19.7.2009 | 14:57
Sunnudagur - Laugavegur hlaupinn á laugardegi
Úff! ég er vaknaðu. Komst með herkjum upp úr bæli, strengir í framanverðum lærum gera mér næstum ókleift að standa upp og setjast niður með þokkafullum hætti. En þetta hófst allt um miðja nótt. Hópur karla og kvenna mætti inn í Laugardal og hélt í áttina að Landmannalaugum - öll áttum við það sammerkt að vera með gul armbönd og ætluðum okkur að takast á við eitt erfiðasta utanvegahlaup sem haldið er hér á landi. Þrekraun þar sem hlaupið og gengið er um fjöll og firnindi, vegalengd sem er samtals 55 kílómetrar.
Hlaupið hófst í Landmannalaugum klukkan níu. Áður smurði ég mig með vaselíni, djásn og aðra núningsfleti. Startað var í hollum fyrst; gulir, rauðir, grænir og bláir, og ég var grænn. Í upphafi hlaups er allt á fótinn, brattar brekkur og snjóbreiður. Brekkurnar voru ekki sem verstar. Til að byrja með var ég stífur í kálfum en það lagaðist um leið ég var orðinn heitur. Það sem tafði mig var snjórinn, sem var orðinn blautur og laus í sér en verst var móðan sem settist á gleraugun. Þetta hægði töluvert á mér og missti marga fram úr mér. Allt tók það enda og mætti ég á næstu stöð sem er við Hrafntinnusker (10 km). Ekki get ég gefið upp millitíma því ég var í vandræðum með Garminn hafði fiktað í stillingum kvöldið áður svo hann komst ekki í gang fyrr en á þriðja kílómetra.
Næsta stöð á eftir Hrafntinnuskeri er Álftavatn (22 km). Á þeirri leið er þrekraunin að komast klakklaust niður mikla bratta langa brekku sem við Jökultungur. Það var mér til happs að einn starfsmaður hlaupsins var á þeim slóðum og fylgdi hann mér niður brekkuna. Ræddum við hlaupið og tímasetningar og þá áttaði ég mig á því að ég varð að breyta um og setja mér ný tímatakmörk. Var farinn að finna fyrir þreytu í framanverðum lærum. Þegar ég var kominn niður brekkuna var tiltölulega slétt, einn og einn hóll sem þurfti að hlaupa yfir. Á þessum stað byrjaði að rigna og það var ekkert smáræði. Ég varð gegndrepa en sem betur fer var hlýtt svo það kom ekki að sök. Við Álftavatn fyllti ég á vatnsbirgðir, fékk mér orku og verkjatöflu - fyrirbyggjandi aðgerðir.
Næsta stöð á eftir Álftavatni eru Emstrur (38 km) og þangað þarf maður að koma sér áður en sex stundir eru liðnar frá því að maður fór af stað. Á þessum tíma skokkaði ég á sléttum, gekk rösklega upp brekkur en fór hægt niður allar brekkur. Verkir í lærum voru orðnir þónokkrir og varð ég stundum að bíta á jaxlinn. Á þessum legg þarf að vaða eina á, Bláfjallakvísl. Þar fara sumir hlauparar í plastpoka til að halda sér þurrum en ég ákvað að láta bara vaða. Þóttist viss um að kalt vatnið myndi bara gera mér gott og hressa stífa vöðva. Skór og bolur voru blautir og skipti ég um. Fékk mér súkkulaði, orku og drykk. Pjakkaði svo af stað, reyndi að halda góðum hraða og drekka. Á þessari leið vorum við þrjú sem skiptumst á að leiða. Sama taktík var notuð, hlaupið á sléttu, gengið rösklega upp brekkur og varið hægar niður brekkur. Við komumst í Emstrur innan marka en það mátti varla tæpara vera - síðasti spölurinn að skálanum er niður brekku og þá öskruðu lærin; ekki meir! ekki meir!. Gott var að koma þangað, þar fékk ég mér goslaust kók, ó hvað það var gott. Ég borðaði mörg súkkulaði stykki, gleypti gel og hvað eina sem að kjafti kom. Viðurkenna skal ég að það var erfitt að koma sér af stað. Brekka niður frá skálanum var erfið, fór hægt, var stirður og stífur - vonaðist bara til þess að þetta myndi nú jafna sig.
Á eftir Emstrum er Húsadalur (55 km), endamarkið. Mjög fljótlega þarf að fara niður brekku ágætlega langa brekku. Ég var samferða öðrum hlaupara og voru við sannarlega fagrir á að líta. Stirðir eins og gamlir karlar. Okkur til hvatningar komu nokkrir starfsmenn hlaupsins, sem höfðu áður verið í Emstrum, og fóru þeir sem fjallageitur fram úr okkur. Þetta varð mér hvatning er ég kom upp á sléttuna og reyndi þá að rúlla þetta; fór hægt en stílinn var alls ekki fagur. Undir lok þessarar leiðar er ein brekkan - Kápan - og það var ekki erfitt að fara upp hana en að fara niður var mjög erfitt og líklegast hörmuleg sjón. Eitt og eitt hænuskref. Er því var lokið kom ein á sem þurfti að fara yfir - Þröngá - og var mjög gott að fá kælingu á stífa leggi. Þá var aðeins eftir að skakklappast síðasta spölinn og var mér ómögulegt að fara hratt niður brekkur en á jafnsléttu reyndi ég að hlaupa og sérstaklega þegar styttist í markið. Kappsmál að koma þokkafullur í mark.
Jæja þá koma tölur: Ég var ekki síðastur en með þeim síðustu. Í 303 sæti af 312 og tíminn 8:53:52 klst. Núna, daginn eftir, er ég í þokkalegu ástandi nema að stirður í lærum og er sem Stekkjastaur. Ef ég tek þátt í þessu hlaupi aftur, sem er æði líklegt, þá þarf ég að æfa mig ögn betur. Hlaupa upp og niður fleiri fjöll, ekki bara einu sinni upp á Esju.
Að lokum vil ég bara lýsa yfir ánægju með framkvæmd hlaupsins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.