26.7.2009 | 23:23
Sunnudagur - Hjólatempótúr í lok viku
Kominn kraftur í æfingar, stirðleiki í lærum horfinn og í kvöld hjólaði ég eins og vindurinn. Veit ekki hvað ágætir Álftnesingar hafa haldið; er ég fór hring eftir hring. Var um stund á báðum áttum hvort ég ætti að fara út eður ei. Rigningarskúrir öðru hvoru og ég velktist í vafa. Fór svo og einsetti mér að hjóla 32 km. á þokkalegum hraða. Stillti Garm, að halda skyldi að jafnaði 24 kílómetra hraða því þetta átti að vera rólegt, og þegar ég var kominn út á götu var meiri kraftur í karli en svo. Meðalhraðinn var 27 og hefur ekki verið svona hár áður. Næst verð ég að setja mér hærri markmið. Þegar ég kom heim var ég fótblautur og með rúsínutær; æ! mig vantar skóhlífar.
Í gær hljóp ég langt til að meta ástandið á skrokknum - að vísu ekki voðalega langt - en samt 16 kílómetrar. Eftir hlaupið, sem var hóflega hratt (5:45 mín/km) var ég óstjórnlega þyrstur, var samt, eins og alltaf, með vökva með mér. Drakk eitthvað á þriðja lítra þegar ég kom heim og þá fyrst hvarf höfuðverkur sem kemur stundum í vökvaþurrð.
Í vikunni tek ég þátt í tvíþraut, hlaupnir verða fimm kílómetrar, hjólaðir þrjátíu og í lokin hlaupnir fimm. Hef aldrei gert slíkt áður og veit ekkert hvernig muni til takast. Það er bara að fara ekki of geyst í upphafi. Þarna verða helstu hetjur; járnmenn og aðrir kappar. Ég smámennið mun mæta ofjörlum sínum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.