki mér var líklegast viðbúin öllu. Set þessar myndir hér til samanburðar.

Marsmaraþon 2008

Flugleiðahlaup 2007


Sunnudagur - Mjög rólegt hlaup

Fyrr í kvöld fór ég mjög rólega um bæinn. Dóttirin, sex ára, á hjóli stýrði hraða og hefi ég ekki farið svona hægt lengi. Þetta var mitt fyrsta hlaup í viku og vonandi er ég kominn í lag. Er að jafna mig af verk í sköflungi og nú hefst róleg uppbygging. Barnið kvartaði aðeins undan kulda í lokin, og skal ég viðurkenna að það var dálítið kalt, en þegar við komum heim beið okkar súkkulaðikaka og kóladrykkir; hlýnaði okkur fljótt við það!

Annars hefi verið að skoða æfingaráætlanir og sé að þetta er nú allt ósköp svipað. Lögð áhersla á spretti og hraðaæfingar og að sjálf sögðu löng hlaup - hægur stígandi. Svo er Yasso nefndur til sögunnar. Sé hann oft nefndan hjá Gísla ritara - kannski fer ég einhvern daginn upp á Kapla og reyni.

Áætlunin er annars þessi: Róleg liðkandi hlaup í komandi viku og þeirri næstu. Svo fer ég til útlanda í nokkra daga en þá verður lítið eða minna hlaupið. Byggja þetta svo rólega upp frá því. 


Þriðjudagur - Sköflungur skælir, enn og aftur

Ákvað að hvíla skældan sköflung en hleyp af stað um leið og hann verður orðinn góður. Seinni partinn skokkaði ég í strætó og þá kom fjandans verkur aftur; vissi þá að ráð væri að hvíla. Vonandi verður hann kominn í lag um helgina eða næstu viku.

Laugardagur - Álftneshringurinn með vaxandi hraða

Ákvað að fara Álftaneshringinn sem er um tíu kílómetrar. Ætlaði að hlaupa rólega og liðka til nýju skóna. Þegar ég kom að svokallaðri "vaselínbrekku" - sem er sjöundi kílómetrinn - þá jók ég hraðann og svo enn frekar þegar ég komst upp á toppinn en hægði svo á þegar kom að síðasta kílómetranum. Þá rólega eftir það, heim á leið. Samtals voru þetta 11,5 km. Hlaupatakturinn er hér fyrir neðan. Enn er sköflungurinn að angra mig. Í kvöld ætla ég að kæla hann og verður forvitnilegt að athuga hvernig hann verður á morgun. Þá ætla ég að hvíla, kannski hjóla ég um bæinn. 

1 - 5:35
2 - 5:21 
3 - 5:31
4 - 5:33
5 - 5:23
6 - 5:27
7 - 5:18 
8 - 5:12 
9 - 4:36
10 - 5:21
11- 5:35


Föstudagur - Sköflungur skælir stirðan

Hefi ekkert hlaupið frá því á mánudag því sköflungur skælir mig. Keypti mér nýja mjúka skó í gær og mun reyna þá í kvöld verði enginn verkur. 

Kvöldið kom og ég fór út að hlaupa í nýju skónum, keyptum í Afreksvörum.  Enn fer ég rólega, er að hressa mig við eftir mitt hálfa maraþon. Hlaupnir voru tíu kílómetrar á rólegu hraða og skal hlaupataktur vera nálægt sex mínútum. Ekki tekst það nú alltaf, - varð að hlaupa í mig hita - og fer þá að jafnaði á 5:40. Lausn: Verð að taka barnið með mér, það hjólandi og ég hlaupandi, ef ná skal að fara rólega yfir.

Ég bind miklar vonir við þessa skó sem eru styrktir og mýkri en þeir gömlu. Vonandi hverfa mér allir aumir staðir og fisléttur fer ég um göturnar. Nú er bara að sjá til. Veit að ég er enn allt of stirður. 

Vormaraþon 2008: Maðurinn í bláu jakkanum, fyrir hlaup

Fékk lánaða mynd af vef Laugaskokkara. Myndasmiður: Sumarliði Óskarsson. Maðurinn í bláa jakkanum, þessi með sundhettuna í bakgrunn, er undirritaður. Veit ekkert um herrann sem verið er að taka mynd af.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband