Miðvikudagur - Tvíþraut á Krýsuvíkurvegi

Afrekum mínum eru engin takmörk sett! Tók þátt í tvíþraut þar sem var hjólað og hlaupið. Fyrst voru hlaupnir fimm kílómetrar, þá hjólaðir þrjátíu og að lokum hlaupnir fimm. Það var fyrir brýningarorð járnmannsins Steins sem ég tók þátt. Vissi svo sem ekkert hvað ég var að fara út í en ákvað að láta reyna á það.

Ekki byrjaði það gæfulega. Áður en keppnin hófst, og ég enn heima, ákvað ég að líta á hjólið. Hreinsa keðju og smyrja, bæta lofti í dekk og fjarlæga bretti. Það gekk vel að hreinsa og smyrja en þegar ég var að bæta lofti í framdekkið beyglaði ég ventilinn. Ákvað því að fara upp á bensínstöð og blása þar í dekkið en þá vildi ekki betur til en að ég braut hann og nú voru góð ráð dýr. Fjörutíu mínútur í start og nú varð ég bara að gjöra svo vel að skipta um slöngu. Það tókst mér á tíu mínútum, og þá átti ég eftir að koma mér á staðinn; úr Norðurbæ upp á Krýsuvíkurveg. Varð því að hjóla aðeins hraðar en til stóð í upphafi. Eftir á að hyggja þá var þetta bara fínasta upphitun.

Er ég mætti á staðinn voru allir þátttakendur komnir og voru þeir að gera sig tilbúna. Keppnisstjóri, fagurmæltur, lýsti aðstæðum og gerði grein fyrir leið og reglum. Að hætti atvinnumanna voru hjól sett á slár og búnaður þar fyrir aftan. Svo var startað og við byrjuðum á að hlaupa. Ég ákvað að hlaupa á skynsamlegum hraða en halda þó hlaupataktinum undir 4:50 mín/km. Það gekk eftir og lauk ég hlaupi á 23:30 mínútum (4:41 mín/km) og þá var komið að því að hjóla. Ég fór léttstígur, með ósýrð læri, á milli svæða. Þar sem ég var ekki í neinum hjólaskóm skellti ég mér á fákinn, fékk mér að drekka, gleypti eitt gel og hjólaði af stað. Hjólatúrinn var alveg ágætur; meðvindur inneftir en mótvindur á leiðinni til baka, og hefði þá verið kostur að vera í hjólaskóm. Hraðinn hjá mér var þokkalegur, þó ég segi sjálfur frá, og meðaltali 29 km. Reyndi að liggja á fák og minnka mótstöðu. Toga og stíga niður af krafti en halda góðum og þægilegum snúningi. Síðustu kílómetrarnir á hjólinu voru þungir; ég fékk krampa í aftanverð læri. Hjólatúrinn tók 1:02 klst. Kominn á skiptisvæðið var ég stífur staurleggur og með krampa í lærum, en beit á jaxlinn og hóf hlaupið. Hraði var ekki mikill til að byrja með en smám saman jókst hann og komst á skrið. Fyrsti kílómetrinn var hlaupinn mjög hægur, 5:25 mín, en svo fór ég að rúlla og fór vegalengdina á 24:30 mín (4:54 mín/km). Þrautinni lauk ég, með skiptitímum, á 1:54:43 klst og er bara ánægður með það.

Svo má nú ekki gleyma rúsínunni í pylsuendanum: Ég fékk útdráttarverðlaun, brúsa og orkustykki frá Afreksvörum. Haraldur mætti svo á svæðið þegar ég var að hlaupa í síðara skiptið og fylgdi mér á hjólinu; var gott að fá hvatningu frá honum og öðrum. Kominn heim var ég alveg þokkalegur í skrokknum, aðeins strengir í aftanverðum lærum. Svo verður að koma fram að öll framkvæmd var frábær og veðrið eins gott og verður á kosið.

Nú hvíli ég fram á föstudag, þá verður hlaupið til liðkunar og að sjálfsögðu hjólað til og frá vinnu. Hleyp svo eitthvað um helgina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband